börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/marta... · 2018. 10. 15. · 2012). ma...

29
Háskóli Íslands Hugvísindasvið Kínversk fræði Börnin sem urðu eftir Áhrif fólksflutninga á börn í Kína Ritgerð til BA-prófs í Kínverskum fræðum Marta Kristjánsdóttir Kt. 171191-2979 Leiðbeinandi: Geir Sigurðsson Febrúar 2018

Upload: others

Post on 31-Oct-2020

0 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Kínversk fræði

Börnin sem urðu eftir

Áhrif fólksflutninga á börn í Kína

Ritgerð til BA-prófs í Kínverskum fræðum

Marta Kristjánsdóttir Kt. 171191-2979

Leiðbeinandi: Geir Sigurðsson Febrúar 2018

Page 2: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Ágrip

Sífellt fleira verkafólk flykkist úr sveitum í borgir í Kína í leit að atvinnu.

Margir farandverkamenn flytja börnin sín með sér í þéttbýlið en vegna slæms

aðgengis að menntun og heilbrigðisþjónustu neyðast margir til þess að skilja

börnin eftir í dreifbýli. Hér verður fjallað um börnin sem skilin eru eftir (e.

left-behind children). Sum þessara barna búa hjá öðru foreldri sínu, þegar hitt

hefur flust í borg, sum hjá ættingjum, svo sem ömmu og afa, og enn önnur búa

ein. Í þessari ritgerð er fjallað um hvað drífur foreldra til að yfirgefa börnin sín

og þátt búsetuskráningarkerfisins hukou í þeirri ákvörðun. Aðstæður barnanna í

dreifbýli eru skoðaðar, auk heilsu og menntunar. Að lokum er fjallað um

aðgerðir yfirvalda í þessum málaflokki og framtíðarhorfur barnanna.

1

Page 3: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Efnisyfirlit

Ágrip 1

Efnisyfirlit

Inngangur 3 1. Flutningar og hukou-kerfið 5 2. Fjölskyldan sem verður eftir 7 3. Menntun og heilsa 13

3.1 Samanburður: börn sem flytja og börn sem verða eftir 18 4. Aðgerðir yfirvalda og stofnana 19

4.1 Þrettánda fimm ára planið 21 4.2 Framtíðarhorfur 23

Niðurstaða og lokaorð 24

Heimildaskrá 27

2

Page 4: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Inngangur

Með aukinni hagsæld og hnattvæðingu færast flutningar verkafólks á milli

landsvæða og landa sífellt í aukana. Fólk flykkist úr sveitum í borgir í leit að

vinnu en talið er að nú, í fyrsta sinn í mannkynssögunni, búi yfir helmingur

jarðarbúa í þéttbýli (Zhang og Duncan, 2014). Síðan í lok tíunda áratugar 20.

aldar hafa um það bil 160 milljónir kínverskra verkamanna flust til borga í leit

að atvinnu. Þessir flutningar hafa verið kallaðir mestu þjóðflutningar á

friðartímum í heimssögunni (Meng og Yamauchi, 2017; Wu, Lu og Kang,

2015). Enn fremur eru þessir fólksflutningar taldir vera stærsta félagslega

breyting sem orðið hefur í Kína síðan efnahagsumbæturnar (e. economic

reforms) hófust í lok 8. áratugarins (Development and Planning Department of

the Ministry of Education, 2009). Árið 1980 bjuggu innan við 200 milljónir

manna í þéttbýli í Kína, en á næstu 30 árum bættust við næstum 500 milljón

íbúar. Talið er að fjöldi borgarbúa verði búinn að ná milljarði árið 2030 (Miller,

2012). Margir farandverkamenn flytja fjölskyldur sínar með í leit að betra lífi,

en vegna slæms aðgengis að heilbrigðisþjónustu og menntun hafa margir þeirra

neyðst til að skilja börnin sín eftir í sveitum (Meng og Yamauchi, 2017). Þannig

hafa tveir viðkvæmir þjóðfélagshópar orðið til, bæði börnin sem búa við

misgóðar aðstæður í útjaðri borga og börnin sem hafa orðið eftir í sveitum án

foreldra sinna. Í þessari ritgerð er fjallað um seinni hópinn, sem nefndur er

„left-behind children“ á ensku.

Yfirgefnu börnin eru skilgreind sem öll börn farandverkamanna sem

skilin eru eftir í þorpinu eða bænum þar sem þau ólust upp, og það getur átt jafnt

við brottflutning annars foreldris eða beggja (Attané og Gu, 2014). Annars

staðar í heiminum á þetta nánast eingöngu við um brottflutning annars foreldris,

3

Page 5: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

yfirleitt föður, en í dreifbýli Kína er algengt að báðir foreldrar flytji burt saman

vegna vinnu (Zhang, Behrman, Fan, Wei og Zhang, 2014). Farandverkamenn

eru allir þeir sem fara að heiman, frá staðnum sem þeir eru skráðir á, til að sækja

vinnu annars staðar, óháð því hvort um sé að ræða í næsta þorpi eða í stórborg

sem er þúsund kílómetra í burtu (Attané og Gu, 2014).

Kínverskir fjölmiðlar fjalla mikið um börnin sem skilin eru eftir, því litið

er á þetta sem alvarlegt félagslegt vandamál í Kína. Af og til birtast átakanlegar

myndir eða sögur af börnum á samfélagsmiðlum, sem dreifast hratt á milli

manna og vekja upp miklar umræður og reiði í þjóðfélaginu. Í janúar 2018

birtist mynd af átta ára dreng frá Yunnan héraði í Suður-Kína. Á myndinni er

hann með frosið hár og augabrúnir, rauðar kinnar og mjög illa klæddur. Myndin

er tekin þegar hann mætti í skólann í níu stiga frosti, en á hverjum degi þarf

hann að ganga í um það bil klukkutíma eða 4,5 kílómetra leið frá heimili sínu til

að sækja skóla. Myndinni var deilt tugþúsunda sinnum og vakti upp umræður

um fátækt þeirra barna sem skilin hafa verið eftir af foreldrum sínum í sveitum,

en þessi drengur er í þeim hópi. Fljótlega fór fólk að deila myndinni á

samfélagsmiðlum utan Kína og hafa aðstæður drengsins fengið þó nokkra

umfjöllun vestanhafs, meðal annars hjá BBC í Bretlandi og á vefsíðu

Morgunblaðsins hér á Íslandi (Allen, 2018; Fátækt kínverskra barna vekur reiði,

2018).

Áhugi fræðimanna hefur farið vaxandi á þessu málefni, en hingað til

hefur hann beinst að aðstæðum farandverkamanna og barna þeirra í borgum

Kína fremur en þeirra barna sem eftir hafa orðið í dreifbýlinu. Því er ekki mikið

um rannsóknir sem bera saman börn sem skilin hafa verið eftir í dreifbýli Kína

og þau sem búa þar hjá foreldrum sínum. Athyglin hefur beinst að yfirgefnu

börnunum samaborið við börn sem búa í þéttbýli, sem er óraunhæfur

samanburður þar sem þessir hópar búa við mjög ólík skilyrði. Oft er litið á það

4

Page 6: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

sem sjálfsagðan hlut að brottflutningur foreldra hafi neikvæð áhrif á börnin sem

verða eftir. Til eru margar sögur sem renna stoðum undir þá skoðun. En því má

ekki gleyma að rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu sviði eru takmarkaðar

og hafa sýnt mismunandi niðurstöður þegar litið er til þroska barnanna.

Rannsóknir síðustu ára á fólksflutningum, fjölskyldumynstri og þroska barna

hafa sýnt að áhrif brottflutninga foreldra á börnin eru mjög óljós (Wen og Lin,

2012).

Hinn gríðarlegi hagvöxtur sem verið hefur í Kína síðustu þrjá til fjóra

áratugina er að stórum hluta farandverkamönnum sem flykkjast úr sveitum í

borgir að þakka (Zhao, Yu, Wang og Glauben, 2014). Hér á eftir verður fjallað

um þær ákvarðanir farandverkamanna að skilja börn sín eftir þegar þeir flytja í

borgir. Reynt verður að varpa ljósi á hvað drífur foreldra til að skilja börnin

eftir, hverjar aðstæður barnanna eru, hvernig þeim líður og hvaða möguleika

þau hafa til náms. Að lokum verður fjallað um aðgerðir og stefnu yfirvalda í

þessum málaflokki.

1. Flutningar og hukou-kerfið Helsta ástæða þéttbýlismyndunar er efnahagsleg þar sem farandverkamenn þéna

töluvert meira en þeir sem stunda búskap (Miller, 2012). Fólksflutningar úr sveit

í borg voru að mestu útilokaðir árið 1958 þegar búsetuskráningarkerfið hukou

(户口) var sett á fót. Í því fólst að hver einstaklingur yrði skráður við fæðingu

sem íbúi þéttbýlis eða dreifbýlis, en við þetta var fólk bundið við staðinn sem

það fæddist á og gat ekki lengur flust á milli héraða (Attané og Gu, 2014; Liu,

2016). Hukou-kerfið reyndist yfirvöldum nytsamlegt tól til að hafa stjórn á

5

Page 7: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

fjöldanum. Með því var hægt að sjá til þess að bændur héldust á sínum stað og

framleiddu mat fyrir þjóðina (Miller, 2012).

Í kjölfar efnahagsumbótanna og opnun landsins í lok 8. áratugarins

losnaði aðeins um hömlur hukou-kerfisins. Hraður hagvöxtur í þéttbýli kallaði á

aukið vinnuafl og úr varð frjálsari vinnumarkaður (Attané og Gu, 2014). Til

þess að aðlagast þessum aðstæðum varð ríkið að gera breytingar á

hukou-kerfinu, sem auðveldaði farandverkafólki að setjast að í þéttbýli (Gaetano

og Jacka, 2004). Eftir það hafa fólksflutningarnir í Kína verið svo gríðarlegir og

hraðir að árið 2010 bjuggu um 260 milljónir (eða um 20% þjóðarinnar) annars

staðar en þeir voru skráðir (Ren og Treiman, 2016).

Þó að reglur um flutninga milli svæða séu orðnar rýmri en áður er

hukou-kerfið enn mikil hindrun fyrir farandverkamenn, sérstaklega þegar þeir

vilja setjast að til frambúðar (Miller, 2012). Vegna kerfisins eru margir þeirra

réttindalausir í borgum. Til dæmis fá þeir ekki eftirlaun eða aðra færslustyrki frá

hinu opinbera sem borgarbúar hafa rétt á (Liu, 2016). Þeir geta heldur ekki notið

almenna réttinda svo sem opinberra skóla og niðurgreiðslu á húsnæði fyrr en

þeir eru formlega skráðir sem íbúar í borginni, en það getur tekið mörg ár. Þess

vegna þurfa farandverkamenn oft að senda börnin sín í ólöglega einkarekna

skóla sem eru bæði dýrir og lélegir, en þá er jafnvel betra að skilja börnin eftir í

heimabænum þar sem þau fá örugga menntun (Gamer, 2012). Könnun á 68.000

heimilum í dreifbýli árið 2009 leiddi í ljós að farandverkamenn eru að yngjast,

60% þeirra sem unnu langt að heiman voru fædd á 9. eða 10. áratugnum.

Helmingur þeirra sem voru yngri en 30 ára og með hukou-skráningu í dreifbýli

bjó í raun í þéttbýli á þessum tíma (Miller, 2012).

6

Page 8: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

2. Fjölskyldan sem verður eftir Tang Yuwen er ellefu ára strákur sem býr í Sixian sýslu í Sichuan héraði með

ömmu sinni, bróður og tveimur frændum. Foreldrar allra drengjanna skildu þá

eftir í leit að betri tækifærum til vinnu annars staðar. Foreldrar Tang Yuwen

vinna bæði í fataverksmiðju í Chengdu. Chengdu er höfuðborg Sichuan héraðs

en af þeim 20 milljónum farandverkamanna sem koma frá dreifbýli héraðsins

búa um tvær milljónir í höfuðborginni (Miller, 2012). Chengdu er aðeins í

nokkurra klukkustunda fjarlægð frá þorpinu sem strákarnir búa í, en vegna

langra vinnutíma og lítillar innkomu hafa foreldrarnir hvorki tíma né peninga til

þess að heimsækja þá nema tvisvar eða þrisvar sinnum á ári. Fjölskylda Tang

Yuwen er fátæk en á virkum dögum búa þeir frændurnir og amman saman í einu

herbergi. Þau baða sig í bala á gólfinu og deila baðherbergi með nágrönnunum. Í

viðtali við blaðamann segir Tang Yuwen frá því af mikilli yfirvegun að foreldrar

hans þurfi að vinna fyrir fjölskyldunni og að hann sé þeim mjög þakklátur.

Hann sýnir aðstæðunum góðan skilning en óskar þess þó að þau gætu tekið hann

með sér til borgarinnar. Þrátt fyrir margra ára vinnu í verksmiðjunni kemur

staða foreldranna í hukou-kerfinu í veg fyrir að þau geti flutt syni sína til sín.

Ljóst er að Tang Yuwen saknar þeirra verulega og bestu stundir lífs hans eru

þegar mamma og pabbi koma heim (Sudworth, 2016).

Saga Tang Yuwen er ekki einsdæmi en milljónir barna um allt Kína eru í

svipuðum sporum og hann. Oft eru börn farandverkamanna skilin eftir hjá öðru

foreldrinu, yfirleitt móðurinni, eða hjá ömmum og öfum (þá oftast í föðurætt),

öðrum ættingjum eða jafnvel í heimavistarskólum (Attané og Gu, 2014; Meng

og Yamauchi, 2017; Zhou o.fl., 2015). Átta prósent yfirgefinna barna árið 2008

bjuggu í einkareknum heimavistarskólum. Þeir skólar hafa almennt ekki gott orð

7

Page 9: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

á sér því að sögn er hvorki húsnæði né stjórn skólanna eins og best verði á

kosið. Þar að auki sé öryggisatriðum, hreinlæti og fæðuvali ábótavant (Meng og

Yamauchi, 2017).

Á undanförnum árum hafa aðstæður farandverkafólks í Kína breyst

töluvert, en í næstu köflum verður nánar farið yfir þessar breytingar. Það er

orðið æ algengara að farandverkamenn flytji fjölskylduna með sér í þéttbýli til

að dvelja til langs tíma (Wu o.fl., 2015). Börnum sem fylgja foreldrum sínum

þegar þeir flytja vegna atvinnu fer því fjölgandi en samt sem áður er enn

algengast að aðeins annað foreldrið flytji burt og skilji hitt foreldrið eftir til að

sjá um heimilið (Wen og Lin, 2012). Betur stæðir foreldrar, sérstaklega þeir sem

eru komnir með borgararéttindi sem þéttbýlisbúar (e. urban citizenship), eru

líklegri til að taka börnin með sér til borgarinnar. Börnum sem búa í þéttbýli

með farandverkamönnunum foreldrum sínum hefur fjölgað á sama tíma og

fjöldi barna sem skilinn er eftir í sveit hefur nokkurn veginn staðið í stað (Zhao,

Wang, Li, Zhou og Hesketh, 2017). Svo virðist sem foreldrar sem skilja börnin

sín eftir séu almennt yngri, betur menntaðir, og koma af stærri heimilum en þeir

foreldrar sem flytja ekki í burtu (Zhou o.fl., 2015). Árið 2008 var gerð könnun á

heimilishaldi farandverkafólks í Kína (Rural Urban Migration in China survey)

á landsvísu. Af þeim 2300 börnum yngri en 15 ára sem tóku þátt í könnuninni

var rúmur helmingur skilinn eftir í dreifbýli. Af þessum börnum voru 30% í

umsjá annars foreldris, 59% hjá ömmu og afa eða öðrum ættingjum og 8% í

heimavistarskóla (Meng og Yamauchi, 2017).

Ekki ber öllum heimildum saman um hversu mörg börnin sem skilin hafa

verið eftir af foreldrum sínum eru í raun. Árið 2010 töldu Samtök kvenna í Kína

(All-China Women’s Federation) 61 milljón barna á aldrinum 0 til 18 ára hafa

verið skilin eftir, eða 38% allra barna í dreifbýli (Meng og Yamauchi, 2017; Wu

o.fl., 2015; Zhao, Zhou, Wang, Jiang og Hesketh, 2017). Aðrar heimildir herma

8

Page 10: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

að um 70 milljónir barna hafa verið skilin eftir (Attané og Gu, 2014; Ren og

Treiman, 2016). Um 29 milljónir barna búa með hvorugu foreldri sínu og þar af

búa yfir tvær milljónir barna ein (Zhao, Zhou o.fl., 2017). Mjög misjafnt er eftir

héruðum í Kína hversu mörg börn eru skilin eftir. Samkvæmt niðurstöðum sem

unnar voru úr rannsóknum sem gerðar voru í tíu héruðum á árunum 2009 til

2013 voru aðeins 6% barna á aldrinum 3 til 17 ára skilin eftir af öðru eða báðum

foreldrum í Shaanxi héraði en 53,5% í Sichuan héraði. Sichuan er eitt af

fátækustu dreifbýlishéruðum Kína og þaðan kemur stór hluti farandverkamanna

sem sest hafa að í þéttbýli um allt land (Liu, Liu og Zhou, 2017; Miller, 2012).

Fjöldi barna sem bjuggu með báðum foreldrum var 23,4% í Sichuan en 75% í

Zhejiang héraði til samanburðar. Í heildina var þó tæplega helmingur barnanna í

þessari rannsókn skilinn eftir af öðru eða báðum foreldrum, sem bendir til að

það gætu verið yfir 70 milljónir yfirgefinna barna í Kína (Zhou o.fl., 2015). Í

niðurstöðum könnunar sem gerð var í þorpum í Gansu, Hebei, Jiangsu og Hubei

héruðum kom fram að annað eða bæði foreldri næstum helmings barnanna unnu

tímabundið í þéttbýli. Af þessum börnum bjó rúmur helmingur hjá öðru foreldri,

um 32% hjá ömmum og öfum og um 4% hjá öðrum ættingjum. Í 82% tilvika

var það faðirinn sem flutt hafði í burtu, í 15% tilvika voru báðir foreldrar

fjarverandi en í aðeins 2,5% tilvika hafði móðirin flutt í burtu og faðirinn orðið

eftir (Attané og Gu, 2014). Því er algengast að börnin búi aðeins hjá móður

sinni og óalgengast að þau búi aðeins hjá föður sínum.

Það er yfirhöfuð mjög sjaldgæft að foreldrarnir fái börnin sín í heimsókn

til borgarinnar. Börnin töluðu því um að vera einmana og að sakna foreldra

sinna. Næstum helmingur þeirra sagðist vilja fara og búa hjá foreldrum sínum

en 44% þeirra sögðust ekki sjá það sem raunhæfan möguleika (Attané og Gu,

2014), líkt og Tang Yuwen í dæmisögunni hér fyrir ofan. Ástæða fyrir þessu háa

hlutfalli, 44%, gæti einnig verið sú að börn upplifa sífellt minni tengsl við

9

Page 11: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

foreldra sína eftir því sem aðskilnaðurinn varir lengur. Börn sem búa án móður

sinnar upplifa enn meiri tengslamissi og minni væntumþykju gagnvart henni en

þau sem búa án föður. Dai o.fl. (2017) telja að þessi munur á tengslum barns við

móður og föður gæti skýrst af því að börnin upplifðu sterkari tengsl við móður

sína áður en hún flutti burt vegna þess að þau litu á hana sem sinn helsta

umönnunaraðila. Tilfinningar barna í tengslum við foreldra sína eftir að þau eru

skilin eftir geta líka ráðist af aldri barnsins þegar foreldrið eða foreldrarnir flytja

á brott. Eldri börn verða síður fyrir neikvæðum áhrifum. Ef barnið er mjög ungt

þegar foreldrið flytur á brott er aftur á móti hætta á að það myndi lítil

tilfinningaleg tengsl við það foreldri sem það býr ekki hjá (Dai o.fl., 2017).

Þegar unga fólkið flytur úr sveitum til borga breytist hlutverk

kynslóðanna. Eldra fólkið neyðist til sjá lengur um búskapinn og getur síður sest

í helgan stein vegna þess að kynslóðin sem taka átti við er ekki til staðar (Attané

og Gu, 2014). Þegar eingöngu faðirinn flyst í burtu eykst vinnuálag á móðurina

þar sem hún þarf ein að sjá um heimilisstörfin. Eftir opnun landsins jókst

sjálfsvígstíðni kvenna í dreifbýli til muna, en það er aðallega rakið til aukins

álags vegna heimilisstarfa og vinnu (Pearson, Phillips, He og Ji, 2002; World

Health Organization, 2009). Í þeim tilvikum sem móðirin verður ein eftir, hjálpa

ömmur og afar mikið til við að sjá um börnin. Ef báðir foreldrar flytja burt og

börnin eru skilin eftir hjá ömmu og afa koma upp ný vandamál þar sem amma

og afi eru almennt ekki nógu ung og heilsuhraust til að stunda landbúnað, sjá

um heimilisstörf og að ala upp börnin. Þau hafa minni þekkingu á næringu og

hreinlæti en foreldrarnir svo að börnin eru oft verr á sig komin en önnur börn.

Þar að auki eru þau almennt lítið menntuð og eiga erfitt með að hjálpa

börnunum við heimavinnu (Attané og Gu, 2014; Zhao o.fl., 2014). Í rannsókn

Su, Li, Lin, Xu og Zhu (2012) kom fram að meiri hluti þeirra umönnunaraðila

10

Page 12: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

sem börn voru skilin eftir hjá þegar báðir foreldrar fluttu burt höfðu aðeins

fengið fimm eða sex ára grunnskólamenntun.

Talið er að aldur barnanna þegar þau eru skilin eftir og sá tími sem

foreldrarnir eru í burtu hafi mikil áhrif á velferð barnsins (Ling, Fu og Zhang,

2015). Niðurstöður rannsóknar sem gerð var í Hunan héraði leiða í ljós að

algengast er að foreldrar dvelji lengur ef þeir flytja báðir frá börnunum og skilja

þau eftir í umsjón afa og ömmu, en skemur ef aðeins annað foreldri flytur á

brott. Að meðaltali voru börnin níu til tíu ára þegar annar eða báðir foreldrar

fluttu fyrst til borgarinnar. Í þeim tilvikum sem báðir foreldrar fluttu í burtu liðu

að meðaltali þrjú til fimm ár áður en þeir sneru aftur til barnanna sinna. Í sömu

rannsókn kemur fram að þau börn sem alast aðeins upp hjá föður sínum eiga

verst uppdráttar hvað varðar heilsu og menntun (Wen og Lin, 2012). Sömu

niðurstöður fengust úr rannsókn sem gerð var í Guangxi héraði í Suður-Kína.

Þar var aldur barna sem skilin voru eftir af báðum foreldrum almennt lægri en

þeirra barna sem skilin voru eftir af öðru foreldri. Að auki var fjarvera beggja

foreldra lengri en ef aðeins annað foreldrið fluttist á brott, eða meira en sex ár

(Su o.fl., 2012).

Sumar rannsóknir benda til þess að aldur barna þegar foreldrarnir flytja

hafi meiri áhrif á þau en tíminn sem þeir eru burtu. Þau börn sem eru yfirgefin

þegar þau eru yngri stríði frekar við vandamál tengd kvíða og þunglyndi. Góð

samskipti og tengsl við foreldra fyrstu árin eru mikilvæg fyrir eðlilegan þroska

barnsins. Því getur það haft verulegar neikvæðar afleiðingar í för með sér ef

foreldrar flytja frá börnum sínum á meðan þau eru enn ung. Í niðurstöðum

rannsókna Ling o.fl. (2015), sem gerð var á 500 börnum í Hunan héraði, kemur

fram að ekki virðist skipta máli hversu lengi foreldrarnir eru í burtu ef börnin

eru yngri en sex ára þegar þeir flytja á brott. Afleiðingarnar eru neikvæðar fyrir

velferð barna á þessum aldri óháð lengd fjarveru foreldra. Ef börnin voru aftur á

11

Page 13: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

móti orðin eldri þegar foreldrarnir fluttu í burtu skipti máli hvenær þeir sneru

aftur heim. Yfir heildina litið urðu neikvæð áhrif á andlegan þroska barnsins

meiri eftir því sem foreldrarnir voru lengur í burtu. Þetta gæti skýrst af því að

eftir því sem börn eldast þurfa þau meira á ráðum og hjálp foreldra sinna að

halda hvað varðar félagslega þætti, svo sem samskipti við jafningja og aðlögun í

skólaumhverfi.

Tíðni samskipta barns og foreldris er einn veigamesti þátturinn varðandi

andlega heilsu barns sem skilið hefur verið eftir. Börn sem eiga í tíðum

samskiptum við foreldra sína eru almennt hamingjusamari og ánægðari með

lífið en önnur börn (Ling o.fl., 2015). Þó að börn farandverkamanna séu betur

stödd fjárhagslega en þau börn sem búa hjá báðum foreldrum þá eru þau

almennt í litlum samskiptum við foreldra sína. Rannsókn Su o.fl. (2012) leiddi í

ljós að tíðni heimsókna og samskipta brottfluttra foreldra og barna var svipuð

hvort sem annað foreldri eða bæði höfðu flutt í burtu. Jafnvel þó að foreldrarnir

séu enn í sama héraði, þá er yfirleitt of dýrt fyrir þá að heimsækja börnin sín

oftar en tvisvar eða þrisvar á ári. Stærsti hluti þessara barna var þó í

símasambandi við foreldra sína en símtölin voru oft bæði stutt og stirð (Attané

og Gu, 2014). Á vefsíðu fjölmiðilsins China Daily var fjallað um „Afgangsbörn

Kína“ árið 2006 þar sem dregin var upp mynd af aðstæðum barns sem skilið var

eftir. Þetta barn fékk símtal frá föður sínum sem varði aðeins í hálfa mínútu.

Faðirinn spurði barnið út í skólann, hvernig mamma þess hefði það og hvort

öllum öðrum liði vel (China’s leftover children, 2006). Mögulega eru þessi

samskipti þó orðin betri í dag vegna allra þeirra tækniframfara sem orðið hafa á

síðastliðnum áratug. Tæknin hjálpar foreldrum mikið við að halda sambandi við

börnin sín en algengt er að farandverkamenn í Kína eigi snjallsíma. Brottfluttir

foreldrar hafa lengi hringt og notað smáskilaboð til að vera í samskiptum við

börnin en undanfarin ár hefur líka færst í aukana að nota samfélagsmiðla og

12

Page 14: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

leikjaforrit. Snjallsímar hafa þar að auki auðveldað farandverkamönnum að

senda peninga heim (millifæra) á öruggan hátt (Liu og Leung, 2017).

3. Menntun og heilsa

Staða menntamála í dreifbýli Kína fer versnandi nú í upphafi 21. aldar.

Grunnskólum fækkaði um helming á árunum 2000 til 2010, eða úr 550.000 í

260.000. Skólaskylda barna í Kína eru níu ár, en fækkun grunnskóla hefur

veruleg áhrif á möguleika barna í dreifbýli til þess að sækja þessa menntun

(Attané og Gu, 2014). Ein skýringin á þessari fækkun grunnskóla eru aðgerðir

stjórnvalda til að sporna við ólöglegum einkareknum skólum. Oft eru

byggingarnar lélegar og hreinlega hættulegar og eru skólarnir þá rifnir niður

með öryggi barnanna í huga. Aftur á móti er oft ekki búið að gera ráðstafanir

fyrir börnin áður en ráðist er í aðgerðir. Í desember 2017 var stór hluti

heimavistarskóla í Huaiyang sýslu í Henan héraði rifinn niður en þar af voru

heimavistarhús þar sem börnin sváfu. Því neyddust börnin til að sofa í

skólastofum eftir aðgerðirnar án þess að nokkur önnur lausn væri í sjónmáli

(Cai, 2018). Fleiri ástæður geta verið fyrir fyrirvaralausri lokun skóla. Dæmi eru

um að bæjaryfirvöld vilji selja lóðina sem skólinn stendur á og önnur dæmi um

að kostnaður við rekstur skólans sé kominn fram úr fjárhagsáætlunum. Enn

fremur eru embættismenn oft hræddir við opnun og rekstur skóla vegna þess að

það gæti hvatt fleiri farandverkamenn til að flytja börnin með sér til borgarinnar

(Miller, 2012).

Sumar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Kína hafa sýnt að

brottflutningar foreldra hafi slæm áhrif á árangur barna í skóla en aðrar

rannsóknir hafa aftur á móti ekki sýnt fram á neina tengingu þar á milli (Meng

13

Page 15: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

og Yamauchi, 2017). Til að mynda sýna niðurstöður Zhou o.fl. (2015) úr

rannsóknum sem gerðar voru í tíu héruðum á árunum 2009 til 2013, að börn

sem bjuggu hjá foreldrum sínum og þau sem áttu brottflutta foreldra stóðu sig

jafn vel í skóla. Að auki var hlutfall þeirra sem hættu í skóla á unglingastigi það

sama. Ein ástæða fyrir því að yfirgefin börn standa sig jafn vel og önnur börn í

skóla gæti verið sú að börn farandverkamanna búa við meira fjárhagslegt öryggi

og hafa þar af leiðandi betri aðgang að björgum en önnur börn. Skortur á

umönnun foreldra jafnist þannig út með bættri fjárhagslegri stöðu (Zhou o.fl.,

2015). Á hinn bóginn komust Meng og Yamauchi (2017) að þeirri niðurstöðu að

yfirgefin börn eru bæði líklegri til að læra minna heima og líklegri til að taka

sama bekkinn aftur. Niðurstöður Zhao o.fl. (2014), byggðar á könnunum frá

Qinghai héraði og sjálfsstjórnarhéraðinu Ningxia á yfir 7600 börnum úr 74

skólum í dreifbýli, sýna að brottflutningur foreldra hafði veruleg neikvæð áhrif

á frammistöðu barna í skóla. Gao o.fl. (2010) skoðuðu stöðu unglinga í

Guangdong héraði og komust að þeirri niðurstöðu að börn sem skilin hafa verið

eftir eru líklegri til að hætta fyrr í skóla, og að stúlkur séu þar í meirihluta.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Longhui sýslu í Hunan héraði hefur fjarvera

beggja foreldra mun alvarlegri áhrif á menntun þeirra barna sem eftir verða, en

önnur dæmi sýna um börn sem skilin eru eftir hjá öðru foreldri sínu. Yfir

þriðjungur barna í Longhui sýslu á annað foreldri sem er brottflutt vegna vinnu

og um helmingur þeirra barna búa án beggja foreldra (Zhang o.fl., 2014).

Niðurstöður Zhou, Murphy og Tao (2014) úr rannsókn sem gerð var í Anhui og

Jiangxi héruðum eru í samræmi við niðurstöður Zhang o.fl. Þar kom í ljós að

ekki var marktækur munur á frammistöðu barna á prófum ef börnin bjuggu

aðeins hjá öðru foreldri, hvort sem það var móðir eða faðir, miðað við börn sem

bjuggu með báðum foreldrum sínum. Aftur á móti er frammistaða barna sem

búa með hvorugu foreldri töluvert verri í samanburði við börn sem búa með

14

Page 16: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

öðru foreldri sínu. Því lengri sem fjarvera foreldra var, því verri einkunnir fengu

þessi börn. Börn sem bjuggu aðeins með föður sínum stóðu sig þar að auki síður

en börn sem bjuggu aðeins með móður sinni. Brottflutningur foreldra eða

foreldris getur líka þýtt að það verður skortur á vinnuafli á heimilinu svo að

barnið neyðist til að sinna húsverkum í meira mæli. Þar af leiðandi er hætta á að

það missi úr skóla eða hætti jafnvel skólagöngu sinni of snemma (Zhao o.fl.,

2014). Mismunandi niðurstöður þessara rannsókna geta að einhverju leyti skýrst

af því að þær eru framkvæmdar á mismunandi stöðum í Kína og með

mismunandi áherslur og samanburðarhópa. Það er ljóst að þær niðurstöður sem

komið hafa fram gefa ekki skýr svör um hvort brottflutningur foreldra hafi

veruleg áhrif á stöðu náms hjá börnunum sem verða eftir og að þörf er á frekari

rannsóknum á þessu málefni.

Líkamleg og andleg heilsa barna í dreifbýli Kína hefur fengið töluverða

athygli fræðimanna. Niðurstöður úr rannsókn Zhou o.fl. (2015) sem gerð var á

börnum á aldrinum 3 til 17 ára benda til að ekki sé mikill munur á líkamlegri

heilsu yfirgefinna barna og barna sem búa með foreldrum sínum. Miðað við

alþjóðlega staðla eru börn í dreifbýli Kína bæði lágvaxnari og léttari, hvort sem

þau búa með foreldrum sínum eða ekki. Niðurstöðum rannsókna á þessu sviði

ber þó ekki saman því að rannsókn á börnum á aldrinum 13 til 18 ára í

Guangdong héraði á árunum 2007 og 2008 leiddi í ljós að unglingar sem skildir

eru eftir af foreldrum sínum eru mun líklegri til að vera á óhollara matarræði,

stunda minni hreyfingu, eyða meiri tíma í tölvunni, nota tóbak og vera í

yfirþyngd en aðrir unglingar. Þar að auki er munur á milli kynjanna, stúlkur eru

líklegri til að nota vímuefni og eiga við andlega erfiðleika að stríða á meðan

drengir eru líklegri til að stríða við offitu og vera háðir internetinu (Gao o.fl.,

2010). Munurinn á þessum niðurstöðum gæti legið í því að í fyrri rannsókninni

var aldursbilið töluvert stærra, eða börn á aldrinum 3 til 17 ára, en sú síðari

15

Page 17: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

beindist eingöngu að unglingum. Rannsókn Zhou var þar að auki unnin úr

gögnum frá tíu héruðum Kína en hin rannsóknin var bundin við eitt hérað.

Börn farandverkamanna sem skilin eru eftir eru betur sett en önnur börn í

dreifbýli á þann hátt að þau standa betur að vígi fjárhagslega, og hafa þar af

leiðandi betri aðgang að menntun og eru ólíklegri til að þurfa að vinna fyrir sér.

Á hinn bóginn hafa þau ekki foreldra sína hjá sér sem hefur oft í för með sér

skort á leiðsögn frá foreldrum og neikvæð sálræn áhrif vegna aðskilnaðar

fjölskyldu (Zhang o.fl., 2014). Rannsóknir á börnum í dreifbýli Kína hafa leitt í

ljós að börn sem skilin eru eftir sýni meiri árásargirni í hegðun borið saman við

þau börn sem búa með foreldrum sínum. Enn fremur eiga þau frekar við sálræn

vandamál að stríða, svo sem kvíða, þunglyndi, félagsleg vandamál og

einmanaleika (Ling o.fl., 2015).

Niðurstöður Zhao, Wang o.fl. (2017) úr rannsókn sem gerð var í Zhejiang

og Guizhou héruðum sýna að brotthvarf foreldra getur haft slæm áhrif á sálræna

og félagslega velferð barna, sérstaklega á tilfinningasviðinu og samskipti þeirra

við jafningja. Efnahagslega bætt staða fjölskyldunnar hafði ekki áhrif á sálræna

og félagslega stöðu barnsins. Það gefur til kynna að betri félags- og efnahagsleg

staða dragi ekki úr skaðlegum sálrænum áhrifum sem barnið verður fyrir vegna

brotthvarfs foreldris. Á fátækum svæðum virðist siðferðislegur stuðningur vera

jafn mikilvægur fyrir velferð barnsins og sá fjárhagslegi stuðningur sem barnið

fær með peningasendingum foreldranna (Zhao, Wang o.fl., 2017).

Þversniðsrannsókn Jia og Tian (2010) á sálrænum afleiðingum brottflutninga

foreldra á börn leiddi í ljós að börn sem skilin eru eftir eru mun líklegri en önnur

börn til að finna fyrir einmanaleika. Sérstaklega þau börn sem áttu í slæmu

sambandi við foreldra sína. Þau börn sem eru í mestri hættu á að upplifa

alvarlega einsemdarkennd eru þau, sem eru skilin eftir af báðum foreldrum hjá

ömmu og afa, séu þau illa stödd fjárhagslega og eigi sjaldan samskipti við

16

Page 18: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

foreldra sína. Su o.fl. (2012) komust að sömu niðurstöðu í rannsókn sinni í

Guangxi héraði, en þar upplifðu öll börn sem skilin höfðu verið eftir meiri

einsemdarkennd en þau sem bjuggu hjá báðum foreldrum. Yfir heildina litið

voru yfirgefin börn í betri stöðu fjárhagslega en önnur börn, en á hinn bóginn

áttu þau við fleiri andleg vandamál að stríða. Í rannsókn sinni komust Dai o.fl.

(2017) að þeirri niðurstöðu að yfirgefin börn sem fundu fyrir þunglyndi voru

líklegri til að mynda ríkari tilfinningaleg tengsl við foreldra sína en þau sem

ekki voru þunglynd. Möguleg skýring á þessu gæti verið sú að þunglynd börn

fái aukna athygli frá foreldrum sínum, en þetta kallar þó á frekari rannsóknir.

Algengt er að foreldrar sem skilja börnin sín eftir í sveit til að sækja vinnu

í borg í Kína snúi aftur til barnanna að einhverjum tíma liðnum. Rannsóknir sem

snúa að hvernig þessum börnum vegnar eftir heimkomu foreldranna eru mjög

takmarkaðar og því erfitt að gera grein fyrir langtímaafleiðingum brottflutnings

foreldra á þessi börn. Að auki sýna niðurstöður Zhao, Wang o.fl. (2017) að börn

sem skilin eru eftir eiga í meiri andlegum og félaglegum erfiðleikum, óháð

stöðu fjölskyldunnar og hvernig þau standa sig í skóla. Því þurfi að gera frekari

rannsóknir á hinu síendurtekna mynstri fólksflutninga (e. the cyclic pattern of

migration), svo sem hversu lengi aðskilnaðurinn á sér stað og hversu oft

foreldrarnir heimsæki börnin. Að auki þyrfti að framkvæma langtíma rannsókn

til að varpa betra ljósi á langvarandi áhrif brottflutninga foreldra (Zhao, Wang

o.fl., 2017).

3.1 Samanburður: börn sem flytja og börn sem verða eftir

Börn sem flytja með foreldrum sínum í þéttbýli þurfa að takast á við annars

konar vandamál en þau sem verða eftir. Þau geta átt erfitt með að aðlagast

nýjum aðstæðum, hafa minna aðgengi að viðeigandi menntun og eiga síður kost

á að búa í góðu húsnæði. Farandverkamenn neyðast oft til að búa í eins konar

17

Page 19: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

vist (e. dormitory), sem er oft kynjaskipt og enginn staður fyrir börn. Þetta ýtir

undir þá ákvörðun foreldra að skilja börnin eftir í umsjá ættingja. Að auki er

líklegt að foreldrarnir hafi ekki tíma né kost á að sýna börnum sínum næga

athygli vegna álags (Ren og Treiman, 2016).

Í Beijing geta farandbörn stundað nám við ríkisrekna skóla svo

framarlega sem foreldrarnir útvega fimm mismunandi skjöl/gögn sem færa

sönnur á atvinnu þeirra og hvort þau hafi tilskilin dvalarleyfi. Foreldrar geta líka

borgað ákveðin gjöld (keypt sig inn í skólana), en fáir farandverkamenn hafa

efni á því, og það getur reynst flókið eða jafnvel ómögulegt að útvega öll gögn

sem þarf til (Miller, 2012). Börn farandverkamanna geta einnig orðið fyrir

mismunun og fordómum af hálfu samnemenda og kennara í þéttbýlinu (Ren og

Treiman, 2016).

Í samanburði sínum komust Ren og Treiman (2016) að þeirri niðurstöðu

að það er lítill munur á andlegri heilsu barna sem fluttust með foreldrum sínum

til borga og þeirra sem eftir urðu þegar foreldrarnir fluttu burt. Mestur munur

sést ef borin eru saman börn sem skilin voru eftir af báðum foreldrum, en þau

virðast hvað óhamingjusömust og þunglyndust.

4. Aðgerðir yfirvalda og stofnana Í niðurstöðum rannsóknar Zhou o.fl. (2015) kemur fram að öll börn í dreifbýli,

bæði börn farandverkamanna og þau sem búa með báðum foreldrum, standi

fremur illa að vígi þegar kemur að heilsu og menntun. Því leggja þeir til að

yfirvöld yfirfæri þau verkefni sem hafa þann tilgang að bæta heilsu, næringu og

menntun hjá yfirgefnum börnum yfir á öll börn í dreifbýli Kína. Verkefnin sem

hafa verið sett á fót til aðstoðar börnum sem skilin hafa verið eftir eru að mestu

18

Page 20: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

hönnuð með bætta fjárhagslega stöðu, líkamlega heilsu og skólaástundun

þessara barna í huga. Þessi atriði eru mikilvæg en að auki þyrfti að leggja aukna

áherslu á andlega heilsu þessara barna (Jia og Tian, 2010). Sem dæmi hafa frjáls

félagasamtök (e. non-governmental organization) líkt og Samtök kvenna í Kína

(Zhonghua quanguo funü lianhehui 中华全国妇女联合会; e. All-China

Women’s Federation) haldið úti verkefnum af þessu tagi. Eitt þeirra bar

yfirskriftina „Deilum bláum himni“ (e. Share the blue sky) en það hafði að

markmiði að bæta lífsskilyrði yfirgefinna barna. Þetta verkefni hvatti auk þess

almenning til vitundarvakningar með því að vekja athygli á þessu málefni (Jia

og Tian, 2010). Zhao o.fl. (2014) færa rök fyrir því að þó að brottflutningur

foreldra hafi góð fjárhagsleg áhrif til skamms tíma þá hafi hann neikvæð áhrif til

lengri tíma litið vegna þess að börnin sem ekki hafa fengið aðhald og viðeigandi

uppeldi verða ekki að þeim nýtu þjóðfélagsþegnum sem skyldi. Þannig sé að

einhverju leyti búið að fórna næstu kynslóð vinnuafls fyrir hagvöxtinn sem á sér

stað í dag. Zhou o.fl. (2014) láta einnig í ljós áhyggjur af næstu kynslóð en þau

telja að stjórnvöld mættu ráðast í umbætur á menntakerfinu, húsnæðismálum og

réttindum verkafólks. Þetta yrði gert með það að markmiði að auðvelda

farandverkamönnum að flytja börnin með sér til borgarinnar.

Kínversk stjórnvöld hafa verið hvött til að bæta aðstæður barna í dreifbýli

svo þau hafi sömu möguleika til náms og börn í þéttbýli. Til dæmis mætti auka

fjárveitingu til grunnskóla á fátækum svæðum, sérstaklega til að þjálfa og styðja

við bakið á góðum kennurum (Zhao o.fl., 2014). Það er ekki aðeins mikilvægt

að bæta úr því að farandverkamenn neyðist til að skilja börn sín eftir barnanna

vegna því þetta kemur líka niður á framleiðni verkamannanna. 70-80%

farandverkamanna sem flutt hafa frá börnum sínum eiga erfitt með vinnu og

hafa gert mistök í vinnu vegna tilfinninga eins og kvíða og samviskubits vegna

19

Page 21: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

barnanna. Enn fremur hafa þeir stöðugar áhyggjur af líðan og öryggi barnanna

sinna (Liu og Leung, 2017).

Síðan fólksflutningar fóru að færast í aukana á 9. áratuginum hafa

stjórnvöld þurft að bregðast við stöðugum breytingum á aðstæðum

farandverkafólks og fjölskyldna þeirra. Árið 1998 samþykkti ríkisráð (e. state

council) tillögu um að börn mættu fá hukou-skráningu frá hvoru foreldri sem er

en fram að því fengu börn sjálfkrafa sömu stöðu og móðirin. Þessi breyting fól í

sér að nú gátu börn fengið búsetuleyfi í þéttbýli líkt og faðirinn, hafi hann verið

með slíkt, sem bætti stöðu þeirra til muna (Gaetano og Jacka, 2004). Árið 2006

brást menntamálaráðuneyti Kína við auknum áhyggjum almennings um

menntun barna í dreifbýli með útgáfu ítarlegrar skýrslu. Í skýrslunni er að finna

umfjöllun um menntun barna farandverkafólks, bæði þeirra sem flytja með í

þéttbýli og þeirra sem eftir verða, og aðgerðir yfirvalda í þeim málum. Þar var

lögð rík áhersla á að tryggja eigi skyldunám barna sem búa með

farandverkamönnum í borgum. Lagt var til að þetta yrði aðallega gert með

auknum fjárveitingum þar sem staðbundin yfirvöld fengju hvata til að þjónusta

þennan hóp barna betur. Það er athyglisvert að hvað varðar skyldunám þeirra

barna sem skilin hafa verið eftir af foreldrum sínum er rík áhersla lögð á að auka

fjárveitingar til að byggja upp og bæta aðstöðu í heimavistarskólum

(Development and Planning Department of the Ministry of Education, 2009).

Þessi lausn fer þvert á skoðanir þeirra fræðimanna sem fjallað hefur verið um

hér, en þeir telja að bæta þurfi aðstæður farandverkamanna í borgum svo að

börnin geti flutt með þeim. Samtökin UNICEF birta þessa skýrslu á heimasíðu

sinni en ekki kemur fram hvort ný og uppfærð skýrsla hafi komið út, eða

hvernig hafi gengið að ná þeim markmiðum sem sett voru.

20

Page 22: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

4.1 Þrettánda fimm ára planið

Á fimm ára fresti býr kínverska ríkisstjórnin til nýtt fimm ára plan en það er

skýr áætlun um efnahagsleg markmið landsins til næstu ára. Þessi áætlun er

mikilvægt tól til að kortleggja og móta stefnu fyrir efnahagsþróun landsins,

ákvarða hagvaxtarmarkmið og hvenær skal hefja umbætur (Yuan og Zuo,

2011).

Í þrettánda fimm ára planinu sem kom út árið 2016 og nær til ársins 2020 er

mikil áhersla lögð á stöðu farandverkamanna í þéttbýli. Þar segir meðal annars:

Við munum leggja aukna áherslu á að sjá til þess að fólk sem hefur flutt úr dreifbýli í þéttbýli, fundið örugga vinnu og komið sér fyrir geti flutt fjölskylduna með sér, fengið búseturétt í þéttbýli (e. urban residency) og notið sömu réttinda og deilt sömu skyldum og aðrir þéttbýlisbúar.

Forgang að þessum búseturétti fá nemendur sem eru komnir í framhaldsnám,

fólk sem búið hefur með fjölskyldu sinni í þéttbýli í að minnsta kosti fimm ár og

ný kynslóð farandverkamanna. Í þessari fimm ára áætlun er einnig mælst til þess

að staðbundin yfirvöld axli meiri ábyrgð hvað varðar veitingu búseturéttar fyrir

þá sem flutt hafa úr sveitum til borgar. Í planinu er ekki aðeins fjallað um

vandamál farandverkamanna í þéttbýli en þar eru líka settar fram áætlanir fyrir

bættum aðstæðum dreifbýlisbúa. Til að mynda á að bæta aðstöðu í sveitaskólum

og sjá til þess að kennarar búi við betri skilyrði, styrkja heilbrigðisþjónustu og

auka áherslu á þjálfun lækna. Hefja skal verkefni sem stuðla að bættri næringu

barna í grunnskólum. Að lokum er fjallað um börnin sem skilin eru eftir en þau

skulu fá bætta þjónustu hvað varðar umönnun og vernd og fjárhagslega aðstoð

til náms (Central Compilation & Translation Press, 2016). Ekkert kemur fram

um hvort breytingar séu áætlaðar á hukou-kerfinu og því erfitt að segja til um

hvort einhverjar grundvallabreytingar á búseturéttindum eigi eftir að eiga sér

stað.

21

Page 23: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

4.2 Framtíðarhorfur

Í bók sinni, China’s Urban Billion, viðrar Tom Miller þá skoðun sína að á næstu

tveimur áratugum þurfi Kína að finna leiðir til að aðlaga milljónir

farandverkamanna að þéttbýlinu. Stjórnvöld muni þurfa að gera umbætur í

málum farandverkamanna og auðvelda þeim að setjast endanlega að í borginni.

Það væri til dæmis gert með uppbyggingu félagshúsnæðis og endurmótun

hukou-kerfisins. Fyrstu skref væru að bæta skólaumhverfið og bjóða börn

farandverkamanna velkomin. Vegna einbirnisstefnu (e. one-child rule) Kína,

sem hefur fengið harðari framfylgd í borgum en til sveita, hefur lýðfræðileg

uppbygging borganna breyst: borgarbúar eldast hratt. Hann bendir á að þetta

gæti haft góðar afleiðingar í för með sér fyrir farandverkamenn, en það þýðir að

þúsundir skóla og milljónir kennara munu þurfa að hætta störfum ef ekki finnast

ný börn til að fylla í skarðið. Augljósasta lausnin á þessu vandamáli væri að

bjóða börn farandverkamanna velkomin og jafna þannig út aldursdreifingu í

borgum (Miller, 2012).

Eins og fram hefur komið leggja stjórnvöld Kína í dag áherslu á að bæta

stöðu þeirra barna sem skilin hafa verið eftir í sveitum, til dæmis með

uppbyggingu heimavistarskóla og opinberum verkefnum sem eiga að stuðla að

bættri menntun, næringu og heilsu þessara barna. Fræðimenn eru ekki sömu

skoðunar en þeir telja að mikilvægast sé að sameina fjölskyldurnar og leyfa

börnunum að flytja með til borganna. Það er því erfitt að meta hvaða stefnu

stjórnvöld munu kjósa á næstu árum.

22

Page 24: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Niðurstöður og lokaorð

Hinir gríðarmiklu flutningar farandfólks á milli svæða í Kína hafa sett svip sinn

á yngstu kynslóðina í sveitum landsins. Einn viðkvæmasti hópurinn eru börnin

sem skilin hafa verið eftir af foreldrum sínum og ljóst er af þessari umfjöllun að

grípa þarf til aðgerða til að bæta úr stöðu þessara barna. Hukou-kerfið eins og

það er í dag á stærstan þátt í aðskilnaði farandverkamanna og barna þeirra, en

óljóst er hvort það eigi eftir að taka breytingum á næstu árum. Þó sýna yfirvöld

vilja til að bæta úr aðstæðum þessa þjóðfélagshóps. Það kemur einna best fram í

nýjasta fimm-ára plani stjórnvalda.

Mikilvægt er að gera fleiri rannsóknir og helst langtímarannsóknir á

hvaða áhrif brottflutningur foreldra hefur á börn í dreifbýli Kína. Þessar

upplýsingar geta yfirvöld notað, ekki aðeins til þess að bæta úr stöðu barnanna í

framtíðinni, en líka til að undirbúa þjóðina undir þau áhrif sem heil kynslóð

yfirgefinna barna mun hafa þegar þau fullorðnast. Þær rannsóknir sem gerðar

hafa verið hafa leitt í ljós að lengd aðskilnaðar foreldra og barna er einn

mikilvægasti þátturinn hvað varðar velferð barnanna. Auknar rannsóknir á þessu

sviði gætu verið stjórnvöldum afar mikilvægar. Hugsanlega gætu yfirvöld

komið með lausnir á borð við að fá unga foreldra til að flytja í þéttbýli í

skemmri tíma í senn, með því skilyrði að þeir snúi aftur að einhverjum tíma

liðnum og lágmarki þar með neikvæð áhrif á börnin. Það vekur athygli að engar

langtímarannsóknir finnast um hvernig einstaklingum sem skildir voru eftir sem

börn hefur vegnað eftir að þeir komust á fullorðinsaldur. Þetta skýrist líklega

mest af því að vandamálið er tiltölulega ungt og ekki mjög langt síðan það fór

að vekja athygli fræðimanna.

23

Page 25: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Ekki eru allir fræðimenn á einu máli um hvort fjarvera foreldra hafi

neikvæð eða jákvæð áhrif á frammistöðu barnanna í skóla. Börn sem skilin hafa

verið eftir eru oft betur sett fjárhagslega en hin börnin og hafa því stundum

forskot að því leyti en almennt virðist stuðningur foreldra jafn mikilvægur eða

mikilvægari en peningaleg aðstoð við nám. Öll börn í sveitum Kína, hvort sem

þau búa með foreldrum sínum eða ekki, standa fremur illa að vígi hvað varðar

skólagöngu. Skólum hefur fækkað mikið á undanförnum árum og ólöglegum

einkareknum grunnskólum fer fjölgandi. Mikil óvissa ríkir í kringum þá skóla

því þeim getur verið lokað eða byggingar skólanna rifnar niður fyrirvaralaust.

Skólamál hafa sem betur fer vakið athygli almennings og fjölmiðla og því von

um að stjórnvöld taki á þeim málum.

Rannsóknir á heilsu barna í dreifbýli í Kína hafa leitt í ljós að öll börn eru

almennt léttari og lágvaxnari en börn í þéttbýli. Að þessu leyti standa yfirgefnu

börnin ekki verr að vígi. Aftur á móti gefa niðurstöður rannsókna á andlegri

heilsu barna í dreifbýli til kynna að börn sem skilin hafa verið eftir upplifi frekar

neikvæðar tilfinningar og eigi erfiðara með félagslegar aðstæður en önnur börn.

Þau eru líkleg til að upplifa þunglyndi og telja sig oft mjög einmana. Aukin

samskipti við foreldrana sem flutt hafa burtu geta hjálpað í þessum aðstæðum en

regluleg samskipti við foreldra eru talin einna mikilvægust fyrir þroska og

uppeldi barna sem skilin eru eftir. Með auknu aðgengi að netinu, og þar með

ódýrari símtölum og skilaboðum, er orðið mun auðveldara fyrir börn og foreldra

að vera í sambandi en áður. Þetta er jákvæð þróun og von um að aukin

samskipti við foreldra dragi úr neikvæðum áhrifum á félagslegan og andlegan

þroska þessara barna. Nú þegar aðstæður þeirra barna sem skilin hafa verið eftir

í sveitum fá sífellt meiri athygli á samfélagsmiðlum er vel hægt að gera sér í

hugarlund að almenningur og fjölmiðlar í landinu muni kalla eftir hraðari

breytingum og bættum aðstæðum þessara barna.

24

Page 26: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Heimildaskrá

Allen, K. (2018, 11. janúar). Chinese boy with frozen hair reignites poverty debate. BBC

News. Sótt 17. janúar 2018 af http://www.bbc.com/news/world-asia-china-42639688.

Attané, I. og Gu, B. (ritstj.). (2014). Analysing China's Population Social Change in a New

Demographic Era. Dordrecht: Springer.

Cai, Y. (2018, 7. janúar). Dozens of Private Schools Bulldozed in Henan. Sixth tone. Sótt 17.

janúar 2018 af

http://www.sixthtone.com/news/1001511/Dozens%20of%20Private%20Schools%20Bu

lldozed%20in%20Henan.

Central Compilation & Translation Press. (2016). The 13th five-year plan for economic and

social development of the People’s Republic of China: 2016-2020. Beijing.

China’s leftover children. (2006, 6. júlí). China Daily. Sótt 15. janúar 2018 af

http://www.chinadaily.com.cn/china/2006-07/06/content_635143.htm.

Dai, Q., Yang, G., Hu, C., Wang, L., Liu, K., Guang, Y. o.fl. (2017). The alienation of

affection toward parents and influential factors in Chinese left-behind children.

European Psychiatry, 39, 114-122.

Development and Planning Department of the Ministry of Education. (2009). Special Report

on Compulsory Education for Children Migrating with Parents and Left-behind

Children. Sótt 16. janúar 2018 af

https://www.unicef.org/evaldatabase/index_59808.html.

Fátækt kínverskra barna vekur reiði. (2018, 13. janúar). Morgunblaðið. Sótt 17. janúar af

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2018/01/13/maetti_frosinn_i_skolann/.

Gaetano, A. M. og Jacka, T. (ritstj.). (2004). On the move women and rural-to-urban

migration in contemporary China. New York: Columbia University Press.

25

Page 27: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Gamer, R. E. og Toops, S. W. (2017). Understanding contemporary China (4. útgáfa).

London: Lynne Rienner.

Gao, Y., Li, L. P., Kim, J. H., Congdon, N., Lau, J. og Griffiths, S. (2010). The impact of

parental migration on health status and health behaviours among left behind

adolescent school children in China. BMC Public Health, 10(1).

Jia, Z. og Tian, W. (2010). Loneliness of left-behind children: A cross-sectional survey in a

sample of rural China. Child: Care, Health and Development, 36(6), 812-817.

Ling, H., Fu, E. og Zhang, J. (2015). Effects of Separation Age and Separation Duration

Among Left-behind Children in China. Social Behavior and Personality: An

International Journal, 43(2), 241-253.

Liu, J. (2016). Ageing in rural China: Migration and care circulation. The Journal of Chinese

Sociology, 3(1).

Liu, P. L. og Leung, L. (2017). Migrant Parenting and Mobile Phone Use: Building Quality

Relationships between Chinese Migrant Workers and their Left-behind Children.

Applied Research in Quality of Life, 12(4), 925-946.

Liu, Y., Liu, J. og Zhou, Y. (2017). Spatio-temporal patterns of rural poverty in China and

targeted poverty alleviation strategies. Journal of Rural Studies, 52, 66-75.

Meng, X. og Yamauchi, C. (2017). Children of Migrants: The Cumulative Impact of Parental

Migration on Children’s Education and Health Outcomes in China. Demography, 54(5),

1677-1714.

Miller, T. (2012). China's urban billion: The story behind the biggest migration in human

history. London: Zed Books.

Pearson, V., Phillips, M. R., He, F. og Ji, H. (2002). Attempted Suicide among Young Rural

Women in the People’s Republic of China: Possibilities for Prevention. Suicide and

Life-Threatening Behavior, 32(4), 359-369.

Ren, Q. og Treiman, D. J. (2016). The consequences of parental labor migration in China for

26

Page 28: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

children's emotional wellbeing. Social Science Research, 58, 46-67.

Su, S., Li, X., Lin, D., Xu, X. og Zhu, M. (2012). Psychological adjustment among left-behind

children in rural China: The role of parental migration and parent-child communication.

Child: Care, Health and Development, 39(2), 162-170.

Sudworth, J. (2016, 12. apríl). Counting the cost of China’s left-behind children. BBC News.

Sótt 16. janúar 2018 af http://www.bbc.com/news/world-asia-china-35994481.

Wen, M. og Lin, D. (2012). Child Development in Rural China: Children Left Behind by Their

Migrant Parents and Children of Nonmigrant Families. Child Development, 83(1),

120-136.

Wen, M., Su, S., Li, X. og Lin, D. (2015). Positive youth development in rural China: The role

of parental migration. Social Science & Medicine, 132, 261-269.

World Health Organization. (2009). Women and Health: Today’s Evidence, Tomorrow’s

Agenda. Sótt 21. janúar 2018 af

http://apps.who.int/iris/bitstream/10665/44168/1/9789241563857_eng.pdf

Wu, Q., Lu, D., og Kang, M. (2015). Social capital and the mental health of children in rural

China with different experiences of parental migration. Social Science & Medicine,

132, 270-277.

Yuan, X. og Zuo, J. (2011). Transition to low carbon energy policies in China—from the

Five-Year Plan perspective. Energy Policy, 39(6), 3855-3859.

Zhang, H., Behrman, J. R., Fan, C. S., Wei, X. og Zhang, J. (2014). Does parental absence

reduce cognitive achievements? Evidence from rural China. Journal of Development

Economics, 111, 181-195.

Zhang, J. og Duncan, H. (ritstj.). (2014). Migration in China and Asia: Experience and policy.

Dordrecht: Springer.

Zhao, C., Zhou, X., Wang, F., Jiang, M. og Hesketh, T. (2017). Care for left-behind children

in rural China: A realist evaluation of a community-based intervention. Children and

27

Page 29: Börnin sem urðu eftirskemman.is/bitstream/1946/29470/1/Marta... · 2018. 10. 15. · 2012). Ma rgi r fa ra ndve rka m e nn fl yt j a fj öl s kyl dur s í na r m e ð í l e i t

Youth Services Review, 82, 239-245.

Zhao, C., Wang, F., Li, L., Zhou, X. og Hesketh, T. (2017). Long-term impacts of parental

migration on Chinese children’s psychosocial well-being: Mitigating and exacerbating

factors. Social Psychiatry and Psychiatric Epidemiology, 52(6), 669-677.

Zhao, Q., Yu, X., Wang, X. og Glauben, T. (2014). The impact of parental migration on

children's school performance in rural China. China Economic Review, 31, 43-54.

Zhou, C., Sylvia, S., Zhang, L., Luo, R., Yi, H., Liu, C. o.fl. (2015). China's Left-Behind

Children: Impact Of Parental Migration On Health, Nutrition, And Educational

Outcomes. Health Affairs, 34(11), 1964-1971.

Zhou, M., Murphy, R. og Tao, R. (2014). Effects of Parents' Migration on the Education of

Children Left Behind in Rural China. Population and Development Review, 40(2),

273-292.

28