hverju breytti jesús kristur? breytti jesús kristur - bryndís...4 israel finkelstein and neil...

160
Mag. theol. ritgerð Guðfræði Hverju breytti Jesús Kristur? Rætur kristinnar trúar, heimildirnar, boðskapur Krists og áhrif á grísk-rómverskt samfélag Bryndís Böðvarsdóttir Leiðbeinandi: Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir Október 2019

Upload: others

Post on 08-Jul-2020

0 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

Mag. theol. ritgerð

Guðfræði

Hverju breytti Jesús Kristur?

Rætur kristinnar trúar, heimildirnar, boðskapur Krists og áhrif á grísk-rómverskt samfélag

Bryndís Böðvarsdóttir

Leiðbeinandi: Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir Október 2019

Page 2: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

1

Háskóli Íslands

Hugvísindasvið

Guðfræði

Hverju breytti Jesús Kristur? Rætur kristinnar trúar, heimildirnar, boðskapur Krists

og áhrif á grísk-rómverskt samfélag

Ritgerð til mag. theol. prófs í Guðfræði

Bryndís Böðvarsdóttir

Kt.: 0211724649

Leiðbeinandi: Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir

Október 2019

Page 3: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

Hverju breytti Jesús Kristur?

Rætur kristinnar trúar,heimildirnar, boðskapur Krists

og áhrif á grísk-rómverskt samfélag

Þessi ritgerð er 30 eininga lokaverkefni til embættisprófs

í guðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild,

Hugvísindasviði Háskóla Íslands

© Bryndís Böðvarsdóttir 2019

Óheimilt er að afrita ritgerðina á nokkurn hátt

nema með leyfi höfundar.

Prentun: Háskólaprent

September 2019

Page 4: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

3

Ágrip

Með þessari ritgerð er ætlunin að varpa skýrara ljósi á það hvar rætur kristinnar trúar

liggja og hver Jesús Kristur var sem fjöldi kristinna kirkjudeilda um allan heim kennir sig

við. Ritgerðin sýnir þær fjölmörgu heimildir sem til eru um kristna trú og boðskap en

einnig þau fornu handrit sem fundist hafa af kristnum og gyðinglegum trúarritum. Hér

er leitast við að skýra hver hinn upprunalegi boðskapur kristins átrúnaðar var og hvaðan

sá boðskapur kemur. Rök fyrir áreiðanleika og upprunaleika rita Nýja testamentisins eru

skoðuð. Kenningar um tengsl við gnostisma og stóuspeki eru kynntar ásamt röksemdum

fyrir gyðinglegum tengslum kristinnar trúar og boðskapar. Jafnframt er lagt mat á vægi

og áreiðanleika heimilda Gamla testamentisins út frá rannsóknum og áliti

fornleifafræðinga og biblíurannsakenda.

Að lokum fjallar ritgerðin um áhrif hins kristna boðskapar á líf fólks á fyrstu fjórum

öldum trúarinnar í hinum grísk-rómverska heimi. Hún birtir rannsóknir félagsfræðinga er

skýra hinn öra vöxt kristinnar trúar á upphafsárum kristni. Síðan eru áhrif hins kristna

boðskapar á líf fólks skoðuð með áherslu á kjör kvenna og barna. Markmiðið er að varpa

skýru ljósi á aðstæður þeirra og annarra minnihlutahópa hins grísk-rómverska heims og

bera saman við kjör þeirra er völdu að gerast kristin, í þeim tilgangi að svara þeirri

spurningu hvort hagur fólks hefði batnað fyrir tilstuðlan kristinnar trúar.

Page 5: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

4

Efnisyfirlit

Formáli ........................................................................................................................................... 5

Inngangur ...................................................................................................................................... 6

1. Uppruni og áreiðanleiki rita Nýja testamentisins. ..................................................................... 9

1.1 Heimildir um Jesú Krist utan Biblíunnar .............................................................................. 9

1.2 Handritafundir að ritum Nýja testamentisins ................................................................... 10

1.3 Mótunarsaga og réttmæti rita Nýja testamentisins .......................................................... 15

1.3.1 Elstu tilvísanir í rit Nýja testamentisins sem helgirit kristins átrúnaðar .................... 15

1.3.2 Guðspjöllin fjögur: Hefðin um uppruna ...................................................................... 21

1.3.3 Kirkjufeðurnir og baráttan við villutrú ........................................................................ 25

1.3.4 Val á ritum Nýja testamentisins sem helgirit umfram önnur ..................................... 31

1.3.5 Kenningarleg ágreiningsmál í túlkun á ritum Nýja testamentisins ............................. 34

1.3.6 Elaine Pagels og hin kirkjupólitísku áhrif á Nýja testamentið .................................... 37

2. Uppruni og áreiðanleiki rita Gamla testamentisins ................................................................. 55

2.1 Hinn gyðinglegi arfur: Handrit að ritum Gamla testamentisins ........................................ 57

2.2 Hinn gyðinglegi arfur: Sögulegur áreiðanleiki Gamla testamentisins ................................ 63

2.2.1 Rannsóknir fornleifafræðinga á atburðum Gamla testamentisins ............................. 64

2.2.2 Áætlaður tími Exodus flóttans frá sjónarhóli fornleifarannsókna .............................. 69

2.2.3 Áætlaður ritunartími helstu bóka Gamla testamentis ............................................... 72

3. Boðskapur Jesú, áhrifaþættir úr samtímanum og sérstaða ..................................................... 75

3.1 Tengsl boðskapar Jesú við gyðingdóm og stóuspeki ......................................................... 75

3.2 Gyðingurinn Jesús: Messías spádómanna ......................................................................... 88

4. Samfélagsleg áhrif boðskapar Krists á fyrstu árum kristni ..................................................... 102

4.1 Skýringar á vexti kristinnar trúar á fyrstu öldum kristni .................................................. 102

4.2 Hafði kristin trú jákvæð áhrif á líf fólks á fyrstu öldum trúarinnar? ................................. 114

4.2.1 Áhrif kristins boðskapar á líf kvenna á fyrstu öldum trúarinnar .............................. 114

4.2.2 Hlutverk og stöður kvenna innan kirkjunnar á fyrstu öldum kristni ......................... 120

4.2.3 Börn í hinum grísk-rómverska heimi ........................................................................ 126

4.2.4 Áhrif kristins boðskapar á líf barna á fyrstu öldum trúarinnar ................................ 132

Lokaorð ...................................................................................................................................... 148

Heimildaskrá .............................................................................................................................. 151

Page 6: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

5

Formáli

Þessi ritgerð hefur blundað innra með mér lengi án þess að ég hafi gert mér í hugarlund

hver hin endanlega mynd yrði. Þörfin fyrir að skýra og útlista með rökum ákveðnar

hugmyndir og kenningar var lengi til staðar eða allt frá því ég hóf fyrst nám í guðfræði

við Háskóla Íslands árið 2004. Eftir langt hlé frá námi að lokinni BA gráðu, tvo

skemmtilega Nýja testamentis áfanga í ritskýringu gríska textans og einn í Kristsfræði,

vaknaði þessi hugmynd upp af löngum dvala. Þegar ákveða átti ritgerðarefni fyrir

lokaritgerð til embættisprófs í guðfræði kom hugmyndin því nánast eins og af sjálfu sér.

Það er afar mikilvægt að kynna sér ýmis sjónarhorn fræðimanna á sem hlutlausastan

máta. Er þessi hugmynd mín því að miklu leyti sprottin út frá leit minni að þessum

fræðilega fjölbreytileika. Sú leit hefur opnað heim biblíurannsakenda er láta ekki festast

í eldri ályktunum fræðimanna, heldur halda áfram að spyrja spurninga, rannsaka og

koma með nýjar hugmyndir og rök. Þá kemur í ljós að ýmsar vinsælar og spennandi

kenningar eru í raun ekki eins óhagganlegar og af var látið.

Fjölskyldu minni allri er ég endalaust þakklát fyrir allan stuðninginn, fyrir ómælda

þolinmæði og umburðarlyndi vegna vinnu minnar við gerð þessarar ritgerðar. Þá vil ég

þakka öllum kennurum mínum við Háskóla Íslands sem hvöttu mig áfram í leit minni að

svörum. Sérstaklega vil ég þakka Arnfríði Guðmundsdóttur, leiðbeinanda mínum við

gerð þessarar ritgerðar, fyrir alla aðstoðina og leiðsögnina. Einnig vil ég þakka föður

mínum Böðvari Björgvinssyni fyrir einstaklega gagnlegar ábendingar og eiginmanni

mínum Guðsteini Hauki Barkarsyni fyrir stuðninginn og hjálp við að þýða flókin hugtök.

Lúk. 4.16-19:

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór

að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til

að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk

upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:

„Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt

mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan

boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta

þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“

Page 7: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

6

Inngangur

Þegar borin eru saman samfélög með ólíka menningu og trúarlegan bakgrunn má sjá

ýmislegt er vekur furðu okkar sem alist höfum upp í vestrænu samfélagi mótuðu af

kristinni trú. Það er því óhætt að segja að hin kristna boðun hafi haft mótandi áhrif á

vestrænt samfélag og hugsun. Í þessari ritgerð er ætlunin að reyna að svara því hversu

áreiðanlegar þær heimildir geta talist sem við höfum um Krist og kristna trú, leitast við

að skýra hver Kristur var og út á hvað kristin trú gengur. Þá verður sérstaklega spurt um

áhrif boðskapar kristinnar trúar á samtímaumhverfi sitt á fyrstu öldum kristinnar kirkju.

Þar sem margir draga uppruna og réttmæti hinna kristnu heimilda í efa og álykta að

þær geti seint talist vitnisburður um tvö þúsund ára gamla atburði, tel ég mikilvægt að

rannsaka hversu áreiðanlegar heimildir við höfum. Kenningar um að þau handrit sem

fundust við Nag Hammadí af ýmsum guðspjöllum eins og Tómasarguðspjalli feli í sér jafn

sannan og upprunalegan kristinn boðskap og guðspjöllin fjögur, hafa verið afar áberandi

í fræðiritum og heimildamyndum, en einnig í skáldsögum og kvikmyndum á síðustu

áratugum. Þannig hafa orðið vinsælar þær kenningar að einungis völd og félagslegir

þættir hafi ráðið úrslitum um það hvaða kristni boðskapur og trúarrit náðu mestum

vinsældum og fengu sess sem kristin helgirit.1 Þá telja sumir sig sjá áhrif frá öðrum trúar-

og heimspekistefnum úr samtímaumhverfi Jesú Krists sem bæði hann og fylgjendur hans

hafi tileinkað sér.2

Kristin trú er með djúpar rætur í gyðingdómi. Því tel ég afar mikilvægt að huga

sérstaklega að því í hverju þau tengsl felast og jafnframt að kanna áreiðanleika þeirra

1 Jón Ma. Ásgeirsson, Tómasarguðspjall, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2001, bls. 13-47. Þessu heldur m.a. Jón Ma. fram í inngangi sínum að íslenskri þýðingu sinni á riti Tómasarguðspjalls. Eins mætti hér nefna bók Elaine Pagles The Gnostic Gospels, bók Gregory J. Riley, One Jesus Many Christs og skáldsöguna The Da Vinci Code eftir Dan Brown svo fátt eitt sé nefnt. 2 Gregory J. Riley, One Jesus, Many Christs, Minneapolis: Fortress Press, 2000, bls. 4, 15-60. Riley heldur því hátt á lofti í bók sinni að Kristur hafi aðeins verið venjulegur maður, mótaður af heimspeki- og trúarkenningum samtímans en upphafinn af fylgjendum sínum sem guð og hetja eftir dauða sinn. Hann segir hina fyrstu kristnu í reynd ekki hafa getað komið sér saman um hver hann var. Rúnar M. Thorsteinsson ályktar eins að hin kristna boðun hafi sótt mikið í Stóuspeki fyrir tilstuðlan Páls postula. (Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism: A Comparative Study of Ancient Morality, New York: Oxford University Press, 2010, bls. 156-175).

Page 8: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

7

heimilda sem við höfum í þessu u.þ.b. 3000 ára efni hinnar hebresku Biblíu.3 Ýmsir

fræðimenn álykta að ekki sé hægt að taka neinni sagnfræðilegri atburðarás sem

trúverðugri úr Gamla testamentinu nema það finnist bein staðfesting á atburðunum í

fornleifarannsóknum og samtímaheimildum, þá meitluð í stein eða rituð á bókrollu.4

Þannig sigta sumir fræðimenn fjölmargt efni út sem goðsagnir og ævintýri. Tel ég því

mikilvægt að skoða hvað helstu fornleifarannsóknir hafa gefið okkur til að byggja á og

hvaða ályktanir ýmsir gamlatestamentisfræðingar draga út frá slíkum heimildum.

Í ritgerðinni er markmiðið að leggja mat á það hvort sumar vinsælar kenningar innan

fræðanna geti talist almennt viðurkenndar og á nægjanlegum rökum reistar. Ég hef á

þessari vegferð komist að því að það eru ólík sjónarhorn meðal fræðimanna. Sölutölur

og vinsældir fræðirita segja ekki allt um vægi tiltekinna kenninga og áreiðanleika

heimilda frammi fyrir heildar flóru fyrirliggjandi rannsókna og heimilda. Fjölmargir

fræðimenn eru ekki sammála fullyrðingum um uppruna, áreiðanleika og raunkristin gildi

ýmissa guðspjalla utan Nýja testamentisins og gnostískra rita er kenna sig við Krist. Þeir

byggja rök sín á víðtækari rannsóknum á samtímaheimildum um Jesú Krist og

handritafundum. Eins greinir fræðimenn á um hvort boðskapur Krists eigi rætur hjá

öðrum trúar- og heimspekistefnum. Ýmsir benda þar á hans gyðinglega bakgrunn. Að

sama skapi eru mismunandi kenningar meðal biblíurannsakenda Gamla testamentisins.

Þar eru margir fræðimenn farnir að taka mið af fleiri þáttum en áður tíðkaðist við

3 Editors of Encyclopaedia Britannica, „Hebrew Bible: Jewish Sacret Writings“, Encyclopædia Britannica, sótt 30 maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Hebrew-Bible. Samvkæmt höfundum Britannica þykir óhætt að miða við ritunartímann 1200 f.Kr., þó sumir áætli ritunartímann eilítið seinna eins og sjá má síðar í ritgerðinni. Þó telja menn að Móse hafi verið uppi mun fyrr, eða um 14.-13. öld f.Kr. Segir hefðinn hann höfund Torah, eða Mósebókanna fimm. (Dewey M. Beegle, „Moses: Hebrew Prophet“, Encyclopædia Britannica, sótt 30 maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Moses-Hebrew-prophet). 4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The Bible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and the Origin of Its Sacred Texts, New York: Touchstone Book, published by Simon and Schuster, 2002, bls 107. Silberman og Finkelstein hafa ályktað að fyrst ekkert í fornleifarannsóknum sanni og staðfesti beint Exodus frásögu um flótta frá Egyptalandi og ekki séu merki um innrás inn í Kanaan hafi flóttinn ekki átt sér stað. Fornleifar styðji aðeins við umbyltingu á lífsháttum á svæðum í hæðum Kanaans um 1200 f.Kr. Þannig megi einungis rekja upphaf fyrstu Ísraelanna til svæðis Kanaans þess tíma. Í fornleifafræðunum skiptast rannsakendur í hópa minimalista og maximalista. Myndu þeir þannig teljast til flokks minimalista.

Page 9: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

8

rannsókn á sannleiksgildi tiltekinna frásagna með hliðsjón af því sem fram hefur komið í

m.a. fornleifafræði, félagsfræði og textarannsóknum.

Fyrstu tveir megin kaflar þessarar ritgerðar munu fjalla um handritafundi og heimildir

sem sýna okkur hvernig hið kristna safn rita, Biblían, varð til. Vil ég með því leitast við að

rekja áreiðanleika og uppruna rita Biblíunnar, bæði Gamla og Nýja testamentisins.

Því næst vil ég kanna hvort kenningar um að boðskapur Krists eigi rætur í boðun

heimspekinga og annarra trúarbragða geti staðist. Þá verða tengsl hans við gyðingdóm

skoðuð og megin trúarboðskapur gyðingdóms athugaður út frá því. Mun ég draga fram

hið einstaka og hið gyðinglega í boðun Krists andspænis mögulegum utanaðkomandi

áhrifavöldum á boðun hans. Þannig mun ég reyna að svara því hvort fyrirliggjandi

heimildir geti gefið einhverjar vísbendingar um að boðskapur Krists eigi sér dýpri

gyðinglegri rætur.

Að lokum mun ég fjalla um niðurstöður fræðimanna sem hafa rannsakað hvað telja

megi til helstu áhrifaþátta kristinnar boðunar á samfélag, líf og kjör fólks. Verður áhersla

mín á líf hinna fyrstu kristnu allt fram á 4. öld. Áhrif boðskaparins á stöðu kvenna, barna

og minnihlutahópa eru mér sérstaklega hugleikin. Mun ég draga fram áhrifin frá boðskap

Krists sérstaklega, fremur en áhrifin af kristinni trú sem stofnanalegs fyrirbæris í ýmsum

myndum.

Page 10: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

9

1. Uppruni og áreiðanleiki rita Nýja testamentisins.

Þar sem trúarrit kristinna manna, Biblían, er okkar megin heimild um boðskap Krists þarf

að skoða hversu áreiðanleg heimild hún getur talist. Hér ber að hafa í huga að Biblían

sjálf er safn fjölmargra bréfa og bóka. Hún skiptist í annars vegar „hina hebresku Biblíu“

(heb. Tanak) sem kristnir tala um sem Gamla testamentið og hins vegar heimildirnar um

Krist sem safnað var saman af kristnum er kölluðu þær Nýja testamentið. Nýja

testamentið á sér langa mótunarsögu þar sem menn greindi á um hver þeirra fjölmörgu

kristnu rita sem til voru skyldu fá að flokkast sem helgirit kristinnar trúar. Þessi kafli mun

leitast við að rekja mótunarsögu Nýja testamentisins og kanna helstu handritin sem

fundist hafa ásamt því að skoða samtímaheimildir um Krist, allt með áreiðanleika og

uppruna rita Nýja testamentisins í huga.

1.1 Heimildir um Jesú Krist utan Biblíunnar

Ýmsir hafa velt þeirri spurningu upp hvort Jesús hafi í raun verið til sem persóna og hvort

sagan um hann hafi einungis verið uppspuni, runninn frá einstaklingum er sóttust eftir

athygli, fylgispekt og peningum frá trúgjörnu fólki. Það eru aftur á móti til fjölmargar

heimildir utan biblíunnar frá 1.-2. öld e. Kr. sem staðfesta að Jesús Kristur var til sem

persóna og að hópur fólks fylgdi honum og töldu hann vera Messías (Christos eða

Χριστός á grísku). Mætti hér til dæmis nefna að sagnaritararnir Takítus (e. Tacitus, 55-

118 e.Kr.), Svetóníus (e. Suetonius, um 70-140 e.Kr.), Pliníus yngri (e. Pliny the younger

61-113 e.Kr.) ásamt gyðingasagnaritaranum Jósefusi (e. Josephus, um 37-100 e.Kr.)

minnast allir á Jesú Krist og hreyfingu hinna kristnu sem fylgdu honum.5 Þessar heimildir

gera það afar erfitt að halda því fram að Jesús, sem þekktur var sem Kristur, hafi ekki

5 Lawrence Mykytiuk, „Did Jesus Exist? Searching for Evidence Beyond the Bible“, Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life: Bible History Daily, 05. nóvember 2017, Sótt 20. Mars 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/people-cultures-in-the-bible/jesus-historical-jesus/did-jesus-exist/. Clarence E. Glad nefnir til viðbótar við þennan lista Kelsos, Plútarkos, Lúkíanos frá Samosata og auk rits kennt við Hermes trismegistos, sem dæmi um rit er nefna Jesú eða hina kristnu hreyfingu á nafn (Clarence E. Glad, Átökin um textann: Nýja testamentið og upphaf kristni, Reykjavík: Grettisakademían og Háskólaútgáfan, 2004, bls. 37). Sjá nánar um Jósefus á Britannica (Gary William Poole, „Flavius Josephus: Jewish Priest, Scholar, and Historian“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. júlí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Flavius-Josephus).

Page 11: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

10

verið til. Eins þyrfti þá að skýra hví svona margir völdu að skrifa frásögur um hann og

kenna sig við nafn hans.

Til eru fjölmargar frásagnir um Jesú Krist og hans boðskap. Hluta þeirra er að finna í

hinu kristna trúarriti sem kallast í dag Nýja testamentið. Þeim frásögnum geta menn

síðan ýmist valið að treysta til fulls, að hluta til eða ekki. Margir hafa aftur á móti bent á

þá augljósu staðreynd að fjöldi fólks gerðist kristinn þrátt fyrir að það blasti við því að

verða ofsótt fyrir, pyndað og drepið. Postularnir sjálfir hlutu flestir slíkan dauðdaga en

ólíklegt er að þeir hefðu lagt slíkt á sig fyrir eigin hugarburð, ásókn eftir athygli og

skyndigróða.6 Postularnir virðast því hafa verið knúnir áfram af eigin sannfæringu um

það sem þeir sjálfir boðuðu, að sá Jesús sem þeir sögðu frá væri uppfylling þeirra

spádóma er ýmis rit Gyðinga höfðu boðað um komu Messíasar.

Við þetta má bæta að bæði rit Gamla og Nýja testamentisins fela í sér frásagnir og

vísanir í sögulega atburði og persónur. Fornleifafræðin hefur staðfest tilvist fjölda

persóna sem koma fyrir í Biblíunni.7 Þetta bendir sterklega til þess að þeir atburðir sem

segir frá eigi raunverulegt upphaf sitt í einhverjum sögulegum veruleika.

1.2 Handritafundir að ritum Nýja testamentisins

Í gegnum tíðina hafa komið upp gagnrýnisraddir er draga í efa áreiðanleika heimildanna

um Jesú. Elstu handrit Nýja testamentisins þóttu á árum áður ekki nógu gömul en helst

var stuðst við Codex Vaticanus frá miðri 4. öld e.Kr.8 Þegar ekki er hægt að staðfesta með

6 Eusebius Pamphilius, Eusebius: The History of the Church from Christ to Constantine, ritstj. Andrew Louth, þýð. G.A.Williamson, London: Penguin Books, 1989, bls. 57-103. Vitnar Evsebíos um ofsóknir og dauðdaga postulanna og hinna fyrstu kristnu frá stjórnartíð Nerós til Trajans. Fylgjendum Krists var gert að tilbiðja keisarann og jafnvel afneita Jesú Kristi. Þeir sem gerðu það fengu að lifa. Ef ekki væri fyrir djúpa trúarsannfæringu hefðu postularnir og fylgjendur þeirra án efa valið lífið fram yfir þjáningu og dauða. Trúarsannfæring þeirra var slík að þeir völdu fremur að deyja. 7 Lawrence Mykytiuk, „New Testament Political Figures: The Evidence“, Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life: Bible History Daily, sótt 7. janúar 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/people-cultures-in-the-bible/people-in-the-bible/new-testament-political-figures-the-evidence/?fbclid=IwAR1W5AnHYMnzoA0w7GXrz1_mJf377PaN0xP6zRKk1dZnNt7u4iKS9_6Kmq4. 8 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið: Leitin að elstu handritum Biblíunnar, Laugavegi 31 Reykjavík: Skálholtsútgáfan – útgáfufélag Þjóðkirkjunnar, 2015, bls. 55-58. Codex Vaticanus var geymt á bókasafni Vatíkansins frá því einhvern tímann fyrir árið 1475 og er talinn áreiðanlegasti forngríski textinn að Biblíunni. (Encyclopædia Britannica, „New Testament Canon, Texts, And Versions“, Encyclopædia

Page 12: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

11

fullri vissu ritunartíma biblíutexta frá fyrstu hendi, með fornleifafundum eða ítarlegri

rannsókn textans, hafa menn ályktað að um munnlega geymd hafi verið að ræða fram

að þeim ritunartíma sem helstu rök vísa til út frá fyrirliggjandi handritum og heimildum.

Með munnlegri geymd atburða aukast líkur á síðari tíma oftúlkunum og rangtúlkunum

við skráningu þeirra. Í dag telja menn aftur á móti að fleiri hafi kunnað að lesa og skrifa

á tíma Jesú en áður var haldið.9 Sé það rétt er ekkert sem útilokar að megin frásagan hafi

verið skráð af einhverjum fylgjenda Jesú eða postula mjög snemma, enda voru

fylgjendurnir margir og bóklærðir þar á meðal. Nægir hér að nefna Pál sjálfan í því

sambandi.

Í bók sinni Stóra Púsluspilið nær biblíurannsakandinn og þýðandinn Hans Johan

Sagrusten að draga saman upplýsingar um helstu handritafundi rita Biblíunnar á afar

aðgengilegan máta. Forn handrit eru almennt séð vandfundin því til að tryggja varðveislu

rita í 2000 ár þarf kjör aðstæður sem veita vörn gegn hita, raka og gangi náttúrunnar.

Sagrusten segir að engu að síður hafi á síðustu tveimur öldum fundist mörg handrit að

ýmsum ritum Biblíunnar sem staðfesta háan aldur heimildanna. Þar af eru fjölmörg

handrit og handritabrot að ritum Nýja testamentisins, sum aldursgreind allt frá því um

100 e.Kr. Þessi handrit staðfesta áreiðanleika þess texta sem við höfum í dag og sýna að

ekki er neinn sláandi munur á milli elstu handritanna og þeirra texta sem fyrir voru. Á

Britannica, sótt 7. febrúar 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature/New-Testament-canon-texts-and-versions#ref598015). Til frekari upplýsinga um handritin vil ég benda á vefsíðu þar sem hægt er að fletta upp hverju handriti Nýja testamentisins eftir heiti og sjá áætlaða aldursgreiningu: „The Center for the Study of New Testament Manuscripts“ eða CSNTM (The Center for the Study of New Testament Manuscripts, „Manuscript Search“, The Center for the Study of New Testament Manuscripts, sótt 7. febrúar 2019 af http://csntm.org/Manuscript). Sjá nánar viðtal við ritstjóra síðunnar Daniel B. Wallace um merka handritafundi og fjölda handrita að Nýja testamentinu, en hann segir m.a. að til séu um 5800 grísk handrit að því. (Justin Taylor, „An Interview with Daniel B. Wallace on the New Testament Manuscripts“, TGC: The Gospel Coalition, 22. mars 2012, sótt 4. júní 2019 af https://www.thegospelcoalition.org/blogs/justin-taylor/an-interview-with-daniel-b-wallace-on-the-new-testament-manuscripts/). 9 Alan Millard, „Reading and Writing In the Time of Jesus: There was much more writing in Palestine during the Gospel period than has been commonly allowed“, The Bible and Interpretation, 2000, sótt 20. mars 2018 af http://www.bibleinterp.com/articles/2000/Millard_Jesus.shtml.

Page 13: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

12

það bæði við um handritafundi í tengslum við Gamla testamentið og hið Nýja. Einungis

er að finna minniháttar tilbrigði eins og orðaröð eða blæbrigði orða.10

Hér mætti nefna þau handrit að Nýja testamentinu sem fundust á sorphaugunum í

Oxyrhynchus og tímasett eru frá 2.-3. öld e.Kr. Elsta þeirra kallast Papyrus 90 og er talið

vera frá síðari helmingi 2. aldar.11 Annað dæmi er Chester Beatty-handritafundurinn þar

sem 12 handrit fundust í Egyptalandi á árunum 1928-1930. Fram að því hafði þekkingin

á hinum gríska texta Biblíunnar aðeins byggst á handritunum Codex Vaticanus og Codex

Sinaiticus frá 4. öld e.Kr., en þarna fundu menn handrit frá 2.-3. öld e.Kr. Fyrsta stóra

guðspjallabókin eða Papyrus Chester Beatty I: P45, inniheldur hluta af öllum

guðspjöllunum og Postulasögunni og er frá því um 250 e.Kr. Papyrus Chester Beatty

I: P46, inniheldur hluta af textum úr átta bréfum Páls ásamt Hebreabréfinu, tímasett frá

um 200 e.Kr. Sagrusten segir það elsta handrit sem við höfum með safni bréfa Páls. En

almennt er talið að Páll hafi ritað bréfin sín á árunum 50-65 e.Kr.12

Bodmer-handritafundurinn á árunum 1955-1956 í þorpi nálægt Nag Hammadí, gaf af

sér nánast heilt handrit að Jóhannesarguðspjalli (Papyrus II), bæði bréf Péturs alveg heil,

bréf Júdasar (Papyrus VII-VIII) og loks arkir úr bæði Jóhannesar- og Lúkasarguðspjalli

(Papyrus XIX-XV, kallaðar Papyrus 66, Papyrus 72 og Papyrus 75). Papyrus Bodmer II: P66

með mest allt Jóhannesarguðspjall er tímasett frá 175-225 e.Kr. og Papyrus Bodmer XIV-

XV: P75 sem inniheldur brot úr Jóhannesar- og Lúkasarguðspjalli er einnig tímasett um

175-225 e.Kr. Segir Sagrusten texta Papyrus 75 svo líkan þeim texta sem er að finna í

hinu þekkta handriti Codex Vaticanus frá 4. öld að menn telji bæði handritin hafa verið

endurrituð út frá einu sameiginlegu, upprunalegu handriti frá a.m.k. 2. öld e.Kr. Codex

10 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 85. Hér vísar Sagrusten í Frederic G. Kenyon, The Chester Beatty Biblical papyri : descriptions and texts of twelve manuscripts on papyrus of the Greek Bible, bls. 2. 11 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 75. Sjá nánar á fyrrgreindri síðu CSNTM: http://csntm.org/manuscript/View/GA_P90. 12 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 81-88, 91. Sjá nánar á vefsíðu CSNTM: http://csntm.org/manuscript/View/GA_P45. Einnig: http://csntm.org/manuscript/View/GA_P46. F. Taylor Jr. áætlar tímasetningu Páls út frá kennileitum heimildanna um hann og sér að í Korintu hafi hann starfað um 50-51 e. Kr. Eins telur hann líklegt að hann hafi verið hálshöggvinn árið 62 e.Kr. (fremur en síðar) í stjórnartíð Nerós. (Walter F. Taylor Jr., Paul: Apostle to the Nations: An Introduction, Minneapolis: Fortress Press, 2012, bls. 37-39). Aðrir áætla að Páll hafi ritað þau á árunun 47-61 e.Kr. (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 21-22).

Page 14: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

13

Vaticanus handritið er á grísku og er aldursgreint frá 4. öld e. Kr. en það fannst á

bókasafni Vatikansins á 15. öld e.Kr.13 Það er sá texti sem helst hefur verið nýttur í

gegnum aldirnar við endurritun og þýðingar á Biblíunni. Sagrusten bætir við að sú

staðreynd hvað þessir textar séu líkir segi okkur að engar stórvægilegar breytingar urðu

við endurritun texta Biblíunnar frá 3. öld til dagsins í dag.14

Lítið papýrusbrot úr handriti sem fannst í Egyptalandi árið 1920 (líklega við

Oxyrhynchus), hefur fengið heitið Papyrus 52. Það hefur að geyma elsta þekkta texta úr

Jóhannesarguðspjalli, nánar tiltekið úr 18. kafla þess, og er tímasett frá tímabilinu 100-

150 e.Kr. Sagrusten segir þennan fund staðfesta að Jóhannesarguðspjall hafði verið ritað

miklu fyrr en áður var talið. Ef til vill í lok níunda áratugar 1. aldar eða byrjun 2. aldar.

Síðan hafa fleiri handritabrot fundist. Sjö eru tímasett um 200 e.Kr og fjögur á 2. öld:

Papyrus 52, Papyrus 90 (brot úr Jóhannesarguðspjalli), Papyrus 98 (brot úr Opinberunar-

bókinni) og Papyrus 104 (brot úr Matteusarguðspjalli).15

Hans Johan Sagrusten segir lítil textabrot eins og Papyrus 52 geta sagt ýmislegt um

restina af upprunalega textanum. Þegar textabrot sýna samræmi við þann texta sem við

þekkjum, er talið ólíklegt að restin af textanum sé ekki einnig í samræmi við hann. Frá

textabrotunum er hægt að reikna út línufjölda og stærð hins upprunalega handrits. Var

13 Encyclopædia Britannica, „New Testament Canon, Texts, And Versions“, Encyclopædia Britannica, sótt 9. febrúar 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature/New-Testament-canon-texts-and-versions#ref598015. 14 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 55-58, 101-103, 118-119, 121-123. Handritið Papyrus Bodmer II (Papyrus 66) frá um 200 e.Kr er vitnisburður um að Jóhannesarguðspjall eins og við þekkjum það í dag var í notkun í Egyptalandi fyrir árið 200 e.Kr. Það inniheldur Jóhannesarguðspjall 1.1.-6.11 og 6.35-14.26 ásamt brotum úr Jóhannesarguðspjalli 14.29-21.9. Papyrus Bodmer XIV-XV (Papyrus 75) frá því um 200 e.Kr. inniheldur hluta úr Lúkasarguðspjalli 3-8, heila kafla frá 9-16, hluta úr köflum 17-18 og heila kafla frá 22-24. Þá heila kafla úr Jóhannesarguðspjalli 1-10 og hluta úr köflum 11-15. Það handrit varð til þess að binda enda á þá kenningu að mikil endurnýjun hefði farið fram á texta Nýja testamentisins á 4. öld, þ.e. þegar kristni hættir að vera ofsótt trúarbrögð og er leyfð samkvæmt lögum af Konstantínusi keisara árið 313 e.Kr. Sjá nánar um handritið á síðu CSNTM: http://csntm.org/manuscript/View/GA_P66 og http://csntm.org/manuscript/View/GA_P75. 15 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 124-129. Papyrus 52 uppgötvaðist þó ekki fyrr en 1934 er textarannsakandinn Colin H. Roberts var að skoða handrit í geymslu John Rylands-bókasafnsins. Áður en þetta handrit fannst 1920 drógu margir nýjatestamentisfræðingar í efa að Jóhannesarguðspjall hafi verið ritað fyrir árið 160 e.Kr. Papyrus 90 innihélt Jóhannesarguðspjall 18.36-19.7, Papyrus 98 innihélt Opinberunarbókina 1.13-20 og Papyrus 104, Matteusarguðspjall 21.34-37 og 43-45. Sjá nánar á CSNTM: http://csntm.org/manuscript/View/GA_P52, http://csntm.org/manuscript/View/GA_P90, http://csntm.org/manuscript/View/GA_P98 og http://csntm.org/manuscript/View/GA_P104.

Page 15: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

14

þannig ályktað að Papyrus 52 hefði verið hluti af um 130 blaðsíðna riti. Leturstærðin

benti til þess að það hefði verið notað við upplestur í kirkju. Bæði papyrus 52 (Jóh 18.31-

33 og 18.37-38) og Papyrus 90 (Jóh 18.36-19.1 og 19.2-7) sem fundust, hafa að geyma

frásögnina úr Jóhannesarguðspjalli af því er Pontíus Pílatus yfirheyrði Jesú. Sagrusten

segir það undarlega tilviljun að þessi tvö elstu brot af Jóhannesarguðspjalli séu

samhljóða í þeim texta, þ.e. í Jóh 18.37.“16

Sá fjöldi handrita að Nýja testamentinu sem fundist hefur segir Sagrusten nú vera

talinn yfir 5850 talsins. Þessi fjöldi handrita verður að teljast nokkuð góður vitnisburður

um áreiðanleika texta Nýja testamentisins. Enginn forn texti virðist jafn vel vottaður og

hann. Þá eru um tíu handrit sem fengið hafa aldursgreiningu frá árunum 100-200 e.Kr.

og um sextíu sem fengið hafa aldursgreiningu frá 200-300 e.Kr. en stöðugt finnast ný

handrit. Sagrusten nefnir til samanburðar að handrit eftir hina merku sagnfræðinga

Jósefus og Takítus séu einungis til frá um 800 árum eftir upphaflega skráningu þeirra og

að fjöldi þeirra sé innan við 20.17 Hin mikla endurritun og fjölföldun á bókum Biblíunnar

á fyrstu öldum kristni og dreifing á þeim í kringum Miðjarðarhafið varð til þess að tryggja

varðveislu ritanna. Það hefur leitt til þess að óvenju mikill fjöldi handrita hefur fundist.

Sagrusten segir ekki lengur hægt að álykta að guðspjöllunum hafi verið skipt út á

valdatíma Konstantínusar, eða að fram hafi farið róttæk endurskoðun á textunum á

4. öld e.Kr.18 Er hann hér að vísa til fjölda handrita sem fundist hafa fyrir þann tíma. Allir

16 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 131-133. Textinn segir: „Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“ Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.““ (Jóh 18.37) 17 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 137, 139. Samt sem áður treysta menn á heimildir sagnaritara eins og Takítusar og telja þá nokkuð áreiðanlega. Ekki er mikið spurt um misskráningu við endurritun eða möguleg síðari tíma innskot og úrskot á textum vegna pólitískra áhrifa. Hér verður líka að hafa í huga að breyti menn texta við endurritun taka menn þá áhættu, að aðrir sem þekkja textann geti vottað rangfærslurnar og gert þær opinberar. Ronald Syme ályktar til að mynda að treysta megi nokkuð á áreiðanleika skrifa Takítusar (Sir Roland Syme, Tacitus: VolumeI-II, Oxford: Clarendon Press, 1958, volume I bls. 378, 387-388, volume II bls. 540-545, 552, 558). Sjá einnig viðtal við prófessor Daniel B. Wallace. Bendir hann á yfirburðar stöðu handrita Nýja testamentisins miðað við önnur forn rit (Justin Taylor, „An Interview with Daniel B. Wallace on the New Testament Manuscripts“, The Gospel Coalition, 22. mars 2012, sótt 9. febrúar 2019 af https://www.thegospelcoalition.org/blogs/justin-taylor/an-interview-with-daniel-b-wallace-on-the-new-testament-manuscripts/). 18 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 139-140.

Page 16: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

15

þessir handritafundir eru þannig vitnisburður um það hversu snemma var farið að skrá

niður frásöguna um líf, boðskap, dauða og upprisu Jesú Krists. Af því hvað textinn

breyttist lítið við endurritun má vel draga þá ályktun að á bak við endurritun hvers

handrits af bókum Nýja testamentisins hafi staðið samviskusamir, trúaðir einstaklingar

sem elskuðu þessar bækur og þráðu að koma boðskapnum heilum, upprunalegum og

réttum til skila.

1.3 Mótunarsaga og réttmæti rita Nýja testamentisins

Margir hafa dregið í efa réttmæti endanlegs vals tiltekinna rita inn í hið lokaða

regluritasafn kristinnar trúar sem í dag kallast Nýja testamenti. Fleiri handrit en þau sem

prýða Nýja testamentið og sem kenna sig við kristna trú hafa komið í ljós í

fornleifafundum síðustu aldar. Mætti nefna þau sem fundust við Nag Hammadi árið

1945, talin rituð allt frá 2. til 5. öld e.Kr.19 Handritin sjálf hafa verið aldursgreind frá miðri

4. öld e.Kr.20 Hvernig getum við þá vitað hvort í Nýja testamentið hafi valist þau rit sem

næst standa lífi og boðskap Jesú Krists?

1.3.1 Elstu tilvísanir í rit Nýja testamentisins sem helgirit kristins átrúnaðar

Dr. Clarence E. Glad guðfræðingur og heimspekingur, segir í bók sinni Átökin um textann

ýmsar heimildir bera því vitni að helstu rit Nýja testamentisins voru almennt viðurkennd

kristin rit á a.m.k. 2. öld e.Kr. en ritunartíma þeirra telja menn mun fyrr, út frá

vísbendingum innan ritanna og tilvísunum manna í þau. Þó eflaust megi reikna með að

fyrstu frásagnirnar af lífi, dauða og upprisu Jesú Krists hafi verið varðveittar í munnlegri

geymd telja margir sennilegt að sumt af efninu hafi verið skrásett snemma, þá mögulega

19 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 96-100. 20 Sjá nánar hvernig slík aldursgreining var fengin: „The Nag Hammadi texts were contained in 13 leather-bound volumes discovered by Egyptian farmers in 1945. Dated papyrus scraps used to strengthen the bindings of the books helped date the volumes to the mid-fourth century A.D.“ (Biblical Archaeology Society Staff, „The Nag Hammadi Codices and Gnostic Christianity: How the Nag Hammadi Texts discovered in Egypt reintroduced the world to Gnostic Christianity“, Bible History Daily: Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life, 10. desember 2018, sótt þann 11. janúar 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/post-biblical-period/the-nag-hammadi-codices/).

Page 17: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

16

um 50-70 e.Kr.21 En ekkert útilokar að það hafi verið fyrr samkvæmt Dr. Alan Millard

prófessor í hebreskum og fornsemitískum tungumálum. Hann bendir á að læsi hafi verið

algengara á tíma Jesú en áður var talið, eins og áletranir og handrit sem fundist hafa frá

svipuðum tíma sýni fram á.22

Af tilvísunum í rit Nýja testamentisins nefnir Clarence E. Glad Papías sem ritar um

130-140 e.Kr. og sagðist hafa dálæti á Matteusar-, Markúsar- og Jóhannesarguðspjalli

þrátt fyrir að meta hið „lifandi orð“ mikilvægara en hið ritaða.23 Er þetta einn

vitnisburður af mörgum um tilurð þessara rita frá a.m.k. 2. öld. Við lok 1. aldar var þegar

til safn bréfa Páls postula en sérfræðingar segja ritunartíma þeirra á bilinu 47-61 e.Kr. og

telja sumir að tímasetja megi guðspjöllin frá svipuðum tíma. En Klemens frá Róm sem

ritar um 95 e.Kr. hafði t.a.m. mætur á bréfum Páls.24 Nýjatestamentisfræðingurinn

Robert C. Tannehill bendir einnig á að til sé vitnisburður um tilurð bréfa Páls frá 1. öld

e.Kr. Páll postuli nefnir Lúkas lækni sem vann með honum og undir lok 2. aldar koma

fram rit sem segja þennan Lúkas vera höfund eins af guðspjöllunum.25 Tannehill segir

almennt talið að Lúkasarguðspjall og Postulasagan séu eftir sama höfund, en hinar svo

21 Clarence E. Glad, Átökin um textann: Nýja testamentið og upphaf kristni, Reykjavík: Grettisakademían og Háskólaútgáfan, 2004, bls. 21. 22 Alan Millard, „Reading and Writing In the Time of Jesus: There was much more writing in Palestine during the Gospel period than has been commonly allowed“, The Bible and Interpretation, 2000, sótt 20. mars 2018 af http://www.bibleinterp.com/articles/2000/Millard_Jesus.shtml. Prófessor Alan Millard sýnir fram á hvernig ýmislegt sem fundist hefur við fornleifauppgröft bendi til þess að margir hafi kunnað að lesa og skrifa á tíma Jesú. Áletranir á grafir ættingja og bréf almúgafólks frá 1. öld í m.a. Jerúsalem, Masada og Kúmran nefnir hann sem dæmi. Millard ritaði ítarlegri grein um þetta sama árið 2003. (Alan Millard, „Literacy in the Time of Jesus: Could His Words Have Been Recorded in His Lifetime?“, Biblical Archaeology Society: Online Archive 29:4/2003, sótt 10. júlí 2019 af https://web.archive.org/web/20070824082814/http://www.basarchive.org/sample/bswbBrowse.asp?PubID=BSBA&Volume=29&Issue=4&ArticleID=4). 23 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 21. Eins kannast Tatían (um 160 e. Kr.) við guðspjöllin fjögur en hann setti saman eitt guðspjall úr guðspjöllunum fjórum sem kallaðist Diatessaron. Sjá einnig á um sama á alfræðiorðabók Britannica. (Encyclopædia Britannica, „New Testament Canon, Texts, And Versions“, Encyclopædia Britannica, sótt 7. febrúar 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature/New-Testament-canon-texts-and-versions#ref598015). 24 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 21-22. Á ensku er nafnið Clement of Rome. 25 Robert C. Tannehill, Luke, USA: Abington Press, 1996, bls. 20-21. Eitt elsta handrit Lúkasarguðspjalls heitir Papyrus Bodmer XIV og er titill þess: Guðspjallið samkvæmt Lúkasi, sem vísar til Lúkasar sem höfundar. Í bréfum sínum (Fílm 24, Kól 4.14, 2Tím 4.11) talar Páll um Lúkas. Þau rit sem segja Lúkas höfund Guðspjallsins eru Muratorian Canon, Íreneus í Adversus Haereses 3.1, 1 og 3.14, 1 og svokallaðir And-Markíonískir formálar (e. Anti-Marcionie Prologues).

Page 18: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

17

kölluðu „við” frásagnir sem taka við í Postulasögunni 16.10, virðast benda til þess að

höfundurinn sjálfur hafi þar slegist í för með Páli.26 Margir virtir ritskýrendur telja

líklegast að læknirinn Lúkas hafi verið höfundur Postulasögunnar og Lúkasarguðspjalls

og að hann hafi fylgt Páli á ferðum hans, en þar með skoðast aldur ritanna út frá því að

hann hafi verið samtímamaður Páls.

Frá 2. öld e.Kr. má sjá að kristnir vitna oftar til kristinna rita og sér í lagi til kanónsku

guðspjallanna fjögurra. Clarence E. Glad telur líklegt að um miðja 2. öld aukist vægi

kristinna rita á kostnað munnlegra hefða. Virðist hið andgyðinglega rit Markíons frá því

um 135-140 e.Kr. hafa orðið til þess að ýta við þeirri þróun. Markíon bjó til stytta útgáfu

af Lúkasarguðspjalli þar sem hann gerði tilraun til þess að taka allt gyðinglegt efni út en

hafði tíu af bréfum Páls með í ritsafni sínu. Varð þetta til þess að kristnir söfnuðir tóku

að greina hvaða rit gætu talist sönn kristin helgirit, með áherslu á að hin gyðinglegu rit

mætti ekki undanskilja frá hinum kristnu. Til dæmis var Jústínus Píslarvottur (ritar um

150-160 e.Kr.) viss um að ákveðin rit hefðu stöðu helgirita og að Gamla testamentið væri

kristin bók. Hann talar um endurminningar postulanna og notar fyrstur orðið εὐαγγέλιον

(fagnaðarerindi, e. Good news, Gospel) í fleirtölu um þau rit sem fjölluðu um orð og

gerðir Jesú, píslarsögu og upprisu.27

Íreneus biskup í Lyon, Frakklandi (um 130-200 e.Kr.) sagði í riti sínu Adversus

Haereses (ritað um 170-180 e.Kr.) að guðspjöllin væru fjögur og á þar við Matteusar-,

Markúsar-, Lúkasar- og Jóhannesarguðspjall. Clarence bendir á að Íreneus hafi verið

26 Tannehill, Luke, bls. 21. Fleiri „við“ frásagnir koma í Post 20.5-15; 21.1-18; 27.1-28.16. Fitzmyer vill t.a.m. ekki útiloka að „við“ frásagnirnar í Postulasögunni bendi til þess að Lúkas læknir sé höfundur. (Joseph A. Fitzmyer, The Gospel According to Luke (I-IX), The Anchor Bible; v. 28-28A , Garden City, NY: Doubleday, 1981-1985, bls. 37-41). Marshall bætir við að engar aðrar tillögur um annan höfund fyrirfinnist innan hefðanna og líklegasta kenningin sé því sú að Lúkas sjálfur sé höfundur. (I. Howard Marshall, The Gospel of Luke; A Commentary on the Greek Text, Great Britain: The Paternoster Press, 1979, bls. 33-34). Þá hefur Cadbury bent á að skilyrðin fyrir því að rit fengu að komast inn í Kanón N.t. voru þau að postuli, eða einhver frá hinum postullegu tímum væri höfundur ritsins. Fitzmyer segist sammála Cadbury og J.M. Creed, sem bendir á að Lúkas sé ekki mikilvægasta persónan frá tímum postulanna, og ef Postulasagan og Lúkasarguðspjall voru ekki þegar á hans nafni, sé engin skýring til á því hví hefðin hefði átt að vilja bendla þau við hann. (Fitzmyer, The Gospel According to Luke (I-IX), bls. 41). 27 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 22-24. Sjá einnig ítarlega samantekt Glenn Davis á tilvísunum Jústínusar píslarvotts í ýmis ummæli guðspjallanna fjögurra. (Glenn Davis, „Justin Martyr, saint,“ The Development of the Canon of the New Testament, 1997-2010, Sótt 18. apríl 2018 af http://www.ntcanon.org/Justin_Martyr.shtml#Gospel_of_Matthew).

Page 19: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

18

fyrstur manna til að nota orðasamböndin Gamla og Nýja testamenti, þó ekki hafi virst

að fullu sannað hvernig Íreneus skyldi hugtakið Nýja testamenti.28 Dr. Stephen O. Stout,

Ph.D. í biblíulegri guðfræði, hefur listað þau rit Nýja testamentisins sem Íreneus vitnar

til í sínum skrifum og gefur þessi listi sterka vísbendingu um að Nýja testamenti Íreneusar

hafi ekki verið svo frábrugðið því sem við þekkjum.29 Stout segir að Íreneus hafi talið

Gamla testamentið með mikið vægi fyrir kristna og vera jafn áreiðanlegt og hin

postullegu rit.30 Íreneus talaði um Pál sem „postulann“ (Haer. 3.15) og vitnar í öll hin

þekktu bréf Páls nema Fílemons bréfið og gefur jafnvel í skyn að fleiri verk séu til eftir

hann. Hann ásakar Markíon um að hreinsa allt úr bréfum Páls sem varða Guð skaparann,

ásamt tilvísunum Páls til hinna spámannlegu rita. Íreneus telur Pál einnig höfund

Tímóteusar og Títusarbréfa og vísar einnig til Hebreabréfs, Jakobsbréfs og 1. og 2.

Pétursbréfs. Þá vísar hann til 1. og 2. Jóhannesarbréfs og segir Jóhannes postula höfund

þeirra. Loks vísar hann til Júdasarbréfs og Opinberunar Jóhannesar og taldi hana

augljóslega mikilvæga heimild. Stout segir þá staðreynd hversu oft hann vísi í hvert rit

gefa sterka vísbendingu um að hann hafi haft þau á rituðu formi í fórum sínum, nema

hann hafi getað lagt þau þetta vel á minnið. Það er hins vegar hæpið þar sem orðalagið

er nánast alltaf eins og í þeim texta sem þekktur er.31

28 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 24-25. 29 Stephen O. Stout, „Did Irenaeus use a New Testament Canon?“, Academia, Sótt 12. janúar 2019 af https://www.academia.edu/14270220/DID_IRENAEUS_USE_A_NEW_TESTAMENT_CANON, hér bls 9, 11-14. Stephen O. Stout vísar til ummæla Íreneusar í Haer. 3.5.1. Þar hvetur Íreneus kirkjuna til að halda sig við hina skriflegu sönnun sem gefin var af postulunum. Þeir hafi einnig ritað „guðapjallið“ sem innihaldi kenningarnar um Guð og bendi á að Drottinn Jesús Kristur sé sannleikurinn og að engin lygi sé í honum. Stouth segir Íreneus nefna orðasambandið „Nýja testamenti“ á fjórum stöðum í Haer. 4.15.2; 4.17.5; 4.28.2; 5.34.1. Í Haer. 3.11.8, segi Íreneus hið sanna guðspjall fjórfalt og útlisti af hverju aðeins sé þörf á þessum fjórum gupspjöllum. Í Haer 3.1.1. segi Íreneus guðspjöllin þekkt, þeim hafi verið safnað saman og verið talin hafa kennivald af kirkjunni á hans tíma sem postullegur vitnisburður um líf Drottins Jesú. 30 Stephen O. Stout, „Did Irenaeus use a New Testament Canon?“, hér bls. 11-12. Stephen O. Stouth bendir t.d. á Haer. 3.21.2. Íreneus vísar til grísku sjötíumanna þýðingarinnar Septuaginta eða LXX. 31 Stephen O. Stout, „Did Irenaeus use a New Testament Canon?“, hér bls 19-26. Í riti sínu listar Stouth Ítarlega öll þau skipti sem Íreneus vísar til hvers af bréfum Páls. Stouth segir ástæðu þess að Íreneus vísaði í öll rit Nýja testamentisins þá, að hann vildi sýna fram á tengsl Gamla testamentisins við Jesú og undirstrika að það sé aðeins einn Guð sem sé faðir Drottins Jesú Krists. En einnig til að styðja við guðdóm sonarins sem sé „Orðið“ er skapaði alla hluti og til að útskýra mennsku Jesú.

Page 20: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

19

Stephen O. Stout segir að horft hafi verið framhjá vægi Íreneusar við rannsóknir á

mótunarsögu Nýja testamentisins en upptalning á tilvísunum Íreneusar í rit Nýja

testamentisins sýni að hann hafi notast við nánast allan hinn endanlega kanón (gr.

kanon, κανών ) Nýja testamentisins. Virtist Nýja testamentið þannig hafa verið almennt

viðurkennt af hans kirkju á miðri 2. öld en Íreneus fullyrti að svo væri. Íreneus telur auk

þess guðspjöllin upp í þeirri röð sem þekkist í Nýja testamenti dagsins í dag. Stout segir

þetta fella allar fyrri kenningar um að það hafi verið út frá skrifum Íreneusar gegn

Markíoni sem menn hafi loks tekið til við að safna saman helgum kristnum ritum í kanón

Nýja testamentisins. Röksemdir Íreneusar gegn Markíon bendi aftur sterklega til þess að

þegar hafi verið til viðurkenndur kanón hinna postullegu rita innan kirkjunnar.32

Þá er einnig til handrit frá því um 180 e.Kr., Ritskrá Múratórís (e. Muratorian Canon),

með lista yfir hvaða bækur höfðu verið notaðar í kristnum guðsþjónustum. Á listanum

eru 22 af bókum Nýja testamentisins. Auk guðspjallanna fjögurra, Postulasögunnar og

13 Pálsbréfa hafði listinn tvö bréf Jóhannesar, Júdasarbréf og Opinberun Jóhannesar.33

Clarence E. Glad bætir við að Tertúllíanus (um 160-225 e.Kr.) gerði einnig ráð fyrir

tilurð Gamla og Nýja testamentis. Hann staðfesti að fjögur guðspjöll væru í notkun og

nefnir sem postulleg rit 13 bréf Páls, Postulasöguna, Opinberun Jóhannesar,

1. Jóhannesarbréf, 1. Pétursbréf og Júdasarbréf. Klemens frá Alexandríu (ritar um

32 Stephen O. Stout, „Did Irenaeus use a New Testament Canon?“, hér bls. 27-34. Stout bætir við að Tertúllíanus segi Markíon hafi ritað sína útgáfu af guðspjalli um 142 e.Kr. en samtímamaður hans Jústínus píslarvottur er fyrstur til að andmæla honum skriflega í riti sínu Apology. Spurningin sé því sú hvort Íreneus geri ráð fyrir að fyrir tíma Markíons hafi verið til Nýja testamentis kanón sem Markíon hafi breytt eða hvort menn hafi ekki haft slíkt samantekið. Kanón (gr. κανών) er gríska orðið sem notað var um rit Nýja testamentisins allt fram á 4. öld e.Kr. κανών þýðir „regla“ eða „mælistika.“ (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 17). 33 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 43. Sjá nánar um Ritskrá Múratórís (e. Muratorian Canon) á orðabók Britannica: „The first clear witness to a catalog of authoritative New Testament writings… Greek list written in Rome c. 170–180… Though the first lines are lost, Luke is referred to as “the third book of the Gospel,” and the canon thus contains [Matthew, Mark] Luke, John, Acts, 13 Pauline letters, Jude, two letters of John, and Revelation. Concerning the Apocalypse of Peter, it notes that it may be read, although some persons object; it rejects the Shepherd of Hermas as having been written only recently in Rome and lacking connection with the apostolic age. The Wisdom of Solomon (a Jewish intertestamental writing), is included in the accepted works as written in Solomon’s honour.“ (Encyclopædia Britannica, „New Testament Canon, Texts, And Versions“, Encyclopædia Britannica, sótt 7. febrúar 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature/New-Testament-canon-texts-and-versions#ref598015).

Page 21: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

20

210 e.Kr.) viðurkenndi áreiðanleika guðspjallanna fjögurra sérstaklega, en þekkti einnig

Hebreaguðspjall og Egyptaguðspjall. Hann nefnir 14 bréf Páls, Postulasöguna og

Opinberun Jóhannesar sem mikilvæg rit Nýja testamentisins. Eins nefnir Orígenes frá

Alexandríu (um 185-254 e.Kr.) Gamla og Nýja testamentið.34 Hann nefnir flest af ritum

Gamla testamentis og þekkir vel guðspjöllin fjögur. Orígenes þekkir til og viðurkennir

einhver bréf Páls, Péturs, Jakobs, Júdasar og Jóhannesar en einnig Postulasöguna og

Opinberunarbókina. Hann nefndi Tómasarguðspjall með þeim ritum sem ekki voru

viðurkennd af kirkjunni og sagði kirkjuna aðeins viðurkenna fjögur guðspjöll.35

Allt frá 2. öld e.Kr. voru þannig þegar 20 rit Nýja testamentisins almennt þekkt og

notuð meðal kristinna safnaða. Sagrusten segir þar með ekki hægt að tala um pólitískan

þrýsting frá keisaranum á 4. öld e.Kr. við val á helstu ritum hins kristna regluritasafns

Nýja testamentisins. Þessi 20 rit voru guðspjöllin fjögur, Postulasagan, 13 Pálsbréf,

1. Pétusbréf og 1. Jóhannesarbréf.36 Clarence E. Glad telur það reyndar líklegt að flestar

kirkjur á ofanverðri 2. öld hafi verið sammála um þann ritningarkjarna sem Íreneus

tilgreindi.37 Þessir listar ásamt fyrrnefndri aldursgreiningu handrita sýna okkur hversu

langt er hægt að teygja sig í átt til uppruna frásagnanna með aðstoð fornleifafræði og

heimildum frá fyrstu öldum kristni. Þó má enn deila um höfunda og áætlaðan

ritunartíma hins upprunalega texta rita Nýja testamentisins.

34 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 28-29. Klemens taldi einnig Opinberun Péturs, Boðun Péturs, Barnabasarbréf, 1. Klemensarbréf, Tólfpostulakenninguna og Hirði Hermasar vera postulleg rit. 35 Eusebius, Hist. Eccl. 6.23-36 (Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. 199-207). Orígenes tilgreinir ekki hvaða bréf Páls en segir Pál ekki hafa ritað bréf til allra safnaðanna í kringum Miðjarðarhafið. Þau bréf sem hann taldi ekki almennt viðurkennd af öllum Kristnum voru Hebreabréfið, 2. Pétursbréf, 2. og 3. bréf Jóhannesar. Sjá nánar (Henry Chadwick, „Origen, Christian Theologian,“ Encyclopædia Britannica, sótt 12. febrúar 2019 af https://www.britannica.com/biography/Origen). 36 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 43-44, 66-68. Sagrusten fjallar nánar um rökleysu samsæriskenningar þeirrar er liggur að baki bókar Dans Brown „Da Vinci lykillinn“, sem hélt því fram að Tómasarguðspjall, Filippusarguðspjall og Guðspjall Maríu Magdalenu hafi upphaflega átt að vera í Nýja testamentinu (bls. 66-68). Clarence E. Glad fjallar einnig um upptalningu kirkjufeðranna á viðurkenndum kristnum ritum og að kenningar bókar Dans Browns geti ekki staðist (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 23-30, 131-135). 37 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 29.

Page 22: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

21

1.3.2 Guðspjöllin fjögur: Hefðin um uppruna

Vinsælar eru kenningar fræðimanna er varða uppruna, aldur og rétta höfunda

guðspjallanna er byggja aðallega á textarannsóknum. Ýmsir biblíurannsakendur hafa

með slíkri textarýni tekið að draga í efa fyrri hefðir um uppruna og aldur guðspjallanna

en komast þó að ólíkum niðurstöðum. I. Howard Marshall, prófessor í nýja-

testamentisfræðum, er til að mynda ekki sammála algengri aldursgreiningu

Lúkasarguðspjalls frá því um 80 e.Kr. eða nokkru eftir fall Jerúsalem um 70 e.Kr. Hann

telur guðspjallið eldra, því að ósennilega myndi Lúkas sleppa því að fjalla nánar um liðinn

atburð af þessari stærðargráðu. Hann kannast þó við rökin fyrir aldursgreiningu ritsins

eftir fall Jerúsalem, þess efnis að Lúkasarguðspjall vísi til orða Jesú þar sem Jesús virðist

spá fyrir um fall Jerúsalem. Marshall er aftur opinn fyrir því að Jesús kunni einfaldlega að

hafa spáð fyrir um fall Jerúsalem. Hann segir afar ólíklegt að höfundur Lúkasarguðspjalls

og Postulasögunnar (Hér eftir: Lúk-Post) hefði ekki klárað sögu sína af ævi og starfi Páls

og sagt frá dauða hans í Postulasögunni, hafi Lúkas ritað eftir andlát Páls.38 Eldri

dagsetning á Lúk-Post ætti ekki nauðsynlega að gera kröfu um spámannlegri andagift

Jesú um fall Jerúsalem. Nóg væri að reikna með innsæi Jesú inn í pólitík og þjóðmál síns

tíma. Þannig ætti í raun að vera óþarfi að nota texta með spádómi Jesú um fall Jerúsalem

sem takmörk fyrir aldursgreiningu rita guðspjallanna.

Joseph A. Fitzmyer, prófessor í biblíufræðum, bendir aftur á að í inngangi sínum segist

Lúkas sækja til annarra heimilda eða sjónarvotta og líklega sé Markúsarguðspjall ein af

þessum heimildum. Fitzmyer telur að Markúsarguðspjall hafi verið ritað um 65-70 e.Kr.

og Lúkasarguðspjall þar með ritað síðar. Í inngangi Postulasögunnar talar Lúkas um fyrri

skrif sín og á líklega við Lúkasarguðspjall sem sé þá ritað á undan Postulasögunni.

Postulasagan endi þó snubbótt með handtöku Páls um 61-63 e.Kr. og sumir því ályktað

að Lúk-Post hafi verið rituð áður en Páll lést. Það skýri aftur ekki hvernig Lúkas gat talað

um margar aðrar frásögur af ævi Jesú, né frásagnirnar í Lúkasarguðspjalli 13.35, 21.5,

38 Marshall, The Gospel of Luke, bls. 34-35. Sjá Páll lést um 62-64 e.Kr. (E.P.Sanders „Saint Paul, the Apostle,“ Encyclopædia Britannica, 29.12.2011, Sótt 23. apríl 2018 af https://www.britannica.com/ biography/Saint-Paul-the-Apostle). Fræðimenn eru almennt sammála um að Lúkas hafi ritað bæði Lúkasarguðspjall og Postulasöguna þar á eftir, enda bendir inngangur beggja ritanna til þess.

Page 23: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

22

21.20 sem segja mun ítarlegar frá eyðingu Jerúsalem og musterisins en

Markúsarguðspjall 13.2, 13.14. Höfundur Markúsarguðspjalls gæti hafa verið að vísa til

Daníelsbókar 12.11 eða 9.27 en Lúkas virðist stílfæra sína útgáfu nánar með eyðingu

Jerúsalem í huga. Fitzmyer telur því, eins og margir aðrir ritskýrendur, að

Lúkasarguðspjall sé ritað 80-85 e.Kr. en bendir jafnframt á rök þeirra sem vilja tímasetja

guðspjallið fyrr.39 Er þetta aðeins dæmi um þær ólíku niðurstöður sem menn komast að

varðandi aldur guðspjallanna.

Í slíkum textarannsóknum er almennt reynt að sniðganga eldri frásögur

kirkjusagnfræðinga um uppruna þessara rita. Þá virðist ríkja einskonar tortryggni í garð

heimildarmanna eins og Evsebíosar, mögulega byggð á fordómum sökum þátttöku hans

í kirkjupólitískum illdeilum síns tíma. Prófessor Andrew Louth ályktar að telja megi

kirkjusögu Evsebíosar nokkuð áreiðanlega heimild að því leytinu til, að ólíkt öðrum

sagnariturum vísar Evsebíos mikið í aðrar eldri heimildir og er lítið að skreyta frásögu

atburðanna eða bæta við sjálfur. Evsebíos rekur vígsluröð biskupa allt aftur til

postulanna og vitnar í eldri sagnaritara eins og Hegesippus og Íreneus, en Íreneus vitnar

einnig í Hegesippus. Þannig sér Louth samræmi í tilvísunum Evsebíosar við tilvísanir

annarra höfunda á fyrstu öldum kirkjunnar. Þó Evsebíos riti kirkjusagnfræði sína um það

leyti sem Konstantínus kemst til valda (síðasta útgáfan kom út um áratug síðar eða 324-

325 e.Kr.) telur Louth lítið bera á áhrifum frá „konstantínskri guðfræði“ Evsebíosar í

39 Joseph A. Fitzmyer, The Gospel According to Luke (I-IX), The Anchor Bible; v. 28-28A , Garden City, NY: Doubleday, 1981-1985, bls. 53-57. Hann nefnir þó nokkur rök með eldri tímasetningu. Robinson hafi t.d. viljað tímasetja Lúk 57-60 e.Kr. því hvergi sé minnst beint á fall Jerúsalem í Nýja testamentinu og því hljóti öll ritin að vera eldri en 70.e.Kr. Hann bendir á að Jesús gat allt eins hafa spáð fyrir um eyðingu Jerúsalem eins og annar Jesús sonur Ananiasar gerði 62 e.Kr., samkvæmt Jósefusi sagnaritara Gyðinga frá 1.öld e.Kr. Robinson taldi Lúkas ekki sækja í Markúsarguðspjall heldur að bæði ritin sæki í sameiginlegt efni frá mismunandi samfélögum, Eins ef vitað hefði verið hver útkoman af réttarhöldum Páls varð, hefði Lúkas sagt frá því. Fitzmyer bendir aftur á að þegar eyðing Jerúsalem átti sér stað hafi hin kristnu samfélög verið farin frá Palestínu og kristnir þegar farnir af stað með boðun fagnaðarerindisins í kringum Miðjarðarhafið. Það gæti skýrt hví Lúkas kunni að hafa sleppt að minnast á þessa atburði. Auk þess sé augljóst af ýmsum ritningarstöðum að Lúkasarguðspjall sæki í Markúsarguðspjall t.d. í tengslum við fall Jerúsalem. Þá sé möguleiki að Postulasagan endi svona snautlega vegna þess að Lúkas hafi á þeim tima ritað það sem honum fannst duga til að miðla því sem hann vildi miðla varðandi Krists-viðburðina.

Page 24: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

23

Kirkjusagnfræði hans.40 Það má því allt eins reikna með að frásögn Evsebíosar um það

hverjir höfundar guðspjallanna voru, byggi á áreiðanlegum heimildum.

Íreneus og Evsebíos vísa í rit eldri kirkjufeðra eins og rit Papíasar biskups í Hierapolis

(70-155 e.Kr.) og virðast út frá sínum heimildum sannfærðir um hverjir séu hinir réttu

höfundar guðspjallanna. Íreneus og Evsebíos votta að Papías hafi verið vinur

Pólýkarposar (e. Polycarp) og Jóhannesar postula auk annarra er umgengust og þekktu

Drottin. Evsebíos vísar í rit Papíasar sem heimild fyrir því hverjir séu höfundar Matteusar-

og Markúsarguðspjalls. Markús hafi verið túlkur Péturs postula og hafi ritað orð hans

eftir minni.41 Þannig virðist Papías hafa þekkt a.m.k. þessi tvö guðspjöll og mögulega hin

tvö líka. Evsebíos segir að af öllum postulunum hafi einungis tveir þeirra ritað minningar

um störf Drottins, þeir Matteus og Jóhannes. Matteus hafi ritað guðspjallið sitt út af

nauðsyn. Hann þurfti að fara og boða á nýjum slóðum og vildi því skilja eitthvað eftir

handa þeim hebreskumælandi fylgjendum Krists sem hann varð að yfirgefa. Þegar

Markús og Lúkas höfðu síðan báðir ritað sín guðspjöll og guðspjöllin þrjú þegar komin í

almenna notkun innan hinna kristnu safnaðanna, hafi Jóhannes postuli tekið til við að

skrifa sína útgáfu. Jóhannes staðfesti réttmæti guðspjallanna þriggja en sagði vanta í þau

frásagnir af því sem Jesús gerði í upphafi starfstíma síns og frá tímabilum sem hinir

40 Eusebius Pamphilius, The History of the Church, Penguin Books, bls. xii, xx-xxi. Valesius á 16. öld taldi að kirkjusaga Evsebíosar hefði verið rituð fyrir tíma kirkjuþingsins í Níkeu (325 e.Kr.), en líklega þó ekki alveg full kláruð fyrr en einhverjum árum síðar. (Eusebius Pamphilius, Eusebius‘ Ecclesiastical History: Complete and Unabridged, Þýð. C.F. Cruse, Massachusetts: Hendrickson publishers, Inc., 1998, bls. xxxv, xlii). Sjá einnig vefútgáfu af Kirkjusögu Evsebíosar á Christian Classics Ethereal Library. (Eusebius Pamphilius: Church History, Life of Constantine, Oration in Praise of Constantine, by Philip Schaff, „Christian Classics Ethereal Library; Bringing Christian Classic books to life, sótt 21. júlí 2018 af https://www.ccel.org/ccel/schaff/npnf201.iii.iii.iii.iv.html). 41 Philip Schaff (1819-1893), „ANF01. The Apostolic Fathers with Justin Martyr and Irenaeus“, Christian Classics Ethereal Library, sótt 23. apríl 2018 af http://www.documentacatholicaomnia.eu/03d/1819-1893,_Schaff._Philip,_1_Vol_01_The_Apostolic_Fathers,_EN.pdf. bls. 204-208. Sjá hér tilvísun Evsebíosar í orð Papíasar á bls. 208: „…a tradition regarding Mark who wrote the Gospel, which he [Papias] has given in the 155 following words]: And the presbyter said this. Mark having become the interpreter of Peter, wrote down accurately whatsoever he remembered. It was not, however, in exact order that he related the sayings or deeds of Christ. For he neither heard the Lord nor accompanied Him. But afterwards, as I said, he accompanied Peter, who accommodated his instructions to the necessities [of his hearers], but with no intention of giving a regular narrative of the Lord’s sayings… For of one thing he took especial care, not to omit anything he had heard, and not to put anything fictitious into the statements. [This is what is related by Papias regarding Mark; but with regard to Matthew he has made the following statements]: Matthew put together the oracles [of the Lord] in the Hebrew language, and each one interpreted them as best he could.“

Page 25: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

24

guðspjallamennirnir hlupu yfir. Þess vegna bætti hann við sínu guðspjalli.42 Þá segir

Evsebíos Lúkasarguðspjall ritað af Lúkasi lækni sem fylgdi Páli postula á

kristniboðsferðum hans. Hann hafi einnig ritað Postulasöguna.43

En margir virðast skoða kirkjusögu Evsebíosar af nokkurri tortryggni. Mögulega vegna

þess að hann virtist á tímabili hallur undir arianisma, eða vegna aðdáunnar hans á

Konstantínusi keisara.44 Henricus Valesius ritaði umfjöllun um Evsebíos með útgáfu sinni

á kirkjusögu hans á 16. öld. Þar telur hann að hið slæma orðspor sé að miklu leyti

heilögum Híerónýmusi (e. St. Jerome) um að kenna sem hafi stimplað Evsebíos sem

villutrúarmann.45

Ef til vill urðu textarannsóknir einfaldlega vinsælli leið til að rannsaka uppruna texta

í viðleitni til þess að finna svör óháð fyrri hefðum. Þar með áttu ýmsir fræðimenn það til

að sniðganga að öllu leyti eldri heimildir í þeirri trú að textarannsóknirnar einar gætu

fært manni öll svör um uppruna rita Nýja testamentisins. Þannig urðu til ýmsar

heimildarkenningar þar sem sum rit eins og Markúsarguðspjall voru talin liggja öðrum til

grundvallar.46 Þó er vel hægt að skýra skyldleika og ólíkt innihald guðspjallanna fjögurra,

42 Eusebius, Hist. Eccl. 3.23-24 (Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. 83-88). Evsebíos segir þá báða kirkjufeðurna Klemens frá Alexandríu og Íreneus votta að Jóhannes postuli hafi lifað lengi í Asíu og leitt kirkjurnar þar. Hann bjó í Efesus allt fram á tíma Trajans keisara. Trajan ríkti 98-117 e.Kr. (Mason Hammond, „Trajan“, Encyclopædia Britannica, 2. apríl 2018, sótt 23. apríl 2018 af https://www. britannica.com/biography/Trajan). 43 Eusebius, Hist. Eccl. 2.22 og 3.4 (Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. 57, 67). 44 Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. xi. Evsebíos var því dæmdur fyrir aríanska villutrú á kirkjuþinginu í Antíokkíu snemma árið 325 e.Kr en kom síðan út af kirkjuþinginu í Níkeu sem einn af hinum rétttrúuðu er fordæmdu Aríus. Á sama þingi hitti hann Konstantínus keisara sem heillaði Evsebíos það mikið, að í riti sínu „Life“ þykir Louth skjall Evsebíosar í garð keisarans fara fram úr góðu hófi. 45Eusebius Pamphilius, Eusebius‘ Ecclesiastical History: Complete and Unabridged, Þýð. C.F. Cruse, Massachusetts: Hendrickson publishers, Inc., 1998, bls. xxxvi-xxxvii, xliii-xlv. Valesius segir að þótt Evsebíos hafi í fyrstu ekki viljað samþykkja að nota „consubstantial“(gr. homoousios, ὁμοούσιος) eða „af sama eðli og Faðirinn“, um Jesú í trúarjátningunni, hafi hann þó trúað á fortilvist Sonarins ólíkt Aríusi. Seinna ritaði Evsebíos bréf þar sem hann sagðist hafa tekið við þeirri trú sem Níkeuþingið hafði gert opinbera. Valesius segir heilagan Híerónýmus (e. St. Jerome) ekki hafa látið það duga að kalla Evsebios villutrúarmann og aríanískan, heldur titlað hann oft sem helsta fulltrúa (e. ringleader of) aríanismans. Samt hafi Evsebíos fordæmt aríanískar kenningar eftir kirkjuþingið í Níkeu. Í bók sinni sem hann ritaði löngu eftir kirkjuþingið í Níkeu, De Ecclesiastica Theologia, fordæmdi hann aftur aríanískar kenningar. 46 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 39-40, 44-46. Fræðimenn reikna þannig með að ræðuheimildin Q hafi skilað sér inn í Lúkasar- og Matteusargupspjall Er almennt talið að Markúsarguðspjall sé elst guðspjallanna og liggi hinum til grundvallar. Kemur það fram í

Page 26: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

25

með fyrrnefndum söguskýringum Evsebíosar og hans forvera á því hverjir rituðu

guðspjöllin og hvers vegna. Sameiginleg heimild Matteusar og Markúsar komi þannig úr

minningu Matteusar postula um atburðina annars vegar en munnlegri geymd Markúsar

frá Pétri postula hins vegar, fremur en annarri eldri sameiginlegri heimild (oftast kölluð

Q) sem höfundar guðspjallanna hafi nýtt sér. Nema hægt sé tala um Q heimild sem

sameiginlegar minningar postulanna um Jesú.

1.3.3 Kirkjufeðurnir og baráttan við villutrú

Fjöldi annarra fornra rita sem kenna sig við Krist og kristna trú hafa fundist í merkum

fornleifafundum á 19. og 20. öld. Því hefur vaknað sú spurning hvort þau rit sem völdust

inn í Nýja testamentið hafi í raun verið einu réttu og upprunalegustu heimildirnar um

Krist.

Við Nag Hammadi fannst til að mynda handrit Tómasarguðspjalls í fullri lengd,

aldursgreint frá um 350 e.Kr. Clarence E. Glad bendir á að fræðimenn hafi ekki getað

staðfest að það komi frá Tómasi postula Jesú, en þó hafi ýmsir engu að síður viljað sjá

það fá sama sess og guðspjöllin fjögur. Seinna kom í ljós að handritabrot á grísku sem

fundust við upphaf 20. aldar við Oxyrhynchi, annarsvegar P. Oxy. I (frá um 200 e.Kr), og

hins vegar P. Oxy 654 og P. Oxy 655 (frá 3. öld e.Kr) voru einnig úr Tómasarguðspjalli.

Það er þó munur á orðalagi grísku handritanna og hins koptíska handrits sem fannst við

Nag Hammadí. Það er talin vera vísbending um að fleiri en ein handritahefð hafi verið til

af Tómasarguðspjalli. Það Tómasarguðspjall sem fannst við Nag Hammadí hefur að

„tveggjaheimildar tilgátunni“ að Markúsarguðspjall sé talið elst og höfundar Matteusar- og Lúkasarguðspjalls hafi sótt í það. Síðan hafi Matteusar- og Lúkasarguðspjall sótt í annað sameiginlegt efni sem ekki sé að finna í Markúsarguðspjalli, þ.e. Q-heimild (án þess að slíkt handrit hafi fundist). Einnig sé að finna sér efni í Matteusar- og Lúkasarguðspjalli (M og L). Fleiri tilgátur eru til sem flestar ganga út frá að eitt guðspjall nýti sér efni annars. Fitzmyer kemur þó með góð rök fyrir heimildakenningunni í tengslum við Lúkasarguðspjall. Lúkasarguðspjall sæki í Markúsarguðspjall, Q og L heimildir því að um 55 prósent af efni Lúkasarguðspjalls sé einnig í Markúsarguðspjalli og röð atburða í Lúkasarguðspjalli fylgi Markúsarguðspjalli eftir á meðan Q efni birtist ekki á sama stað hjá báðum. Þá sjáist að Markúsarguðspjall sé eldri heimild út frá ýtarlegri og nákvæmari frásögn, grófari stíl og varðveislu arameískra orða. Einnig sé mikið af samskonar ummælum í Matteusar- og Lúkasarguðspjalli á mismunandi stöðum og endurtekningum sem menn skýra sem Q-heimild. Fitzmyer telur síðan að sérefni Lúkasar (L) vera mest megnis munnlega hefð (Joseph A. Fitzmyer, S.J. The Gospel According to Luke (I-IX), bls. 66-67, 75-83, 87-88).

Page 27: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

26

geyma 114 ummæli sem eignuð eru Jesú. Sum þeirra líkjast orðum hans úr kanónsku

guðspjöllunum fjórum, sum virðast nánari útfærsla á þeim en síðan eru önnur sem eiga

sér ekki hliðstæðu í þeim eins og t.d. ummæli 98. Þar er ríki föðurins líkt við mann sem

ráða vildi tignarmanni bana. Ekki hefur fundist nein staðfesting á því að texti

Tómasarguðspjalls sé eldri en texti guðspjallanna eða liggi hinum guðspjöllunum til

grundvallar þó sumir fræðimenn aðhyllist þá tillögu. Enda er önnur tímaröð á

ummælunum og því líklega um aðskilda heimild að ræða, mögulega úr munnlegri geymd.

Auk þess sýnir munur á orðavali og uppsetningu grísku útgáfunnar (frá um 200 e.Kr) og

koptísku (frá 4. öld e.Kr.) að ólíklega er um fastmótaðan texta að ræða. Þá greina menn

„gnostískar“ trúaráherslur í Nag Hammadí útgáfunni. Fyrstu tilvitnanir í heiti

guðspjallsins eru auk þess aðeins frá 3. og 4. öld e.Kr.47 Það að helstu fulltrúar hinnar

kristnu trúar völdu að hafa ekki Tómasarguðspjall, eða önnur rit kennd við einhverja af

postulunum, með í hinu kristna regluritasafni Nýja testamentinu, bendir til þess að það

hafi almennt séð ekki verið þekkt eða talið fela í sér boðskap og ummæli Jesú sjálfs.

Ekki er því ólíklegt að sú útgáfa Tómasarguðspjalls sem fulltrúar kirkjunnar þekktu á

fyrstu öldum hennar, hafi verið ólík þeirri sem fannst við Nag Hammadí. Þau rit sem

fundust við Nag Hammadí bera mörg með sér hin „gnostísku“ einkenni að boðskapur

Jesú sé aðeins fyrir fáa innvígða lærisveina í leynilegum félagsskap, sem með hjálp

þekkingar (gr. γνῶσις eða gnosis) eiga að frelsast frá jarðnesku og efnislegu lífi.48 Þá hafa

margir fræðimenn séð í „gnostisma“ skyldleika við ýmsar heimspekikenningar,

47 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 51-56. Nefnir Glad sem dæmi um gnostísk áhrif ummæli 1,

114, 18, 29, 50 og 80. í ummælum 52 sé augljóst að talan 24 gegni lykilhlutverki. Þá leggur ritið mikla

áherslu á orð Jesú sem tæki til sjálfsvitundar og þekkingar (gr. gnosis) á Guði. Síðan eiga m.a. ummæli

42, 81, 82, 97 og 98 sér ekki hliðstæðu í kanónsku guðspjöllunum fjórum. Sjá nánar umæli 98: „Jesus

says: (1) “The kingdom of the Father is like a person who wanted to kill a powerful person. (2) He drew

the sword in his house (and) stabbed it into the wall to test whether his hand would be strong

(enough).(3) Then he killed the powerful one.”“ (Biblical Archaeology Society Staff, „The Gospel of

Thomas‘s 114 Sayings of Jesus“, Bible History Daily: Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient

World to Life, 30. september 2018, sótt 11. febrúar 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/

biblical-topics/bible-versions-and-translations/the-gospel-of-thomas-114-sayings-of-jesus/). 48 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls.100. Trúarhreyfing gnosta er kölluð „gnostismi“ og stundum „guðvísistefna“ (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 78-79).

Page 28: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

27

hindúisma og búddisma.49 Kirkjufeðurnir sem rituðu um þessa gnostísku hópa virtust

sannfærðir um að þarna færi villutrú eða boðskapur sem samræmdist ekki þeirra

skilningi á því hvað kristin trú var.50 Fyrir þeim varð boðskapurinn að endurspegla þann

Jesú Krist sem guðspjöllin fjögur segja frá.

Jón Ma. Ásgeirsson prófessor í nýjatestamentisfræðum var meðal þeirra fræðimanna

er töldu Tómasarguðspjall birta eina elstu varðveittu heimild um kristna trú og að það

geymi eitt elsta safn ummæla Jesú.51 Hann hélt því eins fram að Tómasarguðspjallinu

hefði aðeins verið úthýst af kennimönnum kirkjunnar undir lok fornaldar þar sem þeir

trúarflokkar sem aðhylltust það hafi strítt á móti vaxandi veldi rómverskrar og grískrar

kirkjustjórnar.52 Þær heimildir sem þegar hafa komið fram tel ég engan veginn geta

rökstutt slíkar kenningar. Má þá helst minna á hvernig sum ummæla Tómasarguðspjalls

virðast í andstöðu við kærleiksboð Krists eins og guðspjöllin fjögur birta okkur þau.

Ákveðin rit voru almennt viðurkennd af kirkjunum í kringum Miðjarðarhafið sem

kjarnaboðskapur kristinnar trúar löngu fyrir tíma mögulegra afskipta ríkis og keisara (Sjá

kafla 1.3.1).

49 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, New York: Vintage Books; A Division of Random House, Inc., 1989, bls. 23-24. Einar Sigurbjörnsson orðaði það svo: „í héruðunum frá Dauðahafinu og norður, Samaríu og Galíleu, mættust heimar egypskrar, austrænnar og grískrar heimspeki og trúar…“ (Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar: Saga og mótun kristinna trúarjátninga og yfirlit yfir helstu kirkjudeildir kristninnar: Játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar með skýringum, Reykjavík: Útgáfan Skálholt, 1991, bls. 45). 50 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 77. Í guðspjöllum Nýja testamentisins er að finna kristniboðsskipun Jesú, sem bauð lærisveinum sínum að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum (Matt. 28.19-20). Það boð virðist ekki hafa legið til grundvallar boðskap hinna gnostísku hópa sem virtust líta á sig sem hina fáu útvöldu. 51 Jón Ma. Ásgeirsson, Tómasarguðspjall, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2001, bls. 15-17, 24-26, 30, 33, 38, 45-47. Jón Ma. segir í inngangi sínum að Tómasarguðspjall birti okkur tilurðarsögu helstu rita Nýja testamentisins og gerir þar fastlega ráð fyrir tengslum þess við Q heimild, sem byggir á kenningunni um að ummæli Jesú í Nýja testamentinu eigi sér eldri heimild utan guðspjallanna sem kölluð hefur verið Q. Hann taldi handritabrotin af Tómasarguðspjalli frá Oxyrhynchus staðfesta það. Hann fullyrðir eins að dæmisögur Tómasarguðspjalls séu upprunalegri en skyldar dæmisögur Nýja testamentisins og sum ummælaTómasarguðspjalls séu jafnvel heimildin að baki einhverra ummæla Jesú í Nýja testamentinu. 52 Jón Ma. Ásgeirsson, Tómasarguðspjall, bls. 19, 42-44. Hann fullyrðir í inngangi sínum að saga og aukin völd ákveðinna afla ýmissa kirkjudeilda hafi gert þau rit að sinni reglu er stutt gátu þeirra eigin túlkun á veruleika og hlutverki kristindómsins. Saga mótunar Nýja testamentisins allt fram til kirkjuþingsins í Róm 382 e.Kr. endurspegli fyrst og fremst hagsmuni einstakra deilda kristinnar kirkju. Frá kirkjuþinginu í Róm hafi auk þess fyrst orðið þekkt öll þau rit sem nú eru í Nýja testamentinu.

Page 29: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

28

Hin ólíku rit sem fundist hafa við fornleifauppgröft og kennd voru við Krist en voru

ekki valin inn í kanón eða regluritasafn kristinnar trúar, Nýja testamentið, sýna þannig

mörg hver mynd af Jesú sem er frábrugðin þeirri sem við þekkjum úr Nýja testamentinu.

Sum ritin sýna mjög mannlegan Jesú. Hinir kristnu trúvarnarmenn á 2. og 3. öld e.Kr.

báru þess vitni að upp komu trúarhreyfingar sem mistúlkuðu að þeirra mati hina kristnu

kenningu og virtust blanda heimspeki og öðrum trúarbrögðum inn í hina upphaflegu

kristnu boðun. Það er því staðreynd að til voru „villutrúarhreyfingar“ að mati helstu

forsvarsmanna kirkjunnar á fyrstu öldunum eftir Kristsburð. Clarence E. Glad bendir á

nokkra kirkjufeður sem fjalla um þessa hópa. Klemens frá Alexandríu (um 210 e.Kr.)

nefnir t.a.m. fylgjendur Basilídesar, Valentínusar og Markíons. Þeir hafi allir verið uppi

allnokkru eftir daga upphafsmanna kristninnar og trúaráherslur þeirra sagði Klemens

seinni tíma viðbót við hina réttu kristnu boðun. Klemens talar einnig um hópa

„klofningssinna“ (gr. hereseis) sem hann segir að hafi klofið sig frá hinni réttu kristnu

boðun. Íreneus talaði um „gnosta“ (gr. gnostikos) er hann fjallaði um þá hópa sem lögðu

áherslu á þekkingu (gr. gnosis) til frelsunar sálarinnar.53

Clarence E. Glad bætir við að gnostar hafi verið með allt aðra guðsmynd og

frelsunarhugmyndir en tíðkuðust meðal Gyðinga og kristinna. Guð Ísraels var fyrir þeim

ekki sá sami og guð sem var hið fullkomna undirstöðuatriði alls lífs og sem leiddi af sér

eónurnar sem gnostar töldu sig hafa.54 Sá sem mótaði hinn efnislega heim var hinn illi og

ófullkomni Jaldabát (e. Yaldabaoth) og er Guð Ísraels einskonar frumgróði hans. Þar af

leiðandi var hinn efnislegi heimur einnig talinn vondur. Himneskur frelsari var síðan

sendur til að endurvekja gnostískt mannkyn og veita þeim þekkingu (gr. gnosis) á sjálfum

53 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 28, 77-101, 108. Af helstu trúvarnarmönnunum sem létu sig varða baráttu fyrir rétttrúnaði andspænis villutrú má nefna Íreneus og rit hans Adversus Haereses (ritar 170-180 e.Kr.), Órígenes frá Alexandríu (ritar um 220 e.Kr.), Klemens frá Alexandríu (ritar um 210 e.Kr.), Tertúllíanus frá Karþagó (um 160-225 e.Kr) og Hippólítus frá Róm (um 170-236 e.Kr.), auk annarra er nefna flokka þeirra. (bls. 77). Klemens greinir og flokkar enn fleiri klofningshópa frá kristni. Var það helst Íreneus sem tók að tala um trúarhópa sem ekki samræmdust því sem hann taldi upphaflega kristna trú, sem „gnosta.“ Varð það þannig almennt heiti yfir þá trúarhópa sem vildu kenna sig við kristni og lögðu sérstaka áherslu á tiltekna leynda þekkingu (gr. gnosis) til frelsunnar sálarinnar. Íreneus talar því um „gnostíska trúvillu“ í þessu sambandi. (Sjá nánar bls. 78, 81-84). Í Nag Hammadí handritunum er þetta hugtak „gnostar“ ekki notað. (bls. 86). 54 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 90-92. Eónur voru einskonar andlegar en ólíkar birtingarmyndir hinnar einu sönnu undirstöðu lífsins sem gnostar töldu sig eina hafa.

Page 30: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

29

sér og guði, til að frelsa sálir þeirra frá illum örlögum hins efnislega líkama. Sumir gengu

svo langt að segja að Kristur hefði bara virst þjást og deyja.55 Slík kristsfræði hefur verið

kölluð „dóketismi“. Samkvæmt Dr. Fred Lapham var það út frá hinni gnostísku

hugmyndafræði um tvíhyggju efnis og anda, þar sem allt efnislegt var álitið af hinu illa,

sem Kristur gat ekki hafa verið holdleg mannleg vera. Þar með sýndist Kristur einungis

vera mannlegur og virtist aðeins þjást og deyja á krossi. Hið koptíska Nag Hammadí

handrit af Opinberun Péturs (e. Apocalypse of Peter) frá 4. öld, sem er allt annars eðlis

en hið hefðbundna rit Opinberun Péturs, er talið endurspegla þessi dóketísku sérkenni.

Þar á Kristur að hafa horft hlæjandi á er holdleg ímynd hans sjálfs var krossfest. Íreneus

kirkjufaðir segir hinn gnostíska Basíledes hafa kennt að það hafi í raun verið Símon frá

Kýrene sem hafi verið krossfestur í stað Krists.56 Er þetta boðskapur sem ekki fyrirfinnst

í guðspjöllunum fjórum eða öðrum ritum Biblíunnar og er alls ekki tæmandi fyrir þær

kenningar sem fyrstu kristnu trúvarnarmenn kirkjunnar sáu sig knúna til að andmæla.

Einar Sigurbjörnsson prófessor í guðfræði nefnir í þessu sambandi að í 1. Jóhannesarbréfi

sé einmitt að finna aðvörun um að kristnir söfnuðir gæti sín á mönnum sem neiti því að

Jesús hafi komið fram í holdi.57

55 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 90-92. Sumir trúarhópar eins og Basilídesarsinnar og einhverjar Tómasarhefðir töldu til dæmis að Jesús sjálfur hefði ekki verið krossfestur eða risið upp frá dauðum, heldur hafi það verið Símon frá Kýrene sem var krossfestur. Glad bætir við að hin fáu handritabrot sem varðveist hafa af ritum Basilídesar, sýni nokkur tengsl við goðsögu gnosta en einnig við siðfræði Stóumanna. Sjá nánar grein um Jaldabát (e. Yaldabaoth), en það var heiti gnosta á Demiurge, guði skaparanum. Hugtakið Demiurge var einnig notað af heimspekingum fornaldar eins og Platón yfir sköpunarguðinn (New World Encyclopedia editors, „Demiurge“, New World Encyclopedia, sótt 12. ágúst 2019 af https://www.newworldencyclopedia.org/entry/Demiurge). 56 Fred Lapham, An Introduction to the New Testament Apocrypha, London, New York: T&T Clark Internetional, 2004, bls. 16, 99-106. Lapham segir að gríska og eþíópíska útgáfa Opinberunar Péturs (e. Apocalypse of Peter) fjalli um þjáningu er óréttlátir hljóti og blessun hinna réttlátu, á meðan koptíska Nag Hammadí útgáfan frá 4. öld undir sama nafni eigi ekkert skylt við upphaflega ritið innihaldslega. Koptíska útgáfan virðist aðallega rituð til þess að leiðrétta misskilning postulanna um raunverulegt eðli Krists og frelsunarverk hans. Kristur hafi verið, samkvæmt því, ónæmur fyrir þjáningu og hinn raunverulegi Kristur horft á krossfestinguna með Pétur sér við hlið. Lapham segir: „The Crusifixion Scene is unashamedly Docetic, with the true Christ standing by the cross, watching and laughing as the hands and feet of his fleshly image are nailed to it.“ (bls. 99-106). Virðist samkvæmt þessu komin vísbending um að einhverjir gnostar hafi breytt efnisinnihaldi þekktra rita. 57 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar: Saga og mótun kristinna trúarjátninga og yfirlit yfir helstu kirkjudeildir kristninnar: Játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar með skýringum, Reykjavík: Útgáfan Skálholt, 1991, bls. 46-47. Hér bendir Einar á Jóhannesarguðspjall 1.14 sem segir „Orðið varð hold“ og 1. Jóhannesarbréf 4.2-3: „Af þessu getið þið þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur

Page 31: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

30

Þegar sumir véfengja að einhver kristinn boðskapur sé talinn réttari en annar, má

benda á að öll trúarbrögð eiga sér eitthvert upphaf og einhverja upphaflega boðun. Í

tilviki kristinnar trúar hefur hin postullega vígsluröð biskupa kirknanna í kringum

Miðjarðarhafið að öllum líkindum orðið til að tryggja varðveislu tiltekins upphaflegs

kjarna, þar sem einstaklingum þeim er mest var treyst fyrir hinni réttu boðun var fengið

ákveðið postullegt vald svo að til varð vígsluröð biskupa og presta, sem mesta traustið

og þekkinguna höfðu á trúnni.58 Alister E. McGrath prófessor í guðfræði segir Íreneus

biskup í Lyon (biskup um 178-200 e.Kr.) hafa þannig vísað til túlkunarhefðar kirkjunnar

og trúarreglu (lat. regula fidei) í riti sínu gegn villutrúarhreyfingum Adversus haereses.

Íreneus sagði þessa túlkunarhefð hafa verið varðveitta af trúmennsku af hinni postullegu

kirkju og komi fram í hinum kanónsku bókum Ritningarinnar. Hann sagði kirkjuna hafa

boðað af trúfesti sama fagnaðarerindi allt frá tímum postulanna. Íreneus ítrekaði

samfellu (e. continuity) kennslu og prédikun embættis kirkjunnar, sér í lagi biskupanna,

aftur til postulanna. Gnosta sagði hann ekki geta sýnt fram á slíkan rekjanleika til upphafs

kirkjunnar.59 McGrath bætir við að Tertúllíanus (160-225 e.Kr.) hafi nefnt mikilvægi þess

að túlka Ritninguna sem heild til að öðlast réttan skilning. Tertúllíanus sagði

„villutrúarmenn“ annars geta nýtt sér Ritninguna til þess að segja hvað sem þeim

þóknaðist með því að slíta stök ritningarvers úr samhengi sínu. Af þeim sökum sagði

hann túlkunarhefð (e. tradition) kirkjunnar mikilvæga til að skýra hvernig Ritningin hafði

verið meðtekin og túlkuð innan kirkjunnar.60 Hér virðist því ótvírætt að slík túlkunarhefð

kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi sem ekki játar Jesú er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi sem þið hafið heyrt um að komi og nú þegar er hann í heiminum.“ Reyndar stendur í grískunni σαρκὶ þar sem stendur „maður“ en það þýðir“ hold.“ Hér ætti því að standa: „Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn í holdi, er frá Guði.“ Einar hefur þannig textann í sinni réttu mynd. 58 Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, 1989, bls. xxi. Hegesippus hafði gert lista yfir vígsluröð biskupa kirkjunnar í Róm og eins Íreneus kirkjufaðir. Báðir vildu sýna fram á upprunaleika boðunnar kristinnar trúar og áreiðanleika andspænis kennslu aðskilnaðarsinna og röktu þannig vígsluröð biskupa allt aftur til postulanna. Evsebíos vísar í þeirra lista. Hegesippus var kristinn kirkjusagnfræðingur sem var uppi um 101-200 e.Kr. en Evsebíos vísar mikið í sagnfræði hans. (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Saint Hegesippus: Greek Historian“, Encyclopædia Britannica, sótt 24. apríl 2018 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Hegesippus). 59 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, Oxford UK: Blackwell Publishing, 2006, bls. 11, 15-16. 60 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, bls. 11, 15-16. Einar Sigurbjörnsson bendir einnig á þessa túlkunarhefð eða kennslu postulanna sem öllum væri kunn og postularaðar, þar sem

Page 32: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

31

hafi verið til innan kirknanna í kringum Miðjarðarhafið og var það mat kirkjufeðra eins

og Íreneusar og Tertúllíanusar að slík hefð næði allt aftur til postulanna sjálfra. Trúin var

í höndum biskupa sem vegna trausts og áreiðanleika við meðhöndlun hins kristna

boðskapar höfðu fengið það hlutverk að standa vörð um hinn rétta kristna boðskap.

Umboð sem hægt var að rekja allt aftur til fyrstu postulanna í postullegri vígsluröð.

Clarence E. Glad segir að rótgróin kristin samfélög hafi verið komin í 12 af 22 stærstu

borgum Rómaveldis við lok 1. aldar e.Kr. Hann færir rök fyrir því að bréfaskrif á milli

safnaðanna, vitjanir postula og fjárhagslegur stuðningur hafi aukið á félagslega einingu

kristinna safnaða. Þannig hafi kirkjurnar verið með miðstýrða boðun sem miðlað var með

bréfum, ólíkt gnostum sem hafi verið með áherslu á sjálfsvitund og andlegan þroska, þar

sem hver og einn hlaut sitt trúarlega innsæi. Hjá gnostum voru því mörkin óljósari á milli

nemanda og kennara.61 Það að til var ákveðinn kjarni af miðstýrðum kirkjum með

biskupum er röktu upphaf sitt og boðun aftur til postulanna hefur orðið til þess að halda

utan um það sem taldist vera rétt boðun og túlkun heimildanna um Krist. Kristin trú var

síðan fyrst leyfð samkvæmt lögum 311 e.Kr. af rómverska keisaranum Galeríusi er hann

sá að ofsóknirnar gegn kristnum virkuðu ekki til að kveða trúna niður. Konstantínus varð

fyrsti kristni keisarinn árið 312 e.Kr. og leitaðist við að samþætta ríki og kirkju.

Guðfræðileg deilumál urðu nú að opinberum viðburðum sem áður höfðu verið leyst á

lokuðum leynilegum kirkjuþingum. Konstantínusi var mikið í mun að varðveita kirkjulega

einingu um allt keisaraveldið og taldi því mikilvægt að leysa öll kenningaleg deilumál.62

1.3.4 Val á ritum Nýja testamentisins sem helgirit umfram önnur

Clarence E. Glad telur ofsóknir Díókletíanusar keisara gegn kristnum sem hófust árið 303

e.Kr., þar sem allar kirkjur skyldu eyðilagðar og kristin rit brennd, hafa ýtt undir að menn

biskupar varðveittu rétta kennslu sem rekja mátti aftur til postulanna. (Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 46). 61 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 102, 119-.123. Varðandi samræmi og einingu í trú hinna fyrstu kristnu, þá var Jerúsalem, sem upphafsstaður átrúnaðarins, auk þess sá trúarlegi útgangspunktur sem kirkjurnar sóttu efnivið, boðun og kenningarlegt samræmi til á 2. öld e.Kr., að mati fræðimannsins Henry Chadwick. (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 112-113). 62 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, bls. 8-9.

Page 33: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

32

kæmust að endanlegri niðurstöðu um það hvaða rit væru sönn kristin helgirit sem alls

ekki mátti láta af hendi. Þegar Konstantínus varð keisari (um 312-337 e.Kr.) og kom á

sameiningu ríkis og kirkju varð síðan endanlega skilgreint hvaða rit skyldu heyra undir

hið lokaða kristna regluritasafn. Konstantínus hafði beðið kirkjusagnfræðinginn Evsebíos

(um 260-340 e.Kr.) um að sjá til þess að hann fengi fimmtíu eintök af kristnum

helgiritum. Samkvæmt kirkjusögu Evsebíosar frá 325 e.Kr. virtist þá enn ekki komin

eining um mikilvægi nokkurra rita Nýja testamentisins. Þau sem Evsebíos sagði almennt

viðurkennd sem óumdeild kanónsk rit voru þá guðspjöllin fjögur, Postulasagan,

14 Pálspistlar, 1. Pétursbréf, 1. Jóhannesarbréf og mögulega Opinberunarbók

Jóhannesar. Síðan nefnir hann rit sem enn var deilt um en flestar kirkjur þekktu. Voru

það Hebreabréfið, Jakobsbréfið, Júdasarbréfið, 2. Pétursbréf, 2. og 3. Jóhannesarbréf og

hugsanlega einnig Opinberunarbók Jóhannesar. Þá sagði hann Gjörðabók Páls, Hirðir

Hermasar, Opinberun Péturs og Tólfpóstulakenninguna (gr. Didache) tilheyra flokki

vafasamra rita hvað uppruna og postullegt valdboð varðar. Þá nefnir hann fáránleg og

óguðleg rit sem hann segir hafa verið kynnt af aðskilnaðarsinnum undir nöfnum postula.

Eru þar á meðal guðspjöll kennd við Pétur og Tómas ásamt gjörðabókum kenndum við

Andrés, Jóhannes og aðra postula.63 Evsebíos segir jafnframt innihald og orðanotkun

þessara rita vera of frábrugðin sönnum rétttrúnaði og hljóti því að vera falsanir.64 Gögn

frá kirkjuþinginu í Róm árið 382 e.Kr. sýna að regluritasafn Nýja testamentisins var þá

komið með sína endanlegu mynd.65

Í ljósi þeirra fjölda rita er kenndu sig við kristni á 4. öld varð að notast við afar strangar

viðmiðunarreglur þegar velja átti hvaða rit skyldu fá að vera hluti af hinu endanlega

lokaða safni kristinna rita. Valin voru rit sem flestar hinar viðurkenndu opinberu kirkjur í

kringum Miðjarðarhafið voru sammála um að fælu í sér hinn rétta og upprunalegasta

boðskap kristinnar trúar. Hans Johan Sagrusten segir að lokaákvörðun um það hvaða rit

fengju að vera í Nýja testamentinu hafi verið tekin á kirkjuþingi í Karþagó árið 397 e.Kr.

63 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 30-32. 64 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 44-45. Sjá nánar orð Evsebíosar sjálfs (Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. 89). 65 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 32.

Page 34: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

33

Er sá listi óbreyttur í dag með 27 ritum Nýja testamentisins. Samkvæmt Ágústínusi

kirkjuföður (354-430 e.Kr.) var krafa um að ritin væru rituð af postula eða

samverkamanni einhvers þeirra. Þau urðu að hafa sama boðskap um Krist og þau rit sem

þegar voru almennt viðurkennd og í notkun. Ritin urðu að vera orðin almennt þekkt og í

notkun í öllum kristnu söfnuðunum.66

Alister E. McGrath nefnir hinn franska guðfræðing Vincent frá Lérins (d. fyrir 450

e.Kr.) sem einnig hafði bent á hvernig greina mætti rétta kristna kenningu kirkjunnar. Sú

viðmiðunarregla hefur verið nefnd „Kanón Vincents“ (e. Vincentian Canon). Kirkjan hafði

samkvæmt honum passað upp á að halda á lofti þeim boðskap sem hafði verið kenndur

allstaðar, alltaf og af öllum innan kirkjunnar.67 Ákvörðunin um hið endanlega val á ritum

inn í reglurit kristinnar trúar var því síður en svo úr lausu lofti gripin. Þetta val þýðir alls

ekki að þar með hafi öll önnur rit ekki verið talin í samræmi við hina upprunalegu kristnu

boðun. Menn urðu einfaldlega að sigta út þau rit sem mesta postullega vægið höfðu sem

helgirit kristins átrúnaðar eftir ströngustu reglum, til að tryggja áreiðanleika og

upprunaleika í boðun kristinnar trúar.

66 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 45. Þessi viðmiðunarregla kemur fram í bók Ágústínusar Um kristna kenningu. Sjá ummæli Agústínusar sjálfs: „Now, in regard to the canonical Scriptures, he must follow the judgment of the greater number of catholic churches; and among these, of course, a high place must be given to such as have been thought worthy to be the seat of an apostle and to receive epistles. Accordingly, among the canonical Scriptures he will judge according to the following standard: to prefer those that are received by all the catholic churches to those which some do not receive. Among those, again, which are not received by all, he will prefer such as have the sanction of the greater number and those of greater authority, to such as are held by the smaller number and those of less authority.“ (Christian Classics Ethereal Library, Bringin Christian classic books to life, „NPNF1-02. St. Augustine‘s City of God and Christian Doctrine, Chapter 8. 12.“ Christian Classics Ethereal Library, Bringing Christian classic books to life, sótt 10. febrúar 2019 af https://www.ccel.org/ccel/schaff/ npnf102.v.v.viii.html). 67 Alister E. McGrath, Historical Theology: An Introduction to the History of Christian Thought, Oxford UK: Blackwell Publishing, 2005, bls 44. Glad talar aftur um fimm mælikvarða sem menn studdust við er meta áttu hvaða rit ættu að eiga heima í Biblíunni. Hann segir háan aldur ritsins hafa haft vægi og hvort það taldist hafa guðlegan innblástur, eins hvort ritið hafði verið notað, af hverjum og hversu lengi. (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 42). Sjá einnig grein á orðabók Britannica um af hverju Hirðir Hermasar og Didache voru ekki talin nógu „kanónsk“, þrátt fyrir að vera mikið lesin. Var það einmitt vegna þess að ekki var hægt að bendla þau við neina postula eða hina postullegu tíma. (Encyclopædia Britannica, „New Testament Canon, Texts, And Versions“, Encyclopædia Britannica, sótt 7. febrúar 2019 af https:// www.britannica.com/topic/biblical-literature/New-Testament-canon-texts-and-versions#ref598015).

Page 35: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

34

1.3.5 Kenningarleg ágreiningsmál í túlkun á ritum Nýja testamentisins

Ef kenningarlegt misræmi gerði vart við sig í hinum fyrstu kristnu kirkjum, um túlkun og

merkingu hins kristna boðskapar guðspjallanna og bréfanna, var greitt úr því á

lýðræðislegan máta með kosningu á kirkjuþingum, þar sem biskupar og helstu ráðamenn

kirknanna í kringum Miðjarðarhafið komu saman til að samræma sína boðun. Þar með

þótti nauðsynlegt að móta trúarjátningar, sem grundvallaðar voru tryggilega á

guðspjöllunum og hinum kristnu ritum sem menn töldu réttustu heimildirnar um

trúna.68 Einar Sigurbjörnsson hefur bent á að 1. Korintubréf 15. kafli hafi að geyma vísi

að játningu trúar. Þar segist Páll hafa meðtekið þessa trú og numið hana hjá

postulunum.69 Clarence E. Glad tekur undir þetta og segir 15. kafli 1. Korintubréfs sýna

að fyrir tíma kirkjuþinga, þar sem opinberar játningar kirkjunnar voru mótaðar, voru

þegar komnir vísar að játning trúar.70 Alister E. McGrath bætir við að Íreneus hafi nefnt

að tiltekin regla trúar hefði verið varðveitt af hinni postullegu kirkju og að kirkjan hafi

staðfastlega boðað sama fagnaðarerindi allt frá tíma postulanna til hans dags.71 Hann

nefnir síðan hvað sú trú boðar og fer með einskonar trúarjátningu.72

Postullega trúarjátningin sem enn er lesin upp í kirkjum í dag á upphaf sitt að rekja til

þess er menn urðu að játa trú sína fyrir skírn. Frá hvaða tíma hún er upphaflega er ekki

68 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, bls. 19-24. Þá hikuðu menn ekki við að dæma þá sem voru á andstæðri skoðun, eins og Aríus fyrir villutrú. 69 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 36. Einar vísar einnig til Róm 1.1-6 sem játar Krist sem son Guðs og Drottinn: „Páll heilsar ykkur, þjónn Jesú Krists, sem Guð hefur kallað… fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn. Sem maður er hann fæddur af kyni Davíðs en heilagur andi hans auglýsti með krafti að hann er sonur Guðs þegar hann reis upp frá dauðum. Af náð hans er ég postuli...“ 70 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 27. Sjá „játningu“ Páls í 1Kor 15.3-6, 22. Hér segist Páll vilja minna söfnuðinn á fagnaðarerindið sem hann segir vera þetta: „Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir... Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“ Eins nefnir Glad Fil 2.5-10 og Róm 10.9-10. 71 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, bls. 15. 72 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 26-27. Mætti því tala um „Trúarjátningu Íreneusar,“ en hann sagði kirkjuna hafa meðtekið þríþætta trú frá postulunum og lærisveinum þeirra: „Í fyrsta lagi trú á einn Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar og alls þess sem þar er að finna. Í öðru lagi trú á einn Krist Jesú, son Guðs, sem varð hold okkur til hjálpræðis. Í þriðja lagi trú á heilagan anda, sem boðaði fyrir munn spámannanna hin ólíku tímaskeið Guðs, viðburðina í lífi hins elskaða Krists Jesú, drottins vors, meyjarfæðingu, písl, upprisu frá dauðum og uppstigningu til himna í holdi…“

Page 36: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

35

staðfest þó hefðin segi hana komna frá postulunum.73 Einar Sigurbjörnsson segir tilgang

játninganna að gera grein fyrir megin inntaki trúarinnar í stuttu máli, auk þess að hafa

hlutverki að gegna við skírnina. Hann minnir á að Páll postuli hafi sjálfur borið þeirri trú

vitni að það hafi verið Guð sem í Jesú Kristi sætti heiminn við sig og að Kristur sem þekkti

ekki synd hafi verið gerður að synd fyrir okkur til þess að við yrðum réttlæti Guðs í

honum.74 Einar segir sígilda texta kristinnar trúarjátningar megi rekja til samantektar á

kenningu postulanna, auk lofsöngs- og guðsþjónustuefnis. Eins bendi margt til þess að

fyrst hafi verið skírt í nafni Drottins Jesú.75 Þó hafi snemma verið farið að skíra í nafni

föður, sonar og heilags anda.76 Þá er til vitnisburður um játningu í riti Hippolýtusar páfa

frá um 217 e.Kr. sem talar um Jesú sem son Guðs og fæddan af heilögum anda og Maríu

mey.77

Síðari tíma trúarjátningar snérust að mestu um það að skýra og samræma þá texta

guðspjallanna og Pálsbréfanna sem sýndu Jesú Krist sem bæði Guð og mann. Skýra varð

hvernig hann gat verið bæði Guð og maður. Um leið mátti ekki, í ljósi eingyðistrúarinnar,

tala um tvo guði þegar rætt var um Guð föðurinn og soninn Jesú Krist. Eins þurfti að gera

grein fyrir Heilögum anda, þar sem að ýmsir textar guðspjallanna persónugerðu hann og

sögðu hann koma frá föðurnum og syninum. Hér var því talað um þrjár persónur í

fullkominni einingu guðdómsins. Segir McGrath að Níkeujátningin (um 325 e.Kr) hafi

þannig átt að staðfesta niðurstöðu kirkjuþingsins í Níkeu um eðli Krists og verk Heilags

73 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, bls. 19-20. Postullega trúarjátningin fékk sína endanlegu mynd á 8. öld, því kirkjurnar í austri og vestri voru ekki sammála um fullyrðingarnar: „steig niður til heljar“ eða „samfélag heilagra.“ Einar Sigurbjörnsson segir hefðina kenna að hver af postulunum 12 hafi átt eina setningu í postullegu trúarjátningunni. (Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 33, 49). 74 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 21-22, 35-37. Hér vísar hann til 2Kor 5.14-21 í íslensku Biblíunni frá 1981. Í Biblíunni frá 2007 er þýðingin á 21. versi svo: „Guð dæmdi Krist, sem þekkti ekki synd, sekan í okkar stað til þess að hann gerði okkur réttlát í Guðs augum.“ Eins minnir Einar m.a. á vers úr Jóhannesarguðspjalli sem kallað hefur verið „Litla Biblían“: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh 3.16). 75 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 49. Játningatextana segir Einar eiga rætur í frumkristni og tengjast skírnarfræðslunni og trúaruppeldinu. Sem dæmi um ritningarvers sem vísi til að fyrst hafi verið skírt í nafni Jesú nefnir hann Post 2.38: „Pétur sagði við þá: „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.““ 76 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 49, 42. Hér vísar hann til Matt 28.18-20 og Tólfpostulakenningunnar (kölluð Didache), vel þekkt kristið rit í frumkirkjunni frá því um 100 e.Kr. 77 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 52-53.

Page 37: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

36

Anda, með áherslu sinni á „Guð af Guði“ og „af sama eðli og Faðirinn“ (gr. homoousion

to patri eða ὁμοούσιον τῷ πατρί). Aríus (250-336 e.Kr) taldi aftur á móti að þá titla í

Ritningunum sem sýndu Krist á guðlegan máta bæri ekki að túlka sem svo að Kristur væri

bókstaflega Guð. Aþanasíus frá Alexandríu (um 296-373 e.Kr) svaraði honum með því að

segja, að ef Kristur væri ekki líka Guð gæti hann ekki endurleyst fallið mannkyn. Engin

venjuleg manneskja gæti endurleyst mannkynið.78 Guðspjöllin og bréf postulanna boði

endurlausn fyrir Jesú Krist. Aþanasíus benti líka á að kirkjan lofsyngi Jesú sem Guð. Ef

Jesús væri ekki Guð væri kirkjan því sek um skurðgoðadýrkun.79 Sem dæmi um slíkan

lofsöng innan Nýja testamentisins nefnir Einar Sigurbjörnsson Filippíbréfið 2.6-11 og

Kólossubréfið 1.15-20.80 Þannig telur Einar að frá upphafi hafi það verið trú kristinna

manna að guðssonurinn Jesús Kristur væri Guð til jafns við föðurinn eins og þessir sálmar

úr bréfum Páls votta.81 McGrath bætir því við að Jústínus Píslarvottur (um 150 e.Kr.) hafi

sagt að kristnir hafi lært að Kristur sé frumburður Guðs og Orðið (gr. Logos) sem þeir

lofsyngi og elski ásamt Guði.82

78 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, bls. 21-24. Einnig taldi Apollinaríus (um 310-390 e.Kr.) að anda Krists hefði verið skipt út með hinu guðlega Logos. Með því virtist Kristur hafa glatað sínu mannlega eðli að mati Gregoríusar frá Nasians sem andmælti þeirri túlkun. Konstantínus keisari kallaði saman þingið til að skera úr um deilur á milli kenninga Alexandríu skólans annars vegar sem var meira með áhersluna á guðdómi Krists með vísan til ritningarversa eins og „Orðið varð hold,“ og Antíokkíu skólans hins vegar sem var meira með áherslu á mennsku Krists. Einar segir Aríus hafa kennt að Jesús væri maður sem sonur Guðs „orð Guðs“ tók sér bústað í. Sonur Guðs gat þar með ekki verið af sama eðli og Guð heldur aðeins fyrsta sköpun hans. Andmælendur Aríusar bentu á að til að geta talist frelsari manna varð Jesús að vera Guð og maður í senn. Hann varð að taka á sig það sem hann var kominn til að frelsa. (Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 58-62, 68). 79 Alister E. McGrath, Historical Theology, bls. 26. 80 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 39-40. Í Fil 2.6-11 segir: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ Í Kól 1.15-20 segir eins: „Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega… Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum. Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu… Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi. 81 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 57. 82 Alister E. McGrath, Christian Theology: An Introduction, bls. 16.

Page 38: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

37

Það var síðan ekki fyrr en árið 381 e.Kr. sem keisarinn Þeódótos I. setti lög sem

viðurkenndu aðeins eina tegund kristinnar trúar með tilheyrandi viðurlögum gegn

„aðskilnaðarsinnum“.83 Hvort sem menn trúa því síðan að Jesús Kristur hafi verið

einungis maður, spámaður eða Guð, er erfitt að líta fram hjá því að okkar elstu heimildir

um hann draga upp mynd af honum sem frelsandi guðssyni. Þær kenna okkur að menn

hafi fengið lækningu meina sinna í Jesú nafni, illir andar hafi óttast hann og mátt hans

og vegna hans fáist lausn frá synd og eilíft líf.84 Þó menn vilji draga þá ályktun að þeir

textar Jóhannesarguðspjalls sem tala um Jesú Krist sem Guð af Guði, með fortilvist hjá

Guði föðurnum er kom til eignar sinnar, mannanna, hafi ekki átt að túlkast bókstaflega

eins og Aríus taldi, þá varð það loka niðurstaða kirkjuþinganna. Enda virðast menn hafa

beðið og lofsungið nafn Jesú allt frá upphafstímum postulanna og Páll talaði um Krist

sem frelsara manna. Eins og Aþanasíus benti á er erfitt að ímynda sér að einungis maður

geti frelsað. Þannig virðist hinn upprunalegi boðskapur hafa verið sá að Jesús Kristur væri

í raun Guð af Guði með fortilvist hjá Guði föður en sendur til að frelsa syndugt mannkyn.

1.3.6 Elaine Pagels og hin kirkjupólitísku áhrif á Nýja testamentið

Í ljósi alls sem fram hefur komið má velta fyrir sér vægi vinsælla kenninga er draga í efa

endanlegt réttmæti og gildi þeirra rita sem valin voru inn í Nýja testamentið. Elaine

Pagels prófessor í trúarbragðafræðum telur t.a.m. í riti sínu The Gnostic Gospels að

kenningar og rit Nýja testamentisins, sem hinir rétttrúuðu kirkjufeður völdu sem reglurit

kristins átrúnaðar, hafi fengið rótfestu sína og yfirhönd yfir hin gnostísku rit og kenningar

vegna pólitískra og félagslegra þátta. Þannig hafi mögulegt réttmæti innihalds boðskapar

þessara rita umfram hin gnostísku ekki ráðið úrslitum. Hún ályktar að ef þessir félagslegu

og pólitísku þættir hefðu ekki haft áhrif hefði kristin trú getað orðið öðruvísi en við

þekkjum hana í dag.85 Á hún þar væntanlega við meira gnostísk. Hún telur einnig að

rétttrúnaðurinn hafi fengið hernaðarlegan stuðning er Konstantínus keisari varð kristinn

83 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 94. Á orðabók Britannica og víðar kallast keisarinn Theodosius I. (Adolf Lippold, „Theodosius I: Roman Emperor“, Encyclopædia Britannica, sótt 25. maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Theodosius-I). 84 T.d. Lúk 5.12-25, Mark 1.29-45, 2.1-12, 3.7-12 og 5. 21-42. Sjá einnig Jesús og Nikódemus í Jóh 3.1-19. 85 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. xxxv-xxxvi.

Page 39: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

38

á 4.öld og refsað hafi verið fyrir villutrú.86 Hún færir sín rök fyrir þessu í köflum bókar

sinnar í eftirtöldum þáttum. Mun ég skoða helstu röksemdir hennar í ljósi þess sem fram

hefur komið í þessar ritgerð.

1. Trú á holdlega upprisu til eflingar valds kirkjunnar. Pagels nefnir fyrst að hún telji

rétttrúarkristna hafa tileinkað sér trú á bókstaflega upprisu Krists í pólitískum tilgangi því

þannig styðji reynslusaga postulanna af líkamlegri upprisu við lögmæti valdhafa

kirkjunnar sem arftaka postulans Péturs í postullegri vígsluröð.87 Rétt er að í guðspjöllum

Nýja testamentisins neytir Jesús máltíðar eftir upprisuna og að í þeim biður Jesús Pétur

um að verða „hirðir sauðanna.“ Kirkjufeðurnir vísuðu einmitt í postullega vígsluröð aftur

til Péturs til staðfestingar á réttmæti sinnar kennslu. Þó er margt fleira í hinum gnostísku

hefðum sem fær mann til að sjá áreiðanleika guðspjalla Nýja testamentisins umfram hin

gnostísku, eins og ég mun koma inn á síðar. Mætti annars benda hér á að bæði Jesús og

Páll virðast ekki boða holdlega upprisu mannfólks í ritum Nýja testamentisins, heldur

segir Jesús að menn verði líkir englunum og Páll að upp rísi óforgengilegt.88 Þó virðist

talað um holdlega upprisu Jesú í guðspjöllunum í frásögunni af því er Tómas postuli fær

að þreifa á naglasárum Jesú eftir upprisuna.

2. Trú á einn Guð til eflingar valds biskups. Pagels telur eins að trúnni á einn Guð hafi

aðeins verið haldið á lofti til að styðja við vald biskupsins. Gnostar trúðu því að til væri

annar guð æðri hinum lægra setta sköpunarguði Demiurgos (einnig kallaður Jaldabát).

Þennan æðri guð kallaði Valentínus Dýptina og var hann andleg uppspretta allrar

tilvistar.89 Valentínus taldi aftur hinn „vonda“ guð Ísraels (Jaldabát) hafa verið ávítaðan

af móður sinni fyrir að fullyrða í hroka sínum að hann væri eini guðinn og enginn annar

86 Sama heimild, bls. xxii-xxiii. 87 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 3-10, 11-17, 22. Gnostar voru aftur andsnúnir valdi biskups og töldu sig sjálfa jafn verðuga valds og postulana þar sem þeir meðtaki leynda þekkingu sína beint frá Jesú. Þeir vísuðu í eigin postullegu hefðir frá Maríu Magdalenu, Páli eða Jakobi. Gnostar álitu upprisuna eitthvað sem menn meðtóku innra með sér í sínu jarðneska lífi. 88 Sbr. 1Kor 15.35-55 og Mark 12.18-27. 89 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 28-37. Pagels telur þannig að kirkjufeðrum eins og Íreneusi hafi þótt eingyðistrúin mikilvæg einungis af því að annað væri árás á valdakerfi kirkjunnar sem stýrt var af einum biskupi.

Page 40: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

39

guð væri til nema hann.90 Virðist Pagels þannig ekki telja að staðföst trú rétttrúarsinna á

hinn eina Guð JHVH sem Tanakh Biblía Gyðinga boðaði, ásamt ótta við að brjóta fyrsta

boðorðið, hafi legið að baki áherslu kirkjufeðranna á einn Guð, heldur fremur ásókn

biskupa í völd.91 Hún lítur þannig framhjá þeirri staðreynd að Jesús var Gyðingur og

postular hans allir. Samkvæmt ritum Nýja testamentisins boðuðu þeir ekki nýja trú

heldur uppfyllingu spádóma Gamla testamentisins.92

3. Kvenkyns túlkanir á Guði ekki leyfðar. Þá nefnir Pagels að kvenkyns túlkanir gnosta

á Guði hafi einnig orðið til þess að rit þeirra voru ekki valin með í Nýja testamentið heldur

stimpluð sem villutrúarrit. Margir gnostískir textar sýndu Guð bæði með karlkyns og

kvenkyns eiginleika og sem móður alls. Íreneus og Tertúllíanus gagnrýndu aftur hvað

konur sóttu mikið í villutrúarhópa sem lokki þær yfir með því að leyfa þeim að spá og vígi

þær sem biskupa og presta. Pagels segir engin merki finnast um að konur hafi fengið að

vera í spámannlegum stöðum innan kirkjunnar eftir árið 200, en þó hafi Jesús talað beint

við konur eins og Mörtu og Maríu og Páll sagt enga aðgreiningu á milli karla og kvenna.93

Pagels bendir á að líkt og konur í gyðingasamfélaginu hafi verið útilokaðar frá opinberri

lofgjörð hafi rétttrúarsamfélagið tileinkað sér sýnagógu hefð Gyðinga, að aðskilja konur

frá körlum.94 Ýmsir ritskýrendur í gamlatestamentisfræðum hafa þó bent á að slíkur

aðskilnaður hafi ekki tíðkast í samfélagi Gyðinga á þessum tíma.95 Hér er því ekki hinum

90 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 57-58. Pagels segir móður sköpunarguðsins (Jaldabát) hafa ávítað hann fyrir að segjast vera eini guðinn og sagt: „Ekki ljúga Jaldabát.“ 91 Sjá nánar um nafn Guðs JHVH í kafla 2.1. JHVH er venjulega þýtt sem „Drottinn“ í Gamla testamentinu og réttur framburður er talinn vera Jahweh. 92 Sjá nánar um þetta í kafla 3.2, „Gyðingurinn Jesús: Messías spádómanna“. 93 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. . 56-59, 48-52, 59-61. Villutrúarhópana gagnrýndu Íreneus og Tertúllíanus einnig fyrir að leyfa konum að taka þátt í rökræðum, andasæringum, lækningum og að sjá um skírn. 94 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 63. 95 Shmuel Safrai, „The Place of Women in First-century Synagogues: They were much more active in religious life than they are today“, Priscilla Papers: The academic journal of CBE International, 31. janúar 2002, sótt 4. júní 2018 af https://www.cbeinternational.org/resources/article/priscilla-papers/place-women-first-century-synagogues. Shmuel Safrai fyrrverandi prófessor í gyðinglegri sagnfræði við Hebrew University í Jerusalem segir strax í upphafi greinarinnar: „In the time of Jesus there was no separation of the sexes in the synagogue and women could be counted as part of the ten individuals needed for a religious quorum.“ Hann færir ítarleg rök fyrir máli sínu. Sjá einnig grein eftir prófessor Susan Ackerman sem fer vel yfir stöðu hebreskra kvenna á tímum Gamla testamentisins allt fram að eyðingu musterisins 70 e.Kr. Vottar hún þetta sama og bendir einnig á jákvæða þætti og kvenfyrirmyndir innan Gamla testamentisins (Susan Ackerman, „Women in Ancient Israel and the Hebrew Bible“, Oxford

Page 41: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

40

gyðinglega bakgrunni um að kenna heldur einfaldlega karlaveldis-hefðum innan hins

grísk-rómverska samfélags þessa tíma. Konur áttu sér sjaldan málsvara sem töluðu

þeirra máli við gerð laga og mótun samfélags í átt til umburðarlyndis og réttlætis.

Að auki telur Elaine Pagels þá staðreynd, að sumir gnostískir textar virtust nota Maríu

Magdalenu sem helsta fulltrúa kristninnar og þann postula sem Jesús átti að hafa elskað

mest, hafa ögrað leiðtogum réttrúarsamfélagsins er litu á Pétur sem forsvarsmann

sinn.96 Kirkjufeðrunum hafi auk þess mislíkað að villutrúarmenn hafi látið hlutkesti ráða

við val á hverjir sæju um prestleg hlutverk og spádóma, að þeir hafi borðað kjöt fórnað

skurðgoðum, sótt heiðnar hátíðir og ekki fylgt aðhaldi í kynlífsmálum og einkvæni.97 Hér

ber að minna á að kirkjufeðurnir virðast í þessu aðeins sammála því sem rit Gamla og

Nýja testamentisins boða. Þar á meðal Páll sem Pagels sjálf sér sem trúverðugan fulltrúa.

Síðan eru rit eins og Dómarabókin til vitnisburðar um að konur gátu komist til valda sem

dómarar og spámenn líkt og karlmenn innan hins gyðinglega samfélags.98 Kirkjufeðurnir

héldu einmitt ritum Gamla testamentisins á lofti á meðan gnostar andmæltu þeim.

Eins og fram hefur komið virðist það blasa við að ritum gnosta hafi verið hafnað

sökum þess kenningalega ósamræmis gnosta við þá trú sem rétttrúarmenn töldu hinn

upphaflega boðskap, en ekki vegna hinna kvenmiðlægu áherslna. Hinn kvenmiðlægi

boðskapur gnosta hafði augljóslega ýmislegt fleira sem ekki samræmdist hinni gyðing-

kristnu trú, er einskorðaðist við trúna á einn almáttugan, heilagan og réttlátan Guð JHVH

er bauð mönnum að halda sig við tiltekin boð og bönn. Elaine Pagels kannast auk þess

við undanþágur frá þessu umburðarlyndi gnostískra rita til kvenna eins og ritið

Samræður frelsarans (e. Dialogue of the Savior) endurspeglar, þar sem Jesús á að vara

Research Encyclopedias: Religion, apríl 2016, sótt 4. júní 2018 af http://religion.oxfordre.com/view/10.1093/acrefore/9780199340378.001.0001/acrefore-9780199340378-e-45). 96 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 64-65. 97 Sama heimild, bls. 41-44. Páll postuli talaði gegn óreglu á samkomum og frjálslyndi í kynlífsmálum út frá sinni gyðing-kristnu hefð og guðspjöllin segja Jesú ekki hafa verið hlynntan skilnaði eða kynlífi utan hjónabands (Mark 10.1-10). Einnig endurspegla orð Páls þetta (1Kor 7.1-16). 98 Sjá nánar um Debóru í Dómarabók Gamla testamentisins. Hún var dómari og spákona sem var uppi fyrir tíma Sáls og Davíðs. (Dóm 4.4). Önnur dæmi um kvenkyns spákonur Gamla testamentisins eru t.d.: Mirjam spákona (2Mós 15.20), Hulda spákona (2Kon 22.14). Eins hefur Ester drottning ávalt verið heiðruð fyrir að bjarga Gyðingum frá eyðingu, eins og Esterarbók greinir frá.

Page 42: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

41

menn við að biðja á stöðum með konum. Eins segir í Tómasarguðspjalli að María verði

að gerast karlmaður til þess að verða lifandi andi eins og karlmennirnir. Pagels kannast

líka við „undanþágur“ innan rétttrúnaðarins og nefnir þar Klemens frá Alexandríu (um

180 e.Kr.) sem lýsti Guði bæði með kvenlegum og karllegum myndum og sagði karlinn

og konuna jafningja. En eins og hún sjálf hefur bent á, þá á slíkt umburðarlyndi í garð

kvenna sér rætur í ritum Nýja testamentisins, m.a. í bréfi Páls til Galatamanna.99 Það er

því spurning hvort hægt sé að tala um það sem „undanþágu“. Mætti ekki fremur segja

að síðari tíma menn eins og Íreneus og Tertúllíanus hafi litast af karlaveldisumhverfi

samtímans og gerst sekir um að víkja frá hinu upphaflega normi kristinnar boðunnar í

garð kvenna? Eins og fram hefur komið eru bréfi Páls talin vera einn elsti ritaði

vitnisburður um kristna trú en Páll lést um 65 e.Kr. Þannig má ætla að bréf hans

endurspegli að mestu leyti hinn upprunalega kristna boðskap.

4. Trú á raunverulega þjáningu og dauða Jesú til að auka fylgi við rétttrúnaðinn.

Pagels telur einnig að trú rétttrúarkristinna á raunverulega þjáningu og dauða Jesú hafi

skipt sköpum og stutt við þeirra sjónarmið, þar sem hún reyndist stuðningur frammi fyrir

ofsóknum og dauða. En kristnir hafi í upphafi verið ósammála um það hvort Jesú sjálfur

hafi í raun og veru þjáðst og dáið á krossi. Nefnir hún hér Opinberun Péturs (e.

Apocalypse of Peter) frá Nag Hammadí sem dæmi, þar sem hinn lifandi Jesús átti að hafa

verið glaður og hlæjandi fyrir ofan krossinn á meðan holdlegur staðgengill hans var

krossfestur. Eins segir Annar sáttmáli hins mikla Sets (e. Second Treatise of the Great

Seth) það hafa verið Símon frá Kýrene en ekki Jesús sem bar krossinn, þyrnikórónuna og

þjáðist og dó, á meðan Jesús sjálfur var fagnandi og hló yfir fáfræði þeirra.100 Þarna er

komin mynd af Jesú í hinum gnostísku ritum sem virðist ekki hafa fulla samkennd og

miskunn í garð annarra eða tilbúinn að fórna sjálfum sér fyrir þá sem hann elskar, heldur

99 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 66-68. Sjá nánar orð Páls í Gal 3.26-28: „Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ 100 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 75-77, 70-74. „Gjörðabók Jóhannesar“ (e. Acts of John) taldi eins að Jesús hefði ekki verið neitt mennskur, aðeins andleg vera, hefði aldrei skilið eftir sig fótspor og virst óefnislegur í viðkomu. Þar á Jesú jafnframt að hafa fagnað í Getsemane með lærisveinunum áður en hann var handtekinn og síðan birst Jóhannesi í Getsemane á meðan á krossfestingunni stóð.

Page 43: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

42

hlær á meðan öðrum var fórnað í hans stað. Fyrir okkur í dag er erfitt að sjá aðdráttarafl

í trú sem boðar slíka fyrirmynd sem frelsara. Ekki er ólíklegt að það hafi einmitt verið

boðskapurinn um hinn fórnfúsa kærleika Krists sem var ein af ástæðum þess hve kristin

trú var vinsæl á fyrstu árum trúarinnar, innan um fjölda trúarbragða er skörtuðu mis-

sjálfhverfum guðum. Guð sem þjáðist ekki í raun en fannst það í lagi að hlæja yfir

þjáningu annarra, hefur aðeins verið enn einn guðinn í þeirri flóru. Menn gátu aftur á

móti rökstutt tilgang þjáningar Krists með vísun í spámannarit Gamla testamentisins. 53.

kafli Jesaja (frá því um 6. öld f.Kr.) var fyrir hinum fyrstu kristnu staðfesting á því að sá er

frelsa átti mannkynið frá syndum og dauða myndi sjálfur þurfa að líða og deyja.101

Samkvæmt Pagels héldu margir af helstu fulltrúum rétttrúnaðarins á lofti þjáningu

og dauða Krists og voru hlynntir píslarvættisdauða. Margir þeirra dóu sjálfir sem

píslarvottar og lofuðu jafnvel Guð fyrir að fá að deyja með slíkum hætti. Á meðan töldu

sumir gnostar píslardauða heimsku og sóun á mannslífum. Rétttrúaðir ásökuðu því

gnosta fyrir að kenna falskar kenningar um þjáningu Krists og að andmæla

píslardauða.102 Íreneus gagnrýndi gnosta einnig fyrir að styðja ekki við þá sem voru í

fangelsi frammi fyrir pyndingum og aftöku.103 Hér mætti jafnframt minna á að Páll sjálfur

taldi það ekki óeðlilegt hlutskipti hinna trúuðu að þurfa að standa hugrakkir frammi fyrir

ofsóknum og þjáningu. Guðspjöllin segja að Kristur hafi varað lærisveina sína við því að

það myndi gerast. Eins stóðu spámenn Gamla testamentisins fastir á sinni

101 Sjá Jesaja 53.4-7: „En vorar þjáningar voru það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði. Vér álitum honum refsað, hann sleginn og niðurlægðan af Guði. En hann var særður vegna vorra synda, kraminn vegna vorra misgjörða. Honum var refsað svo að vér fengjum frið og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir. Vér fórum allir villir vegar sem sauðir, héldum hver sína leið en Drottinn lét synd vor allra koma niður á honum. Hann var hart leikinn og þjáður en lauk eigi upp munni sínum fremur en lamb sem leitt er til slátrunar...“ Einnig Jóhannesarguðspjall 1.29-31: „Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér… En til þess kom ég og skíri með vatni að hann opinberist Ísrael.“ 102 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 78-89. Sem dæmi um rétttrúarkristna er héldu á lofti þjáningu Krists og voru hlynntir píslardauða nefnir Pagels Ignatíus biskup frá Antíokkíu (d. 107-108 e.Kr.), Jústínus píslarvott (ritar um 150-155 e.Kr.), Pólýkarpos biskup frá Smyrnu í Litlu-Asíu (d. 165 e.Kr.) ásamt Tertúllíanusi og Íreneusi. Sumir rétttrúarkristnir eins og Jústínus Píslarvottur sögðu auk þess að hugrekki hinna ofsóttu hefði sannfært sig um guðlegan innblástur þeirra og leitt sig til trúar. 103 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 97-98.

Page 44: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

43

trúarsannfæringu frammi fyrir ofsóknum, þjáningu og dauða, sem og trúarhetjur

Makkabeabókanna.104

Elaine Pagels telur engu að síður þetta viðhorf rétttrúnaðarins gagnvart píslardauða,

með dauða Krists sem fyrirmynd, hafa orðið að ríkjandi viðhorfi vegna þess að

ofsóknirnar hafi stutt við mótun skipulagðrar kirkju við lok 2. aldar. Ofbeldi og óréttlæti

hafi hjálpað til við að vekja athygli og stuðning meðal almennings. Ritaðar voru sögur

píslarvottanna til að hvetja kristna til að líkja eftir dýrðlegum sigri píslarvottanna og

styrkja þannig samfélögin innbyrðis í tengslum hvert við annað.105 Síðan hafi Íreneus (um

180 e.Kr) gert kröfu um kenningarlegt samræmi allra kirkna í mikilvægum þáttum. Pagels

telur að á sama tíma hafi rómverska kirkjan verið að taka saman endanlegan lista yfir

bækur Nýja testamentisins sem að lokum hafi verið samþykktur af öllum kristnum

kirkjum. Hið lagskipta og stofnanalega stigveldi hafi síðan aukist, og þannig styrkt

samfélögin innbyrðis og komið með reglu á samskiptin innan hinnar almennu kirkju um

allan heim.106 Hér ber að minna á rök Stephen O. Stout (í kafla 1.3.1.) fyrir því að Íreneus

hafi að öllum líkindum þegar haft aðgang að rituðu Nýja testamenti með flestum þeim

ritum sem prýða það í dag. Clarence E. Glad efast eins um að fram hafi komið einveldi

biskupa eða kirkjulegra leiðtoga á 2. öld. Slíkt hafi ekki verið komið til sögunnar fyrr en í

fyrsta lagi við upphaf 3. aldar. Þróun miðstýrðs valds í embætti biskups hafi einmitt getað

komið til sem viðbragð manna gegn guðfræðiáherslum ólíkra hópa.107

Líklegra er að ákefð eftir píslardauða án réttlætanlegs grundvallar hefði fremur orðið

til þess að stökkva fjölda fólks frá kristinni trú, en þrátt fyrir ofsóknirnar náði trúin til

104 Einnig votta rit Nýja testamentisins það sama (2Kor 11.16-33; Heb 11.36-38; Mark 13.9-27, Matt 5.11-12 og Matt 24.1-29). Sjá Matteusarguðspjall 24.9-13: „Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ Sjá einnig Matt 5.11-12: „Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“ 105 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 98-99. Pagels bætir hér við að þessi sameiginlega hætta hafi síðan aukið bréfaskrif á milli safnaða með frásögum píslarvottanna. 106 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 99-100. 107 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 109-110. Hann bætir við að niðurstöður rannsókna varðandi þetta fari helst eftir skilningi manna á ólíkum hlutverkum innan kristinna samfélaga og skilningi á grískum hugtökum sem hafa með hlutverkaskiptingu að gera t.d. episkops, diakonos og presbutes.

Page 45: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

44

margra. Píslardauði einn og sér getur ekki leitt fólk til trúar. Það myndi t.a.m. freista fárra

að ganga til liðs við trúarbrögð sem boða reglulegar sjálfsmorðssprengjuárásir

fylgjendanna og fórn á lífum fyrir guðinn. Ef aftur viðkomandi væri kominn til trúar á

slíkan Guð og sannfærður um tilvist hans og himneska umbun að verki loknu, kynni hann

ef til vill að samþykkja að ganga í dauðann fyrir trú sína. Á fyrstu öldum kristni hefur það

mun fremur verið staðföst trúarsannfæring hinna kristnu frammi fyrir utanaðkomandi

ofsóknum og dauða, ásamt þrautseigju þeirra að ganga þrátt fyrir allt ekki af trúnni, sem

hefur kveikt spurningar meðal almennings og fengið fólk til að skilja að hin kristnu

virkilega trúðu af öllum sannfæringarmætti á þennan Guð. Það eitt hefur síðan vakið

forvitni fólks sem hefur eflaust leitt enn fleiri til trúar.

Elaine Pagels minnir á að Tertúllíanus hafi líkt blóði hinna kristnu við útsæði þar sem

að því oftar sem kristnir verði fyrir ofsóknum, þeim mun fleiri bætist í hópinn. Á meðan

hafi hópar gnostísk-kristinna verið dreifðir og týndir, hafnað kenningarlegu samræmi,

biskupavaldi og gildi vitnisburðar í blóði. Auk þess hafi rétttrúarkennslan um líf Krists og

þjáningu komið með leið til þess að skýra grundvallarþætti mannlegrar reynslu. Pagels

segir því ekki að furða að menn hafi samsamað sig betur rétttrúarsjónarmiðinu. Enda

hafi kristnir, sem á öllum tímum hafa þurft að horfast í auga við þjáningu og dauða,

fundið viðurkenningu á reynslu sinni í sögunni af hinum mannlega Jesú.108

Þó að hægt sé að vera sammála Pagels í þessum síðustu orðum er erfitt að horfa fram

hjá því, að eins og Pagels setur þetta fram virðist hún telja að kirkjufeðurnir og

biskuparnir hafi hvatt hina kristnu til að ganga að óþörfu í dauðann bara til þess eins að

efla kirkjuna. Flestir myndu fremur álykta að kirkjufeðurnir hafi viljað hvetja fólk til þess

að standa hugrakkt og staðfast í sinni trú, frammi fyrir óhjákvæmilegum ofsóknum og

dauða. Virðist manni Pagels þannig lesa full mikið á milli línanna og gefa sér fremur illt

innræti manna, án þess að nokkuð í skrifum þeirra gefi vísbendingar til þess að álykta að

þeir hafi talið mannslíf annarra ásættanlegar fórnir í skiptum fyrir eigin völd.

Kirkjufeðurnir voru aftur á móti augljóslega fylgjandi þeim boðskap sem er að finna í Nýja

testamentinu, um Krist sem sjálfur lifði og dó í fórnfúsum náungakærleika ásamt

108 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 100-101.

Page 46: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

45

mörgum fylgjenda hans. Mætti þar nefna Stefán djákna sem dæmi (Post 7.54-60). Páll

neitaði sjálfur að afneita sinni trú frammi fyrir ofsóknum yfirvalda. Loks segir hefðin að

hann og flestir postulanna hafi liðið píslardauða fyrir trú sína.109 Fremur myndi maður

ætla að hinn fórnfúsi kærleikur Krists og hinna fyrstu kristnu hafi orðið til þess að efla

kirkjuna og vekja aðdáun annarra sökum hugrekkis þeirra frammi fyrir ofsóknum er báru

trúarsannfæringu þeirra vitni.

5. Nag Hammadí fundirnir hafi breytt sannfæringu manna um rétttrúnað. Pagels

ályktar að erfitt geti verið fyrir okkur í dag, í ljósi Nag Hammadí ritanna, að vita hvaða

kirkja sé hin sanna kirkja. Enda hafi rétttrúarkristni náð að bæla og allt að því eyðileggja

gnostísku ritin sjálf.110 Pagels segir gnosta hafa séð sig sem ofsótta af rétttrúarsinnum er

buðu þeim að gefast hinum jarðneska fulltrúa skapara heimsins og ofsóttu þá sem höfðu

öðlast frelsi í gegnum þekkingu. Gnostar hafi talið skírn, játningu trúar og jafnvel

píslardauða ekki næga sönnun til að teljast kristinn. En við lok 2. aldar hafi

rétttrúarkristnir samþykkt alla þá sem kristna er samþykktu trúarjátninguna, létu skírast,

tóku þátt í lofgjörð og hlýddu prestunum. Til að vera almenn hafi kirkjan reynt að

samþykkja sem flesta í faðm sinn. Íreneus biskup í Lyons sagði hina sönnu þekkingu að

finna í kenningum postulanna og skipan kirkjunnar frá upphafi sem hin postullega

vígsluröð miðli áfram. Nýja testamentið hafi algert vald umfram allt og að fyrir utan

kirkjuna sé enga endurlausn að fá. Gnostískt kristnir töldu aftur að þeir sem hefðu verið

upplýstir aðgreindu sjálfir á milli þess sem væri rétt og falskt. Þekkingin leiðbeini þeim

og þeir þurfi því ekki að beygja sig undir vald biskupa og djákna.111

Er Pagels segir kirkjuna hafa reynt að samþykkja sem flesta í faðm sinn gefur hún í

skyn einskonar tilslökun í siðferðiskröfum. Guðspjöllin og bréf Nýja testamentisins sem

109 Eusebius Pamphilius, „Church History, Life of Constantine, Oration in Praise of Constantine: Chapter XXV“, Christian Classics Ethereal Library, sótt 6. mars 2019 af https://www.ccel.org/ccel/schaff/npnf201.iii.vii.xxvi.html. Sjá einnig skrif rómverska sagnaritarans Tacitusar um ofsóknir Nerós gegn kristnum í Róm (Gaius Cornelius Tacitus, The Annals: The Reigns of Tiberius, Claudius, and Nero, Þýðandi J.C.Yardley, Oxford New York: Oxford University Press, 2008, bls. 359 (Annals, 15.44). 110 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 102-104. Nicola Denzey Lewis hefur aftur bent á að ólíklegt sé að kristnir leiðtogar hafi orsakað eyðileggingu gnostískra rita. Sjá nánar um það síðar í þessum kafla. 111 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 102-107.

Page 47: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

46

kirkjufeðurnir héldu upp á og vörðu rétttrúarsjónarmið sín út frá, benda aftur á

siðferðislegar kröfur frá Guði, byggðum á grunnreglum boðorðanna tíu um að elska Guð

og náungann. En fagnaðarerindið boðar vissulega náð og fyrirgefningu Guðs ef mönnum

mistekst að fylgja þessum boðum hans.112 Gnostarnir sjálfir virtust ekki gera ráð fyrir

slíkum fögnuði í sínu „fagnaðarerindi“, sem aðeins var fyrir fáa útvalda. Það var því ekki

tilslökun kirkjunnar í siðferðislegum efnum sem dró fleira fólk að henni. Að minnsta kosti

ekki á fyrstu þremur öldunum áður en kristni varð ríkistrú eins og Pagels virðist hér

álykta.

Elaine Pagels virðist auk þess sammála kenningum um að munkar þeir sem lifðu í St.

Pachomius klaustrinu, nærri því svæði sem Nag Hammadí ritin fundust, hafi haldið upp

á Nag Hammadí textana ásamt sínum helgu bókum. Síðan hafi Aþanasíus erkibiskup frá

Alexandríu um 367 e.Kr sent út skipun um að eyða öllum apókrýfar bókum með

villutrúartilhneigingum. Þá hafi sumir munkanna falið hin mikilvægu handrit í krúsum og

grafið þau í klettum Jabal al Tarif, þar sem þau fundust um 1600 árum síðar.113

Nicola Denzey Lewis, prófessor í trúarbragðafræðum, er ekki sammála þessu. Hún

telur margt benda til þess að Nag Hammadí handritin hafi verið greftruð með

einstaklingnum sem átti þau samkvæmt greftrunarhefð þessa svæðis. Eins telur hún

Aþanasíus ekki hafa látið eyða neinum ritum, heldur fremur hvatt til þess að fólk losaði

sig við rit kenningarlegs andstæðing síns sem á þeim tíma var Aríus. Aríus aðhylltist aðrar

kenningar en rétttrúaðir á þessum tíma. Kenningarlegar áherslur hans höfðu með

guðdóm Krists að gera en Aríus var alls ekki hallur undir gnostisma.114 Samkvæmt Aríusi

var Jesús maður sem var aðeins sonur Guðs þar sem að Orð Guðs tók sér bústað í honum.

Hann taldi því Jesús ekki hafa sama eðli og Guð heldur skapaðan af Guði.115 Aþanasíus

112 M.a samkvæmt fyrra Jóhannesarbréfi: „Börnin mín! Þetta skrifa ég ykkur til þess að þið skulið ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum við málsvara hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir okkar og ekki einungis fyrir syndir okkar heldur líka fyrir syndir alls heimsins. Þá vitum við að við þekkjum hann ef við höldum boðorð Guðs. Sá sem segir: „Ég þekki hann,“ og heldur ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.“ (1Jóh 2.1-4). 113 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 120-121. 114 Nicola Denzey Lewis og Justine Ariel Blount, „Rethinking the Origins of the Nag Hammadi Codices“, www.academia.edu, 2014, sótt 15. júní 2018 af https://www.academia.edu/8105963/_Rethinking_ the_Origins_of_the_Nag_Hammadi_Library_. 115 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 58-59.

Page 48: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

47

var samkvæmt þessu ekki að boða eyðingu á ritum gnosta heldur voru það kenningar

Aríusar sem ollu honum áhyggjum.

Til frekari rökstuðnings gegn óskeikuleika rétttrúarsjónarmiðsins nefnir Elaine Pagels

að þó svo að Tertúllíanus hafi talið sína kirkju hina einu postullegu og sönnu, varið kanón

Ritningarinnar og postullega vígsluröð, þá hafnaði hann síðar á ævinni

rétttrúarsamfélaginu og gekk í staðinn til liðs við spámannlegu hreyfingu Montanista.

Tertúllíanus hélt sér þó áfram við kenninguna um hinn eina guðdóm, föður, sonar og

heilags anda sem búi aðeins í hinni sönnu kirkju.116 Pagels virðist telja fráhvarf

Tertúllíanusar frá rétttrúarsamfélaginu sýna að barátta rétttrúarmanna hafi meira snúist

um valdapot en tryggð við réttan kenningarlegan grundvöll andspænis gnostisma. Þó

hefur hún sjálf bent á að ástæða brotthvarfs Tertúllíanusar var ekki andstaða við valdboð

Nýja testamentisins og játningu trúar á þrenningu Guðs föður, sonar og heilags anda.

Samkvæmt því virðist nokkuð augljóst að Tertúllíanus hafi ennþá verið kenningarlega

ósammála gnostum er boðuðu allt aðra trúarlega heimsmynd. Í raun virðist þetta að

mínu mati mun fremur sýna að barátta hans gegn villutrú snérist ekki um eflingu á

valdakerfi kirkjunnar, heldur hans eigin sannfæringu um það hver hin upphaflega, rétta

kristna boðun var. Þá virðist mér einnig sem Tertúllíanus hafi með þessu vikið frá fyrri

skoðunum sínum um konur sem lægra settar karlmönnunum, enda virðast Montanistar

hafa grundvallað sitt kirkjustarf á jafnrétti kynjanna.

Auk þessa bendir Elaine Pagels á að Tertúllíanus hafði gagnrýnt endalausa leit gnosta

og villutrúarmanna sem spyrji sömu spurninga og heimspekingar. Þeir búi til kristni sem

blönduð sé stóuspeki og platónisma. Eftir að menn hafi meðtekið Krist þurfi ekki að leita

frekari sannleika. Tertúllíanus áleit að það væru villutrúarmenn sem leyfðu hverjum sem

er að ganga í hópinn og skeyttu engu um ólík viðhorf til málefna þar sem allar kenningar,

vangaveltur og goðsagnir væru bara leið í leit að sannleikanum. Þeir telji sig fara eftir

boði Krists um að leita og þá muni þeir finna. Tertúllíanus segir að með þessu séu gnostar

leitandi en aldrei finnandi. Kristur hafi aftur kennt það sem felist í játningu trúar. Best

116 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 109-110.

Page 49: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

48

sé því að meðtaka trú kirkjunnar og viðurkenna takmörk mannlegs skilnings.117 Virðist

mér þetta enn fremur endurspegla að það hafi verið gnostar en ekki rétttrúaðir sem vildu

hleypa sem flestum inn í kirkju sína. Þá hefur þessi endalausa leit þeirra án efa skilað

ólíkum túlkunum og meintum opinberunum á leyndum sannleik sem hafa gefið af sér

endalausar nýjungar og frávik frá upphaflegum kjarna trúarinnar. Einhvers staðar hlutu

menn að verða að stíga niður fæti í slíkri leit og viðurkenna að ekki sé lengur um sama

átrúnað að ræða kenningarlega séð.

Pagels álítur að kirkjufeðurnir hafi talið gnosta ögra valdi biskups til að skilgreina

hvers eðlis kirkjan ætti að vera. Rétttrúarkristnir hafi þess vegna reynt að koma á

alþjóðlegri kirkju sem opin var öllum er vildu beygja sig undir valdakerfi þeirra. Gnostar

höfnuðu hins vegar kenningum þeirra, ritúali og yfirvaldi presta. Af þessum sökum hafi

þeir orðið undir og aðeins lifað áfram í örfá hundruð ár.118 Virðist Pagels samkvæmt

þessu sannfærð um að baráttan við gnosta hafi ekki snúist um trúarlega sannfæringu

eða þörf fyrir að vernda einhvern upphaflegan kjarna kristinnar trúar frá öðrum

kenningarlegum áhrifum, heldur aðeins um völd. En hér skortir á sannfærandi rök fyrir

slíkum fullyrðingum eins og fram hefur komið.

6. Jóhannesarguðspjallið haft með til að höfða til fjölbreyttari hóps. Að lokum bendir

Elaine Pagels á að innlimun Jóhannesarguðspjalls inn í Nýja testamentið sýni að kirkjan

hafi reynt að höfða til sem flestra og reynt að viðhafa innanborðs margar ólíkar

hugmyndir og iðkanir samhliða hinu stofnanalega.119 Þetta þykir mér sérkennileg

staðhæfing í ljósi þess sem fram hefur komið og þeirrar staðreyndar að elstu handrit úr

Nýja testamentinu eru einmitt brot úr Jóhannesarguðspjalli.120 Þó svo að

117 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 113-114. 118 Sama heimild, bls. 114-115, 117-118. Fyrir kirkjufeðrunum var mikilvægara að stunda venjulega vinnu og fjölskyldulíf fremur en róttæk meinlæti. 119 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 119-120. 120 Jóhannesarguðspjall er auk þess til í handriti frá því um 100-150 e.Kr og er því án efa eitt af guðspjöllunum sem Jústínus píslarvottur frá Neapólis vitnaði til (e. Justin Martyr, 110-156 e. Kr.). Philip Schaff (1819-1893), „ANF01. The Apostolic Fathers with Justin Martyr and Irenaeus“, Christian Classics Ethereal Library, sótt 23. apríl 2018 af http://www.documentacatholicaomnia.eu/03d/1819-1893,_Schaff._Philip,_1_Vol_01_The_Apostolic_Fathers,_EN.pdf. (bls. 210, 220-221, 247). Sjá bls. 247: I.Apol. 61.4: Christ also said „Unless you are born again you will not enter into the kingdom of heaven.“ (Einnig: http://www.stanselminstitute.org/files/Justin%20Martyr_First%20Apology%20(65-67).pdf). Þarna er ekki annað að sjá en að Jústínus Píslarvottur vísi í Jóhannesarguðspjall 3.3.

Page 50: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

49

Jóhannesarguðspjall sé ólíkt samstofnaguðspjöllunum þremur innihaldslega er ekki

hægt að sannfærast auðveldlega um að það feli í sér einhvern annan trúarlegan boðskap

en hin guðspjöllin.121 Aftur á móti sýnir það annað sjónarhorn með nýju myndmáli,

orðalagi og framsetningu. Það segir frá öðrum þáttum úr lífi og starfi Jesú, rétt eins og

ólíkir blaðamenn koma með ólík sjónarhorn á sömu fréttina. Merki um þrenningarlega

hugmyndafræði er hægt að finna í öllum guðspjöllunum fjórum.122 Hér held ég fremur

að spurningin um höfund, kunnugleika rits, áreiðanleika uppruna þess og innihald, hafi

ráðið úrslitum eins og áður hefur komið fram, fremur en pólitískt útspil með það að

marki að lokka fólk inn í kirkjuna sem hugnaðist hin djúpa speki „Logos-myndmáls“

Jóhannesarguðspjalls.

Elaine Pagels er þannig sannfærð um að kirkjan hafi orðið meira og meira pólitísk á

árunum 150-400 e.Kr. Íreneus hafi t.a.m. aðallega hafnað villutrúarmönnum vegna þess

að þeir afneituðu klerkaveldinu, játningunum og Nýja testamentinu sem kanón.123 Ekki

vegna kenningarlegs ósamræmis. En hér virðist hún gleyma að hinn kenningarlegi

grundvöllur byggði einmitt á játningunum og Nýja testamentinu. Það var augljóslega þó

nokkuð sem greindi gnosta að kenningarlega. Pagels nefnir sjálf nokkra áhugaverða

þætti í trú gnosta sem við finnum hvorki í Gamla né Nýja testamentinu eða öðrum ritum

rétttrúarmanna. Gnostar kenndu til dæmis að það væri fáfræði fremur en synd sem

orskakaði þjáningu manna. Valentínus sagði heiminn hafa orðið til er Viskan, móðir allra

lífvera, fæddi hann í gegnum eigin þjáningu. Þannig hafi fjórir eðlisþættir heimsins; jörð,

vatn, loft og eldur orðið til í gegnum þjáningu hennar.124 Hér er því Viskan eins og enn

annar guðinn. Tómasarguðspjall boðaði að menn ættu að leita áfram þar til þeir finna.

Þegar þeir finni verði þeim órótt en síðan hissa og munu þá ríkja yfir öllum hlutum. Í

Tómasarguðspjalli segist Jesús ekki vera meistari þeirra, heldur muni hver sem drekki af

121 Jóhannesarguðspjall er talið leggja meiri áherslu á guðdóm Jesú. Sbr. 1. kafli Jóhannesarguðspjalls. 122 Mætti hér nefna Matteusarguðspjall 28.18-20: „Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.““ 123 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 121. 124 Sama heimild, bls. 124.

Page 51: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

50

hans munni verða eins og hann og Jesús sjálfur síðan verða eins og sú manneskja. Allir

leyndir hlutir verði opinberaðir þeim einstaklingi.125 Eflaust hefur það heillað suma að

öðlast slíkt vald. Bæði Tómasarguðspjall og Samræður frelsarans (e. Dialougue of the

Savior) láta Jesú segja lærisveinum sínum að leita innra með þeim sjálfum eftir svörum.

Að hver sem þekki sjálfan sig hafi séð lífsstaðinn þar sem ljósið er. Er Matteus heldur

síðan áfram að spyrja Jesú spurninga segist Jesús ekki vita svarið. Þannig segir Pagels að

postuli sem öðlaðist sjálfsþekkingu hafi getað uppgötvað það sem Jesús vissi ekki sjálfur.

Sumir gnostar sögðu frelsun manns gerast í gegnum innri endurnýjun. Vitnisburður um

sannleika (e. Testimony of Truth) sagði gnosta verða lærisveina síns eigin hugar sem

uppgötvi að þeirra eigin hugur sé faðir alls sannleika. Þeir læri að þekkja sjálfa sig í

hugleiðandi þögn, séu öllum jafnir og sjálfstæðir frá valdi annarra. Silvanus sagði hvern

þann sem fylgi leiðsögn eigin huga ekki þurfa ráðgjöf frá öðrum.126

Af öllu þessu má sjá nokkuð skýr tengsl gnostismans við hindúisma, búddisma og

gríska heimspeki, eins og ýmsir fræðimenn hafa bent á.127 Virðist trú gnosta hafa verið

fólgin í endalausri leit að sannleika sem hver og einn uppgötvaði í vangaveltum eigin

huga. Slík leit hlaut að bjóða upp á endalausa flóru af „sannleika“ út frá opinberun hvers

og eins. Eflaust skilaði þessi leit sér í takmörkuðum tíma til að ástunda fórnfúsan

náungakærleika í anda þess sem guðspjöllin boðuðu, er menn hurfu inn í eigin heim

leitar og sjálfsuppgötvana.128 Sumir Nag Hammadí textanna sýna auk þess merki um

ringulreið og ótta í slíkri leit.129 Zostrianos virtist t.a.m. verða áttavilltur í sinni leit. Eftir

125 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 127, 130. 126 Sama heimild, bls. 131, 128-129, 131-132, 23-24. Pagels nefnir eins að Tómasarguðspjall boði að ríki Guðs sé ekki bókstaflegt heldur aðeins innra með mönnum og fyrir utan þá. Tertúllíanus gagnrýndi það hvernig hver gnosti gat mótað hefðirnar eftir eigin geðþótta og Íreneus sagði hina Kaþólsku kirkju einhuga um kenningar sínar sem kenndar væru í fullkomnu samræmi. 127 Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 45. Einar Sigurbjörnsson talaði um að heimar egypskrar, austrænnar og grískrar heimspeki og trúar hefðu mæst, eins og fram hefur komið. Elaine Pagels nefnir þessi tengsl reyndar sjálf (Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. xxi). 128 Mætti hér nefna boð Jesú um að sinna þeim sem minna mega sín: „Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.“ (Matt 25. 35-36). 129 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 133, bls. 20. Valentínus sagði t.d. frá Visku, yngstu dóttur frumparsins, sem vildi af ástríðu læra að þekkja föðurinn og hefði getað lent í sjálfstortímingu ef hún hefði ekki kynnst afli sem kallað var „Takmörkin,“ er frelsaði hana frá tilfinningalegu umróti og kom henni aftur á réttan stað. Markús, nemandi Valentínusar, um 150 e.Kr. sagðist hafa séð í sýn konu er vildi

Page 52: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

51

að hafa í hugleiðslu séð hið fullkomna barn eða sýn hinnar guðlegu nálægðar fylltist hann

hugarangri og fór út í eyðimörkina til að deyja. En þar sá hann í sýn sendiboða þekkingar

hins eilífa ljóss og upplifði fleiri sýnir.130

Filippusarguðspjall sagði hvern þann sem skynjar guðdómlegan veruleika verða það

sem hann sér. Ef hann sér Krist, verður hann Kristur. Hver sem öðlist þekkingu verði ekki

lengur kristinn heldur Kristur sjálfur. Þannig segir Elaine Pagels að trúarleg viðhorf gnosta

hafi verið í andstöðu við þróun stofnanalegs rétttrúnaðar. Þeir sem væntu þess að verða

Kristur sjálfir voru ekki líklegir til að viðurkenna stofnanalega uppbyggingu kirkjunnar

með biskupum, prestum, játningum, kanón og ritúali sem fól í sér endanlegt valdboð.131

Eins hafi gnostisminn verið með langt innvígsluferli af ströngum aga í allt að fimm ár og

loks þagnarskyldu í kjölfarið. Slíkt ferli af ströngum aga höfði einungis til fárra. Þó hafi

kennsla gnosta um að uppgötva guðdóminn innra með manni höfðað það mikið til

margra að það ógnaði kaþólskum kenningum, en ekki svo að af yrðu fjöldatrúarbrögð.

Gnostisminn hafi ekki staðist samanburð við hið skilvirka kerfi hinnar almennu kirkju

með samræmt trúarlegt sjónarhorn grundvallað á kanón Nýja testamentisins,

trúarjátningum, einföldum ritúölum og sakramentum. En án þessara eiginleika segir

Pagels varla hægt að ímynda sér að kristin trú hefði lifað af og laðað til sín slíkan fjöld

fylgjenda um allan heim í gegnum aldirnar. Ekki einungis hugmyndir geri trúarbrögð

voldug heldur séu jafn mikilvæg félagsleg og pólitísk kerfi sem skilgreina og sameina fólk

í tengslanet. Pagels ályktar að ef kristni hefði haldið áfram að fela í sér fjölbreytileika

hefði hún getað horfið úr sögunni.132

Ég get verið sammála Pagels um að það hafi vissulega hjálpað kristinni trú að hafa

skýrar skorður á því hvað heyrði undir trúna og hvað ekki. Eins að trúin hafi ekki gert

kröfu um lokað og flókið fimm ára innvígslukerfi fólgið í endalausri innri leit og íhugun.

birta honum sannleikann, sem virtist fólginn í henni sjálfri að hann skildi fegurð hennar. Markús vakti upp andann í vígsluritúali og skipaði lærlingum sínum að tala í spádómum. 130 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 135-139. Allogenes var einnig varaður við í sinni leit sem fór fram í tilteknum stigum í átt til þekkingar. Er hann hvarf úr líkama sínum undir leiðsögn heilagra krafta er leiðbeindu honum að hreyfiaflinu er kallaðist „Vitality“ var honum sagt að ef hann yrði hræddur þegar hann meðtæki opinberunina, skyldi hann draga sig til baka. 131 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 133-134. 132 Sama heimild, bls. 139-142.

Page 53: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

52

En þar fyrir utan þykir mér líklegra, í ljósi þess sem fram hefur komið, að hinn trúarlegi

boðskapur og hugmyndafræði kristninnar hafi verið sá þáttur sem hafði hvað mest um

eflingu og vöxt trúarinnar að segja, fremur en ytra skipulag og stofnanavæðing. Að

trúarsannfæring fólks, grundvölluð á þessum trúarhugmyndum, hafi fremur orðið til

þess að menn settu skorður með reglum og skipulagi til þess að vernda tiltekinn

trúarlegan kjarna. Vegna sannfæringar um réttmæti þessa trúarlega kjarna voru

fylgjendur rétttrúnaðarins tilbúnir að láta lífið fremur en að afneita trú sinni. Jók það enn

á sannfæringarkraft trúarinnar. Heimildir votta auk þess að ofsóknir gegn kristnum

hófust strax á fyrstu öld, löngu fyrir þann tíma sem Pagels telur að krafa um

kenningarlegt samræmi hafi hafist (lok 2. aldar).133

Fullyrðing Pagels um að samræming á hinum trúarlega boðskap ásamt

trúarjátningum, einföldum ritúölum og sakramentum, hafi verið þeir eiginleikar sem

gerðu trúnni kleift að lifa af, gefur í skyn að trúarboðskapurinn sjálfur hafi ekki haft nein

áhrif. Pagels virðist ekki sjá að allir þessir þættir grundvölluðust einmitt á

trúarboðskapnum, fremur en að vera liðir í úthugsuðu samsæri er tryggja átti mönnum

völd. Hluti þessa trúarlega hugmyndakerfis fól í sér að hlúa að fátækum og sjúkum.

Pagels segir sjálf að rétttrúaðir hafi verið uppteknari af samskiptum við annað fólk og

skilgreint hið illa sem ofbeldi gegn öðrum samkvæmt lögmáli Móse og túlkun Jesú, er

talaði líka gegn andlegu ofbeldi eins og reiði, losta og hatri. Þannig boðuðu þeir mikilvægi

siðferðilegrar ábyrgðar, að syndga ekki og koma vel fram við aðra. Líka börn og fátæka.134

133 Flest kirkjusöguleg rit fjalla um þessar ofsóknir og byggja þar á ýmsum sagnfræðiheimildum sem og ritum kirkjufeðranna sjálfra. Professor Alister E. McGrath nefnir þær í bók sinni um sögu guðfræðinnar (Alister E. McGrath, Historical Theology, bls. 17-20). Eins fjallar Takítus sagnaritari (um 55-117/130 e.Kr.) um ofsóknir Nerós gegn kristnum. Taldi Takítus Neró hafa kennt kristnum um brunann í Róm til að komast hjá sögusögnum um að hann hefði kveikt í sjálfur. Fyrir Takítusi voru kristnir samt sekir um að boða trú sem samræmdist ekki rómverskum gildum: „To dispel the gossip Nero therefore found culprits on whom he inflicted the most exotic punishments. These were people hated for their shameful offences whom the common people called Christians… As a result, guilty though these people were and deserving examplary punishment, pity for them began to well up because it was felt that they were being exterminated not for the public good, but to gratify one man´s cruelty.“ (Tacitus, Gaius Cornelius, The Annals: The Reigns of Tiberius, Claudius, and Nero, ritstj. A. A. Barrett/Þýð. J.C.Yardley, Oxford: University Press, 2008, bls. ix-xiii, 359) og (Annals, 15.44). 134 Elaine Pagels, The Gnostic Gospels, bls. 146-147. Pagels bendir sjálf á að jafnvel heiðingjarnir sem gagnrýndu hina kristnu hafi séð að trúin höfðaði til hinna fátæku með hvatningunni um að gefa fátækum fæðu og grafa hina látnu. Þeir hafi séð sig sem meðlimi í sameiginlegri fjölskyldu hinnar almennu kirkju.

Page 54: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

53

Hér bendir Pagels á mikilvægan þátt er jók fylgjendum við rétttrúnaðinn enda erfitt að

standast sannan náungakærleika í öllum sínum birtingarmyndum. Mér virðist því fremur

að það hafi verið einmitt þessi boðskapur kristinnar trúar um náungakærleika sem hafi

gert trúnni kleift að lifa af.

Ýtarleg skoðun á innihaldi þessarar vinsælu bókar Elaine Pagels The Gnostic Gospels

sýnir að kenningar eins og þær sem Pagels varpar hér fram, um félags-pólitísk áhrif og

valdapot sem megin ástæðu fyrir því hver hinn endanlegi boðskapur kristinnar trúar

varð, eru ekki endilega hinn óhagganlegi og eini rétti sannleikur. Til eru aðrar líklegar

skýringar á því hví sú trú sem við höfum í játningum kirkjunnar í dag og ritum Nýja

testamentisins varð svona vinsæl umfram hinar gnostísku kenningar og trúarkerfi.135 Þó

að ýmsir trúarhópar vilji kenna sig við Krist þýðir það ekki endilega að þeir séu í raun

kristnir samkvæmt þeim skilningi sem hinir fyrstu kristnu höfðu á sinni trú.

Í ljósi fyrirliggjandi heimilda tel ég óhætt að nota þau rit sem valin voru inn í Nýja

testamentið sem viðmiðunarreglu, um hvaða kristna boðskap megi telja

upprunalegastan og næstan því sem Kristur sjálfur og lærisveinar hans boðuðu. Við þetta

síast frá fjöldinn allur af ritum sem kenna sig við Krist og þar með talin rit fyrrnefndra

gnosta, mörg hver frá Nag Hammadí, ásamt hinni koptísku útgáfu Tómasarguðspjalls.136

Sá kjarnaboðskapur sem fram kemur í Nýja testamentinu hefur alltaf með tvöfalda

kærleiksboðið að gera, að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Þar er boðuð trú á

einn Guð skapara og Jesú Krist hans son sem sendur var til manna, þjáðist í holdi og dó

fyrir syndir þeirra til að endurleysa þá til eilífs lífs.137 Guðspjöllin og bréf Páls vitna um

135 Kafli 4.1 mun fjalla betur um skýringar á því hvers vegna kristin trú óx og varð svo vinsæl að hún náði að verða að ríkistrú Rómaveldis. 136 Enda þar að finna ummæli eignuð Jesú sem endurspegla ekki þann kærleika sem Jesús Kristur Nýja testamentisins boðaði eins og fram hefur komið. 137 Sjá Jóhannesarguðspjall um Jesú: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna… Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans… Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ (Jóh 1.1-4, 9-12, 14).

Page 55: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

54

guðdóm Jesú en Páll ritar snemma (d. 62-64 e.Kr.).138 Litla „trúarjátning“ Páls í 1.

Korintubréfi (1Kor 15.3-22) endurspeglar þessa sömu trú.139 Þá fullyrti Íreneus kirkjufaðir

að verk Jústínusar, Tatíans, Miltíatesar og Klemensar lýsi Kristi sem bæði Guði og manni.

Auk þess séu til fjöldi sálma og lofsöngva ritaða á upphafsárum kristni sem tali um Krist

sem Orð Guðs og sem ávarpi hann sem Guð.140

Að lokum er vert að spyrja hvort svona margir hefðu verið til í að líða píslardauða,

pyndingar, ofsóknir og félagslega útskúfun fyrir það eitt að fylgja siðaboði einhvers

manns, ef þeir trúðu því aðeins að hann væri góður siðferðilegur kennari og fyrirmynd í

kærleika en ekki sjálfur sonur Guðs, frelsari og uppfylling spádóma hinnar heilögu

Ritninga.

138 E. P. Sanders, „St. Paul, the Apostle“, Encyclopædia Britannica, 27. mars 2018, sótt 23. apríl 2018 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Paul-the-Apostle. 139 Ritunartími og uppruni helstu bréfa Páls er ekki véfengdur af fræðimönnum. Til dæmis er áætlað að 1. Korintubréf, sem felur í sér litlu „trúarjátningu“ Páls, sé ritað um 53-55 e.Kr. (Walter F. Taylor Jr., Paul: Apostle to the Nations, bls. 170). 140 Eusebius, Hist. Eccl. 5.28 (Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. 176-177.

Page 56: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

55

2. Uppruni og áreiðanleiki rita Gamla testamentisins

Rit Nýja testamentisins sýna að Jesús sjálfur og postular hans vitnuðu mikið í þau

gyðinglegu rit sem í dag eru kölluð af kristnum Gamla testamentið. Þessi rit töldust

einnig vera vitnisburður um trú hinna kristnu og því mikilvægt að hafa þau með sem

hluta af hinu kristna regluritasafni, Biblíunni. Hinir fyrstu „kristnu“ vísuðu mikið í

spámannarit Gamla testamentisins og sáu í lífi og dauða Jesú uppfyllingu á ýmsum

spádómum þess.141 Þeir töldu sig til hóps Gyðinga þó svo að ekki hafi allir Gyðingar verið

tilbúnir að samþykkja Jesú sem Messías þann er helgirit þeirra boðuðu. Þá telja ýmsir

fræðimenn að kristnir hafi tekið að aðgreina sig meira frá Gyðingum eftir uppreisn

Gyðinga um 70 e.Kr. og eyðileggingu musterisins í Jerúsalem af rómverskum

yfirvöldum.142 Hér tel ég því mikilvægt að staldra við til að skoða sögulegan áreiðanleika

rita Gamla testamentisins sem hinir fyrstu kristnu töldu með sínum helgu trúarritum.

Til að byrja með er mikilvægt að skilja að Gamla testamentið sem Gyðingar söfnuðu

saman í eina bók, skiptist í Lögmálið eða fimm bækur Móse (heb. Torah), Ritin (heb.

Kethubim) með sagnfræðilegum köflum og Spámennina (heb. Nebi‘im).143 Gamla

testamentið felur því í sér spámannleg rit, spekirit, helgisagnir og sagnfræði eða

sagnahefð þjóðarinnar Ísraels, þar sem mikið af elsta efninu hefur líklegast varðveist í

munnlegri geymd. Síðan taka menn að skrá niður heimildir en ekki er vitað fyrir víst

hvenær það var, ef til vill á 9. öld f.Kr. og jafnvel fyrr.144 Matthias Henze, prófessor í

141 Ég set „kristnu“ hér í gæsalappir til að undirstrika að þetta var í fyrstu einungis hópur Gyðinga og síðar einnig heiðingja, sem trúðu því að Jesús væri Messías, þ.e. kristos á grísku, sem þýðir „hinn smurði.“ Hópurinn skilgreindi sig í fyrstu ekki sem „kristna“ þó svo að mikið væri talað um Jesús Krist frelsarann og Messías innan hópsins. Ég mun engu að síður tala um þá, sem völdu frá upphafi að fylgja Jesú Kristi, sem „kristna“ þar sem að hugtakið lýsir því hvaða trúarskoðun þau höfðu og aðgreinir þá frá öðrum Gyðingum í sínu umhverfi. 142 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 16, 118-117. 143 Bernhard W. Anderson, The Living World of the Old Testament, England: Pearson Education, 1988, bls. 3. Sjá einnig heimild með réttum íslenskum heitum (Einar Sigurbjörnsson og Gunnlaugur A. Jónsson, „Hvernig flokka Gyðingar rit Gamla testamentisins?“, Vísindavefurinn, 26. nóvember 2002, Sótt 3. maí 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2905). 144 Einar Sigurbjörnsson og Gunnlaugur A. Jónsson, „Hvað er talið að Gamla testamentið hafi orðið til á löngum tíma?“, Vísindavefurinn, 22. nóvember 2002, sótt 8. janúar 2019 af https://www.visindavefur.is /svar.php?id=2894. Í útdrætti Alan Millard á bók Christopher A. Rollston, kemur fram að hægt sé að staðfesta að Ísraelar hafi verið komnir með eigið letursérkenni allavega á 9.öld f.Kr. (Alan Millard, „ Writing and Literacy in the World of Ancient Israel“, Biblical Arhaeology Society: Bringing the Ancient

Page 57: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

56

hebresku Biblíunni og forngyðinglegum fræðum, talar um að ritunartími Gamla

testamentisins hafi staðið yfir allt frá 12.-2. aldar f.Kr.145 Ísraelar lentu í hernámi og

misstu ríki sitt alfarið til Babýloníumanna um 587/586 f.Kr.146 Þeir náðu þó að varðveita

heimildir sínar og sagnahefðir sem þá voru fjölmargar og ekki komnar saman í eitt rit.

Þeir upplifðu síðan björgun frá Persum um 538 f.Kr. sem sigruðu Babýloníumenn og

leyfðu Gyðingum að endurreisa musterið.147 En fyrstu heimildir um að ritum Ísraela hafi

verið safnað saman í eitt lokað helgirit eru frá 3.-2. öld f.Kr. Þá voru Gyðingar dreifðir á

meðal grískumælandi þjóða og þótti því mikilvægt að þýða hebresku ritin yfir á grísku.

Sú þýðing var kölluð Septuaginta eða sjötíu manna þýðingin (oft nefnd LXX).148 Er það

líklegast sú þýðing sem kristnir vísuðu mest til á fyrstu öldum kristni.149

Í ljósi þess hvernig Gamla testamentið mótaðist á löngum tíma af fjölbreytilegu safni

ísraelskra eða hebreskra rita er því mikilvægt að átta sig á að kristin trú gengur út frá því

að boðskapur Krists og verk séu notuð sem túlkunarlykill á hin gyðinglegu rit Gamla

testamentisins. Kristur sjálfur leiðrétti ýmsar áherslur og túlkanir fræðimanna og farísea

síns tíma á Gamla testamentinu með áherslunni á Guð sem kærleiksríkan föður.150

World to Life: Bible History Daily, 14. júní 2012, sótt 20. mars 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/reviews/writing-and-literacy-in-the-world-of-ancient-israel/). 145 Matthias Henze, Mind the Gap: How the Jewish Writings between the Old and New Testament Help Us Understand Jesus, Minneapolis: Fortress Press, 2017, bls. 49. 146 Encyclopædia Britannica, „Biblical literature: Influence and significance: Historical and cultural importance“, Encyclopædia Britannica, sótt 11. mars 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature#ref73145. 147 Bernhard W. Anderson, The Living World of the Old Testament, bls. 508. (Sjá einnig: Encyclopædia Britannica, „Biblical literature: Old Testament history: The Babylonian Exile and the restoration“, Encyclopædia Britannica, sótt 11. mars 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature/Non-European-versions#ref73235). 148 Editors of Encyclopaedia Britannica, „Septuagint: Biblical Literature“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. mars 2019 af https://www.britannica.com/topic/Septuagint. (sjá einnig: Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 16-20). 149 Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 20. Matthias Henze segir að Septuagintan hafi snemma verið sú útgáfa af hebresku Biblíunni sem frumkristnir notuðu hvað mest og nefnir þar Pál postula sem dæmi, enda bréf hans rituð á grísku. (Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 41). 150 Sjá ákvæði lagabálka Gamla testamentisins um hórdómssök (3Mós 20.10; 5Mós 22.22-24). Sjá síðan viðbrögð Jesú í Jóhannesarguðspjalli 8.1-11 sem er þessu ekki sammála og segir: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Einnig talaði Jesús um mikilvægi rétts hugarfars umfram hreinsunarritúöl farísea og fræðimanna Gyðinga: „Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni“ (Matt 15.11). Dæmisögurnar um „Týnda sauðinn,“ „Týndu drökmuna“ og „Týnda soninn“ (Lúk 15.1-32) endurspegla allar þann megin boðskap að Guð sé kærleiksríkur og fyrirgefandi faðir sem fagni hverjum iðrandi syndara. Síðan er að finna, innan um misjafnlega skiljanleg lagaboð,

Page 58: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

57

2.1 Hinn gyðinglegi arfur: Handrit að ritum Gamla testamentisins

Í þessum kafla mun ég skoða áreiðanleika helstu rita Gamla testamentisins út frá

fornleifarannsóknum og handritum sem fundist hafa. Svo virðist sem ekki hafi orðið

miklar breytingar á þeim ritum sem við höfum í dag frá tíma elstu handrita þeirra.

Hin gyðinglegu rit sem finna má í Gamla testamentinu fengu mikilvægan stuðning við

uppruna sinn og háan aldur er Dauðahafshandritin (e. The Dead Sea Scrolls/Qumran

manuscripts) komu í ljós við fornleifauppgröft í Kúmran, norðvestan við Dauðahafið, á

árunum 1946-1956.151 Kúmran handritin eru elstu handrit sem fundist hafa af Gamla

testamentinu. Flest handritanna eru rituð á hebresku og arameísku en sum á grísku. Var

megnið af þeim ritað á tímanum 2. öld f.Kr. til 1. aldar e.Kr.152 Áður en Dauðahafs-

handritin fundust voru aðeins til nokkur handrit að texta hinnar grísku sjötíumanna

þýðingu Septuagintunni, en af hinum upprunalega hebreska texta var til heilt handrit,

kallað Kórónan frá Aleppó eða Aleppo Codex, aldursgreint frá 930 e.Kr. Var það elsta

handrit sem til var af heilögum ritningum Gyðinga á hebreskri tungu eða allt þar til

Dauðahafshandritin fundust. Hluti þess glataðist í óeirðunum sem brutust út í Aleppó í

Sýrlandi í kjölfar fregnanna af því að Ísrael hafði fengið viðurkenningu Sameinuðu

þjóðanna sem sjálfstætt ríki 29. nóvember 1947. Ritið var falið í um tíu ár en áfram héldu

síður að hverfa úr því. Til dæmis hurfu 1. og 2. Mósebók á dularfullan máta. Síðan var

Leníngrad handritið (e. Leningrad Codex) til frá 1008 e.Kr. með allan hebreska texta

Gamla testamentisins.153 Helstu handritin að Septuagintunni grísku eru Codex Vaticanus,

gullmola í Mósebókum Gamla testamentisins. Þetta eru boðin í 3. Mósebók 19.18 og 5. Mósebók 6.5. Jesús vísar til þeirra sem og lögvitringurinn í Lúkasarguðspjalli 10.27: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ 151 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 145-146, 163-166. Sagrusten segir að þótt mismunur sé á orðavali og framsetningu Kúmran textanna þá eru fá tilbrigði sem breyta innihaldi textans. Texti Kúmran ritanna frá því um 100 f.Kr. var að mestu leyti sá sami og í Gamla testamentinu í dag. Sýndi þetta að Septuagintan var líklega þýdd úr hebreskum texta sem var líkur þeim sem fannst við Kúmran. 152 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 32, 38-39. Flestir fræðimenn eru sammála um að elstu handritin sem fundust við Kúmran séu frá 3. öld f.Kr. (Philip R. Davies, „Dead Sea Scrolls“, Encyclopædia Britannica, sótt 13. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Dead-Sea-Scrolls). 153 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 145-146, 151-153, 156-159. Sjá nánar um sögu Aleppo Codex: Jennifer Drummond, „The Aleppo Codex“, Biblical Archaeology Society: Bible History Dayily, 27. nóvember 2018, sótt 3. maí 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/hebrew-bible/the-aleppo-codex/.

Page 59: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

58

Sinaiticus og Alexandrinus frá 4.-5. öld e.Kr.154 Konstantin von Tischendorf (um 1859

e.Kr) fann til að mynda Codex Sinaiticus, hið elsta handrit í heild sinni að Nýja

testamentinu og hálfu Gamla testamenti á grísku, aldursgreind frá miðri 4. öld e.Kr.155

Fannst það í klaustri Austur-Rétttrúnaðarkirkjunnar kallað St. Catherine’s.156

Meðal annarra rita sem fundust við Dauðahafið voru um tvö hundruð bókrolla með

biblíutexta úr Gamla testamentinu. 40 prósent bókrollanna innihélt texta sem er mjög

svipaður þeim biblíutexta sem við þekkjum á meðan aðrir innihéldu texta sem var mun

frjálslegri og eitthvað ólíkur þeim sem við þekkjum. Þarna voru brot úr skinnhandritum

með texta úr öllum bókum Gamla testamentisins nema Esterarbók.157 Best varðveitta

bókrollan inniheldur spádómsbók Jesaja og er þar að finna texta sem er mjög líkur þeim

sem við finnum þúsund árum síðar í Gamla testamentinu. Kúmran handritin að Gamla

testamentinu voru þannig að mestu leyti samhljóða Aleppó handritinu (um 930 e.Kr) og

Leníngrad handritinu (um 1008 e.Kr). Aldursgreining Dauðahafshandritanna sýnir

ritunartíma sumra þeirra frá 250 f.Kr. en annarra um 100 f.Kr. Staðfesti þetta einnig að

gríska Septuagintan (frá um 200 f.Kr.) var líklegast þýdd úr hebreska textanum. Eins

hjálpuðu þessi handrit við að þýða og skýra ritningarstaði þar sem hebreski textinn hafði

áður verið torskilinn.158

154 Leonard J. Greenspoon, „Major Septuagint Manuscripts - Vaticanjus, Sinaiticus, Alexandrinus“, Bas Library: Biblical Archaeology Society Online Archive, sótt ágúst 2018 af https://members.bib-arch.org/bible-review/5/4/15. Hægt er að skoða öll þessi handrit með því að slá nöfn þeirra inn í leitina inni á fyrrnefndri síðu CSNTM (Sjá nánar: http://csntm.org/Manuscript). 155 The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Konstantin von Tischendorf: German Scholar“, Encyclopædia Britannica, sótt 8. maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Konstantin-von-Tischendorf. Nafn Tischendorfs er hér skráð rétt: „Konstantin von Tischendorf“. 156 Ellen White, „Tischendorf on Trial for Removing Codex Sinaiticus, the Oldest New Testament: Is Constantine Tischendorf a hero or thief?“ Bible History Daily: Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life, 26. nóvember 2018, Sótt 03. desember 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/bible-versions-and-translations/tischendorf-codex-sinaiticus-oldest-new-testament/. Sjá nánar á heimasíðu British Library um innihald handritsins og slóð á vef þar sem hægt er að skoða handritið sjálft. (British Library, „Collection Items: Codex Sinaiticus“, British Library, sótt 10. maí 2019 af https://www.bl.uk/collection-items/codex-sinaiticus). 157 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 163-166. Önnur handrit sem fundust og voru í eigu Kúmran samfélagsins vísa til Esterarbókar svo að ritið var engu að síður þekkt þeirra á meðal. Sjá einnig vefbók Hershel Shanks um Dauðahafshandritin. (Hershel Shanks, The Dead Sea Scrolls: Discovery and Meaning: An Illustrated Lecture by Hershel Shanks, Washington DC: Biblical Archaeology Society, 2007, bls. 19-20). 158 Hans Johan Sagrusten, Stóra Púsluspilið, bls. 166-167. Handritin eru skrásett á ólíkum tíma. Sum þeirra eru aldursgreind frá 3.öld f.Kr. en önnur allt fram á 1. öld e.Kr. en samfélagið við Dauðahafið var

Page 60: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

59

Þó er ekkert hér sem sannar nákvæma og rétta endurritun texta Gamla

testamentisins fyrir tíma Dauðahafshandritanna. Í ljósi ofangreindrar trúmennsku við

textana er ekki ólíklegt að menn hafi ávallt reynt í guðsótta sínum að miðla elstu

heimildum sínum um trúna á Guð JHVH og sagnahefðir ættfeðranna, af samviskusemi

og trúmennsku.159 Hitt er þó alltaf möguleiki að einhverjir kunni að hafa bætt einhverju

við eða tekið út, ýmist fyrir misskilning, misritun eða af einhverjum hagsmunaástæðum.

Spurningunni um það, hvort treysta megi á slíkan áreiðanleika við endurritun hinna

hebresku rita fyrir tíma Dauðahafshandritanna, verður því ekki svarað til fulls nema það

finnist enn eldri handrit að hinni hebresku Biblíu. Almennt er þó talið að elsta ritaða efni

Gamla testamentisins megi tímasetja mun fyrr. Dr. Solomon A. Nigosian, prófessor í

trúarbragðafræðum áætlar tímasetningu þess frá um 1000 f.Kr. þó Abraham sjálfur hafi

verið uppi mun fyrr.160 Matthias Henze, prófessor í hebreskum biblíufræðum, bendir

aftur á að elstu textar Gamla testamentisins séu upphaflega frá 12.-11. öld f.Kr. og nefnir

þar sem dæmi „Söng Móse“ í 5. Mósebók 32. kafla og „Söng Debóru“ í Dómarabókinni

5. kafla.161

lagt í eyði í átökunum í tengslum við uppreisn Gyðinga og eyðingu musterisins í jerúsalem um 70 e.Kr. Sjá nánar á heimasíðu handritanna á vegum Israel Antiquites Authority. (The Israel Antiquities Authority, „The Qumran Caves Scrolls“, The Leon Levy Dead Sea Scrolls Digital Library, sótt 13. mars 2019 af https://www.deadseascrolls.org.il/learn-about-the-scrolls/introduction?locale=en_US). Einnig að hægt er að skoða handritin á síðu frá Israel Museum. Sjá t.d. handritið að Jesaja. (Israel Museum, „The Great Isaiah Scroll“, The Digital Dead Sea Scrolls, sótt 13. mars 2019 af http://dss.collections.imj.org.il/isaiah). Vil ég hér benda sérstaklega á að almennt er talað um að þýðing Septuagintunnar grísku hafi átt sér stað á 3. öld f.Kr. (Bernhard W. Anderson, Contours of Old Testament Theology, Minneapolis: Fortress Press, 1999, bls. 6). 159 Varðandi nafn Guðs sem JHVH og guðsóttann vísa ég hér á Bernhard Andersson (Bernhard W. Anderson, Contours of Old Testament Theology, bls. 39-51). Í kafla sínum „Yahweh, The Holy One of Israel“ kemur fram hvernig Gyðingar óttuðust að óhlýðnast hinum eina sanna Guði því hann var heilagur. Í kaflanum „The Name of God“ segir Anderson frá því hvers vegna Gyðingar rituðu nafnið Guðs JHVH (venjulega þýtt sem „Drottinn“ í Gamla testamentinu) án sérhljóða eða notuðu sérhljóðana af Adonai (Drottinn) í stað þess að rita hið heilaga nafn Guðs, sem mátti ekki segja upphátt eða leggja við hégóma. Anderson notar aftur nafnið Jahweh um Guð sem hann og aðrir hebresku sérfræðingar telja vera réttan framburð á JHVH. Ég mun halda mig við hið einfalda JHVH. 160 S.A. Nigosian, World Religions: A Historical Approach, Boston og New York: Bedford/St. Martin‘s, 2000, bls. 236, 254-255. Nigosian segir líklegt að Abraham hafi flust frá Mesópótamíu til Egyptalands um 1700 f.Kr. Aðrir fræðimenn tímasetja Abraham fyrr um 2000-1800 f.Kr. eins og við sjáum hér síðar. 161 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 16-17. Yngstu bækur Gamla testamentisins segir hann ritaðar á um 4. öld f.Kr. að undanskilinni Daníelsbók sem talin er rituð á 2. öld f.Kr.

Page 61: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

60

Benda má hér á til samanburðar að elsta handritabrot úr ritum búddisma er frá 1. öld

e.Kr.162 Búdda sjálfur er talinn hafa fæðst 563 f.Kr. og dáið 483 f.Kr.163 Elsta handrit að

Rigveda, trúarriti hindúisma, er frá 1464 e.Kr.164 Menn telja Rigveda mögulega hafa

orðið til á tungumálinu sanskrít um 1500 f.Kr. en þó ekki skráð niður fyrr en um 300 f.Kr.

Það hafi því verið varðveitt í munnlegri geymd fram að því.165 Nigosian telur Vedur

hindúisma ekki hafa orðið til fyrr en einhvern tímann á tímabilinu 1500-800 f.Kr. og letrið

ekki fyrr en um 300 f.Kr.166 Elsta handrit frá Zaraþústratrú (e. Zoroastrianism) er frá um

1300-1700 e.Kr.167 Þó er til handritabrot sem minnist á Zaraþústra, áætluð

aldursgreining frá 9. öld e.Kr.168 Þó menn greini á um mögulegan upphafstíma

162 Samkvæmt heimildum frá British Library (British Library, „Collection Items: Gandharan Scrolls“, British Library, sótt 3. maí 2019 af https://www.bl.uk/collection-items/gandharan-scrolls). 163 S.A. Nigosian, World Religions, bls. 68-69, 80. Ekki er til neitt lokað safn búddískra rita. 164 Samkvæmt heimildum frá New world Encyclopedia (New world Encyclopedia editors, „Rigveda“, New world Encyclopedia, 13. júlí 2015, sótt 3. maí 2019 af http://www.newworldencyclopedia.org/entry/Rigveda#Manuscripts). Menn telja þó að tímasetja megi innihald Rigveda ritsins frá 1300-900 f.Kr. Séu frátaldar Achaemenian áletranirnar, eru þó engar haldbærar sannanir fyrir skráningu trúarlegs efnis fyrr en seint á Arsacid eða snemma á Sasanian tímaskeiðunum. Ólíkt öðrum trúarbrögðum Mið-Austurlanda, voru írönsk trúarbrögð því ekki með neina ritaða trúartexta á fornöld. (William W. Malandra, „Ancient Iranian religion“, Encyclopædia Britannica, ágúst 2016, sótt 5. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/ancient-Iranian-religion). Sjá nánar Arsacid veldistíminn varði frá 247 f.Kr.- 224 e.Kr. (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Arsacid dynasty: Ancient Iranian Dynasty”, Encyclopædia Britannica, sótt 20. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Arsacid-dynasty). Sasanian veldistíminn (224-651 e.Kr.). (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Sasanian dynasty: Iranian Dynasty“, Encyclopædia Britannica, sótt 20. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Sasanian-dynasty). 165 The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Rigveda: Hindu Literature“, Encyclopædia Britannica, 21. júlí 2017, sótt 3. júní 2019 af https://www.britannica.com/topic/Rigveda. 166 S.A. Nigosian, World Religions, bls. 20-21, 27. Nánar segir hann skráningu Code of Manu hafa byrjað um 200 f.Kr, Bagavad Gita um 100 f.kr. en Vedanta hugmyndafræðina ekki byrjað fyrr en 100 e.Kr. 167 British Library, „Collection Items: Manuscript: Videvdad“, British Library, sótt 10. maí 2019 af https://www.bl.uk/collection-items/videvdad. Í ritinu Comparative Oriental Manuscripts Studies: An Introduction, segir nánar að til sé vitnisburður sem vísi til rits er lýsir trúarathöfnum Zaraþústrusiðar og er sá vitnisburður tímasettur frá 1020 e.Kr. en elsta varðveitta handrit af Avesta sem hafði verið afritað í Íran, er frá 16. öld e.Kr. Elstu handritin voru afrituð á Indlandi. Er eitt slíkt afrit til af Videvad á Konunglega bóksasfni Kaupmannahafnar, tímasett frá 13. öld e.Kr. Einnig er ritið Yasna til frá 15. öld e.Kr. Þó nokkur munur er á Írönsku og Avestan handritunum. (Alessandro Bausi and Jost Gippert, „General Introduction“, Comparative Oriental Manuscripts Studies: An Introduction, Hamborg: Tredition, 2015, bls. 39-42). 168 British Library, „The Ashem Vohu, a Zoroastrian Prayer“, British Library, sótt 3. maí 2019 af https://www.bl.uk/collection-items/zoroastrian-prayer. Sjá einnig um þetta á Britannica. Þar segir að Avesta handritabrotið frá 9. öld beri sérkenni þess að vera upphaflega frá tímanum 531-579 e.Kr. Þó innihaldi það eldra efni eins og sem dæmi Gathas (söngva) spámannsins Zaraþústra. (William W. Malandra, „Ancient Iranian religion“, Encyclopædia Britannica, ágúst 2016, sótt 5. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/ancient-Iranian-religion).

Page 62: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

61

Zaraþústratrúar segir hefðin að Zaraþústra hafi fæðst 628 f.Kr. og dáið 551 f.Kr.169

Zaraþústratrú hefur eins áreiðanlegar fornmenjar sem bera vott um tilvist þeirrar trúar

frá 6.öld f.Kr. en Avesta helgirit Zaraþústratrúar segir Zaraþústra (e. Zoroaster) einmitt

hafa verið uppi á þeim tíma.170 Helstu heimildir fyrir tilvist Zaraþústratrúar eru

konunglegar áletranir, aðallega frá stjórnartíð Daríusar Persakonungs (522-486 f.Kr) og

Avesta helgirit Zaraþústrusiðar, rituð á Avestan tungu.171 Zaraþústratrú varð fyrst að

ríkistrú í tíð Daríusar, arftaka Kýrusar mikla Persakonungs. Það var einmitt í tíð Daríusar

sem Gyðingar fengu loks að endurreisa musterið 519 f.Kr.172 En Kýrus Persakonungur

hafði upphaflega gefið Ísraelum leyfi til þess samkvæmt Esrabók Gamla testamentisins

(Esr 1.1-11; 6.1-15). Elsta handrit úr Kóraninum, trúarriti íslamstrúar, er síðan frá 8. öld

e.Kr.173 En Múhameð spámaður múslima var uppi 570-632 e.Kr. Kóraninn telja menn

ritaðan um 650 e.Kr.174 Virðist gyðingdómur samkvæmt þessu skarta elstu heimildunum

til stuðnings við áreiðanleika og uppruna sinna trúarrita, ef miða á við fyrrnenfnd

trúarbrögð.

Bæði gyðingdómur og kristni eru þannig einstaklega rík af fornum handritum sem

aldursgreind hafa verið ótrúlega langt aftur í sögu og nálægt upprunatíma

trúarbragðanna. Eflaust eru fá eða mögulega engin önnur nútíma trúarbrögð svo rík af

handritum, jafn fornum og nálægt uppruna heimilda sinna í tíma, eins og finna má bæði

169 S.A. Nigosian, World Religions, bls. 216-217. 170 Franz Cardinal König, „Zarathustra: Iranian Prophet“, Ensyclopædia Britannica, sótt 10. maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Zarathustra. Þetta er einnig mat fornleifafræðingsins og prófessorsins Wu Xin á fornmenjum sem fundist hafa í tengslum við Zaraþústrutrú. (https://www.academia.edu/8353432/Zoroastrians_of_Central_Asia_Evidence_from_Archaeology_and_Art). Sumar heimildir tímasetja Zaraþústra fyrr, vegna málfarslegra tengsla við Rig Veda Indverskan texta Hindúatrúar. (Christian Violatti, „Zarathustra: Definition“, Ancient History Encyclopedia, 23 maí 2014, sótt 10. maí 2019 af https://www.ancient.eu/zoroaster/). Ef miðað er við ritunartíma Rigveda um 300 f.Kr., elstu handrit þess frá 15. öld e.Kr. og óljósan upphaflegan tilurðar-tíma þess, sé ég ekki hvernig slík vensl ættu að hjálpa til við eldri tímasetningu Zaraþústratrúar. Kenningin sniðgengur áætlaðan tíma Zaraþústra samkvæmt heimildum helgirits Zaraþústratrúar. 171 William W. Malandra, „Ancient Iranian religion“, Encyclopædia Britannica, ágúst 2016, sótt 5. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/ancient-Iranian-religion. 172 J.M. Munn-Rankin, „Darius I“, Encyclopædia Britannica, 10. janúar 2017, sótt 3. júní 2019 af https://www.britannica.com/biography/Darius-I. Áletranir og fornmenjar sýna mikil áhrif Zaraþústrusiðar á hann. 173 British Library, „Sacret Texts: Islamic“, British Library, sótt 3. maí 2019 af https://www.bl.uk/collection-items/the-mail-quran. 174 S.A. Nigosian, World Religions, bls. 310-311, 327.

Page 63: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

62

í gyðingdómi og kristni.175 Beri maður saman áætlaðan ritunartíma rita helstu

trúarbragðanna og sagnaritaranna við tímasetningar handrita sömu heimilda, eru hinar

hebresku frásögur Gamla testamentisins með mun meiri áreiðanleika hvað varðar aldur

og uppruna sinna heimilda. Til að mynda er Heródótos sagnaritari talinn hafa verið uppi

um 484-425 f.Kr.176 Elstu handrit að sagnfræði Heródótosar eru frá um 1000 e.Kr. þó til

séu lítil handritabrot frá um 1.-3. öld e.Kr.177 Sama á við um handrit sagnaritarans

Þúkýdídesar, en þau eru frá 14.-15. öld e.Kr. fyrir utan lítið handritabrot frá 3. öld f.Kr.178

Eins mætti nefna handrit að Annálum (e. Annals), sagnfræðiriti rómverska sagnaritarans

Takítusar (56-117 e.Kr.), en elstu handritin sem fundist hafa að því riti eru tvö, tímasett

frá um 11. öld e.Kr.179 Aftur á móti virðast handrit að ritum Gamla testamentisins styðja

við þann möguleika að rit Gamla testamentisins hafi flest verið rituð og endurrituð af

175 Hér miða ég við helstu nútíma trúarbrögð heims, Hindúatrú, Búddisma, Gyðingdóm, Kristni og Íslam. Ég bæti við Zaraþústratrú vegna skyldleika við eingyðistrú Gyðingdóms og Kristni. (Frank Jacobs, „These are all the world‘s major religions in one map“, World Economic Forum, 26. mars 2019, sótt 9. maí 2019 af https://www.weforum.org/agenda/2019/03/this-is-the-best-and-simplest-world-map-of-religions/). 176 John Marincola, „Introduction: Herodotus‘ Life and Work“, Herodotus: The Histories, John Marincola/Aubrey de Sélincourt, London: Penguin Books, 2003, ix-xiii, hér bls. x-xi. Heródótos er ekki alltaf talinn nógu áreiðanleg heimild vegna stakra villna og misskilnings sem fundist hafa í skrifum hans. (William W. Malandra, „Ancient Iranian religion“, Encyclopædia Britannica, ágúst 2016, sótt 5. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/ancient-Iranian-religion). 177 R. A. McNeal, „On Editing Herodotus“, L‘Antiquité Classique, 52/1983, bls. 110-129, hér bls. 111. Sjá einnig á vef: https://www.persee.fr/doc/antiq_0770-2817_1983_num_52_1_2086. Til eru nokkur handrit að sagnfræði Heródótosar, aldursgreind frá 10.-15. öld e.Kr. sem eru innihaldslega ekki alveg eins. Elsta kallast Laurentianus frá 10. öld e.Kr. Sjá einnig grein á Vísindavefnum þar eru að auki nefnd um 40 lítil handritabrot frá 1.- 2. öld e.Kr. (Geir Þ. Þórarinsson, „Hver eru helstu og elstu handrit Heródótosar?“, Vísindavefurinn, 15. maí 2019, sótt 21. maí 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=77564). Eitt þessara handritabrota er inni á handritasafni Oxford, aldursgreint frá 2.-3. öld e.Kr. (Medieval Manuscripts in Oxford Libraries, „Herodotus“, Medieval Manuscripts in Oxford Libraries sótt 20. maí 2019 af http://litpap.info/dclp/60025. Einnig af https://medieval.bodleian.ox.ac.uk/?utf8=%E2%9C%93&q=herodotus). 178 Richard T. Vann, „Historiography: Greek Historiography: Thucydides“, Encyclopædia Britannica, sótt 9. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/historiography#ref284310. Önnur handrit virðast vera frá 14.-15. öld e.Kr. (Medieval Manuscripts in Oxford Libraries, „Thucydides“, Medieval Manuscripts In Oxford Libraries, sótt 20. maí 2019 af https://medieval.bodleian.ox.ac.uk/catalog/person_95161463). 179 Jeremy Norman‘s: HistoryofInformation.com, „The Text of Tacitus‘ Annals and Histories surviced in Only Two Manuscripts: Circa 1000-1100“, Jeremy Norman‘s: HistoryofInformation.com, sótt 1. ágúst 2019 af http://www.historyofinformation.com/detail.php?id=3742. Þessi síða vísar á síður þeirra safna sem varðveita handritin. Hægt er að skoða ritið á Biblioteca Medicea Laurenziana. Sjá nánar á vef (Biblioteca Medicea Laurenziana, „Cornilii Taciti“, Biblioteca Medicea Laurenziana, sótt 10. júlí 2019 af http://mss.bmlonline.it/s.aspx?Id=AWOIyXbxI1A4r7GxMPoB&c=I.%20Cornelii%20Taciti%20ab%20excessu%20divi%20Augusti%20libros%20XI%20ab%20undecimo%20nimirum%20usque%20ad%20vigesimum%20primum%20inclusive#/book).

Page 64: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

63

stakri samviskusemi, vandvirkni og í guðsótta. Guð var fyrir Hebreum heilagur og

voldugur skapari og kærleiksríkur þeim sem sýndu honum fullkomna lotningu, virðingu

og hlýðni. Fylgjendur hans þorðu eflaust ekki að fara rangt með heilagar Ritningarnar

sem sögðu frá Guði þeirra JHVH.

2.2 Hinn gyðinglegi arfur: Sögulegur áreiðanleiki Gamla testamentisins

Mósebækur Gamla testamentisins segja meðal annars frá forföðurnum Abraham (um

2000-1800 f.Kr.), för hans frá Úr til Kanaans og því hvernig afkomendur Abrahams lentu

í ánauð í Egyptalandi.180 Þeir náðu síðan að flýja með hjálp Guðs JHVH, sem kallað hafði

Móse til þess að leiða lýð sinn burt úr Egyptalandi. Þeim flótta segir 2. Mósebók (Exodus)

frá.181 Upp frá því sest þessi hópur Hebrea að í Kanaanslandi sem þjóðin Ísrael en Guð

hafði gefið Jakobi sonarsyni Abrahams nafnið Ísrael. Þó ekki sé hægt að sanna tilvist

Abrahams vísar frásagan um hann til kennileita sem fundist hafa við fornleifauppgröft.

Út frá þeim er hægt að áætla hvenær Abraham var uppi.182 Þessi kafli mun fjalla um það

180 Bernhard W. Anderson, The Living World of the Old Testament, bls. 28-52. Abraham er almennt talinn hafa verið uppi um 2000-1800 f.Kr. Sjá einnig á vef orðabókar Britannica. (Andrew Parrot, „Abraham: Hebrew Patriarch“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Abraham). Eflaust væri hægt í stærri ritgerð að fjalla betur um 1. Mósebók. Vil ég þó aðeins benda á áhugaverða grein sem virðist hrekja þá kenningu að sköpunarsaga 1. Mósebókar sæki upphaf sitt til hins Babýloníska söguljóðs Enuma Elis. (Victor Hurowitz, „The Genesis of Genesis, Is the Creation Story Babylonian?“, Exploring Genesis:The Bible’s Ancient Traditions in Context, ritsj. Robin Ngo, Megan Sauter, Noah Wiener and Glenn J. Corbett, Washington, DC: Biblical Archaeology Society, 2013, bls. 1-21). Hurowitz bendir á að Enuma Elis sé söguljóð með mikilli goðafræði og frásögum um ævintýri þeirra. Það sé lofsöngur til Marduk sem hafi skapað hina miklu guði, sigrað Tiamat og komist til valda. Hurowitz segir: „However, both the Bible and Enūma Eliš are products of the ancient Near East, each accepting common beliefs and knowledge, and each developing them in their own unique manner. They should be studied by modern scholars as mutually illuminating not only for what they hold in common but for the unique ways in which each presents their common heritage.“ 181 2. Mósebók er einnig kölluð Exodus, komið úr grísku: Ex hodos, sem þýðir „vegurinn frá“. Flóttinn sjálfur er því oft kallaður Exodus eða Exodus flóttinn. Titillinn á grísku er exodus aigyptou eða „Vegurinn frá Egyptalandi.“ (Carol Meyers, Exodus, New York: Cambridge University Press, 2005, bls. 1). 182 Alan R. Millard, „Where Was Abraham’s Ur? The Case for the Babylonian City“, Exploring Genesis;The Bible’s Ancient Traditions in Context, ritsj. Robin Ngo, Megan Sauter, Noah Wiener and Glenn J. Corbett, Washington, DC: Biblical Archaeology Society, 2013, bls. 48-51. Sjá einnig grein eftir Hershel Shanks um Abraham (Hershel Shanks, „Abraham’s Ur: Is the Pope Going to the Wrong Place?“, Exploring Genesis;The Bible’s Ancient Traditions in Context, ritsj. Robin Ngo, Megan Sauter, Noah Wiener and Glenn J. Corbett, Washington, DC: Biblical Archaeology Society, 2013, bls. 43-47). Þó Abraham sé talinn hafa verið uppi um 2000-1800 f.Kr. greinir menn á um hvaðan hann átti að hafa komið eða hvar staðurinn Úr er sem 1. Mósebók greinir frá, en Írak, Sýrland og Tyrkland koma þar til greina þar sem önnur staðarheiti sem fundist hafa við fornleifauppgröft gefa mönnum vísbendingar.

Page 65: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

64

helsta í fornleifarannsóknum í dag sem varðar sögulegan áreiðanleika veigamestu

frásagna Mósebókanna. Mun áherslan hvíla á atburðum 2. Mósebókar sem taldir eru

marka upphaf þjóðarinnar Ísraels.

2.2.1 Rannsóknir fornleifafræðinga á atburðum Gamla testamentisins

Í rannsóknum fornleifafræðinga tengdum atburðum Gamla testamentisins skiptast

fræðimenn í tvo hópa, „minimalista“ og „maximalista.“ Annars vegar þá sem telja ekkert

trúverðugt nema fornmenjar geti staðfest frásagnirnar. Sumir gera jafnvel lítið úr

áreiðanleika aldursgreininga og gildi fornmenja sem almennt eru taldar staðfesta

tilteknar frásagnir.183 Hins vegar eru þeir fræðimenn til sem trúa sannleiksgildi hinna

biblíulegu frásagnanna án þess að hægt sé að rökstyðja það faglega út frá m.a. sagnfræði

og fornleifafræði. Flestir fræðimenn feta milliveg á milli „minimalista“ og

„maximalista.“184

Þeir Israel Finkelstein prófessor í fornleifafræði og Neil Asher Silberman

fornleifafræðingur og sagnfræðingur myndu teljast til minimalista. Þeir eru á meðal

þeirra sem vilja ekki taka neinum atburðum sem trúverðugum úr frásögum Gamla

183 Yosef Garfinkel, „The Birth & Death of Biblical Minimalism“, Biblical Archaeology Review 37:3/2011 bls. 46-53. Garfinkel gagnrýnir á rökrænan máta aðferðafræði „minimalista“ í greininni. Dr. Claude Mariottini veltir aftur á móti fyrir sér viðhorfum minimalista og maximalista í tengslum við vanda fornleifafræðinnar að staðfesta tilvist Abrahams. Hægt sé að lesa eina áletrun sem fundist hefur, annars vegar sem Abram en hins vegar sem abbirim sem þýðir „hestur“. Engar ótvíræðar sannanir hafi því fundist um tilvist Abrahams. (Dr. Claude Mariottini, „Abraham and Archaeology“, Dr. Claude Mariottini – Professor of Old Testament, mars 2006, sótt 24. maí 2019 af https://claudemariottini.com/2006/03/01/abraham-and-archaeology/). 184 Gunnlaugur A. Jónsson, „Ritdómur“, Ritröð Guðfræðistofnunnar, Studia theologica islandica 18:26/2008, ritstj. Pétur Pétursson, bls. 157-163. Í ritdómi sínum á bók Williams G. Devers, Who Were the Early Israelites and Where Did They Come From? bendir Gunnlaugur einnig á að pólitísk afstaða fræðimanna til Ísraels og fjandskapur í garð Gyðinga virðist hafi litað afstöðu sumra fræðimanna til áreiðanleika biblíuhefða Gamla testamentisins. William G. Dever nefni sjálfur þá „nihilista“ sem dragi allt í efa tengt biblíufrásögunum. Hann telur að Exodus-frásögnin eigi raunverulegt upphafi sitt hjá einhverjum litlum innflytjendahópi, er búi að reynslu frá Egyptalandi og eigi ættir að rekja til Jósefs. Seinna hafi slík frásögn verið talin eiga við um alla Ísrael. Biblíurannsakandinn og trúarbragðafræðingurinn prófessor Carol Meyers er ein þeirra og hefur bent á vankanta hins „minimalískra“ viðhorfs. Hún segir að þeir leyfi tilvist Ísraels á járnöld en að allar sannanir fyrir tilvist Ísraels verði að koma frá fornleifafræði eða „utan-biblíulegum“ rituðuðum heimildum. Þeir telji ekki hægt að notast við Biblíuna sjálfa. Sjónarhorn minimalista segir Meyers hafa orðið til þess að fræðimenn almennt hafi þurft að endurskoða það hvað geti flokkast sem sagnfræði. Það undirstriki einfaldlega hversu erfitt sé að stóla á ritaðar fornheimildir almennt sem grundvöll fyrir allri sagnfræði. (Carol Meyers, Exodus, bls. 3-4.)

Page 66: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

65

testamentisins nema það finnist beinar staðfestingar á þeim við fornleifauppgröft.

Þannig telja þeir að fyrst ekkert í fornleifarannsóknum sanni og staðfesti Exodus frásögu

um flótta mikils ættbálks frá Egyptalandi og ekki hafi fundist nein merki um innrás slíks

hóps inn í Kanaan á tilætluðum tíma, þá hafi atburðurinn ekki átt sér stað. Fornleifar

sýni þó að einhver umbylting á lífsháttum hafi orðið á svæðunum í hlíðum Kanaans um

1200 f.Kr. Þaðan megi því rekja upphaf fyrstu Ísraelsmannanna. Þetta sjáist út frá

byggingarstíl, einföldum lífsstíl, leirkerum og atvinnu sem var fjárgæsla með kindur og

geitur. Það hafði átt sér stað hrun kanverskrar menningar á þessum tíma og út frá því

hafi Ísrael orðið til. Telja þeir þannig að Ísrael hafi ekki orðið til vegna stórfenglegs Exodus

flótta er lauk með utanaðkomandi innrás Hebrea inn í Kanaan og sigri, heldur vegna

innbyrðis breytinga í Kanaan. Þó benda þeir á að eldri heimildir eins og rit spámannsins

Amosar frá 8. öld, endurómi megin drætti einskonar Exodus atburðar (Amos 2.10, 3.1,

9.7). Skýra megi það með því að upplifun Hyksósa af brottrekstri sínum frá Delta hafi

orðið að sameiginlegri minningu fólks í Kanaan.185

Aðrir fornleifafræðingar vilja taka mið af fleiri þáttum við rannsókn á áreiðanleika

heimildanna og áætla að einhverskonar flótti eða flóttar afkomenda Abrahams hafi

getað átt sér stað. Prófessor Carol Meyers segir til að mynda að skortur á beinum

sönnunum frá Egyptalandi, Sínaí og Kanaan þýði ekki að Exodus og Sínaí atburðirnir séu

uppspuni. Allt eins líklegt sé að atburðirnir hafi einfaldlega ekki vakið almenna athygli út

fyrir hópinn og því ekki skilið eftir sig miklar fornmenjar eða ritaðar heimildir frá tímum

atburðanna. Aftur á móti sýni heildar söguþráðurinn og hin litríku ítaratriði hans að

þessir atburðir hafi vel getað átt sér stað. Meyers leggur áherslu á mikilvægi þess að taka

mið af sagnaminni (e. mnemohistory) við mótun hefða. Biblíuhefðirnar séu einskonar

samansafn menningarlegs minnis, fremur en hrein sagnfræðileg skráning. Slíkt

sameiginlegt menningarlegt minni verði til í kringum stórbrotnar upplifanir fólks sem

móta sjálfsmynd hópsins og geta markað upphaf þjóða.186

185 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The Bible Unearthed, bls. 105-118, 68-69. 186 Carol Meyers, Exodus, Cambridge, New York: Cambridge University Press, 2005, bls. 4-11.

Page 67: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

66

Fornleifafundir hafa þó getað staðfest að Ísrael var til sem þjóð a.m.k. á 13. öld f.Kr.

Er það helst minnisvarði Merneptah faraós (e. Merneptah Stele), aldursgreindur um

1210-1205 f.Kr., sem vottar það en hann segir m.a. frá sigri faraós yfir Ísraelsmönnum.187

James K. Hoffmeier, prófessor í Gamla testamentis- og Mið-Austurlandafræðum ásamt

fornleifafræði, bendir á að þótt ekki hafi verið hægt að staðfesta, út frá þeim

fornmenjum sem fundist hafa, flótta fjölda Ísraela frá Egyptalandi fyrir tíma Merneptah

minnisvarðans, sýna fornmenjar að þessir atburðir hefðu vel getað átt sér stað. Þannig

hafa ýmis staðarheiti Exodus-atburðanna úr 2. Mósebók komið fram ásamt heiti

þjóðflokka og faraóa. Egypskar fornheimildir votta að tilteknir hópar fólks, þar á meðal

bedúínahirðar (e. Bedouin), komu til Egyptalands frá Vestur-Asíu á um 700 ára tímaibili.

Í einum bréfatexta sem fannst á þessu svæði frá því um 1900 f.Kr. kvartar

bréfahöfundurinn Neferti undan því að semitísk-mælandi fólk (e. Asiatics) streymi inn á

Delta svæðið, biðjandi um vatn fyrir hjarðir sínar. Handritið Papyrus Anastasi 6, frá

valdatíð Merneptah faraós (1213-1203 f.Kr.), segir einnig frá því er bedúínahirðingjum

af ættflokki Edómíta var gefið leyfi til þess að koma inn fyrir virkisveggi Egypta til þess að

brynna hjörðum sínum.188 Edómítar voru samkvæmt Biblíunni komnir af Esaú,

tvíburabróður Jakobs.189 Grafreitir með svipuðum fylgihlutum og þeim sem finna má á

svæðum Kanaans hafa fundist á Delta og Wadi Tumilat svæðunum í Egyptalandi. Sumir

tilheyra semískumælandi fólki frá frjósama hálfmánanum (e. Levant) er settust að í

Egyptalandi, en aðrir tengdust Hyksósum (e. Hyksos), þeim sem ríktu í Egyptalandi með

höfuðstöðvarnar í Avaris frá 1650-1540 f.Kr. Þessi bakgrunnur stemmir því við frásöguna

187 Hershel Shanks, „When Did Ancient Israel Begin?“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 31-37, hér 31. 188 James K. Hoffmeier, „Out of Egypt: The Archaeological Context of the Exodus“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 1-20, hér 1-7. Hoffmeier bendir einnig á að þó ekkert finnist um Exodus atburðina í egypskum heimildum þýði það ekki að enginn flótti hafi átt sér stað. Faraóar létu aðeins skrá sigra sína yfir óvinum en ekki ósigra. Erfitt hefur reynst að finna papýrus handrit frá Delta svæðinu vegna raka. Eins er ekki vitað hvaða sérkenni fylgdu Hebreum á þessum tíma, t.d. á leirkerum sem þeir notuðu, greftrun látinna og öðrum mannvistarleifum. 189 Megan Sauter, „Who Were tha Ammonites, Moabites and Edomites in the Bible?“, Biblical Archaeology Society: Bible History Daily, 2. maí 2019, sótt 24. maí 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/ancient-cultures/ancient-near-eastern-world/ammonites-moabites-edomites-in-the-bible/.

Page 68: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

67

af því er Jakob sendi syni sína til Egyptalands, á tímum þegar miklir þurrkar voru í Kanaan,

til að kaupa korn sem varð síðan til þess að þeir settust þar að (1Mós 43.1-15).190

Hoffmeier bendir einnig á að til séu forn-egypskar heimildir og veggmyndir grafhýsa

sem sýna fram á samræmi við frásagnir Biblíunnar af því hvernig vinnu þrælar í

Egyptalandi þurftu að inna af hendi á þessum tímum og hvernig þeirri vinnu var háttað.

Einnig hafa fundist skinnhandrit með skýrslum frá vinnuflokkum í byggingarsteinagerð,

tímasett á fimmta ári Ramsesar II (um 1275 f.Kr). Annað papýrus handrit (Leiden 348)

segir að 'apiru/hapiru dragi steina fyrir tiltekna hallarbyggingu, en margir telja að hapiru

eigi við um Hebrea. Þá sýna veggmyndir úr grafhvelfingum Egypta myndir af

útlendingum að gæta hjarða, stunda landrækt og vínyrkju eins og kemur fram í 2.

Mósebók 2.11, 2.23 og 5.4-19. Þannig eru frásagnir 1. og 2. Mósebókar, af flutningum

Ísraela til Egyptalands á tímum hungursneyðar og þrælkun þeirra í Egyptalandi, alls ekki

óraunhæfar. Hoffmeier telur auk þess ólíklegt að Ísraelar hefðu skáldað upp slíka sögu

niðurlægingar forfeðra sinna. Ef menn vildu skálda upp frásagnir af ættfeðrunum hefðu

þeir fremur reynt að upphefja þá og sveipa dýrðarljóma.191

Ýmis staðarheiti sem fundist hafa við fornleifauppgröft hafa hjálpað til við að reyna

að rekja för Hebreanna á flótta þeirra frá Egyptalandi. James K. Hoffmeier bendir á að

Delta sem byggð var fyrir Ramses II, það er Pi-Ramesses eða „hús Ramsesar,“ virðist vera

upphafspunktur atburðanna. Fundist hefur mikil borg við fornleifauppgröft í Qantir, sem

menn eru nú almennt sammála um að sé Pi-Ramesses.192 Eins telja menn sig hafa fundið

borgina Pítóm (e. Pithom) sem nefnd er í 2. Mósebók 1.11. Hoffmeier segir lýsingar á leið

Exodus-faranna í Mósebókunum stemma við Egypskar heimildir er votta hvar Egyptar

190 James K. Hoffmeier, „Out of Egypt: The Archaeological Context of the Exodus“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 1-20, hér 7. 191 James K. Hoffmeier, „Out of Egypt“, bls. 8-9. Hoffmeier vísar hér til vinnu við að búa til byggingarsteina og landbúnaðarstörf úr 2Mós 1.13-14. 192 James K. Hoffmeier, „Out of Egypt“, bls. 10-13. Nafn Ramsesar II er ýmist ritað: Ramesses/Rameses/Ramses II í erlendum heimildum. Egypskar heimildir votta að Pi-Ramesses var yfirgefin um 1705 f.Kr. og ný höfuðborg Delta var byggð sem varði fram á valdatíð Rómverja, kölluð Tanis. Sú staðreynd að borgin Pi-Ramesses var sagnfræðilega aðeins til á tímabilinu 1275-1075 f.Kr. er afar mikilvægt þar sem minnst er á Delta svæði sem kallað var Ra‘amses í frásögu 2Mós. Síðari tíma frásagnir innan Biblíunnar um sömu borg fjalla um hana sem Tanis/Sóan (e. Tanis/Zoan). T.d. Sálmarnir (ritaðir eftir 1000 f.Kr.) í umfjöllun um Exodus og plágurnar (Slm 78.12).

Page 69: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

68

vöktuðu vegi og ferðir til og frá Egyptalandi. Ísraelar fóru til dæmis ekki leiðina um land

Filista, þ.e. strandleiðina, af ótta við hina Egypsku óvini (2Mós 13.17). Handritið Anastasi

Papyri sýnir að austurhluti Wadi Tumilat var einnig vel varinn með virkjum. Fræðimenn

hafa verið að finna ýmsa viðkomustaði Hebreanna og hvar farið var yfir Sefhafið (heb.

Yam Suf).193 Hebrear gistu milli Migdol og sjávarins samkvæmt 2Mós 14.2. Þannig hafi

Sefhafið sem þeir fóru yfir verið sunnan við Tjaru/Sile á austur landamærum Egyptalands

við Sínaí á svæði sem hét allt fram á síðustu öld El-Ballah vötnin. Hoffmeier bætir við að

það sé ljóst að Ísraelar til forna trúðu því að Exodus hefði verið raunverulegur atburður

sem þeir grundvölluðu sína trú og sjálfsmynd á.194

Abraham Malamat, prófessor í gyðinglegri sagnfræði, sér eins og Hoffmeier miklar

samsvaranir frá egypskum heimildum við Exodus frásöguna. Hann segir egypskar

heimildir votta að Ramses II (1279-1212 f.Kr) hafi byggt nýja höfuðborg Pi-Ramesses á

austurhluta Delta þar sem Ísraelar höfðu aðsetur. Í 2. Mósebók segir að borgirnar Pithom

og Ramesses hafi verið byggðar af þrælkuðum Ísraelum (2Mós 1.11). Í Leiden Papyrus

348 segir í tilskipun fulltrúa Ramsesar II, í tengslum við byggingarvinnu í nýju

höfuðborginni Pi-Ramesses, að útdeila skuli korni til hermanna og Apiru sem sjái um að

flytja steina að hinu mikla Pylon of Ramesses. Telja sumir fræðimenn að Apiru/Hapiru í

þessu skjali og öðrum egypskum heimildum vísi til Hebrea (ritað: Ibri), bæði út frá

tungumálalegum röksemdum og þjóðernislegum.195 Merneptah minnisvarðinn, sem

Malamat segir að megi tímasetja 1208 f.Kr., minnist á Ísraela sem búi í Kanaan. En það

var snemma á 13. öld f.Kr. sem faraó Seti I byggði hið þétta vígi meðfram ströndinni

norðan við Sínaí sem kallaðist „Vegur Filistanna“ (e. Way of the Philistines),

193 James K. Hoffmeier, „Out of Egypt“, bls. 13-17, 20. Hoffmeier fjallar um nýlega fundi í Tell el borg. Þar fundust leifar af virki með rammgerðum veggjum. Á því er áletrun er segir að á tíma Ramsesar II hafi virkið verið vaktað af hermönnum frá herdeild Amun. Hoffmeier sem leiddi þessa fornleifarannsókn telur þetta vera eitt af varnarvirkjum Egypta á austur landamærunum kallað „Dvalarstaður ljónsins“ (e. The Dwelling of the Lion). Stemmi það sé næsta virki líklega í um sjö kílómetra í burtu. Út frá þessu sé möguleiki að staðsetja flóttaleið Hebreanna. 194 James K. Hoffmeier, „Out of Egypt“, bls. 13-17, 20. Hoffmeier segir þetta geta þannig staðfest tillögu Mannfred Bietak fyrir um 30 árum um staðsetningu Yam Suf sem Hebrear fóru yfir. 195 Abraham Malamat, „Let My People Go and Go and Go“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 21-30, hér 24-25. Hann bætir við að „Apiru“ hafi samt almennt verið notað um hópa fólks sem voru án fasts aðseturs, mögulega afbrotamenn eða málaliðar.

Page 70: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

69

(2Mós 13.17). Papyri Anastasi III frá 13. öld f.Kr. geymir skrár um ferðir fólks yfir

landamærin frá veldistíma Merneptah (við lok 13. aldar f.Kr.). Papyri Anastasi VI vitnar

um flutning alls ættbálks Edómíta til Egyptalands á tímum landþurrka. Minnir þessi

vitnisburður á frásögur af Abraham og Jakobi. Papyri Anastasi V frá 13. öld f.Kr. segir af

flótta tveggja þræla eða þjóna frá höllinni Pi-Ramesses yfir í Sínaí eyðimörkina. Hinn hátt

setti egypski herforingi sem ritaði papýrusinn hafði fengið skipun frá egypskum

yfirvöldum um að handsama flóttamennina og koma með þá aftur til Egyptalands. Þar

segir að þeir hafi komist norðan við Migdol. Óskað var eftir upplýsingum um það hvaða

fólk fylgdi á eftir þeim. Malamat segir þessa heimild hafa fjórfalda samsömun við Exodus

frásöguna í 2. Mósebók.196 Það er því freistandi að álykta sem svo að þarna fari þeir

Móse og Aron með fylgdarliði þó ekkert komi fram sem sanni það. Aftur á móti sýnir

þetta að flóttinn sem 2. Mósebók segir frá getur vel hafa átt sér stað í einhverri mynd.

Af öllu þessu má sjá að ekki er hægt að útiloka að slíkur flótti, sem markaði upphaf

þjóðarinnar Ísraels, hafi átt sér stað.

2.2.2 Áætlaður tími Exodus flóttans frá sjónarhóli fornleifarannsókna

Menn greinir síðan á um hvenær flótti Ísraela (Exodus) frá Egyptalandi hafi átt sér stað.

William Johnstone, prófessor í hebreskum og semitískum tungumálum, áætlar að út frá

fornmenjum sem sýna vaxandi fjölda innflytjenda í Gíleað, Manasse og Efraím um 1200-

1300 f.Kr., gæti flóttinn hafa átt sér stað á 13.öld f.Kr. eða í valdatíð föður Merneptah,

Ramsesar II (1304-1237 f.Kr.). Þá vísi Amarna bréfin frá 14. öld f.Kr. til hópa af Apiru og

telur Johnstone að Ísraelar hafi tilheyrt þeim hópi. Hann telur eins að Exodus-brottförin

hafi verið langtíma ferli.197 Egypskar fornmenjar frá þessum tíma staðfesta ýmis

196 Abraham Malamat, „Let My People Go and Go and Go“, bls. 25-28. Hann nefnir þessar fjórföldu samsvaranir sérstaklega: 1. Þrælar/þjónar flýja frá svæði nærri borg Ramsesar í leit að frelsi. 2. Egypskur herforingi hefur eftirför til að handsama þá og koma aftur til Egyptalands. 3. Flóttamennirnir fylgja flóttaleið til Sínaí sem svipar mikið til leiðarinnar sem 2. Mósebók lýsir. 4. Flóttinn gerist um nótt (2Mós 11.4). 197 William Johnstone, Exodus, Sheffield, England: Sheffield Academic Press, 1990, bls. 16-18, 21-26. Merneptah minnisvarðinn tímasetur hann frá um 2019 f.Kr.

Page 71: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

70

staðarheiti frásagnanna, út frá heitum staða sem einungis voru til á Ramsestímanum á

13.-11. öld f.Kr.198

Abraham Malamat, prófessor í gyðinglegri sagnfræði, hefur bent á að mikið af

egypsku efni komi með svo góða samsvörun við Exodus frásagnir Biblíunnar að

heimildirnar þjóni í raun sem óbeinar sannanir fyrir þeim. Þó svo að um sé að ræða

þjóðsagnahefð (e. folktale) þýði það ekki að engin sagnfræðilegur áreiðanleiki

(e. historicity) sé til staðar. Skortur á sönnunum þýði ekki að ekkert hafi gerst. Þó ekkert

sé í egypskum heimildum um flótta fjölda Hebrea og yfirtöku á Kanaan, þýði það

einfaldlega að atburðurinn hafi ekki haft það mikil pólitísk áhrif á Egypta. Hann er sama

sinnis og Johnstone, að fleiri en einn flótti hafi átt sér stað frá Egyptalandi. Hann kallar

það „the telescoping process“ er menn þjöppuðu röð af sögulegum atburðum í einfalda

og stutta frásögn atburða Biblíunnar. Flóttarnir (þar á meðal „Móse-flóttinn“) geti því

hafa átt sér stað á 15.-12. öld f.Kr. Varðandi líklega tímasetningu segir Malamat að

kjöraðstæður slíks flótta hafi myndast á 13. öld er Egyptar börðust við stórveldi Hittíta

um 1273 f.Kr. í Kadesh og biðu afhroð í baráttunni. Egyptar misstu tök sín í Kanaan þar

sem mikil bændauppreisn hafði átt sér stað. Slíkt upplausnarástand gat hafa greitt fyrir

flótta Ísraela og flutningum til Kanaans.199

Abraham Malamat telur síðan að annar flótti hafi átt sér stað sem passar við frásögu

2. Mósebókar af því er Ísraelar fengu silfur, gull og klæði frá egypsku fólki (2Mós 3.21-

22, 11.2, 12.35-36). Fíla-minnisvarðinn (e. The Elephantine Stele) frá öðrum áratug 12.

aldar f.Kr. segir frá hópi Egypta er börðust í uppreisn gegn faraó. Uppreisnarmennirnir

mútuðu ótilgreindum Asíumönnum í Egyptalandi til að aðstoða sig og gáfu þeim silfur,

gull og kopar fyrir. Faraó náði að kveða uppreisnina niður og hrakti Asíumennina burt úr

Egyptalandi. Asíumennirnir neyddust eflaust til að flýja til Kanaan. Segir Malamat þannig

margt í egypskum heimildum, allt frá tímum Hyksósa á 17.-16. öld f.Kr, minna á frásögu

198 Biblical Archaeology Society Staff, „The Exodus: Fact or Fiction?“, Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life, 28. mars 2018, Sótt 28. mars 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/exodus/exodus-fact-or-fiction/. 199 Abraham Malamat, „Let My People Go and Go and Go“, bls. 21-24. Hann segir einnig möguleika á að tímasetja „Móse-flóttann“ snemma á 12. öld f.Kr. Á þeim tíma voru bæði veldi Egypta og Hittíta í pólitísku hruni og því kjöraðstæður fyrir flótta frá Egyptalandi til Kanaans.

Page 72: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

71

Exodus.200 Aðrir fræðimenn eru sammála um að fleiri en einn flótti frá Egyptalandi hafi

átt sér stað. Malamat kemur aftur með mjög sennilegar skýringar á þessari atburðarás

út frá egypskum heimildum. Þannig staðfesta egypskar heimildir að fólk ættað frá Asíu

bjó á þessum tímum í Egyptalandi, var þrælkað og náði að flýja til Kanaans á hagkvæmum

tíma sem tryggði þeim landvist án mikilla átaka.

Hér erum við að tala um sennilegan flótta Móse og fylgdarliðs á 13. öld, en Hershel

Shanks, lögfræðingur, stofnandi og ritstjóri Biblical Archeology Society, telur nýlegar

fornmenjar af granítstyttubroti frá því snemma á 14. öld f.Kr. mögulega vísa til ríkisins

Ísraels. Það gæti bent til þess að Ísraelsríki hafi verið stofnað miklu fyrr en áður var talið.

Shanks hafnar því ekki möguleikanum á að fleiri en einn flótti ættbálka Ísraels til Kanaans

hafi átt sér stað á tímabilinu 1550-1300 f.Kr.201 Fornleifafræðingurinn Israel Finkelstein

telur til að mynda líklegt að Biblían hafi að geyma óljósar minningar af brottrekstri hinna

vestur-semitísku Hyksósa.202 Þó menn greini á um hvenær flóttinn hafi átt sér stað telja

menn almennt ólíklegt að ekki hafi átt sér stað einhver flótti sem 2. Mósebók fjallar um,

er varð til þess að þjappa hópi fólks saman undir trú á JHVH sem þau upplifðu að hefði

bjargað þeim úr ánauð í Egyptalandi. Móse er það ríkjandi persóna í ritum Biblíunnar að

erfitt er að ímynda sér að menn hafi getað fundið hann upp.203

200 Abraham Malamat, „Let My People Go and Go and Go“, bls. 29-30. 201 Hershel Shanks, „When Did Ancient Israel Begin?“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 31-37, hér bls. 31-37. Myndirnar á granítstyttubrotinu vísa til Ashkelon og Kanaans, en þriðja myndin er aðeins hálf. Vísbendingar eru um að þar geti staðið Ísrael. Það að Merneptah minnisvarðinn nefni líka Ísrael, Ashkelon og Kanaan í sömu röð telur Shanks styrkja þá kenningu. Sumir fræðimenn telja brotið geta verið tímasett snemma á 13. öld og þá á veldistíma Ramsesar II (1279-1213 f.Kr.). Biblían segir borgirnar í Kanaan hafa verið vel víggirtar. Fornleifafræðin sýnir að það stemmir við tímann 1550 f.Kr. en þær voru það hins vegar ekki 1200 f.Kr. Sumir fræðimenn sjá tengingu Exodus-frásagna Biblíunnar við Hyksósa (e. Hyksos), vestur-semitíska Asíumenn sem ríktu yfir Egyptalandi í meira en öld áður en þeir voru hraktir frá Egyptalandi 1550 f.Kr. Sagnaritari Gyðinga, Flavíus Jósefus á 1. öld e.Kr., tengir eins brottrekstur Hyksósa við Exodus-flótta Biblíunnar. 202 Hershel Shanks, „When Did Ancient Israel Begin?“, bls. 31-37, hér 31-37. 203 W. O. E. Oesterley and Theodore H. Robinson, Hebrew Religion: Its Origin and Development, London: Society for Promoting Christian Knowledge, 1930, bls. 134. Þeir segja tilvist Móse ekki hægt að draga í efa. Ef engar upplýsingar væru til um Móse yrðum við að finna hann upp þar sem að þau afrek sem eignuð hafa verið honum krefjist snilligáfu og andagiftar einhverrar persónu. Ekki þurfi þó að samþykkja öll ýtaratrið frásagnarinnar, en frásagnir af einhverjum flótta frá Egyptalandi hafi varðveist í minnum fólks og borist á milli kynslóða. Þeir bæta við að nafnið Móse sé egypskt og sé að finna á meðal hinna konunglegu nafna 18. veldisins um 1600-1350 f.Kr.

Page 73: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

72

Þær fornleifarannsóknir sem hér hafa verið til umfjöllunar sýna aðeins brot af þeim

fjölda fornmenja er fundist hafa og styðja við frásagnir Gamla testamentisns. Hér má því

tala um þó nokkurn áreiðanleika megin atburðarásar helstu sagnaheimilda Gamla

testamentisins. Við þetta mætti helst bæta að fornmenjar hafa staðfest tilvist allavega

53 sögupersóna Gamla testamentisins.204

2.2.3 Áætlaður ritunartími helstu bóka Gamla testamentis

Áætlaður ritunartími heimildanna hefur í gegnum tíðina tekið mið af ýmsu meðal

fræðimanna. Menn hafa velt fyrir sér hvort lögbækurnar hafi verið skráðar rétt eftir

Exodus atburðina eins og Mósebækurnar virðast ætla. En engar beinar sannanir eru til

fyrir því. Þó sjá menn út frá söguljóðum eins og ljóði Móse „Söngur hafsins“ (2Mós 15.1-

18) ásamt „Söng Mirjamar“ (2Mós 15.20-21) að mögulega hafi frásögnin í fyrstu verið

munnleg geymd. Er „Söngur hafsins“ talinn vera eitt elsta efni Biblíunnar með áætlaðri

tímasetningu frá 13.-12. öld f.Kr. Það sjá menn út frá skyldleika ljóðsins við úgarísk

ritverk.205

Fornleifafræðingarnir Israel Finkelstein og Neil A. Silberman hafa bent á að ýmis

sérkenni, mannanöfn og staðarheiti innan 1. og 2. Mósebókar vitni um endanlegan

ritunartíma frá sama tíma og þessir staðir og heiti voru til samkvæmt

fornleifarannsóknum, eða um 7. öld f.Kr. Sáu þeir að fjölmörg staðarheiti Exodus

frásagnanna voru aðeins til á 7. öld f.Kr. Þannig hafi þeir sem rituðu frásöguna á þeim

tíma notast við mikið af staðarheitum úr sínum eigin samtíma.206 Þó hafa fundist

vísbendingar um að Ísraelar hafi kunnað að lesa og skrifa á a.m.k. 9. öld f.Kr. Þetta hafa

fræðimenn skoðað út frá áletrunum á hlutum úr leir sem bera hebresk og arameísk

204 Lawrence Mykytiuk, „53 People in the Bible Confirmed Archaeologically“, Biblical Archaeology Society: Bible History Daily, 12. apríl 2017, sótt 24. maí 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/people-cultures-in-the-bible/people-in-the-bible/50-people-in-the-bible-confirmed-archaeologically/. 205 Carol Meyers, Exodus, bls. 109-111. Meyers telur að elstu hlutar ljóðsins geti hafa verið ritaðir á 10. öld f.Kr. með mögulegum síðari tíma viðbótum við endurskráningu. 206 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The Bible Unearthed, bls. 43-47, 65-71.

Page 74: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

73

sérkenni.207 Jafnvel fyrr ef miða skal við leirkersbrot sem fannst í Jerúsalem árið 2012,

með áletrun frá 11.-10. öld f.Kr.208 Samkvæmt því er alls ekkert sem útilokar að Exodus-

frásagan og aðrar frásögur Gamla testamentisins eigi sér mun eldri ritunarsögu. Þar með

hafi eldri heitum á stöðum og kennileitum verið skipt út fyrir nýrri til skýringar við

endurritun heimildanna á 7. öld f.Kr. fremur en að þá loks hafi menn tekið til við að rita

heimildirnar úr munnlegri geymd. Í raun er afar ólíklegt að ekki hafi eitthvað verið skráð

fyrr um svo veigamikla atburði sem mörkuðu upphaf þjóðarinnar Ísrael.

Elsta efnið hefur þó upphaflega komið úr munnlegri geymd. Dr. Bernhard W.

Anderson, prófessor í guðfræði Gamla testamentisins, hefur bent á að líklega hafi

Boðorðin tíu (e. The Decalogue) upphaflega verið til í afar einfaldri mynd sem tryggði að

auðvelt var að muna þau og læra. Enda eru til heimildir í Mósebókunum sem tala um

þau sem „orðin tíu“ (2Mós 24.3-4). Skýra megi það með hebreskri málfræði, en þegar

t.d. atviksorðinu „ekki“ er skeytt saman við sagnorðið í hebresku, mynda þau saman eitt

orð. Anderson telur þannig að upphaflega hafi boðorðin verið á forminu „ekki stela“ og

„ekki myrða“ og þannig hafi verið auðvelt að leggja þau á minnið.209 Viðbótar útlistanir

á þeim hafi komið síðar og þá fengið á sig svipmót frá lögum og sáttmálum

nágrannaþjóðanna, t.d. Lögbók Hammúrabís frá um 1760 f.Kr.210 Grunn boðorðin sjálf

207 Alan Millard, „ Writing and Literacy in the World of Ancient Israel“, Biblical Arhaeology Society: Bringing the Ancient World to Life: Bible History Daily, 14. júní 2012, sótt 20. mars 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/reviews/writing-and-literacy-in-the-world-of-ancient-israel/. 208 Alan Millard taldi það líklegt er hann rannsakaði þetta brot. Robin Ngo fjallar um rannsókn hans í stuttri samantekt á grein Millards „The New Jerusalem Inscription- So What?“ (Robin Ngo, „Precursor to Paleo-Hebrew Script Doscovered in Jerusalem“, Biblical Archaeology Society: Bible History Daily, 8. október 2018, sótt 24. maí 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-artifacts/inscriptions/precursor-to-the-paleo-hebrew-script-discovered-in-jerusalem/). 209 Bernhard W. Anderson, Contours of Old Testament Theology, Minneapolis: Fortress Press, 1999, bls. 155-158. Anderson segir það koma fram í gamla söguljóðahluta 2. Mósebókar (2Mós 24.3-4). Þar segir að Móse hafi flutt fólkinu „all the words (debarim) of JHWH,“ sem vísar til Boðorðanna tíu (2Mós 20.1-17 og 5Mós 5.6-21), „and all the ordinances“ (mishpatim), sem Anderson segir þýða lagaákvæðin sem ekki voru hluti af þessum kjarna. Voru það debarim eða „orð“ JHVH sem fólkið hét að fylgja og sem Móse skráði niður í bók (2Mós 24.3-4). Að þessi „orð“ hafi upphaflega bara verið 10 á sér skýringar í fyrrgreindum eiginleikum hebreskrar málfræði og 5. Mósebók 4.13 sem segir: „Drottinn birti ykkur sáttmála sinn sem hann bauð ykkur að fylgja, boðorðin tíu (orðin tíu). Hann skráði þau á tvær steintöflur.“ Hér eru „boðorðin tíu“ réttast þýdd sem „orðin tíu“ þar sem hugtakið „debarim“ er hið hebreska orð að baki þýðingunni „boðorð.“ 210 Bernhard W. Anderson, The Living World of the Old Testament, bls. 149-150. Svipar viðbótarlagabálkunum, þ.e. þeim sem ekki eru hluti af megin kjarna boðorðanna tíu (e. The Decalouge), til laga og sáttmála t.d. Babýloníumanna og Assýringa. Nefnir Anderson sem dæmi 5Mós 12-16. Er til að

Page 75: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

74

gætu því verið afar forn og allt eins átt upphaf sitt að rekja til þeirra atburða sem

2. Mósebók greinir frá. Þannig virðist kjarnaboðskapur gyðingtrúar hafa varðveist

auðveldlega manna á milli í munnlegri geymd, enda auðvelt að læra hin „tíu orð.“

mynda nokkur skyldleiki við Code of Hammurabi (Par. 120) í 2Mós 22.7-9. Sjá nánar um aldur lögbókar Hammúrabís (Árni Helgason, „Hvar og hvenær voru fyrstu lögin sett?“, Vísindavefurinn, 28. maí 2009, sótt 24. maí 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=47592).

Page 76: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

75

3. Boðskapur Jesú, áhrifaþættir úr samtímanum og sérstaða

Hvernig getum við vitað hvaða boðskapur Jesú var hans eigin boðun, hvað kom frá

gyðingdómi og hvað hann sótti úr sínu nánasta umhverfi? Til að finna svör við þessu þarf

að skoða boðskap Jesú eins og Nýja testamentið birtir okkur hann í guðspjöllum og

bréfum fylgjenda hans og bera hann saman við boðskap annarra úr samtíma hans sem

líklegt er að Jesús hafi orðið fyrir áhrifum frá. Ýmsir biblíurannsakendur hafa bent á

tengsl boðskapar Jesú og Páls við það sem stóuspekingar boðuðu og kenndu. Hér mun

ég því leggja áherslu á að draga fram grunnatriði þeirrar kennslu sem finna mátti í

gyðingdómi og skoða tengsl kennslu Jesú við boðskap Gyðinga annars vegar og

heimspekinga með áherslu á stóuspekinga hins vegar.

3.1 Tengsl boðskapar Jesú við gyðingdóm og stóuspeki

Flestir fræðimenn sem þekkja rit Gamla og Nýja testamentisins geta vottað að Jesús var

Gyðingur, bæði að kynþætti, þjóðerni og trú. Hann vísaði til lögmáls Gyðinga og boðaði

trú á Guð þeirra JHVH sem hann kallaði föður sinn á himnum. Eins og fram hefur komið

virðast sumir fræðimenn líta framhjá tengslum Jesú við gyðingdóm. Sést þetta t.a.m.

meðal þeirra fræðimanna sem hafa ályktað að Nag Hammadí handritin feli í sér

upprunalegri og áreiðanlegri boðskap Jesú en þann er rit Nýja testamentisins birta okkur.

Þó er þar að finna boðskap sem minnir í miklum mæli á hugmyndafræði annarra

trúarbragða. Ef við gefum okkur aftur að þær heimildir sem finna má í Nýja testamentinu

séu nokkuð áreiðanlegur vitnisburður um hver sé upprunalegasti boðskapur Jesú, eins

og dregin hefur verið ályktun um, þá þarf að skoða nánar þessi tengsl Jesú við hans

gyðinglegu arfleifð. Kenndi hann eitthvað nýtt eða sótti hann alfarið í gyðingdóm eða

jafnvel í stóuspeki? Margir hafa bent á tengsl kristins siðaboðskapar við siðferði

stóuspekinga og talið kristni sækja í stóuspeki. Rúnar M. Thorsteinsson, prófessor í

nýjatestamentisfræðum, hefur m.a. bent á þessi tengsl boðskapar bréfa Páls við

siðferðisboðskap stóuspekinga.211 En hvað var stóuspeki?

211 Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism: A Comparative Study of Ancient Morality, New York: Oxford University Press, 2010, bls. 156-175.

Page 77: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

76

Upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Krítíon (335-263 f.Kr.). Hann kenndi að

allur veruleikinn væri hluti af einni heildar „einingu“, því heiminum var stýrt af guðlegri

skynsemi (gr. logos: orð, skynsemi) sem gegnsýrði alla náttúru heimsins.212 Þó að

stóuspekingar hafi lifað og hrærst í grísk-rómversku fjölgyðisumhverfi, segir Jose

Kuruvachira, prófessor í heimspeki og trúarbragðafræðum, að þeir hafi séð einn guð,

Logos sem uppsprettu alls. Stóuspekingar sáu guð sem hinn upphaflega eld og anda sem

var í öllu og hreyfði allt í heiminum. Þessi upphaflegi eldur var hin alheimslega Skynsemi

(gr. Logos) og grundvallar lögmál alls heimsins sem þeir kölluðu logos spermatikos

(útsæði). Hin alheimslega Skynsemi (Logos) lá til grundvallar allri mannlegri visku og

skynsemi (logos) og var grundvöllur alls náttúrulegs og siðferðislegs lögmáls.213 Í raun

virðist margt líkt með guðfræðilegu hugmyndakerfi stóuspekinga og hindúisma. Í

hindúisma er „einingin“ eða „Hið Eina“ sagt undirliggjandi veruleiki að baki öllu.214 Það

var þó í raun ekki fyrr en með tilkomu stópuspekinganna á 2.-1. öld f.Kr. sem áhersla

stóuspekinnar varð trúarlegs eðlis með kröfu um að að viðhalda upphaflegum tengslum

við platónisma og Aristóteles.215

Walter F. Taylor Jr., prófessor í nýjatestamentisfræðum, segir að á ritunartíma Nýja

testamentisins og síðar hafi áhugi almennings þó mest verið á siðferði stóuspekinnar.

Sést það í skrifum L. Annaeus Seneca (um 4. f.Kr.-65 e.Kr.), Epiktetosar (um 50-150 e.Kr.)

og Markúsar Árelíusar (um 120-180 e.Kr.). Taylor bætir við að Tarsus, heimabær Páls

postula, var miðdepill stóuspekinnar. Talið er að Páll hafi tileinkað sér ákveðinn ritstíl frá

stóuspekingum eins og rökræðulist og upptalningu dygða og lesta sem dæmi.216 Þó að

212 Walter F. Taylor Jr., Paul: Apostle to the Nations: An Introduction, Minneapolis: Fortress Press, 2012, bls. 65. 213 Jose Kuruvachira, Justin Marthyr‘s Theory of „Seminal Logos“, Academia, sótt 28. maí af https://www.academia.edu/32600710/JUSTIN_MARTYRS_THEORY_OF_SEMINAL_LOGOS_AEdu_.pdf. (bls. 3). 214 Samkvæmt lýsingum Nigosians á hindúisma. (S.A. Nigosian, World Religions, bls. 30-31). Þó er einnig margt sem er ekki líkt. Til dæmis spratt „Hið Eina“ í hindúisma út frá því er Purusha, hinn upprunalegi alheimsmaður, bjó guðina til af sér. Síðan fórnuðu guðirnir honum til að skapa heiminn. 215 Jason Lewis Saunders, „Stoicism“, Encyclopædia Britannica, sótt 2. júlí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Stoicism#ref560327. 216 Walter F. Taylor Jr., Paul: Apostle to the Nations, bls. 65-66. Hann bætir við að Páll vísi t.d. til náttúruguðfræði til að færa rök fyrir tilvist Guðs þannig, að ef maður skoði náttúruna hljóti maður að öðlast grundvallarþekkingu á Guði skapara (Róm 1.19-20). Hér vil ég þó minna á að í Gamla

Page 78: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

77

hann hafi verið Gyðingur af hópi Farísea segir Taylor það sjást að menntun hans var

hellenísk, út frá rannsóknum á ritstíl og málfari. Eins virðist hann hafa náð því stigi

menntunar sem einstaklingar í æðri stéttum samfélagsins hlutu og ekki ólíklegt að hann

hafi sjálfur tilheyrt æðri stéttum.217 Ýmiskonar stíleinkenni, málfar og orðatiltæki hafa

þannig skilað sér auðveldlega um penna nemenda þess tíma í gegnum hið grísk-

rómverska námskerfi.

Sumir benda einnig á tengsl boðskapar Páls við epíkúringa, en Epíkúros var uppi 341-

270 f.Kr. Walter F. Taylor bendir á að Epíkúros hafi talið konur og þræla með fylgjendum

sínum og séð þau sem vini líka. Þó töldu Epíkúringar guðina ekki hafa nein afskipti af

málefnum mannanna og því tilgangslaust að taka þátt í guðlegum athöfnum, enda ekkert

líf að þessu lífi loknu. Hlutverk manna var bara að njóta, en í þeirri merkingu að forðast

að hugsa um líkamlegan sársauka og áhyggjum heimsins. Epíkúringar voru því ásakaðir

um siðleysi, guðleysi og að bregðast borgaralegum skyldum. Talið er líklegt að Páll hafi

einmitt haft þá mynd af þeim er hann birtir „and-epíkúrískt“ viðhorf í bréfum sínum

(1Kor 15.32, Post 17.18).218 Epíkúringar virðast þannig í mörgu líkir búddisma

kenningarlega séð með því að trúa ekki á eilíft líf og að leitast við að útiloka að finna fyrir

þjáningu.219

Það er auðvitað ekki nýtt af nálinni að bera saman kristna boðun við stóuspeki og

platónisma. Jústínus Píslarvottur (um 100-165 e.Kr.) lýsti þessum tengslum vel. Hann var

platónskur heimspekingur áður en hann kynntist kristinni trú sem hann taldi síðan fela í

testamentinu er einnig að finna röksemdir fyrir tilvist Guðs út frá náttúrunni (Job 12.7-10, Slm 33.5). Þessi kennsla var því til fyrir í hugmyndarheimi Gyðinga. Orðabók Britannica segir nánar að Epiktetos hafi verið uppi 55-135 e.Kr. (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Epectetus: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. júlí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Epictetus-Greek-philosopher). 217 Walter F. Taylor Jr., Paul: Apostle to the Nations, bls. 53, 59. 218 Sama heimild, bls. 66-67. Í 1Kor 15.32 segir Páll: „Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum við!“ og Post 17.18 segir: „En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: „Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?“ Aðrir sögðu: „Hann virðist boða ókunna guði,“ því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna.“ 219 Samkvæmt lýsingum Nigosians á búddisma (S.A. Nigosian, World Religions, bls. 80-83). Búddismi afneitar tilvist guðs skapara og tilvist persónulegrar sálar hvers einstaklings. þó eru menn, samkvæmt búddisma, fastir í hringrás endurfæðinga, en sem endurfæddir verða menn alveg nýir einstaklingar eða persónur.

Page 79: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

78

sér hina einu sönnu heimspeki. Hann áleit tengsl kristinnar trúar við heimspeki stafa af

því að heimspekingarnir hefðu kynnst hinum gyðinglegu ritum og fengið Logos-visku sína

frá kennslu Gyðinga um Guð sem Logos (Orð, Viska). Prófessor Jose Kuruvachira fjallar

nánar um þetta og nefnir ritningarstaði innan Gamla testamentisins sem vísa til Guðs

sem Logos. Jústínus píslarvottur sagði Móse hafa boðað þessa guðlegu visku á undan

grísku heimspekingunum. Hann taldi þannig Logos aðgengilegt öllum á öllum tímum sem

einskonar guðlega visku en þó aðeins að hluta til, því hið sanna Logos væri að finna í

Kristi, sem sjálfur var Logos. Sókrates og Herakleitos hafi þar með átt hlutdeild í hinu

kristna Logos. Kristni væri þó fyrir bæði lærða og ólærða en ekki bara heimspekinga og

því aðgengileg öllum. Jústínus píslarvottur taldi alla dygða- og visku-þekkingu

heimspekinganna eingöngu vera eins og útsæði en leiði ekki til frelsunar. Eins taldi hann

hinar spámannlegu opinberanir í Gamla testamentinu hafa til að bera fullkomnari

sannleika en boðskap hinna grísku heimspekinga. Heiðingjarnir dýrkuðu verk eigin

handa, en Gyðingum og Samverjum hefði verið gefið Orðið (gr. Logos) frá Guði í gegnum

Spámennina.220 Hér er augljóst að Jústínus Píslarvottur sér skyldleikann og leitar út frá

því samtals við heimspekingana, með það að markmiði að leiða þá til trúar.

Postulasagan segir einnig frá slíkri viðleitni hjá Páli postula, sem reyndi að sannfæra

heimspekinga um að hann boðaði þann Guð sem þeir leituðu að. Páll reyndi að tjá það

með orðfæri sem þeir skildu en þó gerðu þeir gys að honum og aðeins fáir þeirra sýndu

220 Jose Kuruvachira, Justin Marthyr‘s Theory of „Seminal Logos“, Academia, sótt 28. maí af https://www.academia.edu/32600710/JUSTIN_MARTYRS_THEORY_OF_SEMINAL_LOGOS_AEdu_.pdf. Kuruvachira minnir einnig á fjölþætta merkingu gríska hugtaksins Logos: „Originally the term ‘logos’ meant ‘a ground’, ‘a plea’, ‘an opinion’, ‘an expectation’, ‘word’, ‘speech’, ‘account’, ‘reason’ and in the course of time it became a technical term in philosophy beginning with Heraclitus. Logos is also a term widely used in Hellenistic Judaism, and Christian theology identifies Jesus as the incarnate Logos.“ Hann bætir við að Logos kenningar þær sem Jústínus hafi þekkt hafi komið frá tveimur ólíkum hefðum. Annars vegar ekki-Kristnum (Herakleitos, Stóuspeki, Pýþagóringum, Plató, Aristóteles, Mið-Platónisma og Fílon frá Alexandríu). Hins vegar frá kristnum (Gamla testamentinu og Nýja testamentinu, sérstaklega Jóhannesarguðspjalli og bréfum Páls postula). Logos sé að finna í Gamla testamentinu sem skapandi kraft (Gen 1.3, Slm 33.9, Sír 42.15). Stundum sé Logos virkni sem tengist JHVH (Jes 55.11, Sak 5.1-4, Slm 106.20; 147.15). Gyðingaheimspekingurinn Fílon frá Alexandríu (um 30 f.Kr.- 50 e.Kr.) dró saman skyldleika hugmyndafræði Herakleitosar, Stóuspekinga, Platónisma og Mið-Platónisma við boðskap Gamla testamentisins. (bls. 2-3).

Page 80: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

79

boðun hans áhuga (Post 17.16-34).221 Í Rómverjabréfinu virðist Páll einnig telja að fólk,

sem lifir samkvæmt kærleiksboði Guðs án þess að þekkja hann, eigi möguleika á eilífu lífi

með Guði (Róm 2.12-16).222 Páll sér þannig Guð sem er æðri mannlegum takmörkunum

og fordæmingum.

Rúnar M. Thorsteinsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum, tekur fyrir ýmis

siðferðileg stef sem fram koma hjá Páli postula og öðrum kristnum heimildamönnum og

finnur samsvaranir í ritum stóuspekinga. Hann bendir á að bæði 1. Pétursbréf og 1.

Klemensarbréf hafi orðið fyrir áhrifum af áherslu Páls postula á kærleikann (gr. agape,

ἀγάπη).223 Hér vil ég þó minna á að eins og fram hefur komið álitu flestir kirkjufeðranna

1. Pétursbréf ótvírætt eitt hinna áreiðanlegu rita kristinnar trúar. Samkvæmt þeim virðist

það hafa verið Pétur, einn af postulunum 12 sem ritaði það.224 Finnst mér þannig fremur

ótrúverðugt að Pétur hafi dregið einhvern sérstakan „kærleiks-lærdóm“ af Páli, í ljósi

þess að Páll sjálfur sagðist hafa lært hjá Pétri og Jakobi, bróður Drottins. (Gal 1.18-19,

221 Sjá nánar Post 17.17-20, 22, 28, 32-34: „Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn og daglega á torginu við þá sem urðu á vegi hans. En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: „Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?“ Aðrir sögðu: „Hann virðist boða ókunna guði,“… Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: „Aþeningar, þið komið mér svo fyrir sjónir að þið séuð í öllum greinum miklir trúmenn því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum ykkar og fann þá meðal annars altari sem á er ritað: Ókunnum guði. Þetta sem þið nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég ykkur. Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er… Í honum lifum, hrærumst og erum við. Svo hafa og sum skáld ykkar sagt: Því að við erum líka hans ættar… Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra gerðu sumir gys að en aðrir sögðu: „Við munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.“... En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú...“ 222 Sjá Róm 2.14-16: „Þegar heiðingjar, sem þekkja ekki lögmál Móse, gera það eftir eðlisboði sem lögmál Guðs býður, þá eru þeir sjálfum sér lögmál þótt þeir hafi ekki neitt lögmál. Þeir sýna að krafa lögmálsins er skráð í hjörtum þeirra... Þetta verður á þeim degi er Guð dæmir hið dulda hjá mönnunum...“ 223 Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism, bls. 156-158. 224 New World Encyclopedia, „First Epistle of Peter“, New World Encyclopedia, nóvember 2017, sótt 28. maí 2019 af https://www.newworldencyclopedia.org/entry/First_Epistle_of_Peter. Sjá aftur nánar um ritunartíma á New World Encyclopedia: „The author identifies himself in the opening verse as "Peter, an apostle of Jesus," and a number of Church Fathers accepted this claim: Irenaeus (140-203 C.E.), Tertullian (150-222 C.E.), Clement of Alexandria (155-215 C.E.) and Origen (185-253 C.E.). Since Polycarp, who was martyred in 156, alluded to this letter in his own works, then it must have been written before the mid-second century. However, the Muratorian Canon of c. 170 did not contain it, suggesting that the epistle was not yet being read in the Western churches. Unlike 2 Peter, the authorship of which was debated in antiquity, there was little debate about Peter’s authorship of 1 Peter until the advent of biblical criticism in the eighteenth century. Assuming the letter is authentic and written by Peter who was martyred c. 64, the date of this epistle is probably between 60-64 C.E.“

Page 81: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

80

Post 9.26-28).225 Rúnar bætir við að Páll segi að draga megi allt lögmál Gyðinga saman í

eitt boðorð um að elska náungann eins og sjálfan sig (Róm 13.8-10). Að elska náungann

sé samkvæmt 1. Pétursbréfi meðal annars það að fyrirgefa, hjálpa og sýna virðingu og

kurteisi. Neðanmáls nefnir hann nokkra ritningarstaði í Biblíunni sem boða slíkan

náungakærleika. Rúnar nefnir þar einnig 3. Mósebók 18.19. Hann bætir síðan við að

Seneca hafi m.a. kennt að maður eigi að lifa fyrir náungann vilji maður lifa fyrir sjálfan

sig.226 En Seneca (4 f.Kr.-65 e.Kr.) átti bróður sem hét Gallio er hafði hitt Pál postula.227

Rúnar segir Epiktetos (55-135 e.Kr.) hafa hvatt til þess að menn elskuðu aðrar

manneskjur þannig að þeir væru tilbúnir að líða líkamlegar þjáningar fyrir velferð

annarra. Maður átti jafnvel að elska þá sem kvelja mann.228 1. Pétursbréf 3.9 kennir

einnig að menn skuli ekki gjalda illt með illu, eins og Páll boðar í Rómverjabréfinu. Rúnar

telur að bæði Páll og Pétur hafi með þessu verið að boða siðferðiskröfur sem fyrir hafi

225 Postulagasagan birtir okkur tiltekna tímaröð atburða sem virðist hér dregin í efa. Almennt vilja biblíurannsakendur ekki viðurkenna aldur, höfund og upprunaleika boðskapar tiltekins rits út frá tilvísunum kirkjufeðranna í það, heldur aðeins út frá vísunum til sagnfræðilegra þátta innan ritsins sjálfs eða tilvísunum annarra samtímarita í það. Sé slík krafa áreiðanleika ávallt viðhöfð mætti véfengja margt af því sem stendur í öðrum fornum ritum um uppruna þeirra og höfund. En þar sem engar vísbendingar hafa fundist samkvæmt biblíurannsakendum, sem staðfesta eldri ritunartíma annarra rita Nýja testamentisins, tala fræðimenn almennt um rit Páls sem elstu heimildirnar um kristna trú. T.d. Matthias Henze (Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 16). Hvað sem áætluðum ritunartíma líður gæti boðskapur annarra rita Nýja testamentisins, eins og 1. Pétursbréfs, vel verið eldri. Því skyldi að mínu mati varast að gera Pál að hugmyndasmiði grunn kristinna kenninga. 226 Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism, bls. 157-158, 161-163. Rúnar bætir við að Seneca hafi vitnað í stóuspekinginn Hecato frá 1. öld f.Kr. er átti að hafa sagt að vilji maður verða elskaður eigi maður elska. Rúnar bendir á að þessi orð minni á orð Páls þar sem hann segi Leviticus 19.18 um að elska náungann eins og sjálfan sig vera uppfyllingu lögmálsins og eins þar sem Páll komi með nánari útlistanir á því (Róm 13.8-10 og kaflar 14-15). Hér myndi ég aftur vilja benda á nokkurn greinarmun. Hecato boðar að ef við viljum hljóta elsku, þá sé farsælast fyrir okkur að elska. Þannig er þetta boð sett undir skilyrði. Ekkert skilyrði er aftur í Leviticus 19.18 (3Mós 19.18). Maður á einfalelga að elska náungann eins og sjálfan sig. 227 Donald Reynolds Dudley, „Seneca: Roman Philosopher and Statesman (4 BCE – 65CE)“, Encyclopædia Britannica, sótt 2. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Lucius-Annaeus-Seneca-Roman-philosopher-and-statesman. 228 Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism, bls. 157-158, 161-163. Rúnar bætir við að Epiktetos hafi trúað því að allir menn væru með meðfædda eiginleika til góðsemi og dygða. Þekking okkar á sálfræði í dag sýna aftur að manneskur læra mannskilning og náungakærleika af foreldrum og öðrum uppalendum. Rannsóknir á siðblindingjum bera því vitni. (Daneil Goleman, Emotional Intelligence, USA: Bantam Books, 1997, bls. 115, 224-227) Engu að síður er jákvætt að hann skyldi boða fórnfúsan náungakærleika. Mögulega hefur hann heyrt af slíku fordæmi frá ört vaxandi hreyfingu kristinna sem lifði samkvæmt þessu boði Jesú Krists. Sjá nánar um Epiktetos á orðabók Birtannica (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Epectetus: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. júlí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Epictetus-Greek-philosopher).

Page 82: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

81

verið almennt þekktar í hinum grísk-rómverska heimi. Hugmyndin sé komin úr tilvitnun

Platóns í Sókrates í riti hans Crito, þar sem Sókrates (á 5.-4. öld f.Kr.) býður að ekki skuli

gjalda illt með illu, eða gera neinum illt, sama hvað þeir hafi gert manni. Stóuspekingar

hafi greinilega sótt í siðferðisspeki Sókratesar um að leita ekki hefnda. Á sama tíma og

bréf Páls kom til Rómar hafi Seneca, ásamt Musoníusi, þegar verið að boða að ekki skyldi

gjalda illt með illu. Fyrir tíma Seneca hafi Cicero boðað Rómverjum þetta sem hina réttu

kennslu stóuspekinga. Þannig hafi hinir kristnu og stóuspekingarnir verið samstíga í

þessari skoðun sinni að sigra skuli hið illa með góðu. Musoníus og Epiktetos,

samtímamenn Páls, hafi einnig boðað að það væri mikilvægt að fyrirgefa, eins og Páll

boðar í Rómverjabréfi sínu 14-15 og 12.17. Epiktetos talaði einnig um að sá sem verði

fyrir svipuhöggum ætti jafnvel að biðja fyrir þeim sem slær hann, eins og Páll bauð að

blessa þá sem ofsækja mann.229

Jesús boðaði einnig að menn skyldu fyrirgefa þeim sem gert hafa á þeirra hlut. Kemur

það meðal annars fram í bæninni sem hann kenndi og hefur verið kölluð „Faðir vor“

(Matt 6.12 og 18.21-22). Einnig bauð hann: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem

ofsækja yður“ (Matt 5.44). Eins voru þetta ekki bara orðin tóm fyrir Jesú heldur vottar

Lúkasarguðspjall að hann hefði einmitt gert þetta á dánarstund sinni er hann sagði:

„Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera“ (Lúk 23.34). Sókrates hefur eins

og margir aðrir séð að ef maður hefnir sín má reikna með að hefndin gangi á báða bóga

og því engum til hagsbóta. Sókrates virðist með þessu boði sínu ekki vera að boða

skilyrðislausa ást til náungans. Því það er eitt að elska aðra og annað að hefna sín ekki á

þeim sem gera manni illt. Ef maður elskar aðra vill maður ekki að þeir þjáist eða líði skort.

Að elska aðra eins og sjálfan sig felur í sér að hugsa um aðra af umhyggjusemi eins og

229 Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism, bls. 166-171. Sókrates var uppi um 470-399 f.Kr. (Richard Kraut, „Socrates: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. ágúst af https://www.britannica.com/biography/Socrates). Elsta handrit af verki Platóns Crito er líklega frá 9. öld e.Kr. ef marka má Bodleian Libraries frá University of Oxford. (Bodleian Libraries: University of Oxford, „Tetralogies 1-6: comprising 24 dialogues“, Digital Bodlean, sótt 2. júlí 2019 af https://digital.bodleian.ox.ac.uk/inquire/p/a41ae7ce-4e8a-4e9e-abbb-c55f4e24cebb). Elsta handritabrot af verkum Platóns (sem fjallar um Sókrates) virðist vera frá 3. öld f.Kr. og er úr riti hans Phaedo sem segir einnig frá Sókratesi (Constance C. Meinwald, „Plato: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 9. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Plato). Rúnar bætir við að Seneca hafi boðað að ekki skyldi leita hefnda í riti sínu On Anger (De Ira).

Page 83: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

82

sjálfan sig, en ekki aðeins að koma sér og sínum undan sársauka, eins og boðið um að

leita ekki hefnda virðist grundvallast á.

Rúnar M. Þorsteinsson bætir við að Páll virðist boða að ekki skuli hefna (Róm 12.17),

en segi síðan að hefndin sé Guðs, „látið reiði Guðs um að refsa…“ (Róm 12.19).

Stóuspekingar gerðu aftur enga kröfu um hefnd.230 Ég leyfi mér þó að efast um að Páll

hafi beðið í eftirvæntingu eftir slíkri guðlegri „hefnd“. Hér mætti engu að síður velta fyrir

sér hvort tiltekin guðleg refsing feli ekki í sér ákveðna kröfu um réttlæti sem fólk þráir

innst inni. Að Guð sem allt veit fyrirgefi þeim sem iðrast en samviskulausum illvirkjum

ekki. Enda fæli sú fyrirgefning í för með sér fyrirheit trúarinnar um samvist í eilífð með

Guði. Stóuspekingar hafa eflaust ekki gert ráð fyrir slíkri sambúð í eilífðinni, þá mögulega

með kaldrifjuðum siðblindingjum, enda þeirra sýn á endalok alls allt önnur.

Þannig virðist Rúnar M. Þorsteinsson telja að þetta lögmál, að elska óvini og að hefna

sín ekki, sé að finna hjá Sókrates, örfáum rómverskum stóuspekingum, í 3. Mósebók

19.18 (Leviticus) og hjá Jesú. Ekki allir fræðimenn eru sammála um að Sókrates hafi verið

að fjalla um náungakærleika er hann bauð að framkvæma ekki óréttlæti og hefna sín

ekki. James M. Ambury, prófessor í heimspeki, telur þetta boð Sókratesar hafa átt rætur

í þeirri trú hans að ef maður geri eitthvað illt skaði það eigin sál.231 Rúnar telur samt

ólíklegt að Páll hafi hér sótt til orða Jesú, heldur fremur til stóuspekinganna, því Páll tali

ekki um að elska óvini heldur blessa þá.232 Hér tel ég þó að hugleiða beri merkinguna að

baki hugtakinu „blessun.“ Til að mynda gæti ég sjálf ekki gefið neina guðlega blessun án

230 Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism, bls. 170-173. Seneca boðaði auk þess að aðeins skyldi brosa til barna sinna ef þau færu með illmælgi. En samkvæmt nútíma þekkingu á uppeldi er slíkt talið senda börnum röng skilaboð um ágæti slíkrar hegðunar. 231 James M. Ambury, „Socrates (469-399 B.C.E.)“, Internet Encyclopedia of Philosophy, sótt 1 júlí 2019 af https://www.iep.utm.edu/socrates/#SSH2. Í kaflanum iv. It is Better to suffer an Injustice Than to Commit One segir: „…committing an injustice is worse than suffering one. Therefore, given the choice between the two, we should choose to suffer rather than commit an injustice. This argument must be understood in terms of the Socratic emphasis on the care of the soul. Committing an injustice corrupts one’s soul, and therefore committing injustice is the worst thing a person can do to himself (cf. Crito 47d-48a, RepublicI 353d-354a). If one commits injustice, Socrates goes so far as to claim that it is better to seek punishment than avoid it on the grounds that the punishment will purge or purify the soul of its corruption (Gorgias 476d-478e).“ Í kaflanum i. Socratic Ignorance segir: „He believes for instance that it is never just to harm anyone, whether friend or enemy, but he does not, at least in Book I of the Republic, offer a systematic account of the nature of justice that could demonstrate why this is true.“ 232 Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism, bls. 174-175.

Page 84: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

83

þess að sú bæn endurspegli um leið náungakærleika. Ef maður elskar ekki náungann

getur maður ekki beðið Guð neins (Mark. 11.25).233 Hér skiptir því ekki megin máli

hugtakanotkunin „blessun,“ eða „elska“ til að hinn sameiginlegi boðskapur skiljist.

Þannig er að mínu viti líklegast að Páll hafi einmitt sótt í boðskap og kennslu Jesú sem

var siðferðileg fyrirmynd hans og frelsari. Moyer Hubbard, prófessor í

nýjatestamentisfræðum, gagnrýnir einnig þá kenningu Rúnars að Páll sé ekki að vísa til

þess að hinir kristnu eigi að „elska“ óvini, fyrst hann segir „blessa,“ eða að sá kærleikur

sem Páll boði þarna eigi aðeins við um hina kristnu (Róm 12.9-19). Hubbard bendir m.a.

á að í Rómverjabréfinu 12.20 bjóði Páll að gefa óvininum að borða og drekka. Einnig segi

í 1. Þessalóníkubréfi 3.12 að elska skuli alla. Þá sniðgangi þetta ummæli Páls þar sem

hann segir Jesús Krist vera sína helstu fyrirmynd.234 Hann bendir á að mun fleira í ritum

stóuspekinganna endurspegli ekki þessa áherslu á að boða náungakærleika (gr. agape),

enda var sá boðskapur ekki á meðal æðstu dygða t.d. Musoníusar Rúfusar.235

Hér er þó mikill skyldleiki í boðun stóuspekinnar á náungakærleikanum sem er einn

af grundvallar boðskap Nýja testamentisins. Rúnar M. Þorsteinsson nefnir 3. Mósebók

sem eitt þeirra rita er boði þennan náungakærleika. Almennt telja fræðimenn 3.

Mósebók tilheyra svo kölluðum prestlegum hluta Mósebókanna og ritunartíminn þar

með a.m.k. á 7. öld f.Kr. ef ekki fyrr.236 Sumir myndu segja allt aftur til Exodus atburðanna

233 Sjá Mark 11.25: „Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar.“ Einnig 1Jóh 1.8-10: „Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. “Einnig Jakob 5.16: „Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.“ Eins Matt 6. 9-15. 234 Moyer V. Hubbard, „Enemy Love in Paul: Probing the Engberg - Pedersen and Thorsteinsson Thesis“, Journal for the Study of Paul and his Letters Vol.6:No.1/2016, bls. 115-135, hér 126-131. Þá nefnir Hubbard einnig Matt 5.44 og Lúk 6.27-28 sem fyrirmynd slíks kærleika en Páll segist hafa Jesú sem fyrirmynd (1Kor 11.1. og Gal 2.20). Hubbard bætir við að auk þess hafi fórnardauði Jesú fyrir syndara haft mikil áhrif á Pál (Róm 5.8, Gal 1.4, 2Kor 5.14-15 og Róm 5.6-10). 235 Moyer V. Hubbard, „Enemy Love in Paul“, bls 132-135. Æðstu dygðirnar voru t.d. samkvæmt Musoníusi gáfur, sjálfsstjórn, réttlæti og hugrekki. En síðan telur hann einnig ráðlagt að vera góður og örlátur en nefnir agape (kærleika) ekki sérstaklega í þeim lista. 236 The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Leviticus: Old Testament“, Encyclopædia Britannica, sótt 5. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Leviticus. Þó er ekkert sem útilokar eldri ritunartíma eins og fram hefur komið, né fyrri varðveislu í munnlegri geymd. Mætti hér nefna að orð 8. aldar spámannsins Míka endurspegla þá trú að Guði Ísraels boði náungakærleika: „Maður, þér hefur verið sagt

Page 85: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

84

og Móse eins og fram hefur komið. Í 3. Mósebók 19.18 segir nákvæmlega: „Þú skalt ekki

hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.“

Gríska Septuagintan notar hér hugtakið agape (gr. ἀγάπη) þar sem stendur „elska.“237

Eins átti þetta ávallt við um alla en ekki bara ísraelska ættmenn. Sumir hafa talið að Jesús,

með dæmisögunni um miskunnsama Samverjann (Lúk 10.25-37), hafi innleitt einskonar

útvíkkun á því hver „náunginn“ var. Fjölmörg ritningarvers Gamla testamentisins votta

aftur á móti að sá skilningur að „náunginn“ sé „allir“ hafi alltaf verið til staðar, eins og

Richard Elliott Friedman, prófessor í gyðinglegum fræðum, rökstyður vel.238

Sýnir þetta að a.m.k. á 7. öld, ef ekki fyrr, var þetta boðorð um að elska aðra eins og

sjálfan sig, talið heilagt boð Guðs til Ísraelsmanna. Jafnframt skyldi ekki leita hefnda, sem

bendir til að fyrirgefning hafi líka verið krafa. Að elska einhvern eins og sjálfan sig gerir

enda kröfu um fulla samkennd. Að menn geti sett sig í spor annarra og reyni að gera

ekkert sem þeir myndu ekki vilja að yrði gert við þá sjálfa. Eða eins og Jesús sagði: „Allt

sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er

lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 7.12). Gerir þetta boð Jesú mun meiri kröfu en

einungis þá að koma sér undan leiðindum. Jesús sjálfur vitnaði í 3. Mósebók 19.18 og

sagði það æðst allra boðorðanna:

Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu

þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta:

hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ (Mík 6.8) 237 Swete‘s Septuagint, „Leviticus 19“, Bible Hub, sótt 31. maí 2019 af https://biblehub.com/sepd/leviticus/19.htm. Versið í 3Mós 19.18 er ritað í grísku Septuagintunni svo: „καὶ οὐκ ἐκδικᾶταί σου ἡ χείρ, καὶ οὐ μηνιεῖς τοῖς υἱοῖς τοῦ λαοῦ σου, καὶ ἀγαπήσεις τὸν πλησίον σου ὡς σεαυτόν· ἐγώ εἰμι Κύριος.“ Nokkur brot úr Leviticus (3Mós) fundust á meðal Dauðahafshandritanna við Kúmran. Sjá nánar öll handritabrotin á Lyon Levy: Dead Sea Scrolls: Digital Library (The Israel Antiquities Authority, „Explore the Archive“, The Leon Levy Dead Sea Scrolls Digital Library, sótt 13. mars 2019 af https://www.deadseascrolls.org.il/explore-the-archive). 238 Richard Elliott Friedman dregur fram ritningarstaði í Gamla testamentinu sem boða að elska skuli náungann og sýnir hvernig það á við um útlendinginn líka. Höfundurinn bendir á að hugtakið re‘a í hinum hebreska texta þar sem fjallað er um kærleika og virðingu við náunga merki „allir“, en það er hægt að sjá með samanburði á ólíkum textum innan lögbókanna. Hugtakið birtist eins bæði í karlkyns og kvenkyns myndum. (Richard Elliott Friedman, „Love Your Neighbor: Only Israelites or Everyone?”, Biblical Archaeology Society: Bible History Daily, 6. júní 2019, sótt 24. júní 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/bible-interpretation/love-your-neighbor-only-israelites-or-everyone/?fbclid=IwAR3zptaq7RRMu7q2Ep2g_gG27HNcC-3swJ_GMZ8_CVGRsMXGucvfuhwk1OY).

Page 86: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

85

Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð

annað er þessum meira. (Mark 12.30-31).

Samkvæmt hinni kristnu boðun umhverfðist þannig allt lögmál Gamla testamentisins um

að elska Guð og náungann. Boðorð sem talið er eiga upphaf sitt hjá Móse og atburða

tengdum flóttanum frá Egyptalandi. Þannig get ég ekki annað en tekið undir með

Jústínusi píslarvotti að stóuspekingar gætu allt eins hafa hagnast eitthvað af gyðingdómi

og kristni. Sýnagógur voru opin samfélög staðsettar víða í kringum Miðjarðarhafið. Oskar

Skarsaune prófessor í kirkjusagnfræði bendir á að þangað komu margir trúræknir

heiðingjar sem jafnvel vildu gerast gyðingar því siðferðisboðskapurinn heillaði þá.

Umskurn var líklegast helsta hindrunin en hún var skilyrði þess að gerast Gyðingur. Ýmsir

lærðir spekingar meðal Gyðinga og kristinna vildu eiga samtal við önnur trúarbrögð og

heimspekistefnur sem virtust byggja á svipuðum grunnstoðum um Guð skapara og Logos

er bauð að koma vel fram við aðra. Gyðingar bjuggu í grísk-rómversku samfélagi. Þeir

innlimuðu helleníska menningu í gyðingdóm, en alfarið á forsendum Torah

(lögmálsins).239 Fannst þeim eflaust að hinn eini Guð JHVH hlyti að vera það sem allir

aðrir boðberar kærleika og Guðs skapara vísuðu til, þótt ekki gætu slíkir boðberar talist

þekkja hann til fulls. Dæmi um samtal af þessum toga í dag er kyrrðarbæn og íhugun

kristinna safnaða sem margir myndu eflaust telja heyra undir hugleiðslu hindúisma og

búddasiðar. Í samtali sínu við nútímann bendir kirkjan á að slíkt kristið bænaform hafi

lengi verið til óháð öðrum trúarbrögðum og að kirkjan hafi líka leiðir til þess að kyrra

hugann frá streitu og álagi samtímans.

Frederick Clifton Grant, prófessor í biblíulegri guðfræði, fjallaði snemma á 20. öld í

grein sinni St. Paul and Stoicism um þessi meintu tengsl Páls við stóuspeki. Hann færði

rök fyrir því að slík tengsl felist helst í því hvernig hugtök og hugmyndafræði

stóuspekinnar hafi verið orðin almenn og hluti af almennri málvenju. Ekki sé hægt að sjá

áhrif stóuspeki á megin boðskap Páls og boðun fagnaðarerindisins. Þó að Páll hafi lært

grísku í Tarsus, lesið Biblíuna á grísku og kynnst grískri hugmyndafræði hafi hann verið

239 Oskar Skarsaune, In the Shadow of the Temple: Jewish Influences on Early Christianity, Oskar Scarsaune, Downers Grove. illinois: InterVarsity Press, 2002, bls. 35-42, 73-83.

Page 87: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

86

af hópi strangtrúaðra farísea, þar sem utanaðkomandi áhrif voru litin hornauga. Hann

hafi hlotið kennslu í gyðinglegum fræðum í Jerúsalem sem barn hjá faríseískum

fræðimanni Gamalíel og menntun hans alfarið úr trúarlegum ritum. Bréf Páls endurspegli

auk þess gagnrýni hans á skoðanir heimspekinganna. Hér vísar Grant m.a. í Kólossubréfið

(Kól 2.8). Grískustíll Páls hefur ekki í sér stóísk sérkenni né heldur er hann algerlega

fenginn úr Septuagintunni. Hann segir Pál seint geta talist til stóuspekings hvað skoðanir

varðar, enda flestar skoðanir hans stóuspekingum framandi.240

Frederick Clifton Grant segir að þeir fræðimenn sem talað hafa fyrir þessum tengslum

Páls við stóuspeki hafi sumir átt til að gera Seneca að helsta fulltrúa stóuspekinnar.

Seneca var aftur á móti samtímamaður Páls og ekki nokkur leið að vita hvað af hans

kennslu átti upphaf sitt að rekja til eldri stóuspeki. Sumt frá Seneca kemur t.a.m. frá

Plató. Heimsslitafræði Páls (1Kor 7.29) hefur eins verið bendluð við stóuspeki en hún á

sér ríkulegri samsvörun í gyðinglegum heimsslitabókmenntum. Flest af því sem Páll á að

hafa sótt í stóuspeki á sér gyðinglegar rætur. Þá sé merking Páls í Kólossubréfinu 3.10,

um að nú sé engin aðgreining heldur séu allir eitt í Kristi Jesú (karlar, konur og þrælar),

mun víðtækari en hugmynd stóuspekinga um að allir menn búi yfir skynsemi.241 Logos-

hugmyndafræði stóuspekinganna sé ekki heldur af sama grunni. Ekki sé hægt að sýna

240 Frederick Clifton Grant, „St. Paul and Stoicism“, The Biblical World 45:5/1915, The University of Chicago Press, bls 268-282, Sótt 5. apríl 2019 af https://www.jstor.org/stable/3142715?seq=1#metadata_info_tab_contents. Grant minnir á hvernig Stóuspekingarnir og heimspekingarnir gerðu gys að Páli og kölluðu „fræ-safnara“ (þýtt á ísl. „skraffinnur“) sem heimspekingar notuðu um þá sem þekktu heimspeki afar lítið. Stóuspeki var skóli án grunnbókar eða játninga. Þeir voru fremur einskonar tjáning á viðhorfi sem byggði á eldri kenningum heimspekinga og almennum hugmyndum hvers tíma og ekki sé eitt heildar samræmi í boðun helstu talsmanna spekinnar. Helsti kjarninn sé sjálfstæði einstaklingsins og geta til að yfirstíga kringumstæður sínar. Siðferðileg hugmyndafræði þeirra kom m.a. frá Sókrates og Plató. Síðaritíma stóuspekingar aðhylltust sumir Aristóteles. Stóuspekingar gátu t.d.sumir trúað á ódauðleika en aðrir ekki. Leit þeirra að dygðum leiddi stóuspekinga inn á brautir trúar. Þó hafi stóuspekin verið meira skapgerð og viðhorf en siðferðis- eða trúarkerfi. 241 Frederick Clifton Grant, „St. Paul and Stoicism“, bls 268-282. Þannig þróaðist stóuspekin frá hugmyndaheimi forrennara sinna. T.d. þótt Epitketos hafi ávítað mann fyrir óþolinmæði gagnvart þræl sínum og reynt að höfða til bræðralags, þá hefðu hvorki Plató né Sókrates tekið undir slíkt viðhorf. Það var með tilkomu Mið-stóuspekinnar í gegnum Cicero og Seneca sem maður, kona, grikki og heiðingi, frjáls og þræll voru öll gjaldgeng sem manneskjur. Það var ekki fyrr en stóuspekin náði til Rómar á 2. öld f.Kr. sem hún varð að trúarbrögðum meðal menntamanna. Hún varð þó aldrei að vinsælli trú enda skorti hana goðsagnir, ritúöl og játningar. 4. kafli þessarar ritgerðar birtir þó betur viðhorf stóuspekinga til kvenna, þræla og ófrjálsra barna.

Page 88: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

87

fram á að stóuspekingar hafi séð Logos sem persónu. Páll sæki fremur í Logos-speki

Viskubókmennta Gyðinga og mögulega til Fílons frá Alexandríu. Ekki skyldi þannig

oftúlka tengsl Páls við stóuspeki vegna samskonar hugtakanotkunar, enda oft um

almenna orðanotkun að ræða. Jafnvel langtímaþróun stóískra hugtaka yfir í málvenjur

innan hins grísk-rómverska heims.242

Þannig hefur Páll að sama skapi ekki átt erfitt með að nota myndlíkinguna um hina

kristnu sem „limi á líkama Krists,“ sem svipar til orða Seneca er talaði um að allir væru

af náttúrunnar hendi skyldir eins og „limir á sama líkama.“243 Jesús lýsir sjálfur slíkri

einingu og fullri samkennd með öðrum er hann segir: „Sannlega segi ég yður: Allt sem

þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“244 Eins sagði Jesús

lærisveinana vera í sér og hann í þeim eins og hann sjálfur var í föðurnum. (Jóh 14.20).

Þegar maður les kenningar fræðimanna sem bera saman Stóuspeki og kristni getur

maður fengið á tilfinninguna að stóuspekin eða aðrar heimspekistefnur hafi allt að því

fundið upp kærleikann. Það sem fram hefur komið sýnir að til eru eldri rit og heimildir

innan Biblíunnar sem fjalla um náungakærleikann í sinni sterkustu mynd. Eins leiðir

samsvörun í hugtakanotkun ekki sjálfkrafa af sér að verið sé að sækja í grunn

242 Frederick Clifton Grant, „St. Paul and Stoicism“, bls 268-282. Zeno hafði t.d. fengið hugmyndina um Logos frá Herakletosi sem skyldi það sem skipan og reglu innan alheimsins. Zenó gerði Logos að skynsemi sem var bæði siðferðilegt og sálrænt grunnlögmál alheimsins. Þeir kölluðu einnig mannlega skynsemi Logos, sama nafni og hinn guðlegi kraftur sem það kom frá. 243 Rúnar nefnir þetta sem dæmi um skyldleika ummæla Páls við Stóuspeki. (Rúnar M. Thorsteinsson, Roman Christianity and Roman Stoicism, bls. 164). Þarna vísar Rúnar til Róm. 12.4-5: „Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.“ Jesús talaði einnig um sig sem vínviðinn og lærisveinana sem greinarnar til að undirstrika einingu þeirra við sig. (Jóh 15.1-10). Sú myndlíking á sér eflaust upphaflega rætur í Gamla testamentinu og spámönnum þeim sem líktu Ísraelslýð við vínvið: „Móðir þín var eins og vínviður sem gróðursettur var við vatn. Hann bar margar greinar og ríkulegan ávöxt því að hann hafði nóg vatn.“ (Esek 19.10), Einnig 15. kafli Esekíels spámanns. Eins Hósea 10.1.: „Ísrael var gróskumikill vínviður, sem bar ávöxt...“ 244 Matt 25.40. Sjá nánar Matt 25.34-40: „Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta…? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“

Page 89: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

88

hugmyndafræði annarra spekinga. Þá gleymast oft hinar gyðinglegu rætur Jesú og Páls í

þeirri umræðu.

3.2 Gyðingurinn Jesús: Messías spádómanna

Þrátt fyrir að fram hafi komið kenningar um að boðskapur Jesú eigi miklar rætur í

heimspeki eins og stóuspeki eða endurspegli gnostíska hugmyndafræði, þá eru margir

fræðimenn sem sjá slíkar kenningar ekki samræmast heimildum Nýja testamentis um

Jesú. Nýja testamentið beri því vitni að Jesús var Gyðingur bæði hvað þjóð, kynþátt og

trúarboðskap varðar. Jaroslav Pelican, prófessor í kirkjusagnfræði, segir þessi tengsl

augljós. Jesús og lærisveinar hans hafi augljóslega talað arameísku, semitískt tungumál

sem er náskylt hebresku. Finna megi fjölda arameískra orða og ummæla í

guðspjöllunum. Nefnir hann sem dæmi „Hósanna“, „Elói, Elói, lama sabaktaní“ (Mark

15.34), „Immanuel“, „rabbí“, „Amen“ og „Messías“. Jesús var auk þess ávarpaður sem

„rabbí“ eða „rabbúní“ sem merkir „kennari“ eða „meistari“ meðal Gyðinga. Hann fylgdi

þeirri rabbínsku venju að fara í sýnagógu Gyðinga og lesa úr hebresku Biblíunni. Eins var

það gyðingleg hefð að tala í dæmisögum (gr. parabole). Hið gríska hugtak parabole er

komið úr Septuagintunni.245 Fornleifauppgröftur í borginn Sepphoris nærri Nasaret,

heimabæ Jesú á 1. öld e.Kr., virðist auk þess sýna mikil áhrif gyðingdóms á borgina.246

Samkvæmt því virðist Jesús hafa komið úr umhverfi sem rótfast var í gyðingdómi og

gyðinglegum hefðum.

245 Jaroslav Pelikan, The Illustrated Jesus through the Centuries, London: Yale University Press, 1997, bls. 9-14. Sjá einnig umfjöllun Frontline um hin gyðinglegu tengsl Jesú með tilvísunum í orð prófessoranna Harold W. Attridge, Shaye I.D. Chohen og Paulu Fredriksen (Frontline, „He was born, lived, and died as a Jew“, Frontline: From Jesus to Christ, sótt 18. ágúst 2019 af https://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/shows/religion/jesus/bornliveddied.html). 246 Mark Chancey and Eric M. Meyers, „How Jewish Was Sepphoris in Jesus‘ Time?“, Israel An Archaeological Journey: Biblical Archaeology Society, September 2009, ritstj. Sarah K. Yeomans, bls. 26-43, hér bls. 27. Höfundar segja þar: „Located a mere 4 miles north of Nazareth, where Jesus grew up, Sepphoris was a thriving urban center during his lifetime and in the centuries that followed, and many scholars have wondered if Jesus was influenced by the cultural and intellectual trends that prevailed in the nearby city. Some scholars think Sepphoris was a thoroughly Hellenistic city and try to place the teachings of Jesus in the context of Greco-Roman philosophical traditions. But authors Mark Chancey and Eric Meyers contend that extensive excavation at Sepphoris has only confirmed the opposite view: that first-century Sepphoris was a town with a strong Jewish cultural identity.“

Page 90: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

89

Matthias Henze, prófessor í hebreskum biblíufræðum, er á sama máli. Hann bendir

jafnframt á í bók sinni Mind the Gap hversu mikið af kennslu Jesú átti rætur sínar að

rekja til gyðingdóms.247 Fyrir marga kristna í dag kann upptalning hans að vekja furðu

enda hafa kristnir lengi talið að Jesús hafi umturnað viðteknum gyðinglegum siðum og

gildum með nýrri róttækari kennslu og boðun. Henze bendir á að yngstu bækur Gamla

testamentis mótmælendakirkna séu frá 4. öld f.Kr., að frátalinni Daníelsbók frá 2. öld

f.Kr. Því vanti heimildir frá a.m.k. um 400 ára tímabili til vitnisburðar um það hvernig

gyðingdómur þróðaðist.248 Hér vísar hann til tímabils Apókrýfu bóka Gamla

testamentisins.249 Séu heimildir frá þessum tíma skoðaðar geti það breytt því hvernig við

sjáum gyðinginn Jesú og hreyfingu hans. Hann bendir á að elstu handrit Gamla

testamentisins koma frá þessu tímabili og vísar þar til Dauðahafshandritanna. Handritin

vitna um það hvernig gyðingdómur kvíslaðist upp í minni hópa og hreyfingar. Eins hafi

það helst verið á þessum „millibils árum“ (e. gap years) sem messíasarvæntingar tóku

að verða áberandi. Hópar Gyðinga væntu komu Messíasar sem myndi endurreisa Ísrael.

Þá byrjuðu menn að rita meira um heimsslitafræði og endatímana, illa anda, líf eftir

dauðann og upprisu. Að auki kom áhersla á Lögbækurnar eða Torah sem æðsta

úrskurðarvald um það hvað talist gat til gyðingdóms. Endurspeglar þetta einmitt líf og

247 Matthias Henze, Mind the Gap: How the Jewish Writings between the Old and New Testament Help Us Understand Jesus, Minneapolis: Fortress Press, 2017, bls. 1-12. 248 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 17, 23-24, 29-30, 41. Almennt endar Gamla testamenti mótmælenda á Malakí spámanni. Henze talar því um að miðað við áætlaðan ritunartíma Matteusarguðspjalls megi tala um 500 ára bil eða eyðu (e. gap). Apókrýfarbækur Gamla testamentisins voru ritaðar á því tímabili og þar með sögukaflar frá 2. öld f.kr. sem greina frá Makkabea uppreisn Gyðinga um 167-164 f.Kr. Kaþólska kirkjan og Rétttrúnaðarkirkjan hafa einnig þær apókrýfarbækur með sem finna má í grísku LXX. Mótmælendakirkjur hafa flestar þau rit sem er að finna í hinni hebresku Biblíu þótt uppröðunin sé önnur. (Bernhard W. Anderson, The Living World of the Old Testament, bls. 636-643). Íslenska Biblían í dag er með Apókrýfarbækur Gamla testamentisins. Sjá nánar á „biblian.is.“ 249 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 42-44, 46-48. Hann bendir á að apókrýfarrit Gamla testamentisins voru ekki höfð með því þau voru sögð rituð undir fölsku höfundarnafni. Í dag er talið að menn hafi eignað rit sín mikilsmetnum mönnum til þess að sýna að þeir rituðu í anda þess einstaklings. Þannig er ekki litið á þau sem „falsrit“ í þeim skilningi að menn hafi ætlast til að því yrði trúað að ritin ættu upphaf sitt að rekja til þessara einstaklinga, eins og áður var talið. Nefnir hann hér Enoksbók sem dæmi. Mörg afrit af 1. Enoksbók fundust meðal Kúmran handritanna. Bæði hún og Hátíðarritið (e. Jubilees) voru augljóslega í miklum metum innan Kúmran samfélagsins. Þá voru 2. Barúksbók (e. 2 Baruch) og 4.Esrabók (e. 4 Ezra) einnig þar á meðal. Þær voru ritaðar eftir eyðingu musterisins á 1. öld e.Kr. og mikilvægar til skilnings á ritum Nýja testamentisins, en báðar eru heimsslita- eða endatíma-bókmenntir (e. apocalypses).

Page 91: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

90

starf Jesú, sem talaði um endatímana, upprisu frá dauðum og messíasarvæntingarnar,

rak út illa anda og ítrekaði mikilvægi Torah.250

Mikið af svörum sínum um „millibils-árin“ finnur Henze í ritum Kúmran samfélagsins.

En talið er að Dauðahafshandritin hafi tilheyrt þessu fámenna 100-300 manna Kúmran

samfélagi, sem samanstóð líklega af Essenum sem þar bjuggu, allt þar til Rómverjar

eyddu samfélagi þeirra um 68 e.Kr. Fjöldi handrita sem fundust í Kúmran eru um 900.

Ekki öll handritin voru rituð af Kúmran meðlimum heldur endurspegla þau litróf

gyðinglegrar hugsunar og bókmennta fjölda gyðinglegra hópa frá þessum tíma. Engin

handrit hafa fundist sem benda til þess að Kúmran samfélagið hafi þekkt Jesú eða

hreyfingu hans. Þó er tiltekin orðanotkun innan guðspjalla Nýja testamentisins mjög

svipuð því sem finna má í Kúmran handritunum. Sumir fræðimenn hafa því dregið þá

ályktun að guðspjallamennirnir hafi þekkt sum ritanna frá Kúmran.251 Henze segir Jesú

hafa endurspeglað verulega gyðingdómi síns tíma, eins og sjáist ef maður les

Dauðahafshandritin, 1. Enoksbók, Hátíðarritið (e. Jubilees), 2. Barúksbók og

4. Esrabók.252 Henze færir ítarleg rök fyrir því að Jesús hafi verið Gyðingur sem var talinn

af fylgjendum sínum vera Messías Ísraels. Jóhannesarguðspjall endurspeglar þetta

ríkulega þar kalla þeir sem hitta Jesú hann mörgum titlum er tengdust Messíasi, t.d.

„Lamb Guðs,“ „Sonur Guðs,“ „Konungur Ísraels,“ og „Mannssonur.“ Er augljóst að

lærisveinar Jesú lærðu ekki fyrst um Messías frá Jesú sjálfum heldur vissu fyrir að vænta

bæri Messíasar.253 Auk þess telur Henze afar líklegt að þegar lærisveinarnir kölluðu Jesú

250 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 32-34. 251 Sama heimild, bls. 37-39. Bæði Jósefus, Pliny og Fílon nefna þennan hóp Essena þó að þeir nefni ekki ritsafn þeirra. Hershel Shanks fjallar um fjölda gyðinglegra trúarhópa á þessum tíma í vefbók sinni um Dauðahafshandritin (Hershel Shanks, The Dead Sea Scrolls: Discovery and Meaning: An Illustrated Lecture by Hershel Shanks, Washington DC: Biblical Archaeology Society, 2007, bls. 21-22). 252 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 37-50. Hinn kaþólski biblíuskýrandi og rannsakandi Joseph Fitzmyer, sem einnig hefur rannsakað Dauðahafshandritin er á sama máli. Hann segir Dauðahafshandritin fella einfaldar kenningar um að Jesús hafi komið að ofan með alveg nýjan boðskap sem fólk hafði ekki heyrt um áður. Handritin undirstriki hina gyðinglegu sál sem kristindómur óx út frá. (Hershel Shanks, The Dead Sea Scrolls- Discovery and Meaning: An Illustrated Lecture by Hershel Shanks, Washington DC: Biblical Archaeology Society, 2007, bls. 15). 253 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 53-55. T.d. hafi Natanael sagt er hann hitti Jesú: „Rabbí, þú ert Sonur Guðs! Þú ert Konungur Ísraels!“ Eins boði Jóhannesarguðspjall það sama, sbr.: „Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“ Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“ (Jóh 4.25-26).

Page 92: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

91

Kristos eða „Hinn smurða“ hafi þeir verið að vísa til hans sem Messíasar þess er menn

væntu, þó svo að margir aðrir konungar, prestar og spámenn Gamla testamentisins hafi

einnig verið sagðir „smurðir“ af Guði. Mætti þar nefna Kýrus Persakonung hinn mikla en

Jesaja kallar hann „hinn smurða Drottins.“ (Jes 45.1). Henze segir hugtakið „messías“

ekki koma beinlínis fyrir sem tilvísun til einhverrar framtíðar frelsandi veru í ritum Gamla

testamentisins, heldur sé það almennt notað um þá sem voru leiddir af Guði. Samt segir

Andrés bróðir Símonar Péturs að hann hafi fundið „Messías“ (Jóh 1.41) og samverska

konan „Ég veit að Messías kemur“ (Jóh 4.25). Í ritum frá „millibils-árunum“ sjáist þannig

hvernig þetta hugtak hafi þróast yfir í eftirvæntingu eftir framtíðar endurlausnara við

endatímana. Þó að nokkrir textar hinnar hebresku Biblíu hafi gefið grundvöll fyrir

messíasarvæntingum, segir Henze að það hafi ekki verið fyrr en á tíma síðara musterisins

sem menn fóru að skilja þá sem spádóma um framtíðar Messías.254

Natanael spáði fyrir um ævarandi konungdóm afkomanda Davíðs (2Sam 7.11-16). Af

öðrum ritum Gamla testamentisins sem virðast vísa til Messíasar nefnir Henze

Sálm 2.1- 9, Jesaja 11 og Daníelsbók 7.13-14. Daníelsbók lýsir sýn um eilíft ríki

„mannssonar“ sem Guð gaf honum og enginn muni geta grandað. Daníelsbók var rituð

á tímum þegar Gyðingar upplifðu ofsóknir af hendi sýrlensk-gríska konungsins

Antíokkusar IV Epífanesar sem ríkti um 167-164 f.Kr. og líklega var markmið ritsins að

veita Gyðingum huggun. Margir Gyðingar og síðar kristnir tóku að sjá þetta sem Messías

þann er koma átti við endatímana, þó mögulega hafi það ekki verið upphaflega

merkingin (sbr. Dan 7.22 og 7.27). Við þetta bætir Henze „Þjónsljóðunum“ í

Jesaja 42.1- 4, 49.1-6, 50.4-11, 52.13-53.12, sem öll virðast hafa haft áhrif í þá átt að

móta messíasarvæntingar.255

254 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 53-59. Henze skýrir vel rætur hugtaksins „messías.“ Það kemur fyrir ritað á gríska vísu í Jóhannesarguðspjalli 1.41 og 4.25 sem Μεσσίας en er þar tökuorð úr hebresku „mashiakh“ sem þýðir „hinn smurði“. Í grísku þýðingunni er það einmitt þýtt sem Kristos (gr. Χριστος ) eða Kristur. 255 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 59-67.Henze nefnir fleiri ritningarvers sem menn hafi tekið að túlka sem von um komu messíasar. Sálmur 2.1-9 segir t.d. að Guð kalli „hinn smurða Guðs“ son sinn sem muni erfa alla jörðina, en bætir við að þetta sé þó myndmál. Hann nefnir eins Jesaja 11 og 9. En Jesaja 11.1-9 segi af einhverjum afkomanda Davíðs sem ríkja muni í réttlæti og andi Guðs vera yfir honum. Síðan lýsir textinn fullkomnu friðarríki. Í Daníelsbók 7.13-14 segist höfundur hafa séð í sýn „nokkurn líkan manni/mannssyni“ sem hafi verið gefið yfirráð, dýrð og konungsdómur yfir öllum þjóðum sem muni

Page 93: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

92

Dauðahafshandritin segir Henze veita okkur innsýn í fjölbreytileika messísarvæntinga

innan gyðingdóms. Merkilegust í þessu sambandi séu handritin Messíönsk heimsslit (e.

Messianic Apocalypse) eða 4Q521 og Guðs sonur (e. Son of God) eða 4Q246. Texti fyrri

heimildarinnar segir að Drottinn muni láta fanga lausa, gefa blindum sýn, rétta hið

beygða, lækna alvarlega veika, reisa frá dauðum, boða fagnaðarerindið hinum snauðu

og fylla hungraða gæðum.256 Sést að textinn minnir mikið á Sálm 146.7-8, einnig

Jesaja 61.1-2 sem Jesús vitnaði til í upphafi starfsferils síns (Lúk 4.18-19). Með þessu sé

Lúkas guðspjallamaður að undirstrika að Jesús sé hinn smurði Messías sem andi Guðs

hvílir yfir og boða átti frelsun Ísraels. Svar Jesú til Jóhannesar skírara í Lúkasarguðspjalli

(Lúk 7.20-22) er einnig mjög líkt því sem fram kemur í Messíönsk heimsslit frá Kúmran.

Lúkas bætir þar við „dauðir rísa“ í upptalningu sem annars væri svipuð Jesaja í 61. kafla,

en minnir þá meira á Messíönsk heimsslit. Upprisa dauðra var þannig ekki ný viðbót

Lúkasarguðspjalls heldur þegar til í fyrrgreindu riti frá Kúmran sem birtir

messíasarvæntingar Gyðinga.257

þjóna honum og ríki hans vari um eilífð. En arameísku orðanotkunina „nokkurn líkan manni“ megi vel þýða sem „nokkurn líkan mannssyni“. Bernhard Duhm talaði fyrstur um „Þjónsljóðin“. Þau voru samkvæmt honum Jesaja 42.1-9, 49.1-6, 50.4-9 og 52.13-53.12. (John N. Oswalt, The Book of Isaiah: Chapters 40-66, Cambridge, U.K.: Grand Rapids, Michigan, 1998, bls. 107). Sjá Jesaja 42.6-7: „Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti... Ég móta þig, geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.“ 256 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 67-72. Henze birtir texta úr Messíönsk heimsslit (e. Messianic Apocalypse) eða 4Q521. Sjá nánar síðari hluta textans: „For he will honor the pious upon the throne of an eternal kingdom, freeing prisoners, giving sight to the blind, straightening out the twis[ted.] And for[e]ver shall I cling to [those who] hope, and in his mercy [...] and the fru[it of ...] not be delayed. And the Lord will perform marvellous acts such as have not existed, just as he sa[id, for] he will heal the badly wounded and will make the dead live; he will proclaim good news to the poor and [...] he will lead the [...] and enrich the hungry. [...] and all [....]“ (Ben C. Smith, „Qumran scroll 4Q521: Also known as the Messianic apocalypse“, TextExavation 2019, sótt 16. ágúst 2019 af http://www.textexcavation.com/qumran4q521.html). Henze nefnir einnig Sálma Salómons (e. Psalms of Solomon) 17.21-25 og 32. sem dæmi um rit utan Biblíunnar er ritað var á 1.öld f.Kr. og boðaði breytta tíma, dóm yfir syndurum og óréttlátum ráðamönnum. Þar segir jafnframt að konungur þeirra muni verða Messías Drottins. 257 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 72-77. Sjá Lúkasarguðspjall 4.17-21: „Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.““ Þarna sækir Jesús líka í Jesaja 58.6 samkvæmt Henze. Sjá einnig Lúkasarguðspjall 7.22: „Og hann svaraði þeim: „Farið og kunngjörið

Page 94: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

93

Aðrir hafa bent á þessi tengsl 4Q521 við Sálm 146.7-8 og Jesaja 61.1. Hershel Shanks

bætir hér við Jesaja 35.5-6 en einnig Matteusarguðspjalli 11.5 og Lúkasarguðspjalli 7.22

þar sem blindir fá sýn, lamaðir ganga, holdsveikir læknast, daufir heyra, dauðir rísa og

fátækum er flutt fagnaðarerindið. Eftir eyðileggingu musterisins og Jerúsalem af

Babýloníumönnum 586 f.Kr. hafi hugmyndin um Messías tekið að tengjast hugmyndinni

um endurreisn ríkis Davíðs sem hafði varað í 400 ár. Síðan þegar biðin var orðin löng hafi

hugmyndin um Messías verið túlkuð sem andlegur Messías við endatímana. Þannig hafi

Kúmran, samfélag Essena, túlkað Gamla testamentið líkt og hinir kristnu túlkuðu það.258

Matthias Henze segir fyrrnefnd rit „Guðs sonur“ eða 4Q246 frá Kúmran hafa verið

ritað á arameísku og sé einnig frá 1. öld f.Kr. Þar segir m.a. að hann muni „verða mikill,“

kallaður „Guðs sonur“ og „Sonur Hins Hæsta.“ Ríki hans muni verða „ævarandi“ og hann

veita „réttláta dóma“ og „frið.“ Þarna segir Henze að titlarnir „Guðs sonur“ og „Sonur

Hins Hæsta“ vísi báðir til Messíasar. Þessir titlar eiga upphaf sitt í Sálmi 2 en Kúmran

textinn er líkur sálminum. Henze segir hér mikinn skyldleika við Lúkasarguðspjall 1.26- 35

þar sem engill segir við Maríu að hún muni eignast son sem muni verða mikill, kallaður

„Sonur Hins Hæsta,“ „Sonur Guðs“ og ríkja yfir ætt Davíðs að eilífu. Þannig hafi sumir

fræðimenn ályktað að Lúkas sæki vísvitandi í Kúmran textann í Lúkasarguðspjall 1.26-35,

því hann sé að nota hugtök sem Gyðingar, er væntu komu Messíasar, hafi vel kannast

við.259

Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“ 258 Hershel Shanks, The Dead Sea Scrolls: Discovery and Meaning: An Illustrated Lecture by Hershel Shanks, Washington DC: Biblical Archaeology Society, 2007, bls. 17-19. Shanks bætir við að hugmyndin um endatímana, syni ljóss og myrkurs, samfélagsleg máltíð þar sem brauðið og vínið voru mikilvæg, sé einnig að finna í Dauðahafshandritunum. Einnig áhersla á lögmálið. 259 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 77-81. Ritið er einnig þekkt sem the Aramaic Apocalypse eða the Apocryphon of Daniel auk Son of God texts. Edward M. Cook, prófessor í biblíulegri hebresku og arameísku, telur skyldleikann til staðar en þó ekki nægan til að menn fari að lesa Kúmran textann í ljósi guðspjallatextans. Sést það m.a. á því að einnig er hægt að þýða sumt sem þýtt er með „hann“ (messías) sem „þau“ (lýður Guðs). Þýðinguna á texta „Sonur Guðs“ eða 4Q246 er hægt að lesa í grein Cook á bls. 47-48. (Edward M. Cook, „4Q246“, Bulletin for Biblical Research 5/1995, bls. 43-66, hér bls. 47-48, sótt 18. ágúst 2019 af https://www.ibr-bbr.org/files/bbr/BBR_1995_03_Cook_4Q246.pdf). Einnig fjallar Hershel Shanks um þennan sama texta í riti sínu um Dauðahafshandritin og skyldleikann við Lúk 1.34-35. Hann telur ekki að Lúkas hafi afritað úr þessum texta heldur eigi þeir báði rætur í sameiginlegum gyðinglegum grunni. Dauðahafshandritin hjálpi okkur þannig að skilja hið gyðinglega samhengi sem

Page 95: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

94

Þá bendir Matthias Henze á að Jesús hafi talað í sýnagógu Gyðinga, sem var ekki til á

tíma Gamla testamentisins, og lesið upp úr spámönnunum. Þetta endurspegli

gyðingdóm þann er fram kemur í Dauðahafshandritunum. Handritin sýni okkur að titlar

eins og „Guðs sonur“ og „Sonur Hins Hæsta“ hafi þegar verið í notkun um hundrað árum

fyrir tíma Jesú. Þá sýni Messíönsk heimsslit að Gyðingar sáu á þeim tíma Jesaja 61 sem

messíanskan texta. Eins sýni textarnir að Lúkas hafi þekkt fyrir þessa titla yfir Messías og

helstu messíasartexta Gamla testamentisins og notaði hvort tveggja í guðspjallinu til að

benda á að Jesús væri Messías Gyðinga. Með því að nota textann úr 61. kafla Jesaja hafi

Lúkas vakið upp tilteknar væntingar hjá áheyrendum sínum. Hugmynd hinna kristnu um

Messías kom þannig upphaflega frá Gyðingum á síðari-musteristímanum.260

Matthias Henze kemur einnig með rök fyrir því að umræða um djöfla og illa anda hafi

verið orðin almenn og þeir álitnir eðlileg fyrirbæri fyrir tíma Jesú. Jesús var sagður hafa

vald yfir þeim og í Markúsarguðspjalli 1.24 virðist andinn vita hver Jesús var og kallar

hann „Hinn Heilaga Guðs.“ Þó virðist lítið hafa verið vitað um illa anda í Gamla

testamentinu, a.m.k. séu þeir ólíkir því sem við finnum í Markúsarguðspjalli.261 Henze

bendir á að gyðinglegar bækur frá 3.-2. öld f.Kr. fjalli nánar um djöfla Gamla

testamentisins. Hér nefnir Henze 1. Enoksbók frá um 300 f.Kr. sem fjallar um uppruna

djöfla út frá frásögunni í 1. Mósebók 6.1-4. Hann útilokar ekki að þarna hafi komið inn

utanaðkomandi áhrif. Segir í bókinni að þessir föllnu englar muni kallaðir verða „illir

andar.“ Þeir leiði fólk afvega, framkvæmi ofbeldisverk og valdi veikindum. Þetta séu þeir

„illu andar“ sem verið sé að tala um í Nýja testamentinu og sem Jesús átti að vera að

kristni óx út frá. (Hershel Shanks, The Dead Sea Scrolls: Discovery and Meaning: An Illustrated Lecture by Hershel Shanks, Washington DC: Biblical Archaeology Society, 2007, bls. 16-17). 260 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 83-85 261 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 87-99. Henze nefnir sem dæmi Samúelsbók sem segir af því hvernig Sál konungur, sem áður var fylltur anda Guðs, verður heltekinn af illum anda. Illi andinn er þar sendur af Guði og þar með ekki eins mikill andstæðingur Guðs eins og virðist vera í Nýja testamentinu (1Sam 16.14-15). Einnig var skurðgoðadýrkun til framandi guða skilin sem svo að verið væri að tilbiðja illa anda. Í 5. Mósebók 32.16-17 og Sálmi 106.37 er í grískunni hugtakið „djöflar“ (gr. daimon) notað í þessum textum þar sem flestar þýðingar hafa „guði.“ Henze ályktar út frá þessu að djöflar Gamla testamentisins geti ekki talist það sama og djöflar Nýja testamentisins. Önnur dæmi innan Gamla testamentisins sýni hvernig illir andar gátu verið stjórntæki af Guði (1Kon 22.19-23). Hér tel ég að ef til vill sé Henze að takmarka hugtakið daimon um of við fyrirliggjandi texta Gamla testamentisins.

Page 96: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

95

reka út. Þessir andar koma þar fyrir sem valdalausir frammi fyrir Jesú.262 Afrit af Bók

Vökumannanna (e. the Book of the Watchers) og Hátíðarritinu (e. Book of Jubilees) frá

2. öld f.Kr. fundust á meðal Dauðahafshandritanna. Fjalla þær ítarlega um uppruna illra

anda en Henze segir íbúa Kúmran hafa leitað margra leiða til að vernda sig gegn illum

öndum eins og rit þeirra gefi til kynna. Kölluðu þeir sig líka „syni ljóssins“ eins og hinir

kristnu gerðu í Efesusbréfi 5.8 og 1. Þessalóníkubréfi 5.5. Ekki var hægt að tortíma illum

öndum, aðeins hrekja í burtu, kasta út og binda. Þeim skyldi þó verða eytt við

endatímana.263

Orðskviðirnir, Jobsbók, Prédikarinn, Ljóðaljóðin og nokkrir af Sálmunum eru

flokkaðar sem Viskubókmenntir og eru að mestu í ljóðaformi. Henze segir þar Torah

birtast sem foreldra-leiðsögn án vísunar til lögmáls Móse.264 Síraksbók á 2. öld f.Kr. hélt

áfram þessari viskuhefð og hvatti menn til þess að leita visku og óttast Drottin. Í kafla 24

er „Viskan“ lofsungin. Hún er persónugerð sem kona með guðlega eiginleika og talar í

fyrstu persónu. Hún hafði dvalið á himnum og beðið um að fá að koma til jarðar, en ekki

fundið sér samastað fyrr en Guð sagði henni að búa í Ísrael. Þar segir að „Bók sáttmálans“

frá Guði hinum hæsta sé lögmálið sem Móse boðaði Ísrael. Henze segir Síraksbók tengja

Viskuna við Torah, þannig að þegar Viskan kom til jarðar hafi lögmálið verið gefið

Ísraelum. Fáum öldum síðar tóku hinir fyrstu kristnu að tala um komu Jesú til jarðar sem

262 Matthias Henze, Mind the Gap, 2017, bls. 99-110, 113. Henze segir að samkvæmt frásögu 1. Mósebókar 6.1-4 virtust djöflar afkomendur fyrrum himneskra vera sem höfðu fallið frá vilja Guðs með því að taka sér konur meðal manna. Mannfólkið varð síðan svo illt að Guð iðraðist þess að hafa skapað það. Þannig hafi markmið frásögunnar um föllnu englana verið sú að skýra hví mennirnir urðu svo illir að Guði vildi eyða þeim í Nóa-flóðinu. Gyðingleg rit á 3.-2. öld f.Kr. komu síðan með nánari útlistanir á þessari frásögn. Þar eru föllnu englarnir kallaðir andar og „vökumenn.“ 1. Enoksbók hefur í sér Bók vökumannanna (e. the Book of the Watchers) í köflum 1-36, rituð um 300 f.Kr. Hátíðarritið (e. Book of Jubilees) frá 2. öld f.Kr. fjallar einnig nánar um þessa anda. Þar segir frá því hvernig þeir hafi lifað af flóðið og ásæki Nóa og afvegaleiði afkomendur hans og drepi. Nói biður Guð um að binda djöflana en forystuandinn Mastema (heb. merking „andstæðingur“) er samsvarar Satan (sem merkir einnig „andstæðingur“) biðlar til Guðs að senda ekki alla illu andana til dómsins. Guð virðist láta það eftir og aðeins 9/10 hlutar þeirra fara til dóms. Átti þetta að svara hví sumt mannfólk var þjakað af sjúkdómum og hví sumt mannfólk framkvæmdi illvirki. djöflarnir munu þó verða sigraðir við endatíma þessa heims. 263 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 110-114. Einnig voru þeir kallaðir „hinir réttlátu“, „uppréttu“ og „saklausu“ sem fylgdu fyrirmælum Guðs. 264 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 126-129. T.d. sýni Sálmur 1 og 119 einskonar Torah-guðrækni og tiltekinn lífsstíl sem felst í íhugun, hugleiðslu og lærdóm sem ekki sé fólginn í regluverki t.t. lögmáls.

Page 97: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

96

komu Viskunnar og Torah til jarðar eins og Jóhannesarguðspjall 1-18 sýnir.265

Endurspeglar þetta gyðinglegar rætur þeirrar sannfæringar að Jesús væri þessi Viska eða

Orðið (gr. Logos) sem Guð sendi Ísraelum.

Það er afar ósennilegt að Móse sjálfur hafi ritað allar Mósebækurnar, enda vitnar 5.

Mósebók um tíma eftir dauða Móse sjálfs. Þó vottar 5. Mósebók að Móse hafi ritað

lögmálið sem þar er að finna. Henze segir 5. Mósebók innihalda hina upprunalegu

Lögbók (heb. Torah).266 Henze rökstyður vel hvernig Jesús hafi síður en svo viljað afnema

lögmál Móse. Sumir kristnir hafi talið að Jesús hafi skipt út lögmálinu með „Gullnu

reglunni“ og boðinu um að elska Guð og náungann. Gyðingar í samtíma Jesú segir Henze

ekki hafa verið fasta í ítaratriðum Lögbókanna þó svo að farísearnir sem Jesús deildi við

hafi endurspeglað þá viðleitni. Hópur farísea á tíma Jesú hafi verið mun fjölbreytilegri

hópur fyrir utan að vera aðeins einn hópur af mörgum innan gyðingdóms, hver með sinn

skilning á lögmálinu. Matteusarguðspjall 5.21-48 kemur með 6 ummæli Jesú sem byrja

á „Þér hafið heyrt að sagt var…“ Sumir hafi túlkað þau sem svo að Jesús sé að boða

breytta boðun er víki frá lögmálinu. Henze segir aftur fyrirmæli Jesú þarna ekki fela í sér

neitt sem stríði gegn boðum lögmálsins. Jesús sjálfur segi aldrei í guðspjöllunum að hann

vilji afnema lögmálið. Fjallræða hans votti þvert á móti að hann hafi ekki komið til að

afnema lögmálið heldur til að „uppfylla það.“ Páll virtist eins á sömu skoðun að vilja ekki

afnema lögmálið heldur fremur endurfanga hinn upprunalega boðskap þess.267 Þar sem

265 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 129-131. Hér bendir Henze t.d. á 1. Korintubréf 1.24, en einnig Jóhannesarguðspjalli 1.1-18 sem segir: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði... Hann kom til eignar sinnar… Og orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum... Enginn hefur nokkurn tíman séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.“ En „Orðið“ eða Logos á grísku merkir einnig „Viska“ eða „guðleg skynsemi.“ 266 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 121-125. 2. Konungabók 22-23 segir eins frá Jósía konungi er ríkti yfir Júda 640-609 f.Kr. og siðbót hans er hann fann afrit af Lögbókinni. Er það afrit talið vera af 5. Mósebók. Á persneska veldistímanum á 5. öld f.Kr. fengu Ísraelar að halda Torah sem sinni lögbók og hélst það frá þeim tíma sem hluti af hinum gyðinglegu lífsháttum og sérkennum. 267 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 115-120, 135-137. Hér vísar hann helst til Matteusarguðspjalls og bréfs Páls postula til Rómverja. Henze minnir á að hugtakið „lögmál“ eða Torah feli í sér merkinguna leiðsögn, kennsla og lögmál, en ekkert hugtakanna hafi meira vægi en annað. Í Matteusarguðspjalli 5.17- 20 segir: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram… Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea komist þér aldrei í himnaríki.“ Henze minnir á að í grískunni stendur

Page 98: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

97

Jesús segi að réttlæti þeirra verði að bera af réttlæti fræðimanna og farísea, sýni t.d.

Matteusarguðspjall 23.23 að hann var að vísa til rangtúlkana þeirra og vanrækslu á því

sem mestu skiptir í lögmálinu, þ.e. réttlæti, miskunnsemi og trú.268 Enn fremur, er Jesús

svarar lögvitringnum því hvaða boðorð sé mikilvægast og nefnir 5. Mósebók 6.5 og

3. Mósebók 19.18, boðin að elska Guð og náungann, þá sé hann ekki að afnema

lögmálið. Hann sé að svara manni sem er greinilega að prófa hann, hvort hann setji eitt

boðorð ofar öðrum. Enda segir Jesús allt lögmálið og spámennina fólgna í þessum

boðum.269

Sama segir Henze um Pál. Hann hafi verið fæddur og uppalinn Gyðingur og farísei

(Fil 3.4-6). Hann hafi boðað að fyrir líf, dauða og upprisu Jesú hljóti heiðingjarnir nú

einnig hlutdeild í fyrirheiti Guðs til Ísraels og það án umskurnarinnar. Páll hafni hvorki

Ísrael né lögmálinu. Samkvæmt Rómverjabréfinu 9.-11. kafla sé ljóst að Guð muni bjarga

öllum, ekki bara Ísrael.270 Þó svo að Gyðingar hafi ekki trúað á Jesú, þá sé arfleifðin enn

þeirra og Guð taki fyrirheiti sín til þeirra sem Guðs útvöldu þjóð ekki til baka

(Róm 11.28- 31).271 Eins segir Henze að Páll þvertaki fyrir að hann hafni lögmálinu í

iota þar sem stendur „stafur eða krókur“ en iota er minnsti stafur gríska stafrófsins. Upphaflega hefur eflaust verið ritað yodd, sem er minnsti stafur hebreska stafrófsins, nánast á stærð við kommu. Henze nefnir einnig að í Matteusarguðspjalli 5.48 segir: „Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneski er fullkominn.“ Hér er því augljóslega ekki verið að afnema neitt lögmál, þó vissulega undirstriki guðspjöllin nánar að Guð sé fyrirgefandi Guð er mönnum mistekst að fylgja lögmálinu (t.d. Matt 26.28). 268 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 137. Sjá nánar Matteusarguðspjall 23.23: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni en hirðið ekki um það sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gera og hitt eigi ógert að láta.“ Hér vísar Henze einnig í Míka spámann frá 8. öld f.Kr.: „Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ (Mík 6.8). 269 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 138-140. 270 Sama heimild, bls. 140-143. Sjáist þetta einnig í Rómverjabréfinu 3.29, þar sem Páll sýnir að Abraham hafi verið ættfaðir bæði óumskorinna og umskorinna. Í Rómverjabréfinu 9.1-5 segir jafnframt: „…ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.“ Í Róm 11.1. segist Páll vera afkomandi Abrahams af Benjamíns ættkvísl. Einnig segist hann þrá af öllu hjarta að sjá þá frelsast til Krists (Róm 10.1). Í Róm 11.1 segist hann alls ekki vilja að Guð hafni fólki sínu. Jaroslav Pelikan var á sama máli að Páll boði þarna að Gyðingar séu líka hólpnir og vísar þar í Róm 11.26-29 (Jaroslav Pelikan, The Illustrated Jesus through the Centuries, bls. 19). 271 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 143. Í Róm 11.28-31 segir: „Í ljósi fagnaðarerindisins eru þeir óvinir Guðs. Það varð til þess að þið fenguð að heyra fagnaðarerindið. En í ljósi útvalningar sinnar eru þeir elskaðir sakir forfeðranna. Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar. Þið voruð fyrrum óhlýðin

Page 99: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

98

Rómverjabréfinu 3.31. Þó hafi menn bent á vers 10.4 sem segi Krist leiða lögmálið til

lykta svo að nú réttlætist sérhver sá sem trúi. Þarna sé í grískunni hugtakið telos í stað

„leiða til lykta“ (e. end). Telos þýði þó einnig „uppfylling“, „fullnun“ eða „markmið“.

Þannig sé Páll fremur að segja að Jesús opinberi sanna merkingu lögmálsins og leiði til

fullnunar eða uppfyllingar þess. Páll sé að reyna að benda Gyðingum á að réttlæti Guðs

sé líka fyrir heiðingjana og að Kristur hafi opinberað hið sanna hlutverk lögmálsins. Ekki

að Guð hafi snúið baki sínu við Gyðingum og lögmálinu.272

Matthias Henze bætir við að fylgjendur Jesú hafi þegar trúað að menn myndu rísa

upp frá dauðum eins og sést er Marta systir Lasarusar fullyrðir að bróðir hennar muni

rísa í upprisunni við endatímana (Jóh 11.24). Þannig hafi upprisa dauðra ekki heldur verið

ný boðun Jesú enda finnist hún fyrir í Dauðahafshandritunum. „Upprisutal“ hafi byrjað

á 6. öld f.Kr. og sé að finna í helstu ritum spámannanna. Í spádómsbókum Jesaja og

Esekíel sé upprisan meira myndræn líking á upprisu þjóðar andstætt hinum andlega

dauða sem herleiðingin stóð fyrir. Í Daníelsbók frá 2. öld f.Kr. sé fyrst hægt að greina

augljóslega að verið sé að tala um raunverulega líkamlega upprisu. Eins komi sú trú fram

í fjölda gyðinglegra texta utan rita Gamla testamentisins og því vel þekkt á tíma Jesú. 273

Nefnir Henze hér Enoksbók frá 2. öld f.Kr. sem dæmi, en fjöldi annarra höfunda

endurspegli von um upprisu á 2. öld f.Kr.274 Var það í slíkri von sem menn dóu hugrakkir

píslarvættisdauða frammi fyrir trúarofsóknum í Makkabeastríðunum sem

Guði en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra. Eins hafa þeir nú orðið óhlýðnir svo að þið hlytuð miskunn til þess að þeim mætti einnig verða miskunnað.“ 272 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 144-146. Henze segir að lesa þurfi Rómverjabréfið 10.4 í ljósi Rómverjabréfs 3.21-31. 273 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 150-157. Fram að því hafi Ísraelar trúað á að sálin færi í dánarheima (heb. Sheol) sem var einskonar myrkraheimur eins og Sálmar 6.4-5 og 30.8-10 endurspegla. Þeir þekktu heldur ekki ógnarstaði Helvítis eins og kristin trú kenndi. Tal um upprisu byrji á 6. öld í babýlonísku herleiðingunni. Jesaja 26.13-19 endurspeglar þessa trú að Ísraelar muni rísa upp. Eins nefnir Henze hér sýn Esekíels um beinin í dalnum (Esk 37.11-14) sem virðist boða endurkomu útlaganna til Ísraels. Daníelsbók 12.1-3 fjalli aftur um upprisu dauðra og dóm: „…Verða þá slíkir hörmungatímar að eigi verður við jafnað frá því að þjóðin varð til. Á þeim tíma mun þjóð þín bjargast, allir þeir sem skráðir eru í bókinni. Margir þeirra sem hvíla í dufti jarðar munu upp vakna, sumir til eilífs lífs, aðrir til lasts og ævarandi smánar. Hinir vitru munu skína eins og björt himinhvelfing og þeir sem beina mörgum til réttlætis verða sem stjörnur um aldur og ævi.“ 274 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 158-159. Hér nefnir Henze 1. Enoksbók 104.1-6.

Page 100: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

99

2. Makkabeabók frá 2. öld f.Kr. greinir frá.275 Einnig sjáist þessi von í ritinu Sálmar

Salómons (e. Psalms of Solomon) og í 1. Enoksbók 51. kafla.276 Messíönsk heimsslit

(4Q521) endurspegli einnig þessa trú á upprisu. Annað Kúmran rit, kallað 1Qha 19.6-17,

fjallar einnig um fyrirgefningu Guðs og von um upprisu. Hann hafi hreinsað af syndum

svo að hans heilögu fái að rísa upp úr duftinu til hans og hans eilífu himnavera og anda.

Jesús boðaði eilífa himneska líkama að þessu lífi loknu og talaði einnig um tilvist engla

(Mark 12.24-25). Páll var eins sannfærður um upprisu (1Kor. 15.20 og 1Þess 4.17). Þessi

trú að Guð muni reisa hina trúföstu upp á endatímanum segir Henze þannig hafa verið

til á tíma annars musterisins og enn vera hluta af trú Gyðinga og kristinna í dag. Henze

segir að hinir kristnu hafi byrjað sem hreyfing innan gyðingdóms og líklega hafi þeir ekki

aðskilið sig frá þeim fyrr en á 2.-4. öld e.Kr. fremur en 1. öld eins og fræðimenn héldu

fyrrum.277

Matthias Henze hefur gefið okkur greinargóð rök fyrir því hversu gyðingleg hreyfing

hin kristna trú var og tekur þar mið af ritum þeim sem við höfum í Biblíunni auk annarra

gyðinglegra heimilda. Af þessum samanburði verður boðskapur hinna kristnu skýrari og

erfitt að sjá mörg af ritum Nag Hammadí samfélagsins sem eðlilegan hluta af þeim

boðskap. Eins sannfærist maður ekki auðveldlega um að Jesús og Páll hafi sótt í speki

Stóumanna og annarra heimspekinga, enda augljóslega af nógu öðru að taka innan

gyðingdóms sem á sér mun eldri rætur.

Af því sem fram hefur komið mætti þó ætla að Jesús hafi ekki boðað neitt nýtt. Hann

hafi einfaldlega sótt alla sína boðun í gyðingdóm. Samt virtust orð hans og gjörðir hafa

275 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 160-161. Sjá 2. Makkabeubók 7.7-9, 14: „Þegar hinn fyrsti hafði látið lífið með þessum hætti var öðrum þeirra misþyrmt jafn háðulega. Húð og hár var slitið af höfði hans og síðan var hann spurður: „Ætlar þú að eta áður en þú verður limaður sundur?“ Hann svaraði á móðurmáli sínu: „Aldrei.“Þá var hann pyntaður áfram á sama hátt og hinn fyrsti. Í andarslitrunum sagði hann: „Grimmdarhundur. Þú getur svipt okkur þessu lífi en konungur alheims mun reisa okkur upp að nýju til eilífs lífs af því að við deyjum fyrir lögmál hans… en er hann var að bana kominn sagði hann: „Þegar maður lætur lífið af mannavöldum er gott að geta fest von sína á fyrirheit Guðs um að hann muni reisa okkur upp að nýju. En þín bíður engin upprisa til lífs.“ 276 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 162-169. Í versum 15.12-13 í Sálmum Salómons segir að syndarar muni farast að eilífu en þeir sem óttist Drottin muni lifa vegna miskunnar Guðs. Kemur þessi trú á upprisu einnig fram í 4. Esrabók frá 1. öld e.Kr. 277 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 169-179, 194.

Page 101: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

100

þær róttæku afleiðingar að hann var tekinn af lífi eins og hver annar glæpamaður. Hver

var þá Jesús samkvæmt fylgjendum hans?

Jaroslav Pelikan prófessor í sagnfræði hefur bent á að Jesús var rabbí sem las upp úr

hinni hebresku Biblíu í sýnagógu Gyðinga. Lúkasarguðspjall 4.16-30 segi Jesú hafa lesið

upp úr Jesaja 61.1-2, spádómstexta sem tengdist messíasarvæntingum, og sagt þessi orð

hafa ræst „í dag“.278 Samkvæmt Lúkasi og heimildamönnum hans hafi Jesús því verið

Messías. Einnig hafi hann verið talinn spámaður af fylgjendum sínum er sáu hann sem

þann er koma skyldi á eftir Móse (5Mós 18.15-22). Pelikan minnir jafnframt á að í Nýja

testamentinu er hann kallaður Messías (gr. ho Christos) og Marana eða „Drottinn

okkar“ (gr. ho Kyrios).279 Matthías Henze, kemur einnig inn á þetta út frá skilningi

höfundar Jóhannesarguðspjalls á því hver Jesús var. Jóhannes noti sjö sinnum „Ég er“

um Jesú, eins og þegar Guð svarar Móse í 2. Mósebók 3.14: „Ég er sá sem ég er“ (Jóh

6.35, 8.12, 10.7-9, 10.14, 11.25, 14.6 og 15.1-5). Þessi ummæli hafi átt að undirstrika

einingu Jesú með Guði föðurnum, til að sýna að Guð var að fullu nálægur í Jesú.280

Samkvæmt Henze og Pelican virðast þannig Nýja testamentis ritin votta að fylgjendur

Jesú hafi trúað því í raun og veru að hann væri Messías sá er koma átti. Jafnframt trúðu

þeir því að hann væri Guð af Guði eins og fram hefur komið.

Hinn kaþólski prófessor og biblíuskýrandi Joseph Fitzmyer, hafði rannsakað

Dauðahafshandritin. Hann sagði þau endurspegla að Jesús hafi ekki komið að ofan með

nýjan boðskap sem fólk hafði ekki heyrt um áður. Handritin undirstriki hina gyðinglegu

sál sem kristindómurinn óx út frá. Það hafi því ekki verið boðskapurinn heldur líf Jesú

278 Jaroslav Pelikan, The Illustrated Jesus through the Centuries, bls. 9-13. Sjá Jesaja 61.1-2 í Lúkasarguðspjall 4.18-19: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ 279 Jaroslav Pelikan, The Illustrated Jesus through the Centuries, bls. 16.-21. Hér bendir Pelikan t.d. á Joh 1.17. 280 Matthias Henze, Mind the Gap, bls. 148-150. Einnig hægt að þýða 2. Mósebók 3.14 sem „Ég er þessi Ég er“ (heb. ehyeh asher ehyeh). Sjá nánar um tengsl „Ég er“ við nafnið JHVH eða Jahveh sem Anderson telur vera 3. persónu afbrigði af ehye og geti því þýtt „Hann er“ (Bernhard W. Anderson, The Living World of the Old Testament, bls. 61-62).

Page 102: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

101

sem var einstakt í sögunni.281 Þannig var það fullvissa fylgjenda Jesú að hann væri

Messías og Guð af Guði. Sú fullvissa, ásamt því hvernig líf hans, starf, dauði og upprisa

báru þeirri sannfæringu vitni, hefur verið það sem gerði Jesús Krist einstakan.

281 Herzhel Shanks vitnar í Fitzmyer í umfjöllun sinni um Dauðahafshandritin. (Hershel Shanks, The Dead Sea Scrolls: Discovery and Meaning: An Illustrated Lecture by Hershel Shanks, Washington DC: Biblical Archaeology Society, 2007, bls. 15).

Page 103: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

102

4. Samfélagsleg áhrif boðskapar Krists á fyrstu árum kristni

Við höfum séð að boðskapur Krists, burtséð frá því hvort menn trúðu á hann sem Guð af

Guði og Messías eða einungis sem rabbí, dró fram boðið um að elska Guð og náungann

sem megin áherslu og grundvöll alls lögmáls Gamla testamentisins. Þar sem kristin trú

naut vaxandi vinsælda og varð að lokum ríkistrú Rómaveldis fannst mér mikilvægt að

leita svara við því hvort þessi boðskapur hefði haft einhver umbreytandi áhrif á líf fólks

til góðs á fyrstu öldum trúarinnar. Hvort þetta boð um að elska náungann eins og sjálfan

sig hafi skilað sér út í samfélagið? Það hvað kristni óx mikið á fyrstu öldunum e.Kr., án

þess að beitt væri vopnum og þvingunum, segir margt eitt og sér. Rannsókn

félagsfræðingsins Rodney Starks hefur reynst ómissandi innlegg til þess að skýra þennan

mikla vöxt trúarinnar. Næsti kafli verður því alfarið helgaður rannsóknum hans á því hví

kristni náði yfirhöndinni í hinum grísk-rómverska heimi.

4.1 Skýringar á vexti kristinnar trúar á fyrstu öldum kristni

Rodney Stark prófessor í félagsfræði gerði þennan mikla vöxt og „sigur“ kristinnar trúar

að rannsóknarefni í bók sinni The Rise of Christianity (1996).282 Í þeirri umfjöllun sinni

kemur hann inn á veigamikla þætti sem höfðu áhrif í þá veru að fylgið við kristna trú jókst

þetta ört á skömmum tíma. Svo ört að á endanum var kristin trú viðurkennd í Rómaveldi

í tíð Konstantínusar keisara sem sjálfur gerðist kristinn.283 Enda hafa fræðimenn áætlað

að um tíu prósent íbúa Rómaveldis hafi verið orðnir kristinnar trúar á þeim tíma eða um

sex milljón manns. Stark sýnir fram á að líklega hafi kirkjan haldið 40 prósenta vexti á

hverjum áratug á fyrri hluta 4. aldar. Þannig gætu kristnir vel hafa verið um 33 milljónir

um 350 e.Kr.284 Stark segir náin, persónuleg og opin félagsleg tengslanet vera megin

skýringuna að baki auknum trúskiptum til fylgis við nýjar hreyfingar. Stark vill í bók sinni

282 Rodney Stark, The Rise of Christianity: How the Obscure, Marginal Jesus Movement Became the Religious Force in the Western World in a Few Centuries, New York: Harper Collins, 1996, bls. 3. 283 Henry Chadwick og Matt Stefon o. fl., „Christianity: The Alliance Between Church and Empire“, Encyclopædia Britnnica, 19. júlí 2019, sótt 9. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Christianity/The-alliance-between-church-and-empire. 284 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 3-6, 10-11.

Page 104: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

103

svara því hvað það var hjá hinum kristnu sem gerði þau að slíku opnu tengslaneti, til að

skýra þennan mikla vöxt kristinnar trúar sem varði allt fram á 4. öld.285

Margir sagnfræðingar 20. aldar skýrðu vöxt kristinnar trúar með því að kristni hafi á

mótunarárum sínum verið hreyfing hinna útskúfuðu og hálfgert himnaríki fyrir þræla og

fátækan fjöldann. Rodney Stark nefnir að á síðari hluta 20. aldar hafi

nýjatestamentisfræðingar tekið að hafna þessum ályktunum. Þeir hafi m.a. bent á að

aðeins lítið brot af Rómverjum hafi tilheyrt elítunni og því lang flestir í flokki fátækra og

þræla. Í raun hafi hópur kristinna innihaldið þverskurðinn af stéttaskiptingu hins grísk-

rómverska samfélags. Ýmsar persónur sem Páll postuli heilsar eða skilar kveðjum til í

bréfum sínum voru, samkvæmt áreiðanlegum samtímaheimildum, raunverulega til og í

mikilvægum stöðum innan samfélagsins.286 Abraham J. Malherbe hafði auk þess

rannsakað málfar og ritstíl fyrstu kirkjufeðranna og séð út frá því að þeir voru að ávarpa

vel læsa og lærða áheyrendur.287

Stark segir þó ekkert hægt að fullyrða í þessa veru en bætir við að hafi fyrsta kirkjan

verið eins og flestar aðrar trúarhreyfingar sem við höfum heimildir um, þá hafi þetta ekki

verið lágstéttarhreyfing heldur fremur byggst upp á forréttindastéttum. Hann minnir á

að félagsfræðingar frá upphafi félagsvísindanna töldu að trúarbrögðin væru einskonar

uppbót fyrir ófullnægðar þrár eða ranga skynjun og taugaveiklun sem þjóni aðallega því

hlutverki að gera þjáningu hinna fátæku og jaðarsettu bærilegri. Nútíma félagsfræðilegar

rannsóknir hafi aftur sýnt fram á að þessir verr settu hópar sæki síður í kirkjur. Umbun

fyrir trúrækni sé enda ekki aðeins fólgin í því sem hægt sé að fá í þessu lífi og því ekki

hægt að reikna með að bara fátækir og jaðarsettir sæki í trúarbrögðin. Trúarhreyfingar

veiti aftur fjölbreytilega umbun eins og stöðu, innkomu, sjálfsöryggi, félagsleg tengsl,

skemmtun auk margs annars. Færa megi auk þess rök fyrir því að allir líði einhverskonar

skort og séu í þörf fyrir huggun trúar. Þetta skýri hví efri stéttir og forréttindafólk séu

285 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 20-21. 286 Sama heimild, bls. 29-31. Nefnir Stark hér Erastus sem dæmi um kristinn einstakling sem Páll heilsar í Rómverjabréfi (Róm 16.23). Samtímaheimildir votta að Erastus í Korintu var til og að hann var úr öldungadeildarstétt, gjaldkeri Korintuborgar og Pomponiu Graecinu. Takítus ásakar t.d. Erastus um að stunda erlenda hjátrú. Stark nefnir hér einnig 2. Tímóteusarbréf 4.20. 287 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 31-32.

Page 105: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

104

einnig móttækileg fyrir trú.288 Fleiri þættir eins og óánægja með fyrra trúarkerfi geri fólk

móttækilegt fyrir trúskiptum. Forréttindafólk sé yfirleitt fyrst til að koma auga á skort á

trúverðugleika kerfis hefðbundinnar trúar. Stark segir rannsóknir sýna fram á að

nýtrúarhreyfingar samanstandi helst af háskólamenntuðu fólki.289

Þannig hafi einnig hin kristna trú sem Páll boðaði verið framandi og spennandi

heimssýn fyrir Rómverjum sem tilheyrðu forréttindastéttum þess tíma. Eins og aðrar

slíkar hreyfingar hafi kristni síðan þróast úr því að vera aðallega mið- og

hástéttarhreyfing og breiðst út á meðal lágstéttarfólks.290 Stark bendir á að hefði kristni

verið lágstéttarhreyfing í raun hefðu yfirvöld líklega brugðist við henni af meiri hörku

sem pólitískri ógn fremur en einungis sem óleyfilegum trúarbrögðum. Nefnir hann hér

gjöreyðingu Masada sem dæmi. Segir hann að jafnvel illvígustu ofsóknirnar gegn

kristnum hafi verið tilviljunarkenndar og takmarkaðar. Yfirvöld hafi sniðgengið fjölda

kristinna sem opinberlega játuðu trú sína. Í dag telja fræðimenn fremur að kristnir hafi

átt meðlimi, vini og ættingja í hærri stéttum samfélagsins og jafnvel innan

keisaraættarinnar. Passi þetta segir Stark það hafa orðið til þess að draga verulega úr

ofsóknum gegn kristnum eins og fjölmörg dæmin sýni þar sem margir kristnir virtust

látnir óáreittir.291

Þá færir Rodney Stark ítarleg rök fyrir því hvað hafi helst orðið til þess að trúboð hinna

kristnu gekk svona vel. Fræðimenn hafi almennt talið að trúboð hinna kristnu meðal

Gyðinga, sem voru í meirihluta meðal hinna fyrstu kristnu, hafi rénað við upphaf

288 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 32-36. Nefnir hann hér sem dæmi um gagnrýnendur á trúarbrögðin þá Karl Marx og Sigmund Freud. 289 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 37-39, 42-45. Forrétindastéttir segir Stark líklegri til að vera með slakari tengsl við hefðbundna trú síns umhverfis og því móttækilegri fyrir nýjungum. Um leið og fyrri trúarkerfi verði of veraldleg og skorti yfirnáttúru, þá nái þau ekki heldur að þjóna þörfum forréttindafólks. 290 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 37-39, 42-45. Þar sem megin stólpar gyðingasamfélagsins hafi stimplað kristna sem villutrúarmenn, vill Stark tala um að kristni hafi komið inn í sinn rómverska samtíma sem nýtrúarhreyfing (e. cult) og lúti þar með sömu lögmálum og skilgreiningum félagsfræðilegra greininga og rannsókna sem gerðar hafa verið á slíkum hópum. 291 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 46-47. Masada var síðasta varnarvígi Gyðinga gegn Rómverjum eftir fall Jersúsalem 70 e.Kr. en þar var uppreisn þeirra kveðin niður af mikilli hörku. Sjá nánar orðabók Britannica. (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Masada: Ancient Fortress, Israel“, Encyclopædia Britannica, sótt 4. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/place/Masada).

Page 106: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

105

byltingar Gyðinga um 66-74 e.Kr. Sumir fræðimenn tali þó um að trúboð meðal Gyðinga

hafi haldið eitthvað áfram fram á 2. öld en Bar-Kokhba uppreisn Gyðinga hafi endanlega

girt fyrir þessi gyðing-kristnu tengsl. Stark vill aftur á móti meina að þessi gyðing-kristnu

tengsl hafi haldið áfram að gegna veigamiklu hlutverki í vexti kristinnar trúar allt fram á

4. öld og eitthvað fram á 5. öld e.Kr. Telur hann að þær kringumstæður sem mættu

hellenískum Gyðingum í dreifingunni (e. diaspora) hafi ýtt undir það. Þó svo að enn hafi

verið til hópar Gyðinga á þessum tímum og fjölmargar sýnagógur hafi fundist við

fornleifauppgröft megi ekki endilega draga þá ályktun að flestir Gyðingar hafi hafnað

hinni kristnu boðun. Eins megi ekki oftúlka neikvæð ummæli á báða bóga í fornum

ritum.292

Stark nefnir sagnfræðileg dæmi frá 19. öld í Evrópu þar sem strangtrúaðir Gyðingar

tóku að upplifa sig jaðarsetta og gátu sumir ekki stundað trú sína af sömu reglusemi og

áður vegna breyttra kringumstæðna. Þá hafi margir Gyðingar sótt í kristna trú en aðrir

tekið að stunda nýja gerð af gyðingdómi með áherslu á guðfræði og siðfræði, óháða

kynþætti og þjóðerni. Svipaður veruleiki hafi einmitt mætt hellenískum Gyðingum á

fyrstu öldum kristni. Nýjum trúarbrögðum vegni einmitt best þar sem losnað hefur um

trúarleg tengsl hjá fólki.293 En einnig meðal þeirra sem hafi lítil tengsl og engan trúarlegan

bakgrunn. Þá sæki fólk auk þess fremur í nýja trú sem hefur menningarleg tengsl við þá

hefðbundnu trú sem það þekkti fyrir. Hinn kristni boðskapur hafði einmitt þessháttar

tengsl við Gyðingdóm á fyrstu öldum trúarinnar.294

Hinir hellenísku Gyðingar á tíma Nýja testamentisins mættu þannig svipuðum

kringumstæðum og evrópskir Gyðingar á 19. öld. Hellenískir Gyðingar í dreifingunni voru

292 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 49-51. 293 Sama heimild, bls. 52-54. Hér setur hann fram ákveðið félagsfræðilegt „lögmál“ sem segir að „Nýjar trúarhreyfingar fái sína nýju meðlimi aðallega úr hópi þeirra sem séu trúarlega óvirkir og óánægðir, og þeirra sem eru í algengustu trúarsamfélögunum. Á bls. 69 bætir Stark við að hefðu kristnir ekki sýnt evrópskum Gyðingum slíkan fjandskap sem raun ber vitni, hefði allt eins orðið líklegt að fleiri Gyðingar hefðu gerst kristnir. 294 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 54-56. Þetta hafi einnig sýnt sig meðal Gyðinga, í vaxandi veraldarhyggju Norður Ameríku og Evrópu upp úr miðri 20. öld sem hafi í miklum mæli sótt í nýjar trúarhreyfingar. Stark bætir hér við að það skili sér einnig í hraðari vexti samfélaga ef þau ná að berast áfram í gegnum þau félagslegu tengslanet sem þegar eru til. Almennt séð leiti fólk ekki að nýrri trú heldur rekst fremur á trúna í gegnum þau tengslanet sem það hefur við annað fólk.

Page 107: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

106

mun fleiri en Gyðingar sem lifðu í Palestínu. Samkvæmt Stark voru ef til vill milljón í

Palestínu en fjórar milljónir í dreifingunni. Margir þeirra voru auðugir, töluðu grísku og

studdust við grísku þýðinguna af Torah. Síðan voru það hinir „guðhræddu“ (e. God-

Fearers), þ.e. gyðingtrúaðir heiðingjar sem heilluðust af eingyðistrú og siðferðisboðskap

Gyðinga, án þess að vilja taka umskurn til að gerast Gyðingar. Stark telur því að eftir að

postulafundurinn í Jerúsalem hafði úrskurðað að ekki þyrfti lengur umskurn til þess að

gerast kristinn, hafi það orðið til að auka verulega vöxt kristinnar trúar.295 Styður þessi

félagsfræðilega greining Starks enn fremur við hinar gyðinglegu rætur kristinnar trúar og

sýnir hin gyðinglegu tengsl sem líklegan lið í miklum vexti trúarinnar.

Að mati Rodney Starks hefur því mikill fjöldi hellenískra Gyðinga í dreifingunni sótt í

kristni. Hann segir Nýja testamentið endurspegla þessa kenningu enda fjalli það mikið

um hvernig kristni sé framhald og uppfylling á Gamla testamentinu. Hellenískir Gyðingar

hafi auk þess verið orðnir veraldlegir og jaðarsettir.296 Kristnir hafi fundið að hellenískir

Gyðingar væru móttækilegasti hópurinn. Gyðingar voru viðbúnir komu Messíasar en auk

þess hafi krosstáknið þekkst sem tákn fyrir Messías í hebreskum handritum áður en

krossfestingin átti sér stað. Aftur á móti hafi heiðingjar átt erfiðara með að meðtaka trú

á Guð sem hafði verið tekinn af lífi eins og hver annar glæpamaður. Þá hafi vaxandi

þjóðernishyggja meðal Gyðinga, sem leiddi til eyðileggingar musterisins í Jerúsalem,

mjög líklega orðið til þess að margir hellenískir Gyðingar hafi ekki lengur upplifað sterk

tengsl við Palestínu. Nýja testamentið endurspeglar auk þess að markhópurinn hafi verið

hellenískir Gyðingar. Þá hafa fornleifauppgreftir sýnt að kirkjur voru iðulega staðsettar

nálægt sýnagógum Gyðinga.297 Jafnframt virðist sem „uppreisn Gyðinga“ (e. the Jewish

War) og Bar-Kokhba uppreisnin hafi lítil áhrif haft á Gyðinga í dreifingunni. Fremur hafi

295 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 57-59. 296 Sama heimild, bls. 59-61. Nefnir hann Fílon frá Alexandríu sem dæmi. Hann hafi tekið til við að túlka lögmálið út frá sjónarhóli grískrar heimspeki. Stark telur að Fílon hafi birt vinsælar skoðanir meðal Gyðinga á þessum tíma. 297 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 60-63. Stark bætir við að áheyrendur rita Nýja testamentisins hafi augljóslega þekkt Setpuagintuna grísku. Eins sé búið að greina að margir af þeim sem gerðust kristnir í Nýja testamentinu hafi verið hellenískir Gyðingar. Nýja testamentið segi frá því er kristnir trúboðar fóru og kenndu í sýnagógum Gyðinga í dreifingunni.

Page 108: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

107

eyðilegging musterisins í Jerúsalem orðið til að veikja tengsl þeirra við

rétttrúargyðingdóminn í Jerúsalem og gert kristni eftirsóknarverðari.298

Þá telur Rodney Stark andmæli kristinna við hinu and-gyðinglega riti Markíons um

135-140 e.Kr. sýna að enn hafi verið áhersla á trúboð til Gyðinga á þessum tíma.

Jóhannes gullinmunnur (e. John Chrysostom) erkibiskup í Konstantínópel (4.-5. öld e. Kr.)

gagnrýndi auk þess útbreidda þátttöku kristinna í gyðinglegu líferni. Stark telur að ef til

vill hafi það fremur verið hann sem var upphafsmaður þess að aðskilja kristni frá

gyðingdómi.299 Fornleifarannsókn Eric Meyers á Ítalíu á gyðinglegum og kristnum gröfum

sýnir auk þess hversu nátengd samfélög Gyðinga og kristinna voru. Telur hann að skýr

merki um afmörkun hafi ekki komið fram fyrr en á 3.-4. öld e.Kr. Meyers telur að

aðskilnaður kristni frá gyðingdómi hafi ekki hafist fyrr en kristni varð að ríkistrú við lok

4. aldar.300 Stark bendir síðan á að í raun hafi aðeins einn af hverjum fimm Gyðingum úr

dreifingunni þurft að taka kristna trú til þess að ná upp í trúverðugan vöxt kristni í um

milljón árið 250 e.Kr. og það án þess að telja með heiðin-kristna.301

Það kann að hljóma sérkennilega að plágur sem upp komu í Rómaveldi hafi getað

orðið til þess að hlutfallsleg fjölgun varð á meðal kristinna. Rodney Stark kemur með

skýringar á því hvernig það gat gerst. Fyrsta plágan, sem líklega var bólusótt, kom árið

165 e.Kr. Önnur plága kom 251 e.Kr. og er talin hafa verið mislingar. Eru þessar plágur

taldar hafa átt sinn þátt í hnignun Rómaveldis. Ýmsir kirkjufeður og sagnfræðingar á

298 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 63-66. Stark andmælir þannig kenningum fræðimanna um að á bilinu 145-170 e.Kr. hafi hinir kristnu snúið baki við sínum gyðinglegu tengslum. Það skorti öll rök fyrir því og félagsfræðilegar rannsóknir mæli gegn því. 299 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 63-66. Stark bætir við að það eitt að kristnir hafi andmælt svona harðlega kenningum Markíons, sem vildi afnema Gamla testamentið og allar tilvísanir Nýja testamentisins í það úr kanón kristinnar trúar, styðji við þá kenningu að meirihluti kristinna á þeim tíma hafi átt rætur í gyðingdómi. Markíon fannst Guð Gamla testamentisins birta annan guð en þann sem Nýja testamentið boðar og taldi því óþarfi að hafa Gamla testamentið með. Markíon ritaði eftir Bar-Kokhba uppreisnina eða á árunum 135-140 e.Kr. (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 22). 300 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 68-69. Meyers bætir við að þá hafi líka fjármagn tekið að streyma til Palestínu til kirkjubygginga. Einnig sýni uppgröftur í Kapernaúm við Galíleu sýnagógu og gyðing-kristna húskirkju sín hvoru megin í götunni. 301 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 69-71. Flestir hinna gyðing-kristnu komu frá borgum Litlu-Asíu og Norður Afríku.

Page 109: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

108

3.- 4. öld sögðu þessar plágur hafa hjálpað til við útbreiðslu kristni.302 Kýpríanus biskup í

Karþagó (200-258 e.Kr.) og Díonýsíus biskup í Alexandríu (200-265 e.Kr.) sögðu báðir frá

plágunum í skrifum sínum. Stark segir Kýpríanus sýna að hin kristna trú kom með svör

og trúarlegar skýringar þar sem heimspekingarnir og heiðingjarnir voru ráðþrota. Í

Páskabréfi Díonýsíusar komi einnig fram að hin kristnu gildi um kærleika og góðverk hafi

frá upphafi trúarinnar verið orðin að „normi,“ þar sem þjónusta á meðal almennings og

samfélagsleg samstaða voru taldir eðlilegir þættir trúarinnar. Því hafi það verið svo að er

áföllin dundu yfir hafi hinir kristnu átt betur með að takast á við þau sem hafi síðan leitt

til þess að fleiri úr þeirra röðum lifðu af. Þannig hafi prósentuhlutfall þeirra aukist óháð

því hvort nýir fylgjendur bættust við. Fólk hafi jafnframt upplifað það sem kraftaverk hve

margir hinna kristnu lifðu af sem hafi aukið enn fylgið við trúna. Á meðan hafi heiðnu

prestarnir, ríkustu fjölskyldurnar og yfirvöld flúið borgirnar og skilið hina eftir í eymd

sinni.303

Bréf Kýpríanusar árið 251 e.Kr. endurspeglar sýn hans á pláguna sem prófraun í

trúfesti hinna kristnu og heiðnu til góðra verka. Pláguna sagði Kýpríanus kanna (e.

examine) hugarfar manna, hvort þeir hlúi að hinum veiku og hvort ættingjar elski ættfólk

sitt eins og þeim ber og hvort eigendur sýni þrælum sínum umhyggju og yfirgefi ekki þá

sem veikir eru. Þá minnti hann á að kristnir þyrftu ekki að óttast dauðann. Díonýsíus

ávarpaði í sínu bréfi Alexandríumenn með svipuðum hætti. Hann bætti við að á meðan

plágan orsakaði skelfingu meðal heiðingjanna sæju kristnir hana einungis sem kennslu

eða prófraun. Stark segir kristna trú þannig hafa komið með skýringar, huggun og leiðir

302 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 73-74. Kýpríanus biskup í Karþagó, Díonýsíus biskup í Alexandríu, Evsebíos kirkjusagnfræðingur voru meðal þeirra er sáu að plágurnar hefðu hjálpað útbreiðslu kristni. 303 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 74-80. Stark bætir við að margt fólk hafi staðið félagslega einangrað eftir plágurnar sem hafi enn orðið til þess að auka við fylgi trúarinnar. Heimildir herma að um fimm þúsund manns á dag hafi látist bara í Róm í síðari plágunni. Hægt sé að álykta út frá heimildunum að tveir þriðju hlutar Alexandríubúa hafi dáið í sömu plágu. Vísar hann hér til nýlegri dæma af bólusótt á Íslandi árið 1707 þar sem um 30% Íslendinga létust. Sjá nánar um Kýprían á orðabók Britannica (William Hugh Clifford Frend, „St. Cyprian: Christian Theologian and Bishop (died 258)“, Encyclopædia Britannica, sótt 6. ágúst 20019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Cyprian-Christian-bishop). Einnig um Díonýsíus (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Saint Dionysius of Alexandria: Christian Theologian“, Encyclopædia Britannica, sótt 6. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Dionysius-of-Alexandria).

Page 110: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

109

til þess að bregðast við. Dýónísíus heiðraði auk þess fórnfýsi hinna kristnu í löngu máli í

páskabréfi sínu, því margir þeirra týndu eigin lífi við að hjúkra öðrum. Hann lýsir því

hvernig hinir heiðnu brugðust við með allt öðrum hætti. Þeir flúðu sína nánustu um leið

og þeir sáu sjúkdómseinkennin, hentu þeim út á götu áður en þau voru látin og hirtu

ekki um líkin.304

Rodney Stark segir enga ástæðu til þess að draga það í efa að einmitt þetta hafi gerst

og vísar á samtímaheimildir sem styðja við frásagnirnar. Þannig endurspegli þetta

gerólíkar siðferðilegar áherslur.305 Þar með hafi nokkuð sérstakt sprottið upp úr gyðing-

kristinni hugsun, þ.e. tengsl ríkra siðferðiskrafna við trú. Fyrir heiðnum var það

framandleg hugsun að Guð elski þá sem hann elska og að fyrst Guð elski mannkynið geti

hinir kristnu ekki þóknast honum nema þeir elski hvern annan. Guð hafði sýnt ást sína

með sjálfsfórn og þannig bar mannfólki einnig að sýna kærleika sinn gagnvart hvert öðru

og það þvert á ættbálka og fjölskyldutengsl. Þetta voru byltingarkenndar hugmyndir.

Heiðnu guðirnir gerðu ekki kröfu um góðverk og veittu enga endurlausn eða eilífa

himnavist hjá Guði eftir dauðann.306

Í dag er hægt að sjá að einungis það að gefa alvarlega veikum vatn og einhverja

næringu getur bjargað mörgum mannslífum. Þannig ályktar Stark að hjúkrun hinna

304 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 81-83. 305 Sama heimild, bls. 83-86. Stark nefnir nokkrar heimildir sem styðja það að umhyggja fyrir öðrum hafi einmitt verið einkennandi fyrir hina kristnu á fyrstu öldum kristni. Júlían keisari kvartaði t.a.m. í bréfi sínu til æðstaprestsins Galatia 362 e.Kr. yfir því að þessi mikli vöxtur meðal kristinna stafaði af siðferðisstatus þeirra og góðverkum. Hann lagði því til að heiðingjarnir reyndu að gera slíkt hið sama til jafns við hina kristnu. Júlían bætir við að þegar hinir fátæku hafi verið vanræktir af prestunum hafi hinir svikulu Galílear séð það og helgað sig því góðverki. Þessir svikulu Galílear styðji ekki aðeins hina fátæku úr eigin röðum heldur einnig úr röðum heiðingjanna. Bréf hans endurspeglar þannig fyrirlitningu í garð kristinna. Stark vitnar einnig í lýsingu Þúkýdídesar sagnaritara í Aþenu 431 f.Kr. á plágu sem þá fór yfir Aþenu og hann sjálfur varð fyrir. Segir hann frá skeytingarleysi fólks gagnvart hinum veiku og áhugaleysi goðanna. Hann hafi sjálfur, eftir að honum batnaði, reynt eitthvað að hlúa að hinum veiku. Hann bætti síðan við að það sé þó aðeins skynsamlegt að flýja plágur og forðast snertingu við hina veiku. Eins nefnir Stark að hinn frægi og virti læknir Galen, á tíma Markúsar Árelíusar og sem lifði af fyrri pláguna, hafi sjálfur flúið Róm eins fljótt og hann gat. Hann flúði svo skjótt að lýsingar hans á sjúkdómseinkennunum þykja óvenju ónákvæmar. 306 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 86-88. Hér vísar hann í ritningarvers sem dæmi um einkennandi boðskap hinna kristnu: „Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka…“ (Matt 25.35-40). Eins sýni aðrar kristnar heimildir eins og t.d. Reglur postulanna (e. Apostolic Constitutions) og frásögn Pontíanusar um Kýprían biskup að djáknar gegndu mikilvægu hlutverki í að þjónusta til veikra, fátækra og fatlaðra og að þeim bar að sýna hinum illa stöddu fulla virðingu. Það átti að elska óvini og sigra hið illa með góðu, ástunda miskunnsemi og góðvild við alla.

Page 111: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

110

kristnu hafi getað leitt til þess að dánartíðni þeirra á meðal hafi verið um tíu prósent á

meðan dánartíðni á meðal heiðinna var 30 prósent. Ef miða eigi síðan áfram við 40

prósentu vöxt vegna trúboðs hafi verið u.þ.b. einn kristinn á móti fjórum heiðnum í

borgunum eftir að plágurnar geysuðu. Hefðu plágurnar ekki komið hefði það aðeins

verið einn á móti átta. Stark dregur því þá ályktun að plágurnar hafi hjálpað verulega til

við að draga úr áhrifum heiðni og auka vöxt kristni.307

Við fyrrgreinda þætti bætir Rodney Stark að staða kvenna innan kristinna safnaða

hafi orðið til þess að auka útbreiðslu hinnar kristnu trúar. Þær hafi verið í betri stöðu en

heiðnar konur, fengið ábyrgðarstöður og auknar lífslíkur. Þá hafi þeim leyfst að giftast

heiðnum mönnum sem hafi oft leitt þá og afkomendur þeirra til trúar. Einnig hafi verið

mun meiri frjósemi meðal hinna kristnu sem fordæmdu barnaútburð og

fóstureyðingar.308 Hvort tveggja hafði orsakað skort á kvenfólki í hinum grísk rómverska

heimi eins og heimildir frá um 200 e.Kr. vitna um.309 Stark segir ýmsar heimildir benda

á að þess vegna hafi verið hlutfallslega fleiri konur á meðal hinna kristnu.310 En einnig

307 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 88-94. Hann bætir við þetta að fæðingatíðni meðal heiðingja hafi einnig hrapað en minni slík áhrif hafi orðið meðal kristinna. Eins megi reikna með að um 20 prósent hinna heiðnu hafi flúið. Þar sem kristnir hafi þjónustað til allra hafi eflaust margir heiðnir átt þeim líf sitt að launa sem hafi auðveldað trúboðið. Þegar kom að því að mynda ný tengsl eftir pláguna hafi hinir heiðnu leitað til hinna kristnu. 308 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 95-128. Á bls. 115-118 nefnir Stark heimildir hinna rómversku sagnaritara er votta að yfirvöld höfðu talið naðsynlegt að hvetja fólk til að fjölga sér með lagasetningum sem veittu þeim karlmönnum pólitísk hlunnindi er eignuðust þrjú eða fleiri börn en pólitísk viðurlög þeim er eignuðust engin börn eða voru ókvæntir eldri en 25 ára. Hin grísk-rómverska menning var karllæg og karlmenn sáu oft ekki tilgang í að giftast, enda fannst þeim erfitt að skilja konur. Auk þess gátu þeir auðveldlega leitað til vændiskvenna og -karla. Þrátt fyrir lagasetningarnar voru því grísk-rómverskar fjölskyldur oftast fámennar. 309 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 95-97. Stark segir að J. C. Russell hafi ályktað sem svo að það hafi verið um 131 karlmaður á móti 100 konum í Róm og 140 karlmenn á móti hverjum 100 á Ítalíu um þetta leytið. 310 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 98. Vísbendingar um fjölda kvenna í kristnum söfnuðum megi t.d. finna í Rómverjabréfinu þar sem Páll skilar kveðju til 15 kvenna og 18 karlmanna en Páll ritaði kveðjur til mikilvægari einstaklinga innan safnaðarins. Einnig hafi fundist gjafir sem átti að úthluta til fátækra í kirkju einni en gerðar höfðu verið upptækar í ofsóknunum 303 e.Kr. Þar voru 82 kvenmannsklæði en aðeins 16 karlmannsklæði.

Page 112: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

111

stafaði þessi munur af því að konur voru mun líklegri til að taka upp kristna trú en

karlmenn.311

Við þetta bættist síðan trúboðið til borga þar sem gyðingdómur var fyrir. Því hafi

kristni vaxið mest í grísk-rómverskum borgum Litlu-Asíu. Þá hafi stefna rómverskra

yfirvalda að flytja íbúa á milli borga orðið til þess að fólk var með minni tengsl og því

opnara fyrir nýjum tengslum. Þær borgir þar sem kristin trú óx hvað mest í einkenndust

af úthverfa-óreiðu, tilfærslu samfélaga, óhreinindum, sjúkdómum, eymd, ótta og

menningarlegri ringulreið. Dánartíðni var há og lífaldur að meðaltali 30 ár. Kristni kom

með lausnir inn í þessi vandamál og spratt því upp sem úthverfahreyfing.312 Mikil

dánartíðni kallaði oft á endurmönnun borga með erlendum íbúum til að viðhalda þeim.

Til dæmis hrundu byggingar oft og áhrif náttúruhamfara urðu mikil auk allskyns

uppreisna. Þannig bjuggu mörg þjóðarbrot saman í borgum Rómaveldis með ólíka

menningu og trú. Þessu fylgdu minni tengsl og nánd með auknum líkum á glæpum og

uppreisn. Antíokkía varð t.d. oft fyrir náttúruhamförum. Þannig var Antíokkía Nýja

testamentisins full af eymd, hættum, ótta, örvæntingu og hatri. Stark áætlar að íbúunum

hafi eflaust þótt boðskapur um nálægan heimsendi endurspegla sinn veruleika og þráð

von og frelsun.313

311 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 98-99. Stark nefnir að Peter Brown hafi sýnt fram á að á meðal kristinna úr hástéttum hafi aðallega verið konur. Brown segir þessar hástéttarkonur hafa sumar hverjar beitt áhrifum sínum til þess að fá eiginmennina til að hlífa kirkjunni. 312 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 129-156. Nefnir hann Antíokkíu sem dæmi sem hafi verið sérstaklega móttækileg. Þar hafi fólk búið við mikil þrengsli, óhreinindi og stöðugt óöryggi þar sem slys, veikindi og dauðsföll voru tíð. Antíokkía hafi t.d. verið afar þröngsetin með 75 þúsund íbúa á hverja 2.6 ferkílómetra (e. 75,000 inhabitants per sqare mile or 117 per acre). Þar bjuggu 150.000 manns. Eins hafi byggingar átt til að hrynja reglulega vegna þyngsla og fólk þurfti að búa innan um búfénað. Korinta er talin hafa verið með 137 íbúa á hverja ekru og Róm jafnvel 200 íbúa á ekru. Erfitt hafi verið að eiga sér griðarstað í slíkum þrengslum enda heilu fjölskyldunum hópað saman. Aðeins göngustígar voru á milli húsa í Róm. Þá hafi þung lykt af reyk og úrgangi legið yfir öllu og mikill skortur verið á hreinlæti þrátt fyrir almenningsböðin sem hafi frekar breytt út sýkingar en stuðlað að hreinlæti. Auk þess sé ekki líklegt að þau hafi verið í boði fyrir allan almenning. Sumir borgarbúar hafi hent úrgagni og innihaldi koppa út um gluggann á göturnar. Stundum voru rotnandi lík skilin eftir á förnum vegi. Lyktin í þéttbýlinu hafi verið óbærileg. Róm hafi auk þess verið pestarbæli allskyns sjúkdóma og sníkjudýra. Þannig hafi að sama skapi verið mjög há dánartíðni og sérstaklega á meðal kvenna sem fengu oft sýkingar eða dóu af völdum barnsburðar og fóstureyðinga. 313 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 156-161. Stark bætir hér við að bæði jarðskjálftar og eldsvoðar voru tíðir. Það hafi komið átta alvarlegir jarðskjálftar í Antíokkíu á um sex öldum og allavega fimm alvarlegar plágur. Þannig komu alltaf einhverjar náttúruhamfarir yfir borgina á um 15 ára fresti.

Page 113: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

112

Að mati Rodney Starks kom hinn kristni boðskapur með ný siðferðileg viðmið og ný

félagsleg tengsl. Kristin trú kom með hjálparstarf, hjúkrun og von þar sem munaðarlausir

og ekkjur fengu umönnun en einnig ný fjölskyldutengsl. Stark segir að kristni hafi náð að

mæta þessum vandamálum en það hafi spilað megin hlutverk í því að kristni náði

yfirhöndinni. Kristin trú kom með nýjan tíðaranda (e. new culture) sem gerði fólki fært

að lifa bærilegra lífi í hinum grísk-rómverska heimi.314 Hugrekki hinna kristnu frammi fyrir

ofsóknum jók einnig á vinsældir trúarinnar og vakti aðdáðun meðal hinna heiðnu.315

Trúverðugleiki boðskaparins og flytjenda hans hafði mikið að segja. Leiðtogarnir tóku

lítið sem ekkert fjármagn fyrir trúarlega þjónstu sína. Auk þess voru hin kristnu tilbúin

að deyja sjálfviljug píslardauða fyrir málstaðinn. Hvort tveggja jók á trúverðugleikann.316

Þó svo að ofsóknir gegn kristnum hafi verið illvígar þá voru þær fátíðar en aðeins lítið

brot kristinna dó píslardauða. Þegar ofsóknir áttu sér stað voru það aðallega biskupar og

leiðtogar innan safnaðanna sem voru ofsóttir. Þannig telur Stark að ofsóknirnar hafi ekki

orðið það slæmar að ávinningurinn af trúnni félli í skuggann af þeim.317 Það að gerast

kristinn þýddi ekki endilega miklar líkur á píslardauða. Stark segir trúna, með fyrirheiti

sínu um eilíft líf, hafa auk þess gert kristnum kleift að horfast af hugrekki í augu við

dauðann.318 Þó hafi umbunin og ágóðinn af hinni kristnu trú verið mikil. Kristnir elskuðu

314 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 161-162. 315 Sama heimild, bls. 163-174. Nefnir hann m.a. ummæli hins gríska læknis Galen um kristna sem ofsóttir voru. Einnig rit Evsebíosar kirkjusagnfræðings sem segir frá ofsóknunum. 316 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 174, 192-193. Eins og fram hefur komið þá dóu Páll og fleiri af postulunum ásamt eftirmönnum þeirra einmitt píslardauða fyrir trú sína. Fræðimenn hafa bent á að hinir kristnu fóru lítið í felur í slíkum ofsóknum. Kristnir stóðu fyrir framan heimili eins rómversks landsstjóra í Litlu-Asíu til að mótmæla ofsóknum gegn kristnum á annarri öld. Þó var þeim ekki refsað. Eins sýna fornleifauppgreftir að húskirkjur voru auðþekkjanlegar. Þá tóku kristnir sér einnig nöfn er tengdust kristinni trú. Þannig hafi kristni haldist sem opið tengslanet og það hjálpaði trúnni að vaxa. Leynileg neðanjarðarhreyfing hefði ekki skilað sama árangri. 317 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 178-184. Þó Takítus sagnaritari, sem vitnaði um ofsóknir Nerós gegn kristnum, hafi sagt mikinn fjölda kristinna tekna af lífi, þá hafi aðeins þurft nokkur hundruð til að réttlæta þessa orðnotkun. 318 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 184-188. Helstu leiðtogar trúarinnar höfðu margir hverjir liðið píslardauða sem jók enn á trúverðugleika trúarinnar. Hér nefnir Stark nokkrar heimildir um píslardauða sem höfðu mikil áhrif á kristni á fyrstu öldunum. Hann nefnir það er Jakob bróðir Jesú, höfuð kirkjunnar í Jerúsalem, var drepinn ásamt nokkrum af fylgjendum sínum um 62 e.Kr. Aftaka Páls postula í Róm um 64-65 e.Kr. Eins votti Takítus um ofsóknir Nerós gegn kristnum þar sem þeir voru ýmist brenndir sem kyndlar í garði hans á krossi eða rifnir til dauða af villihundum í hringleikhúsinu. Þá átti Pétur postuli einnig að hafa dáið píslardauða samkvæmt Gjörðabók Péturs (e. Acts of Peter). Pétur átti að hafa séð

Page 114: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

113

náungann, styrktu fjárhagslega og hjúkruðu öðrum þvert á stéttir og stöður. Að fara eftir

slíku boði þýddi auðvitað að menn máttu búast við slíkri umhyggju til baka. Heiðnu

trúarbrögðin voru ekki með slíkt kerfi sjálfviljugra velgjörða og hjálparstarfsemi. Enda

bendi rannsóknir á áletrunum og grafskriftum til þess að kristnir hafi lifað lengur. Fyrir

Stark er því ljóst að góðverk hinna kristnu höfðu jákvæð áhrif á lífsgæði fólks í hinum

grísk-rómverska heimi.319

Niðurstaða Starks er því sú að kristni hafi ekki aðeins vaxið svona ört vegna

mögulegra kraftaverka, trúverðugleika píslarvottanna eða fyrirmæla Konstantínusar. Hin

nánu tengslanet þar sem vinum, ættingjum og nágrönnum var boðið að eiga hlutdeild í

fagnaðarerindinu höfðu líka mikið að segja. Það sem aftur á móti réði úrslitum var

boðskapur trúarinnar. Boðskapur sem boðaði t.a.m. „Svo elskaði Guð heiminn…“ hafi

valdið vangaveltum meðal lærðra heiðingja, enda hafi heiðnu goðin ekki borið mikla

umhyggju fyrir mönnum. Hugmyndin um Guð sem elskar þá sem hann elska var alveg ný

fyrir heiðingjum. Klassísku heimspekingarnir litu á miskunnsemi og meðaumkun sem

sjúklegar tilfinningar og persónuleikagalla er allir skynsamir menn ættu að forðast.320 Inn

í þetta umhverfi boðaði kristin trú að miskunnsemi væri ein æðsta dygðin. Eins áttu

kristnir að elska hvern annan fyrst Guð elskaði þá. Kærleikur þeirra og hjálpsemi átti að

fara út fyrir ættbálka til allra sem ákölluðu nafn Jesú og jafnvel út fyrir hið kristna

samfélag. Þeir áttu að elska óvini sína. Þá kom kristni með bætt samskipti á milli kynjanna

og innan fjölskyldunnar. Einnig minni áhrif stéttaskiptingar þannig að þræll og háttsettur

heilsuðust sem bræður í Kristi. Kristni kom með nýjan mannskilning sem fól ekki í sér

Jesú á leið sinni til Rómar er sagði honum hvað væri í vændum. Pétur átti þá að hafa glaður viljað fylgja fordæmi frelsara síns. 319 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 188-189, bls 206-207. Stark rökstyður þetta frekar með rannsókn A. R. Burn sem út frá áletrunum gat séð að kristnir lifðu almennt lengur en heiðnir. Stark bætir við að æðstu fulltrúar kirkjunnar voru ekki elíta sem hjúpaðir voru leynd, heldur kennarar og vinir sem útvaldir voru út frá eiginleikum sínum. Ekki var heldur krafa innan kirkjunnar um að gefa umfram getu. Allar gjafir urðu að koma frá hjartanu. Þegar Rómverjar hugðust tortíma kristni réðust þeir á æðstu fulltrúa hennar og héldu að þar með myndu þeir ná að kveða hana niður. Það hefði gengið með forspraka heiðinna trúarbragða að mati Starks en kristni var ekki stéttaskipt með þessum hætti. 320 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 208, 211-212. Miskunnsemi fól í sér að veita óverðskuldaða hjálp, sem samkvæmt heimspekingunum stríddi gegn öllu réttlæti. Meðaumkun var einungis viðbragð af hvatvísi sprottin af fáfræði. Til dæmis hafði Platón losað hugmynd sína um fyrirmyndarríkið við betlara með því að henda þeim út fyrir landamæri þess.

Page 115: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

114

illsku, enda héldu þeir á lofti boðorðum eins og „Þú skalt ekki morð fremja.“ Þannig segir

Stark kristna trú hafa gefið fólk mennskuna (e. humanity).321Það er auðvelt í ljósi alls þess

sem fram hefur komið að taka undir það. Boðskapur kristinnar trúar, sem gat af sér

aukinn mannskilning, félagslegan stuðning, aukinn jöfnuð og fórnfúsan náungakærleika,

hafði þannig veruleg áhrif á vöxt trúarinnar.

4.2 Hafði kristin trú jákvæð áhrif á líf fólks á fyrstu öldum trúarinnar?

Í þessum loka hluta fjórða kafla mun ég reyna að svara því nánar hvaða áhrif boðskapur

kristinnar trúar hafði á líf og samfélag fólks á fyrstu fjórum öldum trúarinnar. Hafði kristin

trú raunverulega jákvæð áhrif á líf fólks? Í kafla 4.1. sáum við skýr merki þess að svo hafi

verið. Kristnir sýndu kærleikann í verki, hjúkruðu náunga sínum í veikindum og sinntu

þeim sem liðu skort. Kristin trú gaf fólki félagsleg tengsl, stuðning og von í erfiðum heimi.

Svarið er því að hluta til komið. Kristin trú hafði jákvæð áhrif á líf fólks á fyrstu öldum

kristni. Engu að síður þarf að gera betur skil hinum þöglu minnihlutahópum hins grísk-

rómverska heims og skoða nánar áhrif kristinnar trúar á líf þeirra. Á ég hér aðallega við

konur og börn.

4.2.1 Áhrif kristins boðskapar á líf kvenna á fyrstu öldum trúarinnar

Þó svo að lítið fari fyrir skriflegum heimildum grísk-rómverskra kvenna er til fjöldi fornra

heimilda sem varpa ljósi á líf þeirra á fyrstu öldum kristni. Endurspegla þær nánast algert

valdleysi og varnarleysi kvenna. Konur voru keyptar í hjónabönd. Eiginkonur og börn lutu

alfarið valdi húsbóndans með sama hætti og þrælar. Þó karlmönnum leyfðist að skilja

við konur var konum ekki leyft að skilja við eiginmenn sína fyrr en á 2. öld e.Kr. en börnin

tilheyrðu þá föðurnum. Á 1. öld e.Kr. ritaði rómverski mælskusérfræðingurinn (e. orator)

Quintilian um gagnsemi þess að konur hlytu einhverja menntun. Þó var ekki talið óhætt

að leyfa þeim að kjósa.322 Sýnir þetta að ekki þótti mikil þörf á því að mennta konur.

321 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 212-214. Hér vísar hann til ofsókna gegn kristnum á Rómverskum hringleikum sem dæmi um samfélagslega viðurkennda illsku. Slíkar grimmilegar aftökur voru ein helsta skemmtun fólks á þessum tímum. 322 Mary R. Lefkowitz & Maureen B. Fant, Women´s Life in Greece & Rome, Baltimore: The Johns Hopkins University Press, 1982, bls. 111-115, 166, 152. Fram kemur í hinum rómversku lögum Gaius‘

Page 116: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

115

Einhver munur var á milli Grikkja og Rómverja varðandi þátttöku kvenna í félagslífi á

1. öld e.Kr. Rómverjar leyfðu konum sínum að fara í matarboð og ganga um á almanna-

færi en Grikkir leyfðu konum sínum aðeins að fara í fjölskylduboð. Þær máttu helst ekki

sjást úti á meðal fólks. Ágústínus keisari bauð að halda konum frá íþróttaleikjum en leyfði

þeim að fara á skylmingasýningar í fylgd með karlmönnum, ef þær sátu aftast.323 Þá þótti

ekkert athugavert við það að bera út börn sem ekki voru velkomin í heiminn og var þetta

stundað af öllum stéttum hins grísk-rómverska heims. Heimildir frá þessum tíma

staðfesta að stúlkubörn voru frekar borin út en drengir. Jafnvel í stórum fjölskyldum voru

nánast aldrei aldar upp fleiri en ein stúlka. Einnig voru fóstureyðingar mikið stundaðar

en þær voru ein meginorsök dauðsfalla meðal kvenna.324 Inn í þetta umhverfi feðraveldis

kom hin kristna boðun að mörgu leyti sem umbreytandi afl.

Rodney Stark fjallaði um bætta stöðu kvenna meðal hinna fyrstu kristnu sem hluta af

skýringu á auknum vexti trúarinnar. Komst hann að þeirri niðurstöðu að hagur kristinna

kvenna hefði batnað til muna samanborið við aðrar konur í hinum grísk-rómverska

heimi.325 Það eitt að konur sóttu einstaklega mikið í kristna trú beri því vitni.326 Kristni

hafði mikið aðdráttarafl fyrir konur vegna þess að hið kristna samfélag veitti þeim mun

Institutes frá 2. öld e.Kr. hvernig konur voru í raun keyptar sem kvonföng. Sumar konur gátu þó beðið um að verða keyptar undir vernd einhvers ef þær vildu ekki ganga í hjónaband. Samkvæmt rómverska lögfræðingnum Ulpina um 200 e.Kr. máttu stúlkur loks skilja við eiginmenn sína og hafna þeim manni sem faðir þeirra valdi handa þeim ef hann var á einhvern hátt óverðugur eða slæm persóna. Sjá nánar um Gaius sem var rómverskur lögfræðingur (130-180 e.Kr.) er útbjó lög fyrir rómverska ríkið (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Gaius: Roman Jurist“, Encyclopædia Britannica, sótt 8. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Gaius). 323 Mary R. Lefkowitz & Maureen B. Fant, Women´s Life in Greece & Rome, bls. 164-165. 324 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 97-98. Stark nefnir hér sem dæmi bréf frá manni á 1. öld e.Kr. að nafni Hilarion til ófrískrar eiginkonu sinnar að nafninu Alis. Þar biður Hilarion eiginkonuna um að hugsa vel um son þeirra en ef hún skyldi fæði barnið á meðan hann er enn í burtu eigi hún að halda því sé það drengur en losa sig við það reynist það stúlka. Þá bendir Stark á að fræðimenn hafi skoðað samsetningu fjölskyldna út frá áletrunum sem fundist hafa í Delfí. Þær sýni að af 600 fjölskyldum voru aðeins sex þeirra með fleiri en eina dóttur. 325 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 95-128. 326 Sama heimild, bls. 95. Hér vísar Stark m.a. til þess er hinn heiðni keisari Valentíníanus I. (um 370 e.Kr.) bað Damasus I. páfa í bréfi um að hinir kristnu hættu að heimsækja heiðnar konur. Endurspeglar þetta að fyrir honum var það orðið að vandamáli hversu margar þeirra gengu til liðs við kristna trú. Valentínanus I. hafnaði kristinni trú en í ríkisstjórn hans ríkti þó umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum. (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Valentinian I: Roman Emperor“, Encyclopædia Britannica, sótt 9. ágúst af https://www.britannica.com/biography/Valentinian-I).

Page 117: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

116

betri stöðu en hið grísk-rómverska samfélag. Enda sóttu einnig margar hástéttarkonur í

kristna trú.327

Stark nefnir heimildir um stöðu kvenna í Aþenu til samanburðar. Í þeim kemur fram

að konur voru í minnihluta vegna barnaútburðar og vegna dauðsfalla þeirra við

fóstureyðingar. Stúlkur fengu litla sem enga menntun en voru giftar við kynþroskaaldur

og stundum jafnvel fyrr. Undir aþenskum lögum var konan á öllum aldri alltaf flokkuð

sem barn og sem lagaleg eign einhvers karlmanns í gegnum allt hennar líf. Karlmenn gátu

alltaf skilið við konur sínar og ef konan hafði verið tæld eða henni nauðgað var

eiginmaðurinn lagalega knúinn til þess að skilja við hana. Ef eiginkonan vildi skilja við

manninn varð hún að fá föður sinn eða annan karlmann til þess að flytja mál sitt fyrir

dómara. Aþenskar konur gátu átt eignir en stjórn eignanna var alltaf í höndum þess

karlmanns sem hún tilheyrði hverju sinni. Þær urðu auk þess að vera í þungum klæðum

sem huldu þær mikið og máttu helst ekki sjást af karlmönnum utan heimilisins. Hinar

kristnu nutu aftur á móti meira frelsis í anda hinna spartversku kvenna.328

Rodney Stark bendir á að gagnrýni kristni á fjölkvæni, hjónaskilnaði, sifjaspell og

ótrúmennsku í hjónabandi hafi verið konum í hag á þessum tíma, því kristnir karlmenn

nutu ekki aukins frelsis í tengslum við kynlíf umfram konur eins og tíðkaðist almennt.

Þeir áttu líka að vera hreinir sveinar fram að hjónabandi og vera konum sínum trúir. Þá

var ekki pressa á kristnar ekkjur að gifta sig aftur eins og hinar heiðnu.329 Samkvæmt

Matteusarguðspjalli hafði Jesús sagt faríseum að skilnaður væri ekki Guðs vilji og að

327 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 95-97, 107-108. Stark tekur það fram að þó hagur kvenna innan kristni hafi vænkast og mikið af hástéttarkonum hafi sótt í kristna trú, þá hafi það einungis einkennt fyrstu fimm aldirnar e.Kr. Þegar kristni var orðin ríkistrú hafi orðið minna um að konur fengju veigamikil hlutverk innan kristindóms 328 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 102-104. Þá nefnir Stark að Spartverjar hafi líka stundað barnaútburð en ekki bara á stúlkubörnum heldur voru það aðeins heilbrigð og velgerð börn fengu að lifa. Um átta ára aldur þurftu spartverskir drengir að fara í heimavistaskóla til þess að læra að verða hermenn. Þeir gátu gifst um tvítugt en ekki búið með konum sínum fyrr en herskyldu lauk um þrítugt. Af þessum sökum hafi spartverskar konur notið meiri valda og fengið að stjórna eigin eignum og ættingja. Þar voru skilnaðarlögin þau sömu fyrir konur og karla og konur hlutu jafn mikla menntun og menn. Þær fengu auk þess líkamlega þjálfun og giftust sjaldan fyrr en um tvítugt. Þær máttu ferðast eins og þær vildu og gengu í stuttum kjólum. Stark segir að áætla megi að staða kvenna í hinum kristnu söfnuðum hafi orðið meira í anda hinna spartversku, þ.e. hvað varðar aukið frelsi og sjálfræði. 329 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 104. Ágústínus keisari lét t.d. sekta ekkjur sem giftust ekki aftur innan tveggja ára.

Page 118: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

117

Móse hefði einungis leyft karlmönnum að skilja vegna harðúðar hjartna þeirra (Matt

19.3-9). Skilnaðarlöggjöf 5. Mósebókar var enda aðeins hugsuð fyrir karlmenn sem vildu

skilja við konur (5Mós 24.1-4) og slík heimild því ekki gagnkvæm. Skilnaður gat gert líf

konu afar erfitt á þessum tímum, sér í lagi undir grísk-rómverskum lögum um eignarrétt

og kröfu um að börnin tilheyri föðurnum.330

Þegar hin heiðna kona giftist aftur missti hún allan arfinn til næsta eiginmanns. Á

meðan var staða ekkjunnar meðal kristinna virðingarstaða og þær fremur hvattar til þess

að giftast ekki aftur. Ekkjur gátu því haldið arfinum sínum en einnig studdi kirkjan við

fátækar ekkjur sem neyddust þá ekki til þess að giftast aftur af fjárhagslegum

ástæðum.331 Stark segir að þannig hafi hinar kristnu konur notið mun meira öryggis og

jafnræðis í tengslum við hjónabandið en hinar heiðnu. Þær giftust almennt mun seinna

og gátu fremur valið hverjum þær giftust á meðan heiðnar konur voru oftar þvingaðar

kornungar í fyrirfram ákvörðuð hjónabönd. Plútarkos, grískur ævisagnaritari á 1. öld

e.Kr., sagði Rómverja gefa stúlkurnar sínar í hjónaband 12 ára gamlar eða jafnvel yngri.

Gríski sagnaritarinn Dio Cassius sagði almennt talið að stúlkur væru komnar á

giftingaraldur 12 ára og rómversk lög kváðu á um að lágmarks aldur fyrir stúlkur að ganga

í hjónaband væri 12 ára. Þó var engin lagaleg refsing fyrir þá sem giftust yngri stúlkum

en þær urðu þá aðeins eiginkonur samkvæmt lögum um 12 ára aldur.332 Þannig voru

stúlkur grísk-rómverskra foreldra þrisvar sinnum líklegri til þess að hafa gifst fyrir 13 ára

aldur en stúlkur meðal kristinna.333

330 Sjá áhugaverða grein sem nefnir áhrif hjónaskilnaðar á stöðu kvenna eftir Dr. Sigurjón Árna Eyjólfsson (Sigurjón Árni Eyjólfsson, „Samrýmist afstaða Lúhters til hjónaskilnaða afstöðu Jesú?“, Vísindavefurinn, sótt 30. ágúst 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3498). 331 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 104-105. Stark bendir á þessu til staðfestingar að í bréfi frá Kornelíusi biskupi í Róm 251 e.Kr. segi að fleiri en 1500 ekkjur og umkomulausir séu í umsjá safnaðarins. 332 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 105-107. Stark segir sagnfræðina oft þegja um barnabrúðkaup í hinum grísk-rómverska heimi. Hér nefnir Stark m.a. Oktavíu og Agrippu sem hafi verið giftar 11 og 12 ára. Eiginkona Quintilians fæddi honum son aðeins 13 ára og Takítus sagnaritari giftist stúlku sem var 13 ára. Plútarkos gagnrýndi reyndar það að gifta stúlkur fyrir kynþroskaaldur og kallaði það grimman sið og talaði um hatur og ótta þeirra stúlkna sem neyddar voru í hjónaband andstætt hinu náttúrulega. Er hann því að gagnrýna þá karlmenn sem gengu í hjónaband með stúlkum er enn höfðu ekki byrjaðar að fá blæðingar, þá fyrir 12 ára. Eftir það virðist það ekki siðlaust að mati Plútarkosar. 333 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 106-107. Stark segir að um tíu prósent grísk-rómverskra stúlkna hafi verið giftar um 11 ára aldur og 44 prósent um 14 ára aldur á meðan aðeins 20 prósent kristinna stúlkna höfðu gifst um 14 ára aldur. um 48 prósent kristinna kvenna höfðu ekki enn verið giftar

Page 119: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

118

Eins og fram hefur komið var mikið um barnaútburð og fóstureyðingar í hinum grísk-

rómverska heimi.334 Á meðan voru hvorki barnaútburður né fóstureyðingar

framkvæmdar meðal kristinna.335 Rodney Stark bendir á að mikilsmetnir heimspekingar

og sagnaritarar á þessum tíma endurspegli einnig þetta viðhorf að sjálfsagt sé að bera út

börn eða láta konur gangast undir fóstureyðingar. Heimspekingurinn Seneca var meðal

þeirra fjölmörgu er taldi það vel réttlætanlegt að drekkja nýfæddum börnum. Þá fannst

Takítusi sagnaritara sú kennsla Gyðinga að telja það dauðasynd að drepa nokkurt barn,

vera enn eitt merkið um óheiðarleika þeirra og uppreisnarhegðun. Bæði lögin og

heimspekingarnir studdu þannig við útburð og dráp kornabarna. Heimspekingarnir

Platón og Aristóteles höfðu mælt með því að ríki leyfðu barnaútburð með lögum. Elsti

rómverski lagakóðinn sem fundist hefur, Töflurnar tólf (e. The Twelve Tables) frá um 450

f.Kr., gaf föðurnum heimild til þess að bera út öll nýfædd stúlkubörn ásamt öllum

óheilbrigðum karlkyns kornabörnum. Samkvæmt Stark var barnaútburður þannig ein

helsta ástæða þess að fólksfækkun átti sér stað í hinu rómverska ríki ásamt

fóstureyðingum.336

Fóstureyðingar voru algengar til að koma í veg fyrir fæðingu barna. Stark segir ritaðar

heimildir bera vitni um fjölmargar aðferðir við að framkvæma fóstureyðingu. En

fóstureyðingar drápu ekki aðeins fjölmörg börn heldur konur líka auk þess að valda

ófrjósemi meðal margra þeirra. Sem dæmi um aðferð sem valda átti fósturláti var að

innbyrða eilítið minni en banvænan skammt af eitri. Erfitt gat þó reynst að áætla rétta

um 18 ára aldur samanborið við 37 prósent hinna heiðnu. Þessar niðurstöður fengust út frá rannsóknum fræðimanna á rómverskum áletrunum. Sjá nánar um Plútarkos á orðabók Britannica (Frank W. Walbank, „Plutarch: Greek biographer“, Encyclopædia Britannica, sótt 18. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Plutarch). 334 Mary R. Lefkowitz & Maureen B. Fant, Women´s Life in Greece & Rome, bls. 187. Bókin birtir innihald bréfs frá 1. öld e.Kr. í Egyptalandi. Þar sést hvernig eiginmaðurinn talar um það sem sjálfsagðan hlut í bréfi til eiginkonu sinnar að bera út nýfætt barn. Biður hann eiginkonuna um að passa vel litla barnið þeirra og segist ætla að senda þeim pening um leið og hann fái laun. Síðan segir hann henni blátt áfram að bera út eða losa sig við barnið sem hún gangi með ef það sé stúlka en halda því sé það strákur. 335 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 98. 336 Sama heimild, bls. 118-119. Í fornleifauppgreftri Lawrence E. Stager og samstarfsmanna á borginni Ashkelon uppgötvuðu þeir að holræsaskerfi (e. sewer) borgarinnar hafði verið stíflað af líkömum og beinum kornabarna sem höfðu verið myrt og hent niður í ræsin. Rannsóknir á beinunum sýndu að þau voru nýfædd eða um dags gömul og flest beinin voru af stúlkum.

Page 120: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

119

skammtastærð. Þá dóu margar konur einnig af sýkingum eftir fóstureyðingar sem virðast

hafa verið framkvæmdar á fullmótuðu fóstri með hnífum, krókum og öðrum

frumstæðum tólum. Þannig segir Stark fóstureyðingar hafa verið ein megin orsök

dauðsfalla meðal kvenna á þessum tíma.337 Þrátt fyrir þetta voru bæði ríkar og fátækar

konur sendar í fóstureyðingar, ýmist til að forðast að þurfa að deila ættararfinum á milli

of margra erfingja eða vegna þess að fjölskyldurnar höfðu ekki efni á að ala upp fleiri

börn. Var það iðulega karlmaðurinn sem ákvað þetta enda var hann samkvæmt

rómverskum lögum höfuð fjölskyldunnar með vald yfir lífi og dauða allra á heimilinu.338

Hér er því augljóst að ekkert óeðlilegt þótti við það að taka áhættu með líf konunnar.

Stark bætir við heimildum sem sýna að heimspekingarnir studdu líka við

fóstureyðingar. Platón í riti sínu Republic hafði viljað festa það í lög að konur sem yrðu

ófrískar eftir fertugt yrðu að fara í fóstureyðingu til þess að fyrirbyggja fólksfjölgun.

Einnig hafi Aristóteles sagt í riti sínu Politics að koma yrði á reglum til að takmarka

barneignir. Ef barn kæmi undir í bága við þessar reglur yrði að framkvæma

fóstureyðingu.339 Þar sem karlmaðurinn tók iðulega slíkar ákvarðanir virtist þeim stafa

ógn af því er sumar konur völdu sjálfar að taka þessa áhættu á 2. öld e.Kr.340 Á meðan

337 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 119-120. Banvænn skammtur fyrir fóstrið gat þannig líka reynst banvænn fyrir konuna sjálfa. Stark bætir við lýsingum á fleiri aðferðum eins og að setja eitur í legið sem oft leiddi til þess að líkami konunnar losaði sig ekki við látið fóstrið er orsakaði að lokum sýkingu og dauða konunnar sjálfrar. Þá voru eins notaðar langar nálar, krókar og hnífar. Til er texti frá Tertúllíanusi trúvarnarmanni sem lýsti þessu og gagnrýndi þessar miskunnarlausu aðferðir harðlega í riti sínu A Treatise on the Soul. Einnig nefnir Stark fræðslu hins rómverska læknis Aulas Cornelius Celsus frá 1. öld e.Kr. sem lýsti fóstureyðingu með þessháttar tólum. Auðvelt sé að sjá af þeim lýsingum hvernig bakteríur hafi fundið greiða leið til að valda sýkingum og jafnvel meiri skaða en sjálfur krókurinn gat valdið, sem gjarnan var krækt í auga, eyra eða munn barnsins inni í legi konunnar til að draga það út. Ef fóstrið snéri öfugt mælti Celsus með að nota fremur hnífsblað til að skera fóstrið í bita til að auðvelda losun þess. Eftir losunina átti að binda saman læri konunnar og hylja kynfæri hennar með ull sem dýft var í edik og rósarolíu. O. M. Bakke tekur undir að þetta hafi verið ein helsta dánarorsök kvenna (O. M. Bakke, When Children Became People: The Birth of Childhood in Early Christianity, Minneapolis: Fortress Press, 2005, bls. 30-31). 338 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 120-121. Stark nefnir dæmi um valdaleysi kvenna er kom að fóstureyðingum, er keisarinn Dómitían hafði gert bróður- eða systurdóttur sína Júlíu ólétta og skipaði henni að fara í fóstureyðingu en það leiddi hana síðan til dauða. 339 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 120-121. 340 O. M. Bakke, When Children Became People: The Birth of Childhood in Early Christianity, Minneapolis: Fortress Press, 2005, bls. 26-28. Septimus Severus (183-211 e.Kr) keisari setti af þessum sökum lög á 2. öld sem bönnuðu fóstureyðingar og skipuðu að senda þær konur sem fóru í fóstureyðingu í tímabundna

Page 121: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

120

töluðu kirkjufeðurnir gegn fóstureyðingum, barnaútburði og drápum á kornabörnum.

Stark nefnir sem dæmi hið þekkta rit Tólfpostulakenninguna (gr. Didache) frá 1. öld e.Kr.

sem kenndi m.a.: „Þú skalt ekki myrða barn með fóstureyðingu né drepa þau er þau

fæðast.“ Eins hafi Jústínus Píslarvottur á miðri 2. öld sagt að hinum kristnu hafi verið

kennt að það væri illska að bera út nýfædd börn, því með slíku væru þeir morðingjar.341

Það er auðvelt að skilja af hverju kristnir brugðust svona harkalega við í ljósi þess sem

fram hefur komið. Fóstureyðingar voru stórhættulegt inngrip inn í líkama og líf

kvenna.342 Það að banna fóstureyðingar jók því jafnframt lífslíkur kvenna. Þær heimildir

sem fram hafa komið sýna auk þess að kristnum konum beið almennt séð mun meira

frelsi en hinum grísk-rómversku, a.m.k. á fyrstu öldum trúar.

4.2.2 Hlutverk og stöður kvenna innan kirkjunnar á fyrstu öldum kristni

Svo virðist sem heimildirnar tali sínu máli og svari spurningunni um það hvort kristnar

konur og börn hafi, yfir heildina séð, notið góðs af hinni kristnu boðun. Femíniskir

guðfræðingar eins og Rosemary Radford Ruether hafa þó margir gagnrýnt harðlega hinn

kristna boðskap fyrir að stuðla að kynjamisrétti með feðraveldi sínu.343 Lynn Japinga,

prófessor í trúarbragðafræðum, fjallar um femíniska guðfræðinga sem gagnrýnt hafa

hinn kristna boðskap fyrir að stuðla að jaðarsetningu kvenna. Femíniskir guðfræðingar

útlegð. Hann sagði það til skammar að leyfa konu að koma í veg fyrir að eiginmaður hennar geti fengið afkomendur. Þarna var því hvorki hagur barns né konu í fyrirrúmi, heldur karlmannsins. 341 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 125-126. Stark nefnir fleiri dæmi. T.d. hafi Aþenagoras á 2. öld ritað í bréfi til Markúsar Árelíusar að kristnir kenni að þeir sem gefi konum ólyfjan til að framkvæma fósturlát séu sekir um morð. Einnig nefnir Stark Minucius Felix sem í riti sínu Octavius ásakar móttakanda bréfsins um að ýmist bera út börnin sín til villidýra og fugla eða kyrkja þau grimmilega. Þá séu konur þeirra á meðal sem taki inn lyf er drepi afkvæmin áður en komið sé að fæðingu þeirra. Minucius kennir heiðnu guðunum um og nefnir sérstaklega Satúrnus sem hafi rifið í sig eigin börn. Það hafi orsakað að kornabörnum var fórnað til hans í sumum Afríkulöndum. 342 Þessi harða gagnrýni kristinna leiðtoga gegn fóstureyðingum var gagnrýni á fóstureyðingar þær sem þekktust aðeins í þá daga í hinum grísk-rómverska heimi. Af þeim lýsingum sem fram koma í bók Starks hafa aðferðirnar verið miskunnarlausar gagnvart konunni og fóstrinu sem gat verið á ýmsum þroskastigum. Var þetta stórhættulegt inngrip í líkama ungra kvenna sem margar guldu fyrir, ýmist með lífi sínu eða ófrjósemi. 343 Ed L. Miller & Stanley J. Grenz, Fortress Introduction to Contemporary Theologies. Minneapolis:

Fortress Press, 1998, bls. 162, 164-172. Í þessari bók er einn kafli helgaður guðfræði

kvennaguðfræðingsins Rosemary Radford Ruether. Ruether sagði konum hafa verið ýtt til hliðar af

gyðingkristinni hefð og hinu ríkjandi karlaveldi. Hún gagnrýndi m.a. hvernig hefðbundin guðfræði lét

konur bera ábyrgð á erfðasyndinni. Biblíuna sagði hún ritaða af mönnum og fyrir menn.

Page 122: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

121

hafa m.a. bent á að konur hafi ekki verið á meðal postulanna tólf. Konum var sagt að

þegja í kirkjunni (1Kor 14.34). Þær máttu ekki kenna eða vera í valdastöðu (1Tím 2.12-

14) og áttu að vera undirgefnar eiginmönnum sínum (Ef 5.24).344 Japinga segir hina

neikvæðu texta 1. Tímóteusarbréfs 2. kafla, 1. Korintubréfs 11. og 14. kafla ásamt

5. kafla Efesusbréfs oft setta fram sem afstöðu Páls til kvenna almennt. Þá taki menn

ekki mið af textum þar sem hann talar um konur sem samstarfsaðila og leiðtoga kirkna.

Biblían hafi verið rituð inn í feðraveldisumhverfi en það þýði ekki að feðraveldi sé vilji

Guðs. Fremur hafi höfundar hennar ekki getað flúið sitt menningarlega umhverfi. Í

1. Tímóteusarbréfi þar sem Páll heimilar ekki konum að kenna eða hafa völd hafi hann

verið að tala inn í menningarsamhengi þar sem konur voru sjaldan menntaðar eða virtar

sem leiðtogar. Textinn í 1. Korintubréfi, þar sem Páll býður konum að hafa hljótt í

kirkjunni, komi í samhengi texta sem fjalla um rétta lofgjörð og notkun hinna andlegu

gjafa. Páll vildi ekki sýndarmennsku með náðargjafirnar eða að fólk væri að tala

óumbeðið á samkomum. Mögulega hafi það verið vandamál meðal kvenna í kirkjunni í

Korintu. Varðandi Efesusbréfið 5.22-33, sem segi konur eiga að vera undirgefnar

mönnum sínum, bendir Japinga á að skoða verði samhengið, því í versinu á undan segir

Páll að hjónin eiga að vera hvort öðru undirgefin.345

Lynn Japinga bendir þannig á mikilvægi þess að hafa í huga markmið höfundar við

lestur rita Biblíunnar. Bréf Nýja testamentisins hafi verið rituð til ákveðinna safnaða og

oft með þeirra einstöku aðstæður í huga. Skoða verði textann í heildar biblíulegu

samhengi. Nefnir hún þá Galatabréfið 3.28 sem dæmi þar sem Páll segi enga aðgreiningu

vera á milli kvenna eða karla. Auk þess viðurkenndi Páll leiðtogahlutverk Prisku, Föbe,

Júníu, Evodíu og Syntýke í frumkirkjunni (Róm 16.1-7 og Fil 4 4.4-3). Bréf Páls beri því

vitni að konur hafi spáð, boðað, leitt húskirkjur og leiðbeint bæði konum og körlum í

Kristi. Frelsi kvenna til að leiða, tala og nota andlegar gjafir hafi hins vegar stangast á við

hinn samfélagslega veruleika og misskilist. Hið grísk-rómverska karlaveldi hafi ekki getað

344 Lynn Japinga, Feminism and Christianity, An Essential Guide, Nashville: Abingdon Press, 1999, bls. 37. 345 Lynn Japinga, Feminism and Christianity, bls. 46-48. Við þetta má bæta að ekki allir fræðimenn eru á því að Páll hafi ritað Hirðisbréfin, þ.e. 1. og 2. Tímóteusarbréf og Títusarbréf. Margir fræðimenn telja þau rituð síðar. (Clarence E. Glad, Átökin um textann, bls. 18).

Page 123: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

122

skilið hið félagslega frelsi kristinna kvenna. Þannig gat kristnum konum í

leiðtogahlutverkum verið ruglað saman við hofvændiskonur. Til að forða kristnum frá

frekari ofsóknum hafi Páll eflaust þurft að biðja konur að fara varlega með frelsi sitt.346

Dæmi um það hvernig hin kristna boðun gat misskilist af samtímaumhverfi sínu kemur

fram í því er hinir kristnu voru ásakaðir um að stunda barnsát.347

Rodney Stark kannast einnig við gagnrýnisraddir vegna orða Páls um að konur megi

ekki tala í söfnuðinum (1Kor 14.34-36). Hann segir þessi ummæli ólíklega endurspegla

skoðun Páls enda stangist þau á við önnur ummæli hans um konur. Páll hafi samþykkt

konur í forstöðuhlutverkum innan fjölda safnaða. Í Rómverjabréfinu 16.1-2 hrósi hann

Föbe sem systur og djákna kirkjunnar í Kenkreu. Djáknum í frumkirkjunni hafa verið

treyst fyrir mikilvægum verkefnum, bæði í guðsþjónustunni og stýringu hjálparstarfs.348

Páll hafi einnig sent kveðjur til kvenna sem gegndu veigamiklum hlutverkum innan hins

rómverska safnaðar. Þar á meðal var Priska sem Páll sagði hafa hætt eigin lífi fyrir sig.349

Stark segir það almennt mat kirkjusagnfræðinga að konur hafi gegnt veigamiklum

hlutverkum og valdastöðum innan kirkjunnar á fyrstu öldum kristni. Hinar kristnu konur

hafi fengið stöðu samverkamanna og kennara. Hann bætir við að fyrst meiri hluti þeirra

sem ofsóttir voru gegndu forystuhlutverkum safnaðanna, eins og t.d. biskupar og

346 Lynn Japinga, Feminism and Christianity, bls. 48-50. Hér vísar Japinga til orða Elisabeth Schüssler Fiorenzu sem telur að eftir því sem kirkjan hafi vaxið hafi árekstrum við menningarumhverfi hennar fjölgað. Bréfin til Tímóteusar hafi líklega verið rituð í þeim kringumstæðum. Fiorenza telur þau rituð það seint (um 50 árum á eftir hinum bréfunum) að ljóst er að hún taldi Pál ekki höfund þeirra. 347 Eusebius, Hist. Eccl. 4.7-10 og 5.1. (Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. 109-110 og 138-142). Sjá einnig Trúvörn Jústíníusar Píslarvotts (First Apology, I.26). Kristnir mættu samkvæmt Evsebíos m.a. ofsóknum vegna gróusagna um athafnir þeirra. Eflaust var það sprottið út af misskilningi í tengslum við hina lokuðu athöfn sem kvöldmáltíðarsakramentið var, þar sem talað var um að neyta blóðs og líkama Krists. 348 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 108-109. Pliny hinn yngri sagði í einu bréfa sinna að hann hefði pyndað tvær ungar kristnar konur sem kallaðar voru djáknar. Stark segir heimildir utan Biblíunnar votta þannig að konur gegndu þessari þjónstu. Einnig Sýni 1. Tímóteusarbréf 3.11 að litið var á embætti kvendjákna sem sjálfsagðan hlut. Stark gagnrýnir jafnframt King James þýðingu á Rómverjabréfinu sem þýddi hugtakið „djákni“ sem „þjónn“ þegar verið er að tala um Föbe. Eins hafi King James þýðingin verið með „eiginkonur djákna“ í stað „kvendjáknar“ í Tímóteusarbréfinu. Þetta endurspegli kynjaviðhorf 17. aldar. Á móti hafi Orígenes snemma á 3. öld ritað í ritskýringu sinni á Rómverjabréfi að það hafi verið kvendjáknar í kirkjunni og fyrst að konur, sem höfðu liðsinnt svona mörgu fólki áttu skilið hrós af postulanum fyrir sín góðu verk, ættu menn að samþykkja þær í djáknaembættið. Einnig ritaði Klemens frá Alexandríu jákvætt um kvendjákna. 349 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 108. Einnig nefndi Páll Maríu sem hann sagði að hefði starfað af miklum dugnaði þeirra á meðal.

Page 124: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

123

djáknar, og þar sem á meðal píslarvottanna hafi einnig verið konur, megi reikna með að

þær hafi gegnt ábyrgðarstöðum. Bætt staða kvenna innan hinna kristnu safnaða hafi

síðan leitt til bættrar stöðu kvenna innan fjölskyldunnar. Stark nefnir til samanburðar að

Mítras-átrúnaðurinn, sem margir fræðimenn hafi séð sem einskonar keppinaut

kristinnar trúar, hafi eingöngu verið fyrir karlmenn.350

Engu að síður virðist sem feðraveldið hafi náð yfirhöndinni í kirkjunni er fram liðu

stundir og tekist að gera sem minnst úr þátttöku kvenna í starfi og embættum kirkjunnar.

Ute E. Eisen, prófessor í guðfræði, komst að þeirri niðurstöðu er hún fann nöfn kvenna

er gegnt höfðu ábyrgðastöðum innan kirkjunnar á fyrstu öldum kristni. Eisen segir m.a.

frá því er Bernadetta Brooten uppgötvaði árið 1977 að postulinn Júnías í

Rómverjabréfinu 16.7 var í raun Júnía. Eldri handrit sýndu rétta þýðingu á nafninu en

auk þess var karlkyns nafnið Júnías ekki þekkt á fyrstu öldunum e.Kr. á meðan

kvenkynsnafnið Júnía var það. Jóhannes gullinmunnur (e. John Chrysostom 347-407

e.Kr.), erkibiskupinn í Konstantínópel, hafði talað um Júníu í Rómverjabréfinu 16.7 sem

framúrskarandi postula og verðuga þess að vera kölluð postuli. Hann hrósaði henni m.a.

fyrir visku. En postulatitill fól í sér starfsemi trúboðs.351 Orígenes og Hippólýtus frá Róm

á 3. öld e.Kr. töluðu báðir um konur í guðspjöllunum sem postula, þær Maríu Magdalenu

og samversku konuna. Þá segir í ritinu Collection of Latberti frá 10. öld af konunni Nino

frá 4. öld e.Kr. sem var titluð postuli og boðberi fagnaðarerindisins. Í ritinu kemur fram

að hún hafi prédikað, snúið til kristni og skírt. Hún átti að hafa snúið gyðingaprestinum

Abiathar til kristni sem vitnaði síðan um mikla þekkingu Nino á Ritningunni.352

350 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 109-110. 351 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity: Epigraphical and Literary Studies. Collegeville, Minnesota: The Liturgical Press, 2000, bls. 47-49. Þess ber að geta að í íslensku biblíuþýðingunni sem kom út árið 1981 stóð einnig „Júnías“ í stað kvenmannsnafnsins „Júnía“ í Rómverjabréfinu 16.7. Það var síðan leiðrétt í „Júnía“ með biblíuþýðingunni sem kom út 2007. 352 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity, bls. 49-51, 52-53. Í heimildinni kemur fram að Nino hefði kennt dag og nótt úr Ritningunni utanbókar hinn sanna veg trúar. Hefðin segir að Georgíumenn eigi það trúboði hennar að þakka að hafa orðið kristnir. (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Georgian Orthodox Church: Christianity“, Encyclopædia Britannica, sótt 11. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Georgian-Orthodox-church#ref195870). Sjá einnig um Jóhannes gullinmunn á orðabók Britannica (Donald Attwater, „St. John Chrysostom“, Encyclopædia Britannica, sótt 24. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-John-Chrysostom).

Page 125: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

124

Ute E. Eisen minnir á að Nýja testamentið og aðrar kirkjulegar hefðir vitna um að

konur með spádómsgjöf störfuðu innan kirkjunnar. Í 1. Korintubréfi 11.5 segir frá konum

sem spá og biðja á meðan á lofgjörð stendur. Postulasagan 21.9-14 segir frá dætrum

Filippusar frá Sesareu en Evsebíos biskup í Sesareu og kirkjusagnfræðingur (um 313 e.Kr.)

kallaði þær spákonur. Orígenes sagði konur einnig deila þeirri náðargjöf að geta spáð þar

sem sú gjöf væri ekki gefin eftir kyni heldur í samræmi við hreinleika hugans.353 Þá er í

textabroti frá u.þ.b. 4. öld e.Kr. í Egyptalandi talað um Kyríu kennara. Sumir ályktuðu, í

ljósi 1. Tímóteusarbréfs 2.12, að þetta textabrot birti falsað rit. Þó er til heimild í

kirkjusagnfræði Evsebíosar um konur sem kenndu konum. Þá nefndi heilagur

Híerónýmus (e. St. Jerome 347-420 e.Kr.) Marcellu (d. 410 e.Kr.) sem var af ríkum ættum.

Hún hélt kristnar samkomur á heimili sínu og kenndi ungum konum og ekkjum. Hún var

þekkt sem kennari og virðist hafa tekið við kennsluhlutverki Híerónýmusar er hann fór

frá Róm. Var hún einnig rómuð fyrir visku og færni í að meta rétt frá röngu. Fjöldi klerka

leitaði ráða hjá henni og var hún virt sem dómari. Eisen nefnir einnig Priskillu sem

Postulasagan segir hafa verið guðfræðilegan kennara Appollóns eftir að hann lauk

grunnkennslu og var orðinn trúboði (Post 18.26). Jóhannes gullinmunnur staðfesti

þetta.354

Til er grafskrift frá 3. öld e.Kr. í Litlu-Asíu sem Díogas biskup ritaði til minningar um

Amion prest. Ute. E. Eisen bendir á að þar segi: pos Ammoi presbyterai (í kvenkyni) í stað

presbyteros (í karlkyni). Epífanus á 4. öld e.Kr. hafði aftur á móti sagt þjónustu

sakramentisins aðeins ætlaða vígðum prestum en konur hafi aldrei verið prestar heldur

hafi eldri kvendjáknar og ekkjur verið kallaðar presbytides. Fræðimenn telja aftur að á

tíma Epífanusar hafi kristin trú verið tekin að stofnanavæðast og einkennst af

hefðarhyggju og valdastrúktúr.355 Til er annað dæmi um presbytides frá 4. öld í Litlu-Asíu.

353 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity, bls. 68-69, 71. (Sjá einnig nánar ummæli Eusebiusar í His.Eccl. 3.39.9, 5.17.3-4 og 3.31, En Eisen vísar í Eusebius varðandi þetta). 354 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity, bls. 90-96, 99-100. Sjá einnig um Híerónýmus (e. St. Jerome) á orðabók Britannica (Walter John Burghardt, „St. Jerome: Christian Scholar“, Encyclopædia Britannica, sótt 25. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Jerome). 355 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity, bls. 116-121. Epífanus gagnrýndi einmitt hreyfingu Montanista fyrir sitt frjálsa viðhorf til embættisveitinga kvenna. Því hafa sumir fræðimenn talið að Amion hafi tilheyrt söfnuði Montanista. Aðrir hafa bent á að þá hefði staðið pnaumatikos (af

Page 126: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

125

Samkvæmt Canon 11 frá sýnódunni í Laódíkeu kemur fram að vígðar konur eða

presbytides hafi verið í forsvari fyrir söfnuðinum.356 Þá eru til nokkrar heimildir um

kvendjákna. Meðal annars grafskrift frá Palestínu sem segir frá hinum unga kvendjákna

Föbe. Einnig segir grafskrift í Kappadókíu Litlu-Asíu af Maríu djákna sem m.a. ól upp

börn, hýsti gesti og deildi brauði sínu með hinum þurfandi.357

Þá er til áletrun frá því um 500 e.Kr. sem virðist benda sterklega til þess að þar hvíli

kvenkyns biskup. Sumir töldu áletrunina hljóta að eiga við um eiginkonu biskups en Eisen

bendir á vísbendingu í mósaíkmynd í kapellu St. Zeno í Róm með mynd af konu. Við hlið

hennar stendur ritað: Episcopa Theodo(ra), en síðustu tveir stafirnir hafa eyðst. Á annarri

mynd í sömu kirkju stendur ritað hvar Praesul eða Paschal I. páfi kom líkömum dýrlinga

fyrir nálægt líkama látinnar móður sinnar, Lady Theodoru biskups. Þannig telur Eisen að

titill hennar sé ekki bara nafnbót heldur raunverulegt embætti. Ekki sé heldur mögulegt

að túlka episcopa sem einungis eiginkonu biskups þar sem faðir Praesuls var hvergi

titlaður sem biskup. Þó engar aðrar heimildir séu um kvenkyns biskup í Róm þá voru

sumar húskirkjur í eigu kvenna. Húseigandinn hefur eflaust stýrt því sem fram fór innan

kirknanna, kennslu og þjálfun kristinna leiðtoga. Heitið episcopoi í grísk-rómversku

umhverfi hafði með stjórnun að gera. Episcopos tók við hlutverki ráðsmanns yfir húsi

Guðs. Þá gefur Ignatíus á 2. öld e.Kr. vísbendingu um að konur hafi verið leiðtogar í

slíkum kirkjum. Eins virðist Priska, sem nefnd er í 1. Korintubréfi 16.19, vera með slíka

stöðu húsráðanda yfir húsi Guðs en einnig Nýmfa í Kólossubréfi 4.15. En þar sem að fjöldi

nafna biskupa hefur glatast telur Eisen ekkert afsanna að konur hafi verið þar á meðal.358

andanum) líka. Þá má minna á að Montanistar voru jú spámannleg hreyfing en ekki gnostísk, enda gekk Tertúllíanus kirkjufaðir sjálfur til liðs við þá síðar á ævi sinni, eins og fram hefur komið. 356 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity, bls. 121. Eisen nefnir fleiri grafskriftir sem vísa til kvenpresta og textabrota á bls. 122-134. 357 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity, bls. 158-159, 164-165. 358 Sama heimild, bls. 199-204, 206-209. Eisen finnst ólíklegt að episcopa hafi aðeins verið heiðurstitill Theodoru eða að hún hafi aðeins verið abbadís. Engin dæmi séu um slíka notkun á þessum titli. Sjá einnig umfjöllun um bók Dr. Ally Kateusz kirkjusagnfræðings, Mary and Early Christian Women: Hidden Leadership. Höfundurinn telur yfirgnæfandi líkur á því að Vatikanið hafi vísvitandi reynt að fela sönnunargögn meðal listaverka sem sýni konur í ábyrgðarstöðum kirkjunnar (Sarah Mac Donald, „Girl power: Vatican „hid art that showed female priests““, News: Irish News, 3. júli 2019, sótt 18. ágúst 2019 af https://www.independent.ie/irish-news/girl-power-vatican-hid-art-that-showed-female-priests-

Page 127: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

126

Ute E. Eisen minnist einnig á hvernig þýðingar og samtíma túlkanir á biblíuversum

geti breytt sýn okkar á viðhorf frumkristinnar kirkju til kvenna. Hún nefnir sem dæmi 1.

Korintubréf 14.33-36 þar sem Páll virðist banna konum að tala á samkomum. Þar sé

gríska hugtakið lalein þýtt sem „tala“ en réttara sé að þýða það sem „spjalla“. Páll sé því

ekki að banna konum að prédika. Þá endurspegli 1. Tímóteusarbréf reglur um klæðnað

og framkomu sem eigi rætur í grísk-rómverskri siðfræði og virðist auk þess ritað í ritdeilu

gegn andstæðingum trúarinnar. Einnig eru eldri konur í Títusarbréfi 2.3-5 beðnar um að

fræða og kenna hinum yngri um það sem sé gott og dygðugt (gr. kalo-didaskaloi).359

Í hinu grísk-rómverska feðraveldi var eflaust erfitt að ætla að heyja tvær baráttur í

senn. Annars vegar fyrir útbreiðslu fagnaðarerindisins og hins vegar frelsis og jafnréttis

kvenna og þræla. Opinber kvenfrelsishreyfing var augljóslega ótímabær þó svo að

guðspjöllin birti jákvætt viðhorf Jesú til kvenna en Jesús hvatti t.a.m. Mörtu og Maríu til

þess að fræðast (Lúk 10.38). Kristni hafði þrátt fyrir þetta það mikið aðdráttarafl fyrir

konur að þær völdu sumar skírlífi eða liðu ofsóknir við útbreiðslu trúarinnar.360 Að vera

boðberar fagnaðarerindis sem kenndi jöfnuð og kærleika er leiddi til bættra félagslegra

kjara hefur verið bylting út af fyrir sig.

4.2.3 Börn í hinum grísk-rómverska heimi

Eins og fram hefur komið skilaði kristin trú bættum kjörum til kvenna hins grísk-

rómverska heims. Að sumu leyti voru bætt kjör kvenna einnig bætt kjör barna, því eins

og fram hefur komið voru stúlkur gefnar í hjónabönd um 12 ára aldur og stundum fyrr

og voru því börn. Í bók sinni When Children Became People dregur O. M. Bakke prófessor

í kirkjusagnfræði fram fjölda heimilda til að svara því hvort kjör barna í hinum grísk-

rómverska heimi hafi batnað fyrir tilstuðlan kristinnar trúar á fyrstu öldum

38277210.html?fbclid=IwAR1d_3FHrmRSMGv6VXQoJygdS9W6i3JQ_GsWNa9vYWh RTCJN56hXAnHmguQ). 359 Ute E. Eisen, Women Officeholders in Early Christianity, bls. 101-102. Breytt þýðing á lalein í 1Kor 14.33-36 úr „tala“ í „spjalla“ byggir hún á því að hugtakið lalein er oftast notað um spjall manna á milli í grísku þess tíma en ekki prédikanir, kennslu og ræðuhöld. Þarna sé því Páll ekki að banna konum að kenna og prédika á safnaðarsamkomum. 360 Eusebius, Hist. Eccl. 2.17. (Eusebius, The History of the Church, Penguin Books, bls. 50-54). Hér má lesa um konur sem völdu skírlífi.

Page 128: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

127

átrúnaðarins.361 Hann byrjar á því að varpa ljósi á viðhorf almennings til barna í hinum

grísk-rómverska heimi út frá fyrirliggjandi heimildum í ritum heimspekinga og

skriftlærðra.

Samkvæmt hinni grísku heimspekihefð Platóns, Aristótelesar og Stóuspekinga var

það hinn frjálsi karlmaður sem bjó yfir logos (orð, ræða, skynsemi). Logos var forsenda

allrar getu til rökrænnar (e. rational) hugsunar. Á meðan var álitið að útlendinga, þræla

og börn skorti logos. Fyrir þeim voru börn ímynd skorts (e. absence) á logos. Bakke segir

margar fornar heimildir tala um að börn skorti skynsemi. Platón sagði t.a.m. að það

hvernig börn létu eftir löngunum sínum og þrám, vera eina af mörgum staðfestingum á

því að þau hafi ekki logos. Þau væru í sama flokki og konur, þrælar og lágstétt, þar sem

nautnir, þrár og sársauki voru mest ríkjandi eiginleikarnir.362 Aristóteles sagði að börn

væru mun bráðari í skapi, gráðugri og reiðari en fullorðnir og með sterkari löngun í

nautnir. Þessi skortur barna á skynsemi (gr. logos) fékk heimspekingana til að sjá

samsvörun hjá þeim við dýr. En Platón flokkaði oft börn með öðrum jaðarhópum hins

forna samfélags, þ.e. konum, þrælum og dýrum. Aristóteles gerði slíkt hið sama en sagði

dýr vera í samskonar tengslum við mannfólk og börn við fullorðna, þ.e. með sama hætti

og heimskir menn séu lægra settir (e. inferior) góðum og vitrum mönnum.

Stóuspekingarnir Markús Árelíus og Seneca töldu á sama hátt að börn gætu engan

veginn uppgötvað með rökhugsun hvað væri siðferðilega rétt. Samkvæmt

heimspekingunum var það ekki fyrr en við kynþroskaaldur sem skynsemin byrjaði að

mótast og aðeins þá gátu börn greint rétt frá röngu. Ciceró sagði erfitt að finna einhverja

ástæðu til þess að hrósa barni fyrir meðfædda eiginleika sína. Það ætti eingöngu skilið

hrós í samræmi við þann möguleika sem það hefði til þess að verða eitthvað í

framtíðinni. Að auki taldi hann feður ekki bera neina ábyrgð á mistökum sona sinna.363

361 O. M. Bakke, When Children Became People: The Birth of Childhood in Early Christianity, Minneapolis: Fortress Press, 2005, bls. 11. 362 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 15-16. Sem dæmi um nautnir nefnir hann tónlist og löngun eftir sætindum, eins og hunangi. 363 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 16-17, 19, 38.

Page 129: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

128

Börn voru líka talin ímynd líkamlegs veikleika og ótta eða skorts á hugrekki. Platón og

aðrir heimspekingar sáu jafnframt börn eins og „óskrifað blað“ (e. wax tablet) sem hægt

var að móta að vild. Samkvæmt Aristóteles voru börn ekki fullkomnar manneskjur. Þá

var einnig líkamleg refsing talin nauðsynleg í kennslu. Seneca var meðal þeirra sem

aðhylltust það viðhorf. Virtist það grundvallast á þeirri trú að tilgangslaust væri að tala

við börn því þau skorti skynsemi. Því þurfi bæði börn og þrælar líkamlega refsingu.364

O. M. Bakke segir það ljóst að í heimspekihefðinni hafi börnin, ásamt öðrum veikari

hópum, verið skilgreind sem hin neikvæða andstæða hins frjálsa karlkyns borgara vegna

skorts á styrkleika og skynsemi.365

Kringumstæður barna hins grísk-rómverska heims voru almennt afar slæmar. O. M.

Bakke nefnir skort á hreinlæti, sjúkdómahættu og háa dánartíðni og segir að um 50

prósent allra barna hafi dáið fyrir tíu ára aldur vegna bágborinna aðstæðna og

næringarskorts. Ein helsta ástæða barneigna var sú að börnin voru fyrir foreldrunum

fjárfesting til framtíðar. Skylda konunnar var að hlýða og hjálpa eiginmanni sínum og sjá

til þess að hann eignaðist erfingja sem haldið gat nafni, heiðri og trúarathöfnum

fjölskyldunnar gangandi. Auk þess var erfingi trygging fyrir því að séð yrði fyrir manni í

ellinni, maður hlyti virðulega útför og að minningunni um mann yrði haldið á lofti.366

Síðan var ýmsum leiðum beitt til þess að takmarka fjölskyldustærðina. Bæði var algengt

að láta eyða fóstri og bera út börn í hinum grísk-rómverska heimi. Þá voru stúlkur fremur

bornar út en drengir. Það var bæði löglegt og talið eðlilegt en það féll í hlut höfuðs

fjölskyldunnar, föðurins, að ákveða líf og dauða annarra fjölskyldumeðlima. Móðirin

hafði aftur á móti engan lagalegan rétt yfir börnum sínum. Enda var það t.a.m. mat

Plútarkosar að barn sem ekki enn hafði misst naflastrenginn, væri í raun meira eins og

364 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 18-21. Seneca vildi skýra hvernig hinn vitri maður áminnti þann sem hafði komið óréttlátt fram við sig: „…rétt eins og þeir væru börn, áminnum við þá og völdum þeim þjáningu og refsingum… Því með sama hætti fái menn dýrin til að stoppa með því að nota svipuna… þannig agi maður þau til þess að sigrast á mótspyrnu þeirra með sársauka. 365 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 21. 366 Sama heimild, bls. 22-26. Kom þetta viðhorf m.a. hjá Ágústínusi keisara í viðleitni hans til að sannfæra velstæða rómverska borgara til þess að eignast börn. Hann minnti á að börnin væru arftakar og erfingjar bæði fjölskylduarfleifðarinnar og eigna. Grísk-rómverskar heimildir fjalla mest um börn í tengslum við erfðarétt.

Page 130: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

129

planta en manneskja.367 Seneca hinn yngri sagði það vera venja að börnum með

líkamlega ágalla væri drekkt. Bakke bætir við að þeim börnum sem virkuðu á einhvern

hátt veikluleg hafi verið drekkt.368 Fyrirboðar um ógæfu gátu einnig leitt til þess að

foreldrar létu bera út barn.369 Flest barnanna sem borin voru út dóu. Það eru þó til

heimildir sem vitna um að sumum þessara barna var bjargað. Mörgum var þó bjargað á

tímum þar sem mikil eftirspurn var eftir þrælum. Þannig enduðu flest þeirra sem þrælar

eða þau voru nýtt í vændi.370 Fyrstu heimildirnar um andmæli gegn barnaútburði finnast

í skrifum Gyðingsins Fílons frá Alexandríu. Þar á eftir hjá stóuspekingnum Musoníusi

Rúfusi en hans rök voru þau að virða bæri guðina, þá sérstaklega Seif (gr. Zeus) sem hann

áleit verndara fjölskyldunnar. Einnig andmælti nemandi hans Epiktetos þessu og sagði

það stríða gegn mannlegu eðli að neita að ala upp eigin börn. Engin lög voru þó til gegn

útburði barna fyrr en í valdatíð Valentínusar 384 e.Kr.371

Uppeldi barna tók mið af því að þau voru hluti af húshaldinu (gr. oikos), þ.e. eignum,

fjölskyldu og þrælum er lutu valdi húsbóndans (gr. paterfamilias). Bakke segir hina grísk-

rómversku menningu hafa einkennst af ásókn eftir heiðri og ótta við skömm. Ef hjón

367 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 26-30, 38. Bakke nefnir eins og Rodney Stark að heimildir bendi til þess að fóstureyðingar hafi verið ein megin dánarorsök kvenna, ásamt því að orsaka ófrjósemi. Ákvörðun um útburð barns var iðulega tekin á fyrstu 8-9 dögunum. Eftir það var barninu gefið nafn með athöfn. Barnaútburður jókst mikið í grískum samfélögum og einnig í Egyptalandi eftir tíma Alexanders mikla á 1. öld f.Kr. Á 1.-2. öld e.Kr. segir Bakke barnaútburð orðinn svo algengan að fjölmargar heimildir fjalli um það. Þó vald húsbóndans hefði verið takmarkað á 1. öld f.Kr. var það enn svo að hann réði því hvort bera mætti út kornabarn. 368 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 31. Bakke nefnir lista frá lækninum Soranusi yfir öll þau skilyrði sem börn urðu að uppfylla til að geta talist nógu hraust til þess að mega lifa. 369 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 30-31. Svetoníus segir t.a.m. frá því að Ágústínus keisari hafi komið á lögum 63 f.Kr. sem bönnuðu foreldrum að ala upp drengi það árið vegna fyrirboða um eitthvað illt. Bakke bætir við að einnig hafi það tíðkast að bera út börn sem mótmæli til goðanna, vegna atburða sem áttu sér stað og fólk kenndi goðunum um. Svetoníus segir eins frá því er fólki bárust fregnir af dauða Germanicusar, hins vinsæla krúnprins og föður Calígúla, þá hafi sumir foreldrar brugðist við með því að bera út börnin sín. Bakke bætir við að fátækt hafa verið eina af ástæðum barnaútburðar. 370 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 32. 371 Sama heimild, bls. 32-33. Bakke bætir við að á 1. öld e.Kr. hafi jafnvel Takítus komið með einhverja gagnrýni á barnaútburð. Á sama tíma hafi yfirvöld á einhverjum svæðum Ítalíu tekið fyrir þetta, en skýringin var sú að þeir voru að takast á við það vandmál sem blasti við vegna fólksfækkunar. Sjá nánar um Epiktetos (55-135 e.Kr.). Hann hafði verið þræll sem drengur en náði að nema fyrirlestra hjá stóuspekingnum Musoníusi Rúfusi. (The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Epectetus: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. júlí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Epictetus-Greek-philosopher).

Page 131: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

130

skildu réði faðirinn hvort hann vildi halda börnunum, sem hann gerði í flestum tilvikum.

Ef eiginmaðurinn lést hélt konan börnunum. Það var ekki fyrr en á 4.-5. öld e.Kr. sem

lögin drógu úr alræðisvaldi húsbóndans yfir öllum meðlimum heimilisins. Algengt var að

börn væru gefin frá foreldrum vegna fátæktar eða vegna þess að foreldrarnir, eða

börnin, þurftu að fara annað að vinna. Í betur stæðum fjölskyldum voru brjóstamæður,

barnfóstrur og kennarar ríkir þátttakendur í uppeldi barna (oftast þrælar og þjónar) og

því minni nánd við foreldrana. Til var hugmyndin um fyrirmyndarföðurinn sem kom fram

við börnin af nokkurri virðingu og réttlæti og sýndi hófsemi í líkamlegum refsingum.

Ekkert í lögunum kom þó í veg fyrir misbeitingu valds. Ofbeldi gegn börnum var

samfélagslega viðurkennt og þótti sjálfsagt. Venjan var að kennarar beittu börnin

ofbeldi. Það voru hins vegar aðeins um tíu prósent barna sem nutu þeirra forréttinda að

fá að fara í skóla. Hin 90 prósentin þurftu snemma að fara að vinna.372

Af þessari samantekt mætti ætla að foreldrar hins grísk-rómverska heims hafi

almennt ekki elskað börnin sín. O. M. Bakke bendir þó á að til séu heimildir um foreldra

sem syrgðu látin börn sín. Þó að heimspekingurinn Cicero hafi gagnrýnt það harðlega að

foreldrar væru að syrgja látin börn sín og hafi sagt það ekki við hæfi, þá votti það að

einhverjir foreldrar gerðu einmitt þetta. Fram kemur svipuð gagnrýni hjá

stóuspekingnum Seneca sem áleit karlmann er syrgði látinn son sinn sýna merki um of

kvenlega hegðun. Þannig virtist Seneca telja við hæfi að konur syrgðu börnin sín.373 Aðrir

heimspekingar höfðu meiri skilning á sorginni. Plútarkos huggar t.a.m. konu sína með

bréfi þar sem hann fer fögrum orðum um hina fallegu tveggja ára dóttur sem þau misstu.

Bakke kemst að þeirri niðurstöðu að einhverjum foreldrum hafi þótt vænt um börnin

sín.374 Ef raddir kvenna frá þessum tímum væru fleiri má vel ímynda sér að þær gæfu

okkur sterkari mynd af móðurástinni sem lítið fer fyrir í gegnum penna karlmannanna.

372 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 33-40. Ágústínus kirkjufaðir fjallaði t.d. um erfiðu árin sín í skóla þar sem kennarinn var fyrir honum orðinn að samnefnara fyrir líkamlegar refsingar. Þó voru einhverjir sem andmæltu líkamlegum refsingum skólabarna. Nefnir Bakke hér Quintilian og Cato. 373 O. M. Bakke, When Children Became People, bls.45-47. Bakke segir Cicero hafa sýnt lítinn áhuga er barnabarn hans, sem var stúlka, lést, „referring to the dead girl as a „thing“.“Hins vegar fann Cicero huggun í félagsskap eiginkonu, dóttur og sonar, er hann missti og syrgði bróður sinn. 374 O. M. Bakke, When Children Became People, bls.46-47, 49-51. Bakke segir þó að algengara sé að finna heimildir um sorg foreldra yfir missi barna eldri en fimm ára og mest eftir unglingsárin. En skoða verði

Page 132: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

131

Sjálfsagt þótti fyrir vel stæðar fjölskyldur að hafa þræla. Ef þrælar eignuðust börn

varð barnið eign húsbóndans á heimilinu og loks varð það einnig þræll. Húsbóndinn gat

selt barn þræls á unga aldri ef honum þóknaðist það og aðskilið það þannig frá móður

sinni. Börn þræla áttu einstaklega erfitt og þurftu að líða líkamlegt og andlegt ofbeldi.375

Einnig þótti ekkert óeðlilegt við kynferðislega misnotkun, eða kynferðislegt samband á

milli barns og fullorðins karlmanns samkvæmt Bakke. Kynlíf með ungum piltum var

upphafið sem göfugt og jafnvel betra en gagnkynhneigt kynlíf við maka. Kynlíf hins

fullorðna frjálsa karlmanns var talið eðlilegt svo fremi sem hann var gerandinn og ríkjandi

aðilinn (e. active and dominating) í sambandinu og hinn aðilinn óvirkur og undirgefinn

(e. passive and submissive). Þar með var kynlíf, þar sem hinn fullorðni og frjálsi

karlmaður var óvirkur (e. passive), talið óásættanlegt.376 Samkvæmt þessu hefur

eingöngu misnotkun á börnum og þrælum verið samfélagslega samþykkt í m.a.

samkynhneigðu kynlífi á þessum tímum. Var þetta skoðun Grikkja, en Rómverjar voru

ekki alveg sammála og gagnrýndu Grikki fyrir að leyfa kynlíf með ungum piltum sem

seinna myndu verða frjálsir karlmenn. Að öðru leyti voru þeir sammála Grikkjum í

jákvæðu viðhorfi sínu til barnaníðs.377 Bæði Grikkir og Rómverjar töldi því misnotkun og

kynlíf með börnum, sem ekki yrðu frjálsir karlmenn seinna meir, vel ásættanlegt. En hins

vegar var samkynja ást og kynlíf tveggja frjálsra karlmanna fordæmt. Vændishús í

mörgum bæjum voru af þessum sökum full af ófrjálsum drengjum. Sumir keyptu unga

pilta sem þræla til þess að nota þá kynferðislega. Stóuspekingurinn Mussoníus Rúfus á

það út frá því að foreldrar sáu börn sem arftaka og umsjónaraðila í ellinni. Sum börn Rómverja gegndu reyndar mikilvægu hlutverki við trúarathafnir en aðallega vegna hreinleika þeirra, þ.e. vegna meydóms og sveindóms. Hlutverk barna í opinberum trúarathöfnum gegndi meira pólitískum tilgangi með það að marki að hvetja rómverska borgara til þess að eignast fleiri börn á tímum fólksfækkunar. 375 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 40-41. 376 Sama heimild, bls. 41-42. Bakke vísar hér til niðurstöðu Kenneth Dovers sem sýnir fram á að mest öll „samkynhneigð“ sem stunduð var í Grikklandi átti sér stað á milli fullorðins karlmanns og drengja frá um 12 ára aldri og upp úr. Var slíkt samband álitið eðlilegt og heilbrigt og hvorki siðfræðin né lögin bönnuðu það. Þótti þetta enn fremur göfugt og var talinn eðlilegur liður í því að þroskast og fullorðnast. Þá var þetta jafnvel talinn betri kostur en gagnkynhneigt kynlíf. Í dag sjáum við auðvitað að þarna er á ferð barnaníð og eflaust var þetta sú mynd er blasti við Páli postula er hann andmælti „samkynhneigð“ í Korintubréfi sínu. 377 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 43. Var þetta skýringin á því af hverju Rómverjar reyndu að vernda frjáls börn frá kynferðislegri misnotkun. Nauðgun á frjálsu barni fylgdi hörð refsing en að tæla börn var ekki eins alvarlegt. Engin refsing var fyrir það sama ef barnið var komið af þrælum.

Page 133: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

132

1. öld e.Kr. velti t.a.m. upp þeirri spurningu hvort drengur gæti talist óhlýðinn ef hann

neitaði að leyfa karlmanni að nota sig kynferðislega.378 Endurspeglar þessi samantekt á

lífi og kringumstæðum barna hins grísk-rómverska heims að líf flestra þeirra var í raun

harðneskjulegt og að mörg barnanna sættu grimmilegu ofbeldi og misnotkun.

4.2.4 Áhrif kristins boðskapar á líf barna á fyrstu öldum trúarinnar

Til að skilja áhrif kristinnar boðunar á líf barna hins grísk-rómverska heims skoðar

O. M. Bakke skrif kirkjufeðranna um börn. Sér hann þar afgerandi mun á því hversu

algengara það var á meðal kristinna að talað væri jákvætt um börn, t.d. með því að segja

þau yndisleg og saklaus. Hjá kirkjufeðrunum kom m.a. fram umfjöllun um hina biblíulegu

myndlíkingu á bernskunni sem fyrirmynd hins kristna lífs, út frá orðum Jesú að maður

komist ekki til himnaríkis nema verða eins og barn (Matt 18.1-4) og að himnaríkið sé

barnanna (Matt 19.13-14). Klemens frá Alexandríu fjallaði um þessa myndlíkingu í riti

sínu Fræðarinn (gr. Paedagogus). Þar líkir hann Kristi við fræðara/kennara sem taki þátt

í trúarlegum þroska „barna“ sinna í átt til andlegs þroska. Klemens sagði þessi ummæli

Jesú til komin vegna þess að börn séu fyrirmyndir í einfaldleika sínum. Þau séu ljúf (e.

gentle), án svika og fals, ekki upptekin af auðæfum, stétt eða stöðu og stjórnist ekki af

óskynsamlegum girndum. Þau séu einnig trú og hlýðin föður sínum og sjái Guð einan

sem föður. Hver sem fari eftir því boði Jesú, að hafa ekki áhyggjur af veraldlegum hlutum

heldur gefa allan sinn huga og hjarta Guði föður, sé sannarlega barn frammi fyrir Guði.

Klemens sá því börn sem jákvæða fyrirmynd fyrir samband fullorðinna við Guð. Hann

talaði ekki, eins og heimspekingarnir, um að börn skorti skynsemi heldur nefndi það sem

kost hversu einföld og saklaus þau væru.379 Klemens fordæmdi auk þess karlmenn sem

378 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 43-44. Var Mussoníus að fjalla um tilvik þar sem frjáls faðir hafði þurft að selja son sinn til þrælkunar og sá drengur neitaði að láta nota sig kynferðislega. Þannig hefur fyrrnefnd gagnrýni Mussoníusar á barnaútburð ekki stafað af virðingu fyrir öllum börnum heldur einungis frjálsbornum. Kynferðisleg sambönd á milli drengja og karlmanna voru svo algeng að vandi „Fals-Plútarkosar“ (e. Pseudo-Plutarch) var helst sá að ákveða hvort feður ættu að leyfa karlmönnum að stunda kynlíf með sonum sínum. 379 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 21, 56-63. Klemens minnti einnig á að fólk kalli mikilvægust gæði lífsin heitum sem runnin séu frá orðinu „barn“, þ.e. „menntun“ (gr. paidagogia) og „menning“ (gr. paideia). Með þessu virðist Klemens tengja börn grundvallar eiginleikum menningar og færa stöðu og gildi barna upp á hærra plan en venja var.

Page 134: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

133

viku sér undan hjónabandi og börnum. Börnin séu blessun fyrir foreldrana og barnsmissir

eitt það versta sem til sé. Bakke segir það ótrúlegt hversu oft Klemens noti börn sem

jákvæðar fyrirmyndir. Orígenes (185-253 e.Kr.) tileinkaði sér þessa hugsun Klemensar að

sjá börn sem jákvæðar fyrirmyndir. Ummæli Jesú um börnin sem fyrirmyndir sagði

Orígenes hafi verið tjáð vegna frelsis þeirra frá girndum. Auk annarra þátta nefndi hann

áhugaleysi þeirra á stétt og stöðu.380

Í ritinu Hirðir Hermasar segir að dygðir trúarinnar séu m.a. einfaldleiki (e. simplicity),

guðsótti og aðhald (e. restraint). Höfundur þess segir hinum trúuðu að vera í einfaldleika

og sakleysi og þá muni þau verða eins og börnin sem þekki ekki illskuna er eyðileggi líf

mannanna. Endurspeglar þetta þá kosti sem höfundurinn tengir við börn, þ.m.t. frelsi frá

illsku. Í sýn er höfundurinn sá um fyrirmyndarkirkjuna komu meðlimi kirkjunnar fyrir eins

og saklaus börn. Ritið segir þá sem leitast við að verða eins og börn verða dýrðlega því

öll börn séu dýrðleg fyrir Guði og í æðstu stöðu fyrir honum. Þannig séu þau blessuð sem

láta af illsku og „íklæðist“ hreinni samvisku. Bakke segir Klemens, Orígenes og Hirði

Hermasar þannig alla hvetja hin kristnu til þess að verða lík börnum sem þeir álitu að

eðlisfari laus við illsku. Í Barnabasarbréfi segi jafnframt að Guð hafi gert hin kristnu ný

með því að hreinsa þau af syndum svo að þau öðlist barnssálir og verði eins og ný sköpun.

Finnst Bakke sem þarna sé verið að líkja sálum barna við guðsmyndina (lat. imago Dei)

innra með mönnum eða a.m.k. við jákvæða endurnýjun hins trúaða.381

Í trúvörn Aristídesar frá Aþenu (117-138 e.Kr.) kemur m.a. fram að hinir kristnu færi

Guði ávallt þakkir fyrir hvert nýfætt barn. Hann gagnrýndi einnig grísku goðin og benti á

að Herakles hefði í reiði sinni drepið eigin börn og að í Satúrnusardýrkun stundi menn að

fórna börnum og brenni sum þeirra lifandi. Bakke segir þetta sýna að hin kristnu mátu

380 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 62- 65. Orígen segir að hver sá sem deyði losta karlmennskunnar það mikið að hann nái að verða eins og barn sem ekki hefur kynnst ástríðum (gr. afrodision) og hafi enga hugmynd um hvatir mennskunnar, sá sé orðinn umbreyttur og orðinn eins og börnin. Er hann að tala hér um hina jákvæðu eiginleika bernskunnar er tengjast sakleysi og frelsi frá girndum holdsins. Bakke segir þetta endurspegla meinlætalega hugsun sem hafi þarna farið vaxandi. 381 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 65-67. imago Dei er latneska þýðingin á „í mynd Guðs“ og er notað í guðfræðilegri umræðu í tengslum við þá ritningarstaði sem segja manninn skapaðan „í mynd“ Guðs eða líkan honum (sbr. 1Mós 1.27).

Page 135: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

134

börn mikils.382 Enda virðist Aristídes stíga fram af hugrekki til varnar börnum almennt.

Þá taldi Tertúllíanus kornabörn ekki þurfa skírn því þau væru saklaus og syndlaus og

himnaríki væri þegar þeirra en þau geti gerst kristin þegar þau séu orðin nógu gömul til

að læra að þekkja Krist.383 Kýpríanus biskup á 3. öld e.Kr. sá kornabörn sem fullkomnar

syndlausar manneskjur. Hann líkti því að umfaðma barn við að umfaðma hendur Guðs

sjálfs. En sem afkomendur Adams taldi Kýpríanus engu að síður mikilvægt að skíra

kornabörn.384

O. M. Bakke sér að jákvætt viðhorf kristinna höfunda í garð barna hélst áfram á 4.-5.

öld e.Kr. og algengt var að talað væri um sakleysi þeirra. Komi þetta viðhorf m.a. fram í

deilu Ágústínusar kirkjuföður við Pelagíusarsinna. Ágústínus áleit börnin saklaus og því

væri það ekki vegna persónulegra synda þeirra heldur erfðasyndarinnar (frá Adam) sem

þyrfti að skíra þau.385 Þá virtist Gregoríus frá Nyssa einnig sjá kornabörn sem saklaus.

Hann sagði þau hvorki hafa gert gott né vont og því hljóti þau umbun að þessu lífi loknu.

Börn jafnt sem fullorðnir séu sköpuð í mynd Guðs og það sé Guðs vilji að kornabörn

frelsist. Auk þess fordæmdi hann dráp á kornabörnum.386

Jóhannes gullinmunnur, erkibiskupinn í Konstantínópel á 4. öld e.Kr., ritaði m.a. um

kristilegt uppeldi barna. Hann útskýrði orð Jesú í Matteusarguðspjalli (Matt 19.14)

þannig að Jesús hafi viljað kenna lærisveinunum að hafa að engu hið mannlega stolt.

382 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 67-69. Íreneus var á meðal þeirra er töluðu um börn sem saklaus og laus við siðlausar hugsanir. 383 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 68-71. Kýpríanus (e. Cyprian) biskup ritaði um 253 e.Kr. um barnaskírn til að svara hinum afríkanska biskupi Fídeusi er dró í efa nauðsyn barnaskírnar. Kýpríanus vísaði til orða Jesú í Lúk 9.56 sem segir Mannssoninn ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að bjarga. Þannig eigi kirkjan að taka þátt í að bjarga sálum, líka nýfæddra barna. Þar sem börnin hafi verið sköpuð fullkomin af Guði ætti ekki að útiloka þau frá miskunnar og náðargjöfum Guðs. Guð geri ekki persónu- eða aldursmun heldur bjóði sjálfan sig sem föður allra svo þeir öðlist náð hans. 384 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 70-72. Það var því ekki vegna syndar barnsis sem þurfti að skíra það, að mati Kýpríanusar, heldur af því að barnið var manneskja og afkomandi Adams. 385 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 72-73. Pelagíus taldi að menn gætu frelsað sjálfa sig með viljaákvörðuninni einni og að það að syndga beri vott um siðferðilegan slappleika. Ágústínus hélt aftur fram erfðasyndinni og vangetu manns til að frelsa sjálfan sig. Við værum öll syndug sem afkomendur Adams og í þörf fyrir frelsun Guðs (Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 86). 386 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 73-77. Gregoríus gerði þó greinarmun á milli þeirra sem höfðu erfiðað fyrir trúna og þeirra sem ekkert höfðu gert í tengslum við vægi umbunar í himnaríki. Gregoríus frá Nyssa (e. Gregory of Nyssa) var einn af Kappadókíufeðrunum á 4. öld (d. 395 e.Kr) er tók þátt í mótun Níkeujátningarinnar og orðaforða guðfræðinnar um heilaga þrenningu (Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, bls. 62).

Page 136: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

135

Hann hafi viljað sýna þeim börnin sem fyrirmyndir þeirra er hljóti himnavist, því sál lítilla

barna sé hrein af öllum ástríðum. Börn leiti auk þess alltaf til foreldra sinna og velji

fremur tötrum klædda móður sína en prúðbúna drottningu. Þau meti ekki fólk eftir ytri

fegurð. Þau óski aðeins þess sem nauðsynlegt er og veraldaráhyggjur eins og peningar

raski ekki ró þeirra. Af þessum sökum hafi Jesús sagt að þeirra væri himnaríkið. Jóhannes

sagði sálir barna lausar við illsku og hvíla í hendi Guðs. Hann sá syndafallið sem eitthvað

er orsakaði dauða manna fremur en syndugt eðli þeirra og þar með hafi lítil börn engar

syndir til að fyrirgefa.387 Hann hvatti foreldra til að kenna ungum börnum sínum á

skólaaldri biblíusögur og endursegja þær á einfaldan máta svo að börnin skilji og verði

ekki þreytt. Hann taldi þau auk þess geta beðið ákaft og sýnt sanna iðrun. Jóhannes trúði

því að hægt væri að móta börn og ala til góðs en foreldrar þurfi að fylgja því eftir að

innræta þau með jákvæðri hegðun og þjálfa snemma upp í dygðum. Bakke bendir á að

þannig hafi Jóhannes augljóslega haft trú á getu þeirra til náms bæði í fróðleik og góðri

siðferðilegri framkomu. Jóhannes taldi jafnframt að er foreldrar kenni börnum sínum

dygðir frá Guði, eins og mildi, fyrirgefningu, gjafmildi og kærleika, birti börnin

guðsmyndina (lat. imago Dei) innra með sér.388 Af þessu er augljóst að Jóhannes hafði

mikla trú á andlegri getu barna til náms og taldi þau nógu skynsöm til að greina rétt frá

röngu auk þess að vera mikilvæg í augum Guðs.

Heilagur Híerónýmus (e. St. Jerome) um 400 e.Kr. sagði það hjálpa í uppeldinu að

umbuna börnum. Hans ráð varðandi menntun stúlku einnar voru þau að strax um sjö ára

aldur ætti að byrja að kenna henni að leggja á minnið og lesa ritningarnar. Einnig hafði

hann trú á að á þessum aldri gæti barn strax helgað sig með bænum og sálmasöng. Hann

áleit að auðvelt væri að móta börn og því þyrfti að passa að sú mótun yrði í átt til góðs

387 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 78-83. Virðist hann hér ekki á sama máli og Ágústínus kirkjufaðir er taldi mannfólk syndugt vegna erfðasyndarinnar. Jóhannes hvatti einnig foreldra til þess að kenna börnunum að forðast hégóma og ágirnd, leita ekki eftir stétt, stöðu og auðæfum. Þannig segir Bakke hann augljóslega vera að tala um kornabörn og lítil börn er hann lýsir börnum sem fyrirmyndum í þessum kristnu dygðum. Sjá einnig orðabók Britannica (Donald, Attwater, „St. John Chrysostom“, Encyclopædia Britannica, sótt 24. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-John-Chrysostom). 388 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 83-85.

Page 137: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

136

en ekki ills.389 Híerónýmus virðist samkvæmt þessu ekki hafa séð neitt því til fyrirstöðu

að ungar stúlkur menntuðu sig. Ræðir hann um bóknám stúlkna eins og sjálfsagðan hlut.

Heilagur Ágústínus frá Hippó (354-430 e.Kr.) vildi rökstyðja syndaeðli manna og sagði

börn í frumbernsku ekki syndlaus heldur á valdi erfðasyndar. Þó að lítil börn hafi ekki

framkvæmt neina persónulega synd sjálf stafi sakleysi þeirra aðeins af líkamlegri vangetu

þeirra til þess að framkvæma illt. Eftir frumbernskuna og fram til fimmtán ára aldurs taldi

Ágústínus börn vel eiga skilið refsingar, bæði foreldra og kennara, fyrir syndir og óhlýðni

við þau. Ágústínusi fannst þó sú refsing sem hann fékk frá sínum kennara, þ.e. flenging

með staf eða svipu, of hörð. Hann gagnrýndi líka að fullorðnir refsi skólabörnum á meðan

þeir hegði sér síðan með sama hætti sjálfir. Ekki skyldi refsa börnum jafn harkalega og

fullorðnum. Þegar skilningur barna aukist fari þau að geta skilið betur fyrirmæli Guðs er

tengdust endurlausninni og um leið vaxi löngun þeirra til að hlýða þeim.390 Endurspeglar

þetta fremur jákvæða sýn Ágústínusar á þroska, getu og skilning barna ásamt viðleitni til

mildari uppeldisaðferða samanborið við sinn samtíma, þrátt fyrir að hann sæi börnin

ekki sem syndlaus og samþykkti refsingar þeirra. Bakke bendir á að það hvað Ágústínusi

var umhugað um frelsun og björgun sálna barna með skírn endurspegli að hann hafi séð

börn sem verðuga og trúaða einstaklinga er þörfnuðust sömu trúarlegu næringar og

fullorðnir.391 Sannfæring Ágústínusar um erfðasyndina hefur vakið með honum ótta og

389 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 86-87. Þessi uppeldis- og menntunarfróðleikur Híerónýmusar var svar hans til foreldra sem vildu fá aðstoð við að ala dóttur sína upp í lífi helguðu hreinlífi. Tekur textinn því svipmót af því og er t.d. mælt með að foreldrarnir forðist að venja dótturina við allskyns skraut og falleg klæði, sem hún myndi síðan þurfa að snúa baki við síðar. Erfitt er að horfa jákvæðum augum á að foreldrar svipti barn fyrirfram ákvörðunarrétti um eigin framtíð. Engu að síður verður að teljast gott að þarna var talið sjálfsagt að stúlkur fengju að menntast og að þær gætu lært utanbókar biblíutexta strax frá sjö ára aldri. Ef til vill sáu foreldar klausturlíf sem líf forréttinda og virðingar borið saman við lífsbaráttuna utan klausturveggjanna í þá daga. Heilagur Híerónýmus (347-420 e.Kr.) var biblíuþýðandi og ábóti (e. monstic leader). Sjá nánar á orðabók Britannica. (Walter John Burghardt, „St. Jerome: Christian Scholar“, Encyclopædia Britannica, sótt 25. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Jerome). 390 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 88-94. Ummæli Jesú um börnin sem fyrirmyndir taldi hann einungis vísa til lágrar stöðu þeirra en ekki syndlaust eðli. Ágústínus ritaði mest um börn í varnarriti sínu Confessions (um 397 e.Kr.) og ritum er tengdust pelagíanusardeilunni. Ágústínus frá Hippó var einn af kirkjufeðrunum (354-430 e.Kr.) og er þekktur fyrir að hafa tekið þátt í að greiða úr tveimur mikilvægum deilum innan kirkjunnar. Annars vegar Pelagíusardeilunni (e. Pelagian controversy) og hins vegar dónatistadeilunni (e. Donatist controversy). (Alister E. McGrath, Historical Theology, bls. 64). 391 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 89, 93-94, 96-103. Ágústínus gerði ráð fyrir sex þroskaskeiðum lífsins. Fyrst þeirra var frumbernskan sem varði frá fæðingu þar til barnið lærði að tala.

Page 138: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

137

áhyggjur af velferð barna að þessu lífi loknu, þrátt fyrir að eldri kirkjufeður hafi ekki talið

þörf fyrir slíkan ótta.

Það sem hér hefur fram komið sýnir að almennt sáu kirkjufeðurnir börnin sem

jákvæðar fyrirmyndir sakleysis er endurspegli sköpun í Guðs mynd. Kirkjufeðurnir tjáðu

umhyggju sína fyrir börnum og sýndu áhyggjur af velferð þeirra. Bakke bendir á að þeir

hafi jafnvel fjallað um börn í guðfræðilegum umræðum. Slíkt fordæmi finnist ekki í

hinum heiðnu grísk-rómversku hefðum heldur gagnrýndu Ciceró og Seneca foreldra fyrir

að syrgja börnin sín. Viðhorf kirkjufeðranna endurspegli aftur að fyrir þeim voru börn

mikilvæg sem einstaklingar og verðugar manneskjur sem einnig hljóti frelsun. Var

jákvætt viðhorf þeirra til barna langt umfram það sem tíðkaðist meðal hinna heiðnu

heimspekinga.392 Þó má vel spyrja hvort öll þessi fagurmælgi hafi skilað sér í

raunverulegri virðingu fyrir börnum? Margt virðist benda til þess að svo hafi verið.

O. M. Bakke fjallar einnig ítarlega um viðhorf kirkjufeðranna til fóstureyðinga,

útburða og barnaníðs. Hann segir augljóst að hinir kristnu hafi tileinkað sér gyðingleg

viðhorf hvað þetta varðar. Fræðimenn meðal Gyðinga, bæði frá Alexandríu og Palestínu,

voru sammála um að ekki mætti eyða fóstri nema í neyð, t.d. ef líf móður var í hættu en

ekki til að takmarka fjölda barna. Var það almennt viðhorf þessara fræðimanna, þó þeir

gerðu einhvern lagalegan greinarmun eftir fósturþroska, að það væri siðlaust að drepa

fóstur og var það því skilgreint sem morð.393 Þeir fordæmdu einnig útburð en Fílon frá

Næsta þroskastig varði frá bernsku fram að 15 ára aldri. Bakke segir Ágústínus hafa talið alvarleika syndanna aukast er nær dró fullorðinsárunum. Unglingar hafi getu til að greina rétt frá röngu án aðstoðar foreldranna og beri því fulla ábyrgð á hegðun sinni. Þau séu orðnir syndarar sem þurfi að iðrast. Pelagíus, er deildi við Ágústínus um erfðasyndina, taldi mannfólkið, í kjölfar skírnarinnar, öðlast getu til að standast syndir. Hann ásakaði Ágústínus um að segja nýfædd börn sem ekki hafi verið skírð fara til helvítis en það stríði gegn réttlætis-eiginleika Guðs. Kenning um erfðasynd stríði þannig gegn frjálsum vilja manna og réttlæti Guðs. Ágústínus taldi aftur ólíka fæðingargalla barna benda til þess að þau væru undir erfðasynd. Þannig þjáist sum börn án þess að eiga það skilið. Réttlátur Guð refsi ekki með þjáningu þeim sem ekkert hafi gert til að eiga það skilið. Þarna virðist Ágústínus álykta að sjúkdómar og veikindi komi fram vegna synda er fólk drýgi og notar erfðasynd sem skýringu á því. 392 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 104-109. 393 Sama heimild, bls. 110-112. Fræðimenn meðal Gyðinga ræddu m.a. á hvaða þroskastigi meðgöngunnar væri hægt að tala um lagalegan rétt barns og þá hvaða refsingu sá fengi sem orsakaði það að ólétt kona missti fóstur á meðgöngunni. Þarna var vægi refsingar iðulega háð því hvort fóstrið var komið með mannsmynd eða ekki. Bakke ber þetta saman við heimspekingana en Aristóteles taldi fóstrið ekki komið með lífskraft fyrr en eftir 40 daga meðgöngu hjá drengjum, en 90 daga hjá stúlkum. Platón taldi lífið byrja við getnað en stóuspekingar ekki fyrr en við fæðingu.

Page 139: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

138

Alexandríu sagði t.a.m. foreldra sem beri út börnin sín sek um verstu svívirðu, þ.e. morð

á eigin börnum. Þau gefi börnin sín sem fæðu fyrir villidýrin er hópist saman til veislu í

boði foreldranna. Foreldrarnir ættu framar öllum öðrum að vera verndarar barna sinna.

Viðhorf þessara fræðimanna endurspegla að þeir sáu það sem skyldu sína að vernda

börnin.394 Gyðingasagnfræðingurinn Jósefus sagði lög Gyðinga fyrirskipa að ala skuli upp

öll börn. Þau banni að láta eyða fóstri eða drepa nýfædd börn og þannig tortíma lífi og

valda fækkun innan kynstofnsins.395 Virðist þetta endurspegla að Gyðingar hafi trúað því

að það væri heilagt boð Guðs til þeirra bæði að virða lífið og að fjölga í kynstofni sínum.

Bakke bendir á að líklega hafi þessi hugsun sprottið út frá nauðsyn Gyðinga til að viðhalda

kynstofni sínum og þar með nálægð Guðs á jörðu.396 Eflaust höfðu herleiðingar og

ofsóknir vakið upp frekari ótta við að hinn útvaldi kynstofn þeirra þurrkaðist út og JHVH

átrúnaðurinn með.

Kristnir byggðu viðhorf sitt til fóstureyðinga og barnadrápa á hinum gyðinglegu

boðum. Kristnar heimildir utan Nýja testamentisins undirstrika þetta eins og

Tólfpostulakenningin (gr. Didache) frá byrjun 2. aldar. Nefnir ritið bann við

fóstureyðingum, barnadrápum og útburði og segir það fólk sem stundi slíkt

barnamorðingja er skaði sköpun Guðs. Það fólk sýni ekki heldur fátækum miskunnsemi

né standi með málstað hinna kúguðu. Bakke segir ritið endurspegla að viðhorfið til barna

var það sama og viðhorf til fullorðinna er liðu skort og þörfnuðust umhyggju. Auk þess

segi það börn sköpun Guðs.397 Barnabasarbréf frá u.þ.b. 2. öld e.Kr. birtir sömu skoðun.

394 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 112. Fræðimenn meðal Gyðinga vísuðu oft í 1. Mósebók 1.28 sem rök fyrir máli sínu varðandi fóstureyðingar. 1. Mósebók 1.28 segir: „Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina….“ Þannig virðast þeir hafa séð þetta biblíuvers sem einskonar „boðorð“ fremur en sem jákvæða hvatningu til frjósemi. 395 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 113. Jósefus (e. Joseph ben Matthias, seinna Flavius Josephus) var uppi 37-100 e.Kr. og ritaði sagnfræði Gyðinga. Líklega hefur hann fjallað um þessi lög Gyðinga í ritverkinu um gyðingdóm Antiquitates Judaicae. Verk Jósefusar um gyðingdóm var ritað til þess að kynna gyðingdóm fyrir hinum helleníska heimi. (Gary William Poole, „Flavius Josephus: Jewish Priest, Scholar, and Historian“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. júlí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Flavius-Josephus). 396 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 113. 397 Sama heimild, bls. 114-116. Tólfpostulakenningin byggði á hinni gyðinglegu hefð um „vegina tvo,“ til lífs og til glötunar og ítrekar reglur boðorðanna. Það var viðurkennt af sumum kristnum höfundum á fyrstu öldunum eftir Krist og er elsta varðveitta rit um kirkjureglur (The Editors of Encyclopaedia,

Page 140: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

139

Í ritinu kemur bannið við fóstureyðingum og barnadrápum beint á eftir boðinu að elska

skuli náunga sinn. Bendir það til þess að barn var líka talið „náunginn“ sem bar að elska.

Í sama kafla er kúgun fátækra og þurfandi fordæmd.398 Þá endurspeglar Opinberun

Péturs sama viðhorf, að þeir sem slíkt fremji eyðileggi sköpun Guðs. Fóstrin og börnin fá

samkvæmt ritinu himnavist hjá Guði.399 Þarna er augljóst að ósjálfbjarga börn voru talin

tilheyra Guði, skírð eða ekki. Klemens frá Alexandríu fordæmdi einnig fóstureyðingar og

sagði slíkt ekki samræmast mannlegri góðmennsku.400 Hér koma upp í hugann hinar

grimmdarlegu aðferðir lækna við fóstureyðingar á þessum tímum, samkvæmt lýsingum

læknisins Aulas Cornelius Celsus á 1. öld e.Kr. er ýmist brytjaði fóstrið niður með hníf í

legi konunnar eða krækti í augu þess, eyru eða munn með krók og dró barnið út.401 Er

þar augljóslega verið að lýsa grimmilegum pyndingum á fullmótuðu fóstri. Þannig verður

auðveldara að skilja hin hörðu viðbrögð gyðinga og kristinna við fóstureyðingum.

Klemens frá Alexandríu skammar einnig þá sem bera út börn og bætir við að líklegt

sé að börnin deyi eða þeirra bíði hræðileg örlög í vændishúsum. Þangað komi síðan

feðurnir og stundi óafvitandi sifjaspell með eigin barni. En hann gagnrýndi almennt

siðferði hinna heiðnu í kynferðismálum og nefnir m.a. hvernig ungir piltar séu nýttir til

kynlífs í slíkum vændishúsum.402 Jústíníus píslarvottur nefndi einnig skelfileg örlög

„Didache: Christian Theological Literature“, Encyclopædia Britannica, sótt 25. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Didache). 398 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 116. Bakke segir Barnabasarbréf endurspegla gyðing-kristna hefð. Markmið höfundar virðist vera að undirstrika að Jesús Kristur hafi verið uppfylling spádóma Gamla testamentisins. 399 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 116-118. Bakke er að vísa til þeirrar útgáfu af Opinberun Péturs sem Klemens frá Alexandríu samþykkti og taldi kanónskt. Ritskrá Múratóris taldi þetta rit með á sínum lista. 400 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 118-119. Klemens gagnrýndi Pýþagóras og aðra Grikki fyrir að sýna nýfæddum dýrum meiri miskunnsemi en börnum, þar sem þeir passi að aðskilja ekki nýfædd dýr frá móður sinni. Klemens bætir við að sá sem ekki vilji eignast börn eigi heldur ekki að giftast. 401 Rodney Stark, The Rise of Christianity, bls. 119-120. Voru t.d. notaðar langar nálar, krókar og hnífar. Samkvæmt lýsingu rómverska læknisins Aulas Cornelius Celsus frá 1. öld var króknum ýmist krækt í auga, eyra eða munn barnsins inni í legi konunnar til að draga það út. Ef fóstrið snéri öfugt mælti Celsus með að nota fremur hnífsblað til að skera fóstrið í bita til að auðvelda losun þess. Tertúllíanus trúvarnarmaður lýsti þessu og sagði aðferðirnar miskunnarlausar í riti sínu A Treatise on the Soul. 402 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 44-45, 119-121. Bakke nefnir önnur trúvarnarrit eins og Bréf til Diognetusar (e. Letter to Diognetus) sem útksýrir einfaldlega að kristnir stundi það ekki að losa sig við börn sín. Einnig trúarvarnarritið Legatio er Aþenogóras ritaði til Markúsar Árelíusar um 177 e.Kr. Þar varði hann kristni ásökunum um mannsát og sifjaspell og rökstyður hversu óréttmæt slík ásökun sé,

Page 141: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

140

þessara barna er lendi í vænishúsum. Hann ítrekaði að engin trygging væri fyrir því að

börnum sem borin voru út yrði bjargað, heldur deyi sum þeirra og þar með gerist

foreldrarnir sekir um morð. Þau sem lifi af séu síðan iðulega nýtt til kynlífs.403 Þá ritaði

Tertúllíanus trúvörn til rómverskra yfirvalda um 197 e.Kr. sem endurspeglar samskonar

gagnrýni og svipuð rök og Jústínus og Klemens nota. Hann ásakaði sína heiðnu

andstæðinga fyrir að drepa börn á grimmilegan máta með drekkingu eða með útburði

þar sem bíði þeirra kuldi, hungur og villihundar. Einnig gagnrýndi hann fóstureyðingar

og sagði barnið sköpun Guðs.404 Þannig benda heimildirnar til þess að virðing fyrir lífi

kornabarna og barna í móðurkviði hafi verið höfð í hávegum hjá gyðingum og kristnum

á fyrstu þremur öldunum e.Kr. ólíkt því sem áður tíðkaðist í hinu rómverska ríki.405 Þessi

ofsafengnu viðbrögð hinna kristnu í garð fóstureyðinga má ef til vill skoða í ljósi þeirra

upplýsinga sem við höfum um slíkar aðgerðir í þá daga og skorts á tækni til að greina

þroska barns í móðurkviði. Einnig út frá boði Guðs í 1. Mósebók að vera frjósöm sem

hefðin túlkaði sem lögmál. Eftir situr þó hinn sláandi munur á kristnum og grísk-

rómverskum viðhorfum til barna. Öll börn bar að vernda gegn drápum og barnaníð

samkvæmt gyðingum og kristnum. Börn allt frá því í móðurkviði voru verðmæt sköpun

Guðs í augum gyðinga og kristinna, á meðan hinir heiðnu virtu þau almennt ekki sem

manneskjur fyrr en á 8. degi eftir fæðingu.

Í tíð Konstantínusar keisara og Valentíníanusar á 4. öld e.Kr. tóku síðan við

lagasetningar innan hins grísk-rómverska ríkis sem endurspegluðu viðleitni til að

takmarka eða banna alfarið útburð barna. Í lagaákvæði árið 322 e.Kr. var útburður barna

þar sem kristnir segi þá er stundi fóstureyðingu fremja morð og banni útburð. Varla væru menn að banna slíkt ef þeir leyfðu síðan barnsát. 403 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 44-45, 121-122. Jústínus nefnir einnig auknar líkur á sifjaspelli. Bakke bætir við að Jústínus hafi með þessum skrifum verið að svara þeim sem ásökuðu kristna um kynferðis-orgíur vegna mistúlkunar á merkingu kærleiksmáltíðarinnar agape. Hann ásakar því hina heiðnu með þessum skrifum sínum um að stunda mun svívirðilegri hluti en kristnir hafi verið ásakaðir um. Jústínus fordæmdi einnig að menn væru að sækja vændishús yfirleitt og tengdi það óhreinleika. 404 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 122-125. Bakke nefnir einnig trúvarnarmanninn Municius Felix er ritaði Octavius. Hann varðist ásökunum um að kristnir drepi börn og rökstyður mál sitt með því að kristnir meti líf barna það mikið að þeir banni fóstureyðingar, barnadráp og útburð. Hann segir andstæðinga sína sjálfa bera sín börn út til villidýra og fugla og jafnvel kæfi þau eða kyrki. Þannig drepi Rómverjar sína nánustu ættingja. Barnið sagði hann vera sköpun Guðs. 405 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 125-128.

Page 142: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

141

bannaður og ef foreldrar báru fyrir sig fátækt átti að aðstoða þau með mat og klæðum.

Það var þó enn svo að lögin gerðu ráð fyrir að sá sem bjargaði barni eftir útburði átti það

og foreldrarnir máttu ekki skipta sér lengur af því, hvort það yrði selt í þrældóm eða alið

upp. Þrátt fyrir bannið leyfði Konstantínus árið 329 e.Kr. mjög fátækum foreldrum að

selja börnin sín og kaupendurnir máttu einnig nota þau sem þræla. Var þetta gert af

tillitsemi við fátækar fjölskyldur. Viðkomandi mátti síðan kaupa barnið til baka ef hagur

batnaði.406 Sýnir þetta að ekki varð allt fullkomið við það eitt að keisarinn gerðist kristinn

og ekki var hægt að segja að lögin endurspegluðu til fulls hinn kristna boðskap. Það var

síðan ekki fyrr en árið 374 e.Kr. sem Valentíníanus setti lög er gerðu útburð barna að

refsiverðu athæfi.407 Eflaust þýddi þetta ákvæði eitt og sér ekki sjálfkrafa að hagur barna

hafi batnað almennt þó lífum sumra þeirra hafi með þessu verið bjargað. Þá komu ennþá

fram andmæli frá kirkjunnar mönnum, eins og Ambrósíusi biskup frá Mílan (um 374-387

e.Kr), í garð fóstureyðinga. Bendir það til þess að fóstureyðingar hafi enn verið stundaðar

þá. Ambrósíus gagnrýndi að jafnvel auðugir foreldrar innbyrtu lyf og losuðu sig við barn

sitt til þess eins að þurfa ekki að skipta arfinum á milli margra erfingja. Hins vegar áleit

hann að fátækir foreldrar hefðu oft ekki annarra kosta völ.408 Þannig virtist hann hafa

skilning á erfiðum kringumstæðum fólks er fundu sig knúin til þess að láta eyða fóstri.

Kirkjufeðurnir fordæmdu einnig harðlega öll kynferðisleg samskipti á milli barna og

fullorðinna. Tólfpostulakenningin og Barnabasarbréf eru á meðal þeirra rita sem

gagnrýndu barnaníð. Í Tólfpostulakenningunni kemur gagnrýnin fram í tengslum við

kærleiksboðorðið. Einnig gagnrýndi Þeófílus frá Antíokkíu (um 180 e.Kr.) slíkt líferni

meðal hinna heiðnu. hann tengdi barnaníð skurðgoðadýrkun. Klemens frá Alexandríu

406 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 134-135. Bakke tekur fram að það hafi verið bannað frá 1. öld e.Kr. að selja frjálsborin börn í þrældóm. Þarna er hann að meina ef foreldrar vildu selja börnin sín beint og á því ekki við um útburð barna sem greinilega mátti ennþá hirða upp og nýta sem þræla. 407 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 136-138. Reyndar segir Bakke ekki vitað hver sú refsing var. Hann bendir þó á að kirkjufaðirinn Basil frá Sesareu hafi ritað bréf 375 e.Kr. þar sem fram kom að ef kona yfirgæfi nýfætt barn sitt á götunni og hugsaði ekki um það, þó svo að hún hefði efni til, ætti að dæma hana fyrir morð. En ef kona gerði það sama út af fátækt og barnið dæi vegna skorts á lífsnauðsynjum, þá ætti að hlífa móðurinni. Basil gagnrýndi þó harðlega í riti sínu Haxaemeron þá foreldra sem báru út börnin sín og báru ranglega fyrir sig fátækt. 408 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 138-139. Bakke segir að Ágústínus kirkjufaðir hafi einnig fordæmt útburð barna. En auk þess hafi Ágústínus verið með hugann við ströng meinlæti og þar með var allt kynlíf syndugt fyrir honum ef markmiðið var ekki að eignast barn.

Page 143: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

142

sagði það jafngilda fráhvarfi frá Guði að beina girndum sínum til pilta. Kirkjuþingið í Elvíru

um 306 e.Kr. kvað á um að sá er tældi unga pilta skyldi ekki fá að neyta altarissakramentis

allt sitt líf. Gregoríus frá Nyssa taldi aftur á móti níu ár næga refsingu fyrir barnaníð.

O. M. Bakke bendir á að heimildir og gagnrýni kirkjufeðranna beri þess merki að ekki hafi

þeim tekist til fulls að hemja þennan útbreidda vanda sem barnaníð var. Niðurstaða

Bakke er þó sú að misnotkun á börnum til kynlífs hafi verið í miklu minna mæli meðal

kristinna fyrir tilstuðlan harðrar gagnrýni kirkjufeðranna á barnaníð.409

Það sem fram hefur komið sýnir að kristnir mátu líf barna meira en tíðkaðist í hinum

grísk-rómverska heimi. Þá má því velta því fyrir sér hvort þessi aukni áhugi kristinna

fræðimanna á velferð barna hafi skilað sér í bættu uppeldi og menntun þeirra. Menntun

hafði aðeins verið fyrir fá börn ríkra hins grísk-rómverska heims. O. M. Bakke segir að í

bréfum Páls postula komi ákveðið fordæmi um uppeldi á börnum. Þar nefnir hann

Efesusbréfið þar sem feður eru beðnir um að reita ekki börn sín til reiði (Ef 6.4) ásamt

Kólossubréfi (Kól 3.20-21). Bæði bréfin biðla til feðra um að vera ekki of harkalegir við

börnin sín. Títusarbréf endurspeglar einnig hvatningu til kvenna um að elska börnin sín

(Tít 2.4).410 Hið grísk-rómverska uppeldi var almennt undir áhrifum mikilvægis þess að

viðhalda heiðri fjölskyldunnar og að forðast skömm. Þannig áttu allir á heimilinu að hlýða

föðurnum skilyrðislaust. Annað olli bæði húsbóndanum og fjölskyldunni vanheiðri og

niðurlægingu. Af þessum sökum hafi sum bréfa Páls endurspeglað boð um hlýðni við

„höfuð“ fjölskyldunnar, þ.e. húsbóndann og að börnum beri að vera hlýðin við föður

sinn. Að sniðganga þessa rótgrónu hefð hins grísk-rómverska samfélags hefði orsakað

409 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 140-149, 151. Bakke bætir hér við að snemma fór að bera á því viðhorfi meðal margra kirkjufeðra að kynlíf skyldi aðeins stunda til að eignast börn. Skírlífi var talin betri leið til að helga sig Guði og því æðsta kristna lífernið. Jóhannes gullinmunnur var á meðal þeirra er hvatti til klausturlífs og hreinlífis. Bakke bendir á þá skelfilegu staðreynd að klausturlíf kunni einmitt að hafa orðið heillandi athvarf fyrir barnaníðinga. Þá virðast heimildir kirkjufeðranna og áminningar þeirra endurspegla að sú hafi verið raunin. 410 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 152-154. Bakke nefnir Efesusbréf 6.1-4: „Börn, hlýðið foreldrum ykkar vegna Drottins því að það er rétt. „Heiðra föður þinn og móður“ – það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: „til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni“. Og feður, reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ Sjá einnig Kól 3.20-21: „Börn, verið hlýðin foreldrum ykkar í öllu því að það er Drottni þóknanlegt. Feður, verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“

Page 144: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

143

mikla hneykslun Grikkja og Rómverja á kristnum og skaðað fagnaðarerindið eða dregið

úr trúverðugleika þess.411

Finna má ábendingar um kristilegt uppeldi í ýmsum ritum á fyrstu öldum kristni.

Tólfpostulakenningin og Barnabasarbréf nefndu bæði mikilvægi þess að sleppa ekki

hendinni af börnum sínum heldur kenna þeim að óttast Drottinn. Í Barnabasarbréfi

kemur þetta boð í tengslum við boðið að elska náungann og virðist höfundur þess tengja

barnauppeldi því boði.412 Að vera í guðsótta fól í sér að leitast við að hlýðnast boðum

Guðs og sýna honum lotningu sakir heilagleika hans. Ritið Kirkjulög (e. Didascalia) frá 3.

öld e.Kr., sem fjallar um ýmsar kirkjureglur, helgaði heilan kafla uppeldi á börnum. Það

brýnir fyrir foreldrum að ef þeir vanræki að aga börnin sín muni börnin herma eftir illri

hegðun hinna heiðnu. Hver sá sem segi ekkert til þess að ávíta son sinn, hati son sinn.

Ritið segir foreldra, af þessum sökum, þurfa að svara fyrir syndir barna sinna. Þá er

biskupinn einnig beðinn um að liðsinna fátækum og ekkjum við uppeldi barna þeirra.

Auk þess átti biskupinn að sýna umhyggju fyrir munaðarlausum er höfðu ekki verið

ættleiddir. Er biskupinn beðinn um að leggja mikið á sig við uppeldi munaðarlausra og

að sjá til þess að hina munaðarlausu skorti ekkert.413 Reglur postulanna (e. Apostolic

Constitutions) frá 4. öld e.Kr. bauð einnig feðrum að fræða börnin sín í Drottni, ala þau

upp í umhyggju og áminningu Drottins. Sé þetta ekki gert muni börnin á endanum leiðast

út í að gera það sem andstætt sé því sem rétt er. Mikilvægt sé því að byrja á unga aldri.414

Fræðsla heilags Híerónýmusar frá 4. öld var reyndar leiðsögn til foreldra stúlkna helgaðar

411 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 154-157. 412 Sama heimild, bls. 157-158. Þá nefna bæði Pólykarpos og Klemens frá Róm (1. Klemensarbréf 21.6) mikilvægi þess að uppfræða börn í guðsótta. Klemens bætir við hvatningunni til lesenda sinna að leyfa börnunum að eiga hlutdeild í leiðsögn þeirri sem er í Kristi. Þá segir höfundur ritsins Hirðir Hermasar frá því að hafa verið ávítaður af Guði fyrir að hafa ekki sýnt börnum sínum meira aðhald og alið þau upp í guðsótta. Þetta hafi orsakað það að nú séu þau fullorðnir einstaklingar sem syndgi gegn Guði og foreldrum sínum. 413 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 158-159. Bakke bætir við að Didascalia tali einnig um að ala börn upp í guðsótta. Það merki að kenna beri börnunum boðskap hinnar kristnu trúar og hvetja þau til þess að lifa í samræmi við þann boðskap. 414 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 159-160.

Page 145: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

144

skírlífi. Híerónýmus ítrekar þar ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna frammi fyrir

Guði.415

Jóhannesi gullinmunni var umhugað um að veita almenningi rétta uppfræðslu í Kristi.

Hann talaði gegn því að fólk væri að sækja í auðæfi, lúxus, heiður og stöður þessa heims

á sama tíma og hægt var að sjá fátæka þjást á götum borgarinnar. Jóhannes taldi því

mikilvægast að byrja á að fræða fjölskyldur. Hann sagði foreldrana þurfa að taka

alvarlega hlutverk sitt sem uppalendur og nefndi ítrekað mikilvægi þess að þau ali börnin

sín í samræmi við hinar kristnu hugmyndir. Einnig gagnrýnir hann einhliða áherslur

foreldra á að veita börnunum allt sem þau þarfnast til þess að þau nái að hafa það gott

og komast til metorða í heiminum. Mikilvægara sé að fræða þau í leiðsögn Drottins.416

Með „leiðsögn Drottins“ er Jóhannes án efa að vísa til þess að kenna börnum að ástunda

þann kærleika sem Kristur boðaði. Jóhannes segir einmitt að markmiðið með

uppeldismótun barna sé það að þau læri að lifa í samræmi við hinar siðferðilegu

hugmyndir kristinnar trúar. Mikilvægast sé að ala ekki barnið upp með velgengni, heiður

og ríkidóm sem markmið, heldur fremur að ala þau þannig upp að þau geti tekist á við

erfiðleika lífsins. Loks segir hann verstu syndina vera þá að vanrækja eigin börn og vísar

til foreldra sem leggja aðeins áherslu á að sinna eigin lífi en ekki barnanna.417 Hér virðist

hann lýsa alvarlegri vanrækslu þar sem barnið er nánast sjálfala andlega og mögulega

einnig líkamlega vannært. Hann skýrir þetta út frá boði Nýja testamentisins um að elska

beri náungann og því eigi að bera hag annarra fyrir brjósti. Bakke segir Jóhannes með

þessu tengja þá skyldu, að gefa barni sínu gott kristið uppeldi, hinu almenna kristna

viðmiði að elska náungann eins og sjálfan sig. Jóhannes sagði foreldra eiga að kalla fram

415 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 160-162. Bakke bendir hér á að samkvæmt Esekíel 18.20 séu foreldrar ekki ábyrgir fyrir illsku afkvæma sinna. Sjá nánar í Esekíel 18.20-22: „Hvorki skal sonur taka á sig sekt föður síns né faðir taka á sig sekt sonar síns. Réttlæti réttláts manns skal tilreiknað honum sjálfum og ranglæti guðlauss manns skal koma niður á honum sjálfum. En snúi guðlaus maður frá öllum sínum syndum, haldi hann öll mín lög og geri það sem er rétt og réttlátt, skal hann sannarlega lifa, hann skal ekki deyja. Afbrotanna, sem hann framdi, verður ekki minnst honum til skaða.“ 416 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 162-163. Jóhannes bætti við að ef foreldrarnir kenndu börnum sínum frá upphafi að elska sanna visku myndu þau hljóta enn betri auðæfi og vegsemd en ríkidómar gætu veitt. Mikilvægara sé að sonur hafi hreina sálu en að hann verði mælskusnillingur. 417 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 163-166. Jóhannes sagði einnig að foreldar sem vanræki börnin sín væru verri en foreldrar sem drepi börnin sín.

Page 146: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

145

ímynd Guðs í börnum sínum. Það sé gert með því að kenna þeim m.a. að vera góð, mild

og fyrirgefandi, að vera gjafmild og elska annað fólk.418 Virðist Jóhannes þannig gera þá

kröfu að foreldrar kenni börnum að virða og elska aðra og að foreldrarnir veiti þeim sjálf

þann kærleiksríka aga sem beini þeim á rétta braut. Ambrósíus frá Mílan sagði einnig að

Guð hefði gefið foreldrum það hlutverk að kenna börnum sínum virðingu og að mótun

barna eigi að vera forgangsatriði hjá foreldrum. Þá nefndi Ágústínus einnig mikilvægi

þess að foreldrar kenni börnum virðingu.419 Uppeldisfræðingar í nútímanum gætu

eflaust tekið undir margt af því sem hér hefur komið fram um að aga börnin í kærleika

svo þau læri að sýna náunganum virðingu.

Innan gyðingdóms þótti eðlilegt að senda börnin sín í skóla en einnig var heimilið

vettvangur uppeldis og fræðslu þar sem hjarta kennslunnar var leiðsögn í Torah. Jósefus

sagði sjálfur stoltur frá því að gyðingdómur væri öðrum trúarbrögðum fremri hvað

ríkulega áherslu á menntun ungmenna varðar. O. M. Bakke segir þessara áhrifa hafa

gætt innan kristinnar trúar.420 Ritin Kirkjulög (gr. Didascalia) og Reglur postulanna (e.

Apostolic Constitutions) frá 3.-4. öld e.Kr. koma með ítarlega leiðsögn í uppeldi og nefna

418 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 167-172, 189-197. Jóhannes ráðlagði að ef barn hlýddi ekki boðum foreldranna (t.d. að fyrirgefa, tala ekki illa um aðra eða fyrirlíta ekki annað fólk) ætti að refsa þeim með ströngu augnaráði, hvössum ávítum eða háðungum en hann var ekki hlyntur því nota miklar líkamlegar refsingar eins og tíðkaðist á þessum tímum. Hann var frekar hlynntur mildi og hvatningum eða umbunum t.d. jákvæðum ummælum og einhverju sem heiðraði þau sem persónur. Þá ítrekaði hann mikilvægi þess að stunda lestur Biblíunnar á heimilinu og kenna börnum lestur úr Biblíunni. Þó þurfi að aðlaga efnið eftir aldri og þroska barna. Á einum stað tekur hann það sérstaklega fram að það sem hann hafi sagt um uppeldi drengja eigi við um stúlkur líka. 419 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 172-174, 178-183. Ágústínusi fannst ekkert að því að feður beittu syni sína líkamlegum refsingum eins og hann sjálfur hafði hlotið, því faðirinn sé að ala upp erfingja sem þurfi að bera ábyrgð á fjármunum og eignum ættarinnar. Í raun sé faðirinn að sýna góðsemi með slíkum refsingum. Þannig var hann litaður af uppeldishugmyndum samtímans. Svo virðist sem höfundar Kirkjulaganna (gr. Didascalia) og Reglna postulanna (e. Apostolic Constitutions) hafi verið á sama máli varðandi aga. 420 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 176-177. Bakke segir að skýringuna á þessu sé að finna í Shema, hinum mikilvæga texta sem allir gyðingar áttu að læra og bauð að uppfræða börnin í boðorðunum og Torah eins oft og færi gafst á því. Fleiri textar úr hefðum gyðinga ítreki mikilvægi þess að foreldrar ali upp og fræði börnin sín í samræmi við boðskap boðorðanna. Í kristni var einnig áhersla á að ala börn upp í guðsótta. Viskubókmenntirnar sögðu guðsótta merkja það að einstaklingur forðist að gera illt og hati syndina, þannig að hann leitist eftir að lifa í samræmi við siðferileg viðmið boðorðanna í þakklæti og trausti til JHVH. 1. Klemensarbréf bauð foreldrum að kenna börnum sínum guðsótta og þannig að leyfa börnunum að eiga hlutdeild í leiðsögninni sem sé í Kristi. Því eigi að kenna þeim auðmýkt og kærleika og guðsótta sem fram komi í heilögu lífi og hreinum huga.

Page 147: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

146

sérstaklega það námsefni sem kenna skuli börnum.421 Þar kom m.a. fram að menntun í

sumum námsgreinum og starfsstéttum var ekki talin samræmast kristnu fyrirmyndar

uppeldi.422 Út frá leiðsögn Jóhannesar gullinmunns um uppeldi og menntun piltna og

stúlkna sést að ábyrgð foreldranna var mikil og að ætlast var til þess að foreldrar tækju

ríkulegan þátt í kristilegu uppeldi þeirra, bókalestri og fræðslu og væru þannig mikið til

staðar fyrir þau.423

Í hinum grísk-rómverska heimi voru skólar sjaldnast opinberar stofnanir heldur lærðu

nemendur oftast utandyra undir leiðsögn kennara sem foreldrarnir borguðu fyrir að

kenna börnum sínum. Kenndur var lestur og skrift, bókmenntir, landafræði, stærðfræði,

tónlist, stjörnufræði og ræðulist. Lestrarkennslan var oftast úr klassískum verkum, t.d.

verkum Hómers, þar sem hin grísku goð gegndu miklu hlutverki. Þar með töluðu sumir

kristnir fræðimenn gegn því að mennta börnin hjá heiðnum kennurum og vildu hafa sér

skóla með áherslu á hina kristnu texta. Að sama skapi þótti ekki gott að kristnir gerðust

kennarar í heiðnum skólum eins og Tertúllíanus gagnrýndi.424 Ekki voru allir á móti

almenningsskólum enda sáu margir tengsl á milli grískrar heimspeki og kristindóms. Var

Klemens frá Alexandríu þeirra á meðal. Hann taldi heimspeki jafnvel geta undirbúið

jarðveginn fyrir trúna. Hann sagði ómögulegt að skilja hvað trúin boðar án þess að hafa

421 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 178-179. Sjá nánar um tímasetningar ritanna Didascalia og Apostolic Constitutions á orðabók Britannica (The Editors of Britannica, „Apostolic Constitutions: Ecclesiastical Law“, Encyclopædia Britannica, sótt 26. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Apostolic-Constitutions). 422 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 179, 202. Nefnir ritið Kirkjulögin þær iðngreinar sem á einhvern hátt stuðluðu að skurðgoðadýrkun (t.d. að smíða skurðgoð) eða annað er hafði með óheiðarlegt og glæpsamlegt líferni að gera (t.d. skattheimta og hermennska), sem ókristilegar námsgreinar. Hippólýtus bætti m.a. við þetta starfstétt leikara og stjörnuspámennsku. Leikarar léku oft ævintýri heiðnu goðanna. 423 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 192, 197, 199. Jóhannes lagði jafnframt áherslu á að foreldrarnir væru góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín. 424 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 202-207. Var talað um það, að kenna í heiðnum skólum, sem þátttöku í skurðgoðadýrkun þeirra. Hippólýtus var ekki eins harður gegn því að kristnir gerðust kennarar í almennum skólum en mælti þó gegn því. Eins taldi Tertúllíanus það réttlætanlegt að börn kristinna gengju í hina klassísku skóla. Hann sagði nánast ómögulegt að lifa í þessum heimi án þess að tileinka sér þá menntun sem kennd var í almennum skólum. Þeim nemanda sem heyri eitthvað í skólanum er samræmist ekki hans trú á Guð sé frjálst að hafna því. Hann taldi það nauðsynlegt fyrir börn að sækja almenningsskóla ættu þau að læra að lesa og skrifa. Þannig virðist í hans umhverfi ekki hafa verið um neina sér kristna skóla að ræða.

Page 148: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

147

lært í almennum skóla.425 Bakke telur að mögulega hafi kristinn almenningur engu að

síður óttast áhrif hinna almennu skóla. Kirkjan hafi þó ekki á þessum tíma verið komin

með skóla á eigin vegum. Kirkjulögin virtust aðeins gera ráð fyrir heimamenntun

barna.426 Engu að síður má segja að áhersla á menntun barna hafi aukist eitthvað vegna

kristinna áhrifa. Áherslan hefur þó verið á kristinn siðferðisboðskap og á bækur

Biblíunnar sem megin námsefnið. Einnig átti heimilisfaðirinn að sinna meira fræðslu

barnanna en tíðkaðist í hinum grísk-rómverska heimi.427 hefur það eflaust myndað

sterkari fjölskyldutengsl. Við vitum þó ekki að hve miklu leyti almenningur fór eftir

þessari leiðsögn. Þó vitum við að biskupar áttu að sinna uppeldi munaðarleysingja og

fátækra. Niðurstaðan er því sú að kristni hafði jákvæð áhrif á líf barna á fyrstu öldum

kristni þar sem trúarboðskapurinn hvatti meira til kærleika gagnvart þeim en almennt

tíðkaðist. Kirkjufeðurnir og trúvarnarmennirnir sáu börn sem fullkomnar manneskjur frá

fæðingu og jafnframt sem „náungann“ sem bar að elska og virða.428 Þeir vörðu börn gegn

barnaníði og hvöttu foreldra til þess að ala þau upp í kærleika og kristilegum fróðleik.

Þannig er niðurstaða fjórða kafla sú að hinn kristni boðskapur hafði veruleg áhrif til

góðs á fyrstu öldum kristinnar trúar. Ekki er hægt að fullyrða um allsherjar betrumbætur

á kjörum alls fólks við það eitt að kristin trú varð að ríkistrú og vissulega voru sumir á

meðal hinna kristnu fræðimanna litaðir af samtíma sínum í viðhorfi til barnauppeldis og

kvenna. Munurinn er engu að síður sláandi á milli viðhorfa grísks-rómverskra heimilda

og kristinna hvað virðingu, réttlæti og mannskilning varðar. Ég tel því óhætt að draga þá

ályktun að börn, konur, þrælar og aðrir minnihlutahópar hafi, vegna áhrifa frá hinum

kristna boðskap, loksins verið talin með sem fullgildar manneskjur er bar að virða og sýna

náungakærleika.

425 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 207-212. Klemens áleit alla visku eiga upphaf sitt hjá Guði, hvort heldur sem var heimspekilega eða guðlega. Heimspekina sagði hann hafa hjálpað Grikkjum að læra réttlæti. Jóhannes gullinmunnur áleit það einnig sjálfsagt að kristin börn sæktu almenningsskóla. Einnig taldi Basil frá Sesareu það eðlilegt að kristnir sæktu menntun í grísk-rómverskum skólum. Hin gríska menntun hafi þætti sem hafi gildi fyrir kristna líka. Hann benti á að Móse sjálfur hefði lært af visku Egypta áður en hann mætti Guði. Kappadókíufeðurnir voru með samskonar víðsýni gagnvart menntun. 426 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 213. Þannig hafi kirkjan ekki fetað í fótspor Gyðinga sem kenndu börnunum í sýnagógum sínum að lesa og skrifa út frá sínum gyðinglegu ritningum. 427 O. M. Bakke, When Children Became People, bls. 215-222. 428 Sama heimild, bls. 280-286.

Page 149: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

148

Lokaorð

Í þessari ritgerð hefur komið fram að ólíklegt sé að það hafi verið kirkjupólitískir þættir

sem réðu því hvaða kristnu rit voru valin sem helgirit kristins átrúnaðar. Fjöldi handrita

og heimilda gefa tilefni til að álykta að endurritun á ritum Biblíunnar hafi að mestu verið

stunduð af ábyrgð og virðingu fyrir upprunalega textanum. Fyrirliggjandi heimildir benda

þannig sterklega til þess að afar ósennilegt sé að einungis tilviljun eða kirkjupólitík hafi

ráðið því hverskonar kristin trú og boðun náði yfirhöndinni á fyrstu öldunum eftir Krist.

Komið hefur fram að kennsla og boðun gnosta vék langt frá kjarnaboðskap kristinnar

trúar enda virðist þeirra hugmynd um Krist ekki endurspegla fyrirmynd í náungakærleika.

Þá virðist hefðin um uppruna og eðli Krists sem Guðs af Guði eiga sér frumkristnar

rætur. Var þeirri trúarhefð miðlað áfram af postulum og biskupum sem mesta traustið

höfðu og standa áttu vörð um rétta boðun trúarinnar. Hin rekjanlega postullega

vígsluröð biskupa allt aftur til fyrstu postulanna gefur vísbendingar um að hinn

upprunalegi boðskapur hafi varðveist og orðið til þess að tryggja rétt val á helgiritum

kristins átrúnaðar í Nýja testamentið.

Auk þess sýna fyrirliggjandi heimildir djúp tengsl boðskapar hinna fyrstu kristnu við

gyðingdóm. Rit sem fundust við Kúmran endurspegla von um komu Messíasar og sá

Jesús sem Nýja testamentið boðar virðist falla vel inn í þá lýsingu. Þar með hefur verið

auðvelt fyrir fjölmarga Gyðinga að sjá Jesú Krist sem þann Messías er þeir höfðu beðið

eftir. Jesús var Gyðingur og boðskapur hans var að fullu grundvallaður á hinni gyðinglegu

boðun og kennslu sem átti, samkvæmt trú þeirra, upphaf sitt hjá JHVH, hinum eina Guði

skapara himins og jarðar. JHVH hafði, samkvæmt trú þeirra, gefið Móse Boðorðin tíu

eða „Orðin tíu“ eftir flóttann frá Egyptalandi. Kjarnaboðskapur boðorðanna var trúin á

hinn eina Guð, JHVH, sem menn áttu að elska af öllu hjarta og boðið um að elska

náungann eins og sjálfan sig. Þegar Jesús fullyrti að hvorki einn smástaf né stafkrók

mætti afnema úr lögmálinu var hann án efa að vísa til þessa lögmáls, enda votta

heimildirnar að hann hafi sagt boðið í 5. Mósebók 6.5. og 3. Mósebók 19.18 uppfylla allar

kröfur lögmálsins. Boðskapur trúarinnar umhverfðist þar með um náungakærleikann.

Page 150: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

149

Kærleiksboðskapur þessi, eins og hann birtist í framgöngu og verki hinna fyrstu kristnu,

varð til þess að sífellt fleiri bættust í hóp kristinna á fyrstu öldum trúarinnar.

Spurningunni hvort kristin trú hafi haft einhver jákvæð áhrif á sitt grísk-rómverska

samfélag til forna hefur jafnframt verið svarað játandi. Það er eitt að boða

náungakærleika og jöfnuð en annað að framkvæma það sem boðað er. Fyrirliggjandi

heimildir benda til þess að gengið hafi verið fram í hinum kristna boðskap af miklum

sannfæringarkrafti á fyrstu öldunum e.Kr. Leiddi það til verulegra bættra kjara meðal

hinna kristnu saman borið við kjör fólks almennt í hinum harðneskjulega grísk-rómverska

heimi. Átti þessi náungakærleikur hinna kristnu sinn þátt í vexti trúarinnar. Vissulega ber

sagnfræðin því vitni að þessara jákvæðu áhrifa hefur ekki alltaf gætt til fulls og mörg

illvirki hafa verið framkvæmd í nafni kristinnar trúar. Margir hafa viljað kenna kristinni

trú um verk þeirra sem framkvæmt hafa slík illvirki, jafnvel þótt ljóst sé að Kristur sjálfur

boðaði kærleika og virðingu við alla menn. Hér skiptir máli að dæma ekki trúarboðskap

Jesú Krists út frá illum verkum þeirra sem kenna sig við kristna trú en fara ekki eftir því

sem trúin boðar.

Þegar maður sér hvaða veruleika almenningur bjó við í hinu grísk-rómverska

samhengi áður en kristni kom til sögunnar verður mun auðveldara að sjá umbreytandi

áhrif hins kristna boðskapar til góðs fyrir líf fólks og samfélag. Í raun ber sagan þess vitni

að þegar kristnir einstaklingar og hópar leitast við að lifa eftir því sem Kristur kenndi

spretta upp góðgerðasamtök og hjálparstörf. Dæmi um slíka starfsemi í dag er

Hjálparstofnun kirkjunnar og Samband íslenskra kristniboðsfélaga. Annað gott dæmi er

Rauði krossinn sem spratt upp vegna hugsjónar kristins manns að nafni Henry Dunant á

19. öld.429 Eru þetta aðeins örfá dæmi af fjölmörgum er bera jákvæðum áhrifum hins

kristna boðskapar vitni allt fram á okkar dag. Það er þannig ótvírætt að okkar vestræna

samfélag hefur mótast að miklu leyti af hinum kristnu grunngildum um náungakærleika.

Til eru samfélög sem fá mann til að finnast maður kominn aftur í sögu til þess tíma er

áhrifa hins kristna boðskapar gætti ekki. Þar virðast náungakærleikur og mannvirðing

429 International Federation of Red Cross and Red Crescent Societies, „History“, International Federation of Red Cross and Red Crescent Societies, sótt 3. júli 2019 af https://www.ifrc.org/en/who-we-are/history/. Dunant hafði áður komið á fót kristilegri hreyfingu karla KFUM (e. YMCA).

Page 151: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

150

fótum troðin.430 Þó svo að okkar eigið vestræna samtímaumhverfi sé ekki fullkomið og

að hér hafi einnig mannréttindi verið brotin, þá er það engu að síður svo að í flestum

tilvikum er hægt að sjá þónokkurn stigsmun og mun meiri merki um jákvæða þróun. Við

búum t.a.m. við lýðræðissamfélag þar sem almennt er leitast við að virða mannréttindi

fólks þvert á kyni, kynþætti, aldur, stéttir og stöður.

Í ljósi þess sem fram hefur komið er auðvelt að sjá jákvæð áhrif Jesú Krists og hins

kristna boðskapar hans á grísk-rómverskt samfélag á fyrstu öldum kristni en einnig á

okkar samfélag í dag. Í raun birtist hinn kristni boðskapur mönnum í verki hvenær sem

fólk velur að elska náungann sinn og setja sig í spor annarra, með velferð alls fólks að

leiðarljósi.

430 Mætti hér nefna þau ólíku samfélög sem mæta kristniboðum. Kristniboðar deila t.a.m. margir átakanlegum reynslusögum af því að hafa orðið vitni að barnaútburði meðal þjóðflokka, umskurn og kúgun kvenna. Kristniboðinn Valgerður Gísladóttir sagði t.a.m. frá trú Tsemaí-þjóðflokksins í Konsó í Eþíópíu: „Tsemaí-menn deyða börnin sín ef þau fá fyrstu tönn í efri góm því að litið er á það sem merki frá forfeðrunum um að bölvun hvíli á því. Ef slíkt barn er ekki borið út er talið að einhver bölvun komi yfir ættina. Sama gildir ef kona, sem er með barn á brjósti, verður ófrísk, þá verða bæði börnin að deyja, hið fædda og hið ófædda.“ (Morgunblaðið, „Á meðal óþekkts þjóðflokks í Afríku“, Morgunblaðið, 8. nóvember 1998, sótt 7. júlí 2019 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/430115/ ). Sjá einnig umfjöllun morgunblaðsins um Sigríði Hrönn Sigurðardóttur, kristniboða, hjúkrunarfræðing og höfund bókarinnar Afríkudætur, sem fjallaði um umskurð kvenna í Pótok, Afríku og hroðalegar afleiðingar þess (Morgunblaðið, „Umskurður kvenna – okkur kemur hann við“, Morgunblaðið, 17. september 2004, sótt 31. ágúst 2019 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/818905/).

Page 152: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

151

Heimildaskrá

Ackerman, Susan, „Women in Ancient Israel and the Hebrew Bible“, Oxford Research Encyclopedias: Religion, apríl 2016, sótt 4. júní 2018 af http://religion.oxfordre.com/view/10.1093/acrefore/9780199340378.001.0001/acrefore-9780199340378-e-45.

Ambury, James M., „Socrates (469-399 B.C.E.)“, Internet Encyclopedia of Philosophy, sótt 1 júlí 2019 af https://www.iep.utm.edu/socrates/#SSH2.

Anderson, Bernhard W., Contours of Old Testament Theology, Minneapolis: Fortress Press, 1999.

Anderson, Bernhard W., The Living World of the Old Testament, England: Pearson Education, 1988.

Attwater, Donald, „St. John Chrysostom“, Encyclopædia Britannica, sótt 24. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-John-Chrysostom.

Árni Helgason, „Hvar og hvenær voru fyrstu lögin sett?“, Vísindavefurinn, 28. maí 2009, sótt 24. maí 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=47592.

Bakke, O. M., When Children Became People: The Birth of Childhood in Early Christianity, Minneapolis: Fortress Press, 2005.

Bausi, Alessandro and Gippert, Jost, „General Introduction“, Comparative Oriental Manuscripts Studies: An Introduction, Hamborg: Tredition, 2015, bls. 39-42. Sótt 28. maí af https://www.academia.edu/10276101/_ed._Comparative_Oriental_Manuscript_Studies._An_Introduction.

Beegle, Dewey M., „Moses: Hebrew Prophet“, Encyclopædia Britannica, sótt 30 maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Moses-Hebrew-prophet.

Biblical Archaeology Society Staff, „The Exodus: Fact or Fiction?“, Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life, 28. mars 2018, Sótt 25. apríl 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/exodus/exodus-fact-or-fiction/.

Biblical Archaeology Society Staff, „The Gospel of Thomas‘s 114 Sayings of Jesus“, Bible History Daily: Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life, 30. september 2018, sótt 11. febrúar 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/ biblical-topics/bible-versions-and-translations/the-gospel-of-thomas-114-sayings-of-jesus/

Biblical Archaeology Society Staff, „The Nag Hammadi Codices and Gnostic Christianity: How the Nag Hammadi Texts discovered in Egypt reintroduced the world to Gnostic Christianity“, Bible History Daily: Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life, 10. desember 2018, sótt þann 11. janúar 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/post-biblical-period/the-nag-hammadi-codices/.

Biblioteca Medicea Laurenziana, „Cornilii Taciti“, Biblioteca Medicea Laurenziana, sótt 10. júlí 2019 af http://mss.bmlonline.it/s.aspx?Id=AWOIyXbxI1A4r7GxMPoB&c=I.%20Cornelii%20Taciti%20ab%20excessu%20divi%20Augusti%20libros%20XI%20ab%20undecimo%20nimirum%20usque%20ad%20vigesimum%20primum%20inclusive#/book.

Bodleian Libraries: University of Oxford, „Tetralogies 1-6: comprising 24 dialogues“, Digital Bodlean, sótt 2. júlí 2019 af https://digital.bodleian.ox.ac.uk/inquire/p/a41ae7ce-4e8a-4e9e-abbb-c55f4e24cebb.

British Library, „Collection Items: Codex Sinaiticus“, British Library, sótt 10. maí 2019 af

Page 153: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

152

https://www.bl.uk/collection-items/codex-sinaiticus. British Library, „Collection Items: Gandharan Scrolls“, British Library, sótt 3. maí 2019 af

https://www.bl.uk/collection-items/gandharan-scrolls. British Library, „Collection Items: Manuscript: Videvdad“, British Library, sótt 10. maí 2019 af

https://www.bl.uk/collection-items/videvdad. British Library, „The Ashem Vohu, a Zoroastrian Prayer“, British Library, sótt 3. maí 2019 af

https://www.bl.uk/collection-items/zoroastrian-prayer. British Library, „Sacret Texts: Islamic“, British Library, sótt 3. maí 2019 af

https://www.bl.uk/collection-items/the-mail-quran. Burghardt, Walter John, „St. Jerome: Christian Scholar“, Encyclopædia Britannica, sótt 25.

ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Jerome. Chadwick, Henry, „Origen, Christian Theologian,“ Encyclopædia Britannica, sótt 12. febrúar

2019 af https://www.britannica.com/biography/Origen. Chadwick, Henry og Stefon, Matt, o. fl., „Christianity: The Alliance Between Church and

Empire“, 19. júlí 2019, sótt 9. ágúst 2019 af Encyclopædia Britannica, https://www.britannica.com/topic/Christianity/The-alliance-between-church-and-empire.

Chancey, Mark and Meyers, Eric M., „How Jewish Was Sepphoris in Jesus‘ Time?“, Israel An Archaeological Journey: Biblical Archaeology Society, September 2009, ritstj. Sarah K. Yeomans, bls. 26-43.

Christian Classics Ethereal Library, Bringin Christian classic books to life, „NPNF1-02. St. Augustine‘s City of God and Christian Doctrine, Chapter 8. 12.“ Christian Classics Ethereal Library, Bringing Christian classic books to life, sótt 10. febrúar 2019 af https://www.ccel.org/ccel/schaff/ npnf102.v.v.viii.html.

Clarence E. Glad, Átökin um textann: Nýja testamentið og upphaf kristni, Reykjavík: Grettisakademían og Háskólaútgáfan, 2004.

Cook, Edward M., „4Q246“, Bulletin for Biblical Research 5/1995, bls. 43-66, hér bls. 47-48, sótt 18. ágúst 2019 af https://www.ibr-bbr.org/files/bbr/BBR_1995_03_Cook_4Q246.pdf.

Davies, Philip R., „Dead Sea Scrolls“, Encyclopædia Britannica, sótt 13. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Dead-Sea-Scrolls.

Drummond, Jennifer, „The Aleppo Codex“, Biblical Archaeology Society: Bible History Dayily, 27. nóvember 2018, sótt 3. maí 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/hebrew-bible/the-aleppo-codex/.

Editors of Encyclopaedia Britannica, „Hebrew Bible: Jewish Sacret Writings“, Encyclopædia Britannica, sótt 30 maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Hebrew-Bible.

Editors of Encyclopaedia Britannica, „Septuagint: Biblical Literature“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. mars 2019 af https://www.britannica.com/topic/Septuagint.

Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar: Saga og mótun kristinna trúarjátninga og yfirlit yfir helstu kirkjudeildir kristninnar: Játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar með skýringum, Reykjavík: Útgáfan Skálholt, 1991.

Einar Sigurbjörnsson og Gunnlaugur A. Jónsson, „Hvað er talið að Gamla testamentið hafi orðið til á löngum tíma?“, Vísindavefurinn, 22. nóvember 2002, sótt 8. janúar 2019 af https://www.visindavefur.is /svar.php?id=2894.

Einar Sigurbjörnsson og Gunnlaugur A. Jónsson, „hvernig flokka Gyðingar rit Gamla

Page 154: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

153

testamentisins?“, Vísindavefurinn, 26. nóvember 2002, Sótt 3. maí 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2905.

Eisen, Ute E., Women Officeholders in Early Christianity: Epigraphical and Literary Studies. Collegeville, Minnesota: The Liturgical Press, 2000.

Encyclopædia Britannica, „Biblical literature: Influence and significance: Historical and cultural importance“, Encyclopædia Britannica, sótt 11. mars 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature#ref73145.

Encyclopædia Britannica, „Biblical literature: Old Testament history: The Babylonian Exile and the restoration“, Encyclopædia Britannica, sótt 11. mars 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature/Non-European-versions#ref73235.

Encyclopædia Britannica, „New Testament Canon, Texts, And Versions“, Encyclopædia Britannica, sótt 7. febrúar 2019 af https://www.britannica.com/topic/biblical-literature/New-Testament-canon-texts-and-versions#ref598015.

Finkelstein , Israel and Silberman , Neil Asher, The Bible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and the Origin of Its Sacred Texts, New York: Touchstone Book, published by Simon and Schuster, 2002.

Fitzmyer, Joseph A., The Gospel According to Luke (I-IX), The Anchor Bible; v. 28-28A ,

Garden City, NY: Doubleday, 1981-1985.

Frank Jacobs, „These are all the world‘s major religions in one map“, World Economic Forum,

26. mars 2019, sótt 9. maí 2019 af https://www.weforum.org/agenda/2019/03/this-is-

the-best-and-simplest-world-map-of-religions/.

Friedman, Richard Elliott, „Love Your Neighbor: Only Israelites or Everyone?”, Biblical

Archaeology Society: Bible History Daily, 6. júní 2019, sótt 24. júní 2019 af

https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/bible-interpretation/love-

your-neighbor-only-israelites-or-

everyone/?fbclid=IwAR3zptaq7RRMu7q2Ep2g_gG27HNcC-

3swJ_GMZ8_CVGRsMXGucvfuhwk1OY.

Frontline, „He was born, lived, and died as a Jew“, Frontline: From Jesus to Christ, sótt 18.

ágúst 2019 af

https://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/shows/religion/jesus/bornliveddied.html.

Garfinkel, Yosef, „The Birth & Death of Biblical Minimalism“, Biblical Archaeology Review 37:3/2011 bls. 46-53. (Greinin er fáanleg á PDF formi á vefslóð: http://www.academia.edu/31450812/Y._Garfinkel._2011._The_Birth_and_Death_of_Biblical_Minimalism._Biblical_Archaeology_Review_37_3_46_53.

Dudley, Donald Reynolds, „Seneca: Roman Philosopher and Statesman (4 BCE – 65CE)“, Encyclopædia Britannica, sótt 2. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Lucius-Annaeus-Seneca-Roman-philosopher-and-statesman.

Geir Þ. Þórarinsson, „Hver eru helstu og elstu handrit Heródótosar?“, Vísindavefurinn, 15. maí 2019, sótt 21. maí 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=77564.

Goleman, Daneil, Emotional Intelligence, USA: Bantam Books, 1997. Gunnlaugur A. Jónsson, „Ritdómur“, Ritröð Guðfræðistofnunnar, Studia theologica islandica

18:26/2008, ritstj. Pétur Pétursson, bls. 157-163. Grant, Frederick Clifton, „St. Paul and Stoicism“, The Biblical World 45:5/1915, The University

Page 155: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

154

of Chicago Press, bls 268-282, sótt 5. apríl 2019 af https://www.jstor.org/stable/3142715?seq=1#metadata_info_tab_contents.

Greenspoon, Leonard J., „Major Septuagint Manuscripts - Vaticanjus, Sinaiticus, Alexandrinus“, Bas Library: Biblical Archaeology Society Online Archive, sótt ágúst 2018 af https://members.bib-arch.org/bible-review/5/4/15.

Hammond, Mason „Trajan“, Encyclopædia Britannica, 4. febrúar 2018, sótt 23. apríl 2018 af https://www.britannica.com/biography/Trajan.

Henze, Matthias, Mind the Gap: How the Jewish Writings between the Old and New Testament Help Us Understand Jesus, Minneapolis: Fortress Press, 2017.

Hoffmeier, James K., „Out of Egypt: The Archaeological Context of the Exodus“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 1-20.

Hubbard, Moyer V., „Enemy Love in Paul: Probing the Engberg - Pedersen and Thorsteinsson Thesis“, Journal for the Study of Paul and his Letters Vol.6:No.1/2016, bls. 115-135. Sótt 26. ágúst 2019 af https://www.academia.edu/34001350/Enemy_Love_in_Paul_Probing_the_Engberg-Pedersen_and_Thorsteinsson_Thesis._JSPL_6.1_2016_115-35?email_work_card=view-paper

Hurowitz, Victor, „The Genesis of Genesis, Is the Creation Story Babylonian?“, Exploring Genesis:The Bible’s Ancient Traditions in Context, ritsj. Robin Ngo, Megan Sauter, Noah Wiener and Glenn J. Corbett, Washington, DC: Biblical Archaeology Society, 2013, bls. 1-21. (bókina er hægt að nálgast á PDF formi inni á vefslóð: https://www.biblicalarchaeology.org/get-ebook/thank-you/?freemium_id=26057).

International Federation of Red Cross and Red Crescent Societies, „History“, International Federation of Red Cross and Red Crescent Societies, sótt 3. júli 2019 af https://www.ifrc.org/en/who-we-are/history/.

Israel Museum, „The Great Isaiah Scroll“, The Digital Dead Sea Scrolls, sótt 13. mars 2019 af http://dss.collections.imj.org.il/isaiah.

Japinga, Lynn, Feminism and Christianity, An Essential Guide, Nashville: Abingdon Press, 1999. Jeremy Norman‘s: HistoryofInformation.com, „The Text of Tacitus‘ Annals and Histories

surviced in Only Two Manuscripts: Circa 1000-1100“, Jeremy Norman‘s: HistoryofInformation.com, sótt 1. ágúst 2019 af http://www.historyofinformation.com/detail.php?id=3742.

Johnstone, William, Exodus, Sheffield, England: Sheffield Academic Press, 1990. Jón Ma. Ásgeirsson, Tómasarguðspjall, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2001. Kraut, Richard, „Socrates: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. ágúst af

https://www.britannica.com/biography/Socrates. Kuruvachira, Jose, Justin Marthyr‘s Theory of „Seminal Logos“, Academia, sótt 28. maí af

https://www.academia.edu/32600710/JUSTIN_MARTYRS_THEORY_OF_SEMINAL_LOGOS_AEdu_.pdf.

König, Franz Cardinal, „Zarathustra: Iranian Prophet“, Ensyclopædia Britannica, sótt 10. maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Zarathustra.

Lapham , Fred, An Introduction to the New Testament Apocrypha, London, New York: T&T Clark Internetional, 2004.

Lefkowitz, Mary R. & Fant, Maureen B., Women´s Life in Greece & Rome, Baltimore: The Johns Hopkins University Press, 1982.

Lewis, Nicola Denzey og Justine Ariel Blount, „Rethinking the Origins of the Nag Hammadi

Page 156: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

155

Codices“, www.academia.edu, 2014, sótt 15. júní 2018 af https://www.academia.edu /8105963/_Rethinking_the_Origins_of_the_Nag_Hammadi_Library.

Lippold, Adolf, „Theodosius I: Roman Emperor“, Encyclopædia Britannica, sótt 25. maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Theodosius-I.

Malamat, Abraham, „Let My People Go and Go and Go“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 21-30.

Malandra, William W., „Ancient Iranian religion“, Encyclopædia Britannica, ágúst 2016, sótt 5. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/ancient-Iranian-religion

Marincola, John, „Introduction: Herodotus‘ Life and Work“, Herodotus: The Histories, John Marincola/Aubrey de Sélincourt, London: Penguin Books, 2003, ix-xiii.

Mariottini, Dr. Claude, „Abraham and Archaeology“, Dr. Claude Mariottini – Professor of Old Testament, mars 2006, sótt 24. maí 2019 af https://claudemariottini.com/2006/03/01/abraham-and-archaeology/.

Marshall , I. Howard, The Gospel of Luke; A Commentary on the Greek Text, Great Britain: The

Paternoster Press, 1979.

Mac Donald, Sarah, „Girl power: Vatican „hid art that showed female priests““, News: Irish News,

3. júli 2019, sótt 18. ágúst 2019 af https://www.independent.ie/irish-news/girl-power-

vatican-hid-art-that-showed-female-priests-38277210.html?fbclid=IwAR1d_3FHrm

RSMGv6VXQoJygdS9W6i3JQ_GsWNa9vYWhRTCJN56hXAnHmguQ.

McGrath, Alister E., Christian Theology: An Introduction, Oxford UK: Blackwell Publishing, 2006.

McGrath, Alister E., Historical Theology: An Introduction to the History of Christian Thought, Oxford UK: Blackwell Publishing, 2005.

McNeal, R. A., „On Editing Herodotus“, L‘Antiquité Classique, 52/1983, bls. 110-129. Medieval Manuscripts in Oxford Libraries, „Herodotus“, Medieval Manuscripts in Oxford

Libraries sótt 20. maí 2019 af http://litpap.info/dclp/60025. Einnig af https://medieval.bodleian.ox.ac.uk/?utf8=%E2%9C%93&q=herodotus.

Medieval Manuscripts in Oxford Libraries, „Thucydides“, Medieval Manuscripts In Oxford Libraries, sótt 20. maí 2019 af https://medieval.bodleian.ox.ac.uk/catalog/person_95161463.

Meinwald, Constance C., „Plato: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 9. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Plato.

Meyers , Carol, Exodus, Cambridge, New York: Cambridge University Press, 2005. Millard , Alan, „Reading and Writing In the Time of Jesus: There was much more writing in

Palestine during the Gospel period than has been commonly allowed“, The Bible and Interpretation, 2000, sótt 20. mars 2018 af http://www.bibleinterp.com/articles/2000/Millard_Jesus.shtml.

Millard, Alan, „Literacy in the Time of Jesus: Could His Words Have Been Recorded in His Lifetime?“, Biblical Archaeology Society: Online Archive 29:4/2003, sótt 10. júlí 2019 af https://web.archive.org/web/20070824082814/http://www.basarchive.org/sample/bswbBrowse.asp?PubID=BSBA&Volume=29&Issue=4&ArticleID=4.

Millard, Alan R., „Where Was Abraham’s Ur? The Case for the Babylonian City“, Exploring Genesis;The Bible’s Ancient Traditions in Context, ritsj. Robin Ngo, Megan Sauter, Noah Wiener and Glenn J. Corbett, Washington, DC: Biblical Archaeology Society, 2013, bls. 48-51. Vefbók sótt 24. júlí 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/get-ebook/thank-you/?freemium_id=26057.

Page 157: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

156

Millard , Alan, „ Writing and Literacy in the World of Ancient Israel“, Biblical Arhaeology Society: Bringing the Ancient World to Life: Bible History Daily, 14. júní 2012, sótt 20. mars 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/reviews/writing-and-literacy-in-the-world-of-ancient-israel/.

Miller, Ed. L. & Grenz, Stanley J. Fortress Introduction to Contemporary Theologies. Minneapolis: Fortress Press, 1998.

Morgunblaðið, „Á meðal óþekkts þjóðflokks í Afríku“, Morgunblaðið, 8. nóvember 1998, sótt 7. júlí 2019 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/430115/.

Morgunblaðið, „Umskurður kvenna – okkur kemur hann við“, Morgunblaðið, 17. september 2004, sótt 31. ágúst 2019 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/818905/.

Munn-Rankin, J.M., „Darius I“, Encyclopædia Britannica, 10. janúar 2017, sótt 3. júní 2019 af https://www.britannica.com/biography/Darius-I.

Mykytiuk, Lawrence, „Did Jesus Exist? Searching for Evidence Beyond the Bible“, Biblical

Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life: Bible History Daily, 05.

nóvember 2017, Sótt 20. Mars 2018 af

https://www.biblicalarchaeology.org/daily/people-cultures-in-the-bible/jesus-

historical-jesus/did-jesus-exist/.

Mykytiuk, Lawrence, „New Testament Political Figures: The Evidence“, Biblical Archaeology

Society: Bringing the Ancient World to Life: Bible History Daily, sótt 7. janúar 2019 af

https://www.biblicalarchaeology.org/daily/people-cultures-in-the-bible/people-in-the-

bible/new-testament-political-figures-the-

evidence/?fbclid=IwAR1W5AnHYMnzoA0w7GXrz1_mJf377PaN0xP6zRKk1dZnNt7u4iKS

9_6Kmq4.

Mykytiuk, Lawrence, „53 People in the Bible Confirmed Archaeologically“, Biblical Archaeology Society: Bible History Daily, 12. apríl 2017, sótt 24. maí 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/people-cultures-in-the-bible/people-in-the-bible/50-people-in-the-bible-confirmed-archaeologically/.

New World Encyclopedia, „First Epistle of Peter“, New World Encyclopedia, nóvember 2017, sótt 28. maí 2019 af https://www.newworldencyclopedia.org/entry/First_Epistle_of_Peter.

New World Encyclopedia editors, „Demiurge“, New World Encyclopedia, sótt 12. ágúst 2019 af https://www.newworldencyclopedia.org/entry/Demiurge.

New world Encyclopedia editors, „Rigveda“, New world Encyclopedia, 13. júlí 2015, sótt 3. maí 2019 af http://www.newworldencyclopedia.org/entry/Rigveda#Manuscripts.

Nigosian, S.A., World Religions: A Historical Approach, Boston og New York: Bedford/St. Martin‘s, 2000.

Oesterley, W. O. E. and Robinson, Theodore H., Hebrew Religion: Its Origin and Development,

London: Society for Promoting Christian Knowledge, 1930.

Oswalt, John N., The Book of Isaiah: Chapters 40-66, Cambridge, U.K.: Grand Rapids, Michigan,

1998.

Pamphilius, Eusebius, „Church History, Life of Constantine, Oration in Praise of Constantine: Chapter XXV“, Christian Classics Ethereal Library, sótt 6. mars 2019 af https://www.ccel.org/ccel/schaff/npnf201.iii.vii.xxvi.html.

Pamphilius, Eusebius, Eusebius‘ Ecclesiastical History; Complete and Unabridged, Þýð. C.F. Cruse, Massachusetts: Hendrickson publishers, Inc., 1998.

Pamphilius, Eusebius, Eusebius: The History of the Church from Christ to Constantine, ritstj.

Page 158: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

157

Andrew Louth, þýð. G.A.Williamson, London: Penguin Books, 1989. Parrot, Andrew, „Abraham: Hebrew Patriarch“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. maí 2019 af

https://www.britannica.com/biography/Abraham.

Pagels, Elaine, The Gnostic Gospels, New York: Vintage Books; A Division of Random House,

Inc., 1989.

Pelikan, Jaroslav, The Illustrated Jesus through the Centuries, London: Yale University Press, 1997.

Poole, Gary William, „Flavius Josephus: Jewish Priest, Scholar, and Historian“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. júlí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Flavius-Josephus.

Riley, Gregory J., One Jesus, Many Christs, Minneapolis: Fortress Press, 2000.

Safrai, Shmuel, „The Place of Women in First-century Synagogues: They were much more

active in religious life than they are today“, Priscilla Papers: The academic journal of

CBE International, 31. janúar 2002, sótt 4. júní 2018 af

https://www.cbeinternational.org/resources/article/priscilla-papers/place-women-

first-century-synagogues

Sagrusten , Hans Johan, Stóra Púsluspilið: Leitin að elstu handritum Biblíunnar, Laugavegi 31 Reykjavík: Skálholtsútgáfan – útgáfufélag Þjóðkirkjunnar, 2015.

Sanders, E. P., „St. Paul, the Apostle“, Encyclopædia Britannica, 27. mars 2018, sótt 23. apríl 2018 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Paul-the-Apostle.

Saunders, Jason Lewis, „Stoicism“, Encyclopædia Britannica, sótt 2. júlí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Stoicism#ref560327.

Sauter, Megan, „Who Were the Ammonites, Moabites and Edomites in the Bible?“, Biblical Archaeology Society: Bible History Daily, 2. maí 2019, sótt 24. maí 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/ancient-cultures/ancient-near-eastern-world/ammonites-moabites-edomites-in-the-bible/.

Schaff, Philip (1819-1893), „ANF01. The Apostolic Fathers with Justin Martyr and Irenaeus“, Christian Classics Ethereal Library, sótt 23. apríl 2018 af http://www.documentacatholicaomnia.eu/03d/1819-1893,_Schaff._Philip,_1_ Vol_01_The_Apostolic_Fathers,_EN.pdf.

Shanks,, Hershel, „Abraham’s Ur: Is the Pope Going to the Wrong Place?“, Exploring Genesis;The Bible’s Ancient Traditions in Context, ritsj. Robin Ngo, Megan Sauter, Noah Wiener and Glenn J. Corbett, Washington, DC: Biblical Archaeology Society, 2013, bls. 43-47. Vefbók sótt 24. júlí 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/get-ebook/thank-you/?freemium_id=26057.

Hershel Shanks, The Dead Sea Scrolls: Discovery and Meaning: An Illustrated Lecture by Hershel Shanks, Washington DC: Biblical Archaeology Society, 2007. Vefbók sótt 28. júní 2019 af https://www.biblicalarchaeology.org/free-ebooks/the-dead-sea-scrolls-discovery-and-meaning/.

Shanks, Hershel, „When Did Ancient Israel Begin?“, Ancient Israel in Egypt and the Exodus, ritstj. Margaret Warker, Wasington, DC: Biblical Archaeology Society, 2012, bls. 31-37.

Sigurjón Árni Eyjólfsson, „Samrýmist afstaða Lúhters til hjónaskilnaða afstöðu Jesú?“, Vísindavefurinn, sótt 30. ágúst 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3498.

Skarsaune, Oskar, In the Shadow of the Temple: Jewish Influences on Early Christianity, Oskar Scarsaune, Downers Grove. illinois: InterVarsity Press, 2002.

Smith, Ben C., „Qumran scroll 4Q521: Also known as the Messianic apocalypse“, TextExavation 2019, sótt 16. ágúst 2019 af http://www.textexcavation.com/qumran4q521.html.

Page 159: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

158

Stark, Rodney, The Rise of Christianity: How the Obscure, Marginal Jesus Movement Became the Religious Force in the Western World in a Few Centuries, New York: Harper Collins, 1996.

Stout, Stephen O., „Did Irenaeus use a New Testament Canon?“, Academia, Sótt 12. janúar 2019 af https://www.academia.edu/14270220/DID_IRENAEUS_USE_A_NEW_ TESTAMENT_CANON.

Syme, Sir Roland, Tacitus: VolumeI-II, Oxford: Clarendon Press, 1958. Swete‘s Septuagint, „Leviticus 19“, Bible Hub, sótt 31. maí 2019 af

https://biblehub.com/sepd/leviticus/19.htm. Tacitus, Gaius Cornelius, The Annals: The Reigns of Tiberius, Claudius, and Nero, ritstj. A. A.

Barrett/Þýð. J.C.Yardley, Oxford: University Press, 2008. Tannehill, Robert C., Luke, USA: Abington Press, 1996.

Taylor, Justin, „An Interview with Daniel B. Wallace on the New Testament Manuscripts“, TGC: The Gospel Coalition, 22. mars 2012, sótt 4. júní 2019 af https://www.thegospelcoalition.org/blogs/justin-taylor/an-interview-with-daniel-b-wallace-on-the-new-testament-manuscripts/.

Taylor Jr., Walter F., Paul, Apostle to the Nations: An Introduction, Minneapolis: Fortress Press, 2012.

The Center for the Study of New Testament Manuscripts, „Manuscript Search“, The Center for the Study of New Testament Manuscripts, sótt 7. febrúar 2019 af http://csntm.org/Manuscript.

The Editors of Britannica, „Apostolic Constitutions: Ecclesiastical Law“, Encyclopædia Britannica, sótt 26. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Apostolic-Constitutions.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Arsacid dynasty: Ancient Iranian Dynasty”, Encyclopædia Britannica, sótt 20. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Arsacid-dynasty.

The Editors of Encyclopaedia, „Didache: Christian Theological Literature“, Encyclopædia Britannica, sótt 25. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Didache.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Epictetus: Greek Philosopher“, Encyclopædia Britannica, sótt 10. júlí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Epictetus-Greek-philosopher.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Gaius: Roman Jurist“, Encyclopædia Britannica, sótt 8. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Gaius.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Georgian Orthodox Church: Christianity“, Encyclopædia Britannica, sótt 11. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Georgian-Orthodox-church#ref195870.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Konstantin von Tischendorf: German Scholar“, Encyclopædia Britannica, sótt 8. maí 2019 af https://www.britannica.com/biography/Konstantin-von-Tischendorf.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Leviticus: Old Testament“, Encyclopædia Britannica, sótt 5. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/topic/Leviticus.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Masada: Ancient Fortress, Israel“, Encyclopædia Britannica, sótt 4. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/place/Masada.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Rigveda: Hindu Literature“, Encyclopædia Britannica, 21. júlí 2017, sótt 3. júní 2019 af https://www.britannica.com/topic/Rigveda.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Saint Hegesippus: Greek Historian“, Encyclopædia

Page 160: Hverju breytti Jesús Kristur? breytti Jesús Kristur - Bryndís...4 Israel Finkelstein and Neil Asher Silberman, The ible Unearthed: Archaeology‘s New Vision of Ancient Israel and

159

Britannica, sótt 24. apríl 2018 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Hegesippus.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Saint Dionysius of Alexandria: Christian Theologian“, Encyclopædia Britannica, sótt 6. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Saint-Dionysius-of-Alexandria.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Sasanian dynasty: Iranian Dynasty“, Encyclopædia Britannica, sótt 20. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/Sasanian-dynasty.

The Editors of Encyclopaedia Britannica, „Valentinian I: Roman Emperor“, Encyclopædia Britannica, sótt 9. ágúst af https://www.britannica.com/biography/Valentinian-I.

The Israel Antiquities Authority, „The Qumran Caves Scrolls“, The Leon Levy Dead Sea Scrolls Digital Library, sótt 13. mars 2019 af https://www.deadseascrolls.org.il/learn-about-the-scrolls/introduction?locale=en_US.

The Israel Antiquities Authority, „Explore the Archive“, The Leon Levy Dead Sea Scrolls Digital Library, sótt 13. mars 2019 af https://www.deadseascrolls.org.il/explore-the-archive.

Thorsteinsson, Rúnar M., Roman Christianity and Roman Stoicism: A Comparative Study of Ancient Morality, New York: Oxford University Press, 2010, bls. 156-175.

Vann, Richard T., „Historiography: Greek Historiography: Thucydides“, Encyclopædia Britannica, sótt 9. maí 2019 af https://www.britannica.com/topic/historiography#ref284310.

Violatti, Christian, „Zarathustra: Definition“, Ancient History Encyclopedia, 23 maí 2014, sótt 10. maí 2019 af https://www.ancient.eu/zoroaster/.

Walbank, Frank W., „Plutarch: Greek biographer“, Encyclopædia Britannica, sótt 18. ágúst 2019 af https://www.britannica.com/biography/Plutarch.

White, Ellen, „Tischendorf on Trial for Removing Codex Sinaiticus, the Oldest New Testament: Is Constantine Tischendorf a hero or thief?“ Bible History Daily: Biblical Archaeology Society: Bringing the Ancient World to Life, 26. nóvember 2018, Sótt 03. desember 2018 af https://www.biblicalarchaeology.org/daily/biblical-topics/bible-versions-and-translations/tischendorf-codex-sinaiticus-oldest-new-testament/.